Bloggfærslur mánaðarins, október 2010
13.10.2010 | 13:55
Forréttindaþjóðin og hin
Í landinu búa tvær þjóðir; önnur nýtur forréttinda en hin ekki. Stærsti grunnurinn að þessu skipulagi var lagður á ríkisstjórnartímabili Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddsonar frá 1995 þar til báðir hrökkluðust frá völdum 2005 og 2006. Á þessu mesta frjálshyggjutímabili Íslandssögunnar jókst ójöfnuður svo hröðum skrefum að annað eins hefur varla sést á byggðu bóli.
Afleiðingar þessa frjálshyggjutímabils birtast okkur nú í formi blóði drifinna hrunfjárlaga. Fjármálaráðherra hefur kallað þessi fjárlög hin eiginlegu hrunfjárlög, þar sem hrunið leggst með fullum þunga yfir okkur. Þetta er sennilega ekki ofmælt.
Í sveitarfélaginu Hornafirði birtist niðurskurðurinn helst í rekstri Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands, HSSA. Þar er gert ráð fyrir niðurskurði upp á 56 milljónir eða 15%. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir litla stofnun sem áætlað er að fái rúmar 400 milljónir í framlög á yfirstandandi ári. Svigrúm til hagræðingar er því mjög takmarkað og því líklegt ef þessar áætlanir ná fram að ganga að grunnþjónustan skerðist.
Önnur birtingarmynd hrunsins eru skuldamál heimilanna. Þessa dagana er mikið fundað í stjórnarráðinu um mögulegar lausnir á þeim vandamálum með fulltrúum Hagsmunasamtaka heimilanna og fulltrúum stjórnarandstöðunnar. Sú mikla reiði, sem kraumaði í mótmælunum á Austurvell við þingsetningu í síðustu viku hjá þeim mikla fjölda sem mætti þangað, hefur greinilega hreyft við ríkisstjórn og Alþingi.
Ástæða reiðinnar er ekki síst sú að fólk telur að ekki hafi tekist að vinda ofan af skipulaginu, sem Halldór og Davíð lögðu grunn að tveggja þjóða skipulaginu nema síður. Vonir stóðu til þess að fyrsta tveggja flokka vinstri stjórn lýðveldistímans myndi vinda hratt og örugglega ofan af þessu skipulagi en þær vonir hafa ekki alveg gengið eftir.
Vonbrigðin leysast ekki síst í því að allt frá hruni hafa okkur reglulega borist fréttir af afskriftum skulda auðmanna hjá bönkunum, jafnvel þeirra sem talið er að eigi stóra sök á því að staða þjóðarbúsins er jafn slæm og raun ber vitni.
Það hjálpar ekki málstað umræddra auðmanna þegar fram kemur að stuttu áður en til afskrifta kom hafi þeir greitt sér himinhá laun eða arðgreiðslur sem eru ekki í nokkrum takti við raunveruleika almennings - venjulegs launafólks. Fólk spyr sig þá réttilega um forgangsröðun bankanna og siðferði auðmannanna sjálfra, þ.e. hvernig þeir geti tekið við himinháum afskriftum í ljósi þess að þeir eru nýbúnir að greiða sjálfum sér himinháar launa eða arðgreiðslur.
Kannski á þetta sér allt málefnalegar ástæður en það er þá auðmannanna sjálfra og bankanna að útskýra fyrir almennningi, sem skilur hvorki upp né niður í þessu, af hverju það er nauðsynlegt fyrir þá að láta annað fólk borga skuldirnar, sem þeir stofnuðu til sjálfir.
Tilfinning almennings rót reiðinnar er því sú að þeir, sem fengu gjafir frá stjórnvöldum fyrir ára á borð við kvóta, ríkisfyrirtæki, tryggingafélög og viðskiptabanka tilheyri ennþá forréttindastéttinni. Til að bíta höfuðið af skömminni er okkur svo ætlað að borga skuldirnar þeirra líka. Einhverjum kann að finnast þetta sanngjarnt fyrirkomulag - kannski þeim sem fá gjafirnar og afskriftirnar reglulega - en ég deili ekki þeirri skoðun.
Í samhengi við blóðugan niðurskurð á grunnþjónustu velferðarkerfisins og þar er niðurskurður á Heilbrigðisstofnun Suðausturlands engin undantekning eru afskriftir á skuldum auðmanna hálf óraunverulegar ekki síst ef launa- og arðgreiðsluvilji eða getan hefur verið mikill skömmu áður en að afskriftunum kom.
12.10.2010 | 14:42
Mikið að gera hjá bæjarstjórn
Á bæjarstjórnarfundi í gær upplýstu fulltrúar meirihluta bæjarstjórnar að óvenju mikið væri að gera hjá kjörnum fulltrúum og starfsmönnum sveitarfélagsins þessi dægrin. Ég get ekki sagt að það hafi komið mér á óvart. Hins vegar var nýstárlegt að annir væru notuð sem rök gegn því að setja mál, sem allir virtust efnislega sammála um á fundinum, í farveg.
Ég hef núna setið í bæjarstjórn Hornafjarðar í tæp fimm ár. Allan þann tíma hafa kjörnir fulltrúar og starfsmenn sveitarfélagsins verið störfum hlaðnir og af þeim sökum - miðað við röksemdafærslu gærdagsins - hef ég miklar áhyggjur af því hvenær hægt verður að fara í þessa vinnu.
Upplýst var um annir og tímaskort bæjarfulltrúa og starfsmanna í umræðum um tillögu sem bæjarfulltrúar minnihlutans lögðu fram þess efnis að fela að skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd að hefja strax vinnu við endurskoðun á rekstrarumhverfi leikskólanna á Hornafirði. Í tillögunni er kveðið á um að sérstaklega skuli kannaðir kostir þess að sameina rekstur leikskólanna undir einni yfirstjórn, þ.e. að sameina þá með svipuðum hætti og gert var með grunnskólana á síðasta kjörtímabili.
Í verkefnalista meirihluta bæjarstjórnar er kveðið á um að farið skuli í slíka vinnu á kjörtímabilinu. Þess vegna vekur það nokkra furðu að hann skuli ekki vera tilbúinn að hefja ferlið eins fljótt og auðið er svo hægt verði að hefja skólastarf næsta haust í samræmi við niðurstöður vinnunnar. Ekki er gott að bíða með áform eins og þessi - sérstaklega þegar þau liggja í loftinu og eru óumflýjanleg - vegna þeirrar óvissu sem það skapar fyrir stjórnendur, starfsfólk, nemendur og forráðamenn þeirra.
Rétt er að geta þess að í tillögunni var gert ráð fyrir því að skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd myndi skila niðurstöðum sínum til bæjarstjórnar í mars á næsta ári. Fresturinn er því nokkuð rúmur. Og því hlýtur maður að spyrja sig hversu langan tíma meirihluti bæjarstjórnar ætlar sér í verkefnið - nokkur ár?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006