Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Guð minn almáttugur ...

eru orð helgarinnar. Þau átti Egill Helgason þegar hann gat ekki orða bundist yfir vitleysunni í Magnúsi Þór Hafsteinssyni í Silfrinu í gær. Ég get tekið heils hugar undir upphrópun Egils.

Orðin lét Egill falla þegar Magnús tjáði honum að hafin væri undirskriftarsöfnun gegn því að 30 einstæðar mæður frá Palestínu, sem eru flóttamenn, fái að koma til Íslands og setjast að á Akranesi. Viðbrögð mín við þessum upplýsingum Magnúsar voru nákvæmlega þau sömu og Egils.

Það er lágkúrulegt af Magnúsi að nýta sér eymd þessara kvenna og barna þeirra, sem hægt er að bjóða upp á betra líf á Íslandi, í pólitískum hráskinnaleik.  Svona mál eiga menn ekki að nýta sér til þess að slá pólitískar keilur.

Það er okkar skylda sem íbúar í velmegandi landi að taka við flóttamönnum sem búa ekki við sömu gæfu og lífsskílyrði og við. Við erum ein ríkasta þjóð í heimi og höfum það gott í öllum meginatriðum. Við getum ekki leyft okkur að hundsa umheiminn og loka augunum fyrir þeirri eymd og fátækt sem viðgengst í heiminum. Það er skylda okkar að leggja okkar að mörkum og það gerum við með því að taka á móti þessum einstæðu mæðrum og börnum þeirra og gefa þeim tækifæri til þess að lifa betra lífi á Íslandi.


Ungmennaþing

Í dag hélt Ungmennaráð Hornafjarðar ungmennaþing í Nýeimum. Þingið hélt ungmennráðið í samstarfi við Æskuýðs - og tómstundaráð Hornafjarðar. Þingið var mjög vel heppnað og ég hef þá skoðun að þing eins og þetta eigi helst að verða fastur liður í framtíðinni. Þannig myndi vægi þess aukast. Það er því óhætt að fagna frumkvæði ungmennaráðsins í þessu máli.

Mjög góð erindi voru flutt og að loknum erindum fóru fram mjög málefnalegar umræður. Helst var rætt um svokallað ungmennahús. Rætt var um þörfina á slíku húsi og hvar slík hús hafa verið tekin í notktun og hvernig það hefði gengið á þeim stöðum þar sem ungmennahúsin hafa verið starfrækt. Að mínu mati er mjög mikilvægt að undirbúa verkefni eins og þetta eins vel og kostur er. Það kom fram í máli mjög margra að e.t.v. væri skynsamlegra að byrja smátt í þessum efnum og reyna svo að byggja ofan á það. Það kom líka mjög skýrt fram í máli unga fólksins að mikilvægt er að huga að tómstundum fyrir það yfir sumartímann.

Þingið sýndi fram á það að þau eru gagnleg og sú skoðun, að gera eigi ungmennaþingið að föstum samstarfs - og samráðsvettvangi, kom mjög skýrt fram í umræðunum. Þinginu kemur til með að vaxa fiskur um hrygg ef það verður gert að föstum viðburði á viðburðadagatali sveitarfélagsins.

Í lokin kom svo fram að það verður verkefni ungmennaráðs að vinna úr þeim upplýsingum og áherslum sem fram komu á þinginu á næstu vikum og mánuðum. Það er verðugt verkefni.


Efnahagshorfur vænkast

Ljóst er að Evrusamningar Seðlabankans við norrænu seðlabankana hafa haft jákvæð áhrif á þróun efnahagsmálannna í dag. Krónan styrktist og bensínið lækkaði. Davíð var svo ánægður með atburði dagsins að hann dreif sig í viðtal á Stöð Tvö í dag og mun það hafa komið mörgum í opna skjöldu ef marka má fréttaflutninginn á Eyjunni í dag.

Það var orðið löngu tímabært að fá jákvæðar fréttir úr heimi efnahagsmálanna. Staðan þar hefur verið mjög viðkvæm og erfið síðustu vikur og mánuði. Þannig að það var alveg komin tími á það fá jákvæðar fréttir af þessum vígstöðvum enda fólk almennt orðið uggandi um hag sinn sem eðlilegt er.

Atburðir dagsins í dag eru jákvæðir út frá stöðu peninga - og efnahagsmála eins og hún blasir við í dag. Hinu megum við þó ekki gleyma að alþjóðlega lánsfjárkreppan, sem er undirrót þeirra efnahagsþrenginga, sem við nú göngum í gegnum, hafði miklu meiri áhrif hér á landi en annars staðar vegna peningamálakerfisins sem við búum við. Krónan hríðféll, verðbólgan fór af stað og þetta hafði gríðarleg áhrif á allan hag almennings. Af þessum sökum er mikilvægt að við gleymum ekki því verkefni okkar að horfa til framtíðar í þessum málum. Við verðum að skoða hvernig koma megi í veg fyrir það í framtíðinni að svona öfgafullar sveiflur eigi sér stað í efnahagslífinu. Við verðum að finna leiðir til þess að auka stöðugleikann.

Í þeim efnum er nærtækast að við förum að skoða kosti og galla Evrópusambandsaðildar og upptöku Evru í framhaldi af því af fullri alvöru.


Menntamálaráðherra og ESB

Að einhverju leyti má segja að tekist hafi að snúa Íhaldinu til ESB ef marka má þau skynsamlegu orð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins þess efnis að hún teldi að hefja ætti umræður um Evrópusambandsaðild af fullum krafti. Þannig væri að hægt að leggja aðildina í dóm kjósenda á næsta kjörtímabili. Hún er þar með að segja að við ætlum að hefja undirbúning að aðildarviðræðunum, fara yfir kosti og galla á aðild að Evrópusambandinu og leggja málið síðan í dóm almennings í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta eru sannarlega orð í tíma töluð innan úr innsta valdakjarna Sjálfstæðisflokksins. Þorgerður Katrín er að reyna að vekja menn þar innanborðs til vitundar um að flokkurinn geti ekki forðast þessa umræðu öllu lengur þó skiptar skoðanir kunni að vera um ESB innan Sjálfstæðisflokksins. Eftir að búið er að fara í gegnum upplýsta og málefnalega umræðu um kosti og galla aðildarinnar þá treystir hún þjóðinni til þess að taka endanlega ákvörðun um aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Undir þessi sjónarmið er óhætt að taka.

En Samfylkingin hefur auðvitað talað fyrir þessari leið í fjölda ára þannig að hér er ekki um nein sérstök tímamót að ræða í íslenskri pólitík. Hins vegar er það ánægjuefni að varaformaður Íhaldsins hefur tekið það upp á sína arma að reyna að leiða flokkinn sinn út úr ógöngum hans í Evrópumálunum.

Það er hins vegar full seint í rassinn gripið að segja að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að taka forystu í umræðum um ESB. Íhaldið hefur of lengi forðast þessa umræðu til þess að unnt sé að taka þessi orð mjög hátíðlega.  Engu að síður er hægt að gleðjast yfir þeirri afstöðubreytingu sem virðist vera að eiga sér stað innan Sjálfstæðisflokksins hvað varðar aðildarviðræðurnar sjálfar og það eru akveðin tímamót.


Eftirlaunaósóminn

Það er dásamlegt að fylgjast með tilburðum andstæðinga Samfylkingarinnar reyna að gera hana að blóraböggli vegna eftirlaunaósómans sem samþykktur var í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og Framóknarflokksins.

Þingflokkur Samfylkingarinnar, með einni undantekningu, samþykkti ekki þennan ósóma þar sem æðstu ráðamönnum þjóðarinnar voru skammtaðar ríflegar lífeyrisgreiðslur. Þarna var um að ræða sérhagsmunagæsla af verstu gerð. Sérstaklega eru tilburðir Framsóknarmanna til þess að gera hlut Samfylkingarinnar í þessu máli ótrúverðugan hjákátlegir þar sem þeir eru ásamt Sjálfstæðismönnum stærstu syndaselirnir í þessu máli öllu.

Það er verkefni Samfylkingarinnar að vinda ofan af þessari vitleysi fyrri ríkisstjórnar en til þess að það geti gengið eftir þurfa fleiri að koma að því máli. Í ríkisstjórnarsáttmálanum er skýrt kveðið á um það þetta baráttumál Samfylkingarinnar verði tekið til endurskoðunar og lífeyrisréttindi ráðamanna þjóðarinnar verði færð nær kjörum almennings.

Síðast þegar ég vissi þá er kjörtímabilið fjögur ár og mér er það til efs að nokkurn tíma hafi menn verið farnir að tala um svikin loforð nokkurs stjórnmálaflokks jafn snemma á kjörtímabili og núna er gert. Herferð Stöðvar Tvö gegn Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur á síðustu vikum er með hreinum ólíkindum og langt síðan maður hefur orðið vitni að öðru eins. Hægt væri að skilja þessa umfjöllun stöðvarinnar ef eitt ár væri til kosninga en ekki núna þegar ekki er liðið eitt ár af yfirstandandi kjörtímabili.

Miðað við áhuga fréttastofunnar á málinu ætti hún að hefja rannsókn á því hvernig þessi ákvörðun var tilkomin, hverjir stóðu að henni og hverji voru á móti henni. Það væri upplýsandi upprifjun fyrir almenning á þessum tímapunkti. Heimatök fréttastjórans á fréttastofu Stöðvar Tvö til þess að fara vel ofan í saumana á þessu máli ættu að vera tiltölulega hæg.

 


Velferð fyrir alla

Á laugardaginn fór ég á góðan og tímabæran fund Samfylkingarinar um heilbrigðismál. Fundurinn bar yfirskriftina velferð fyrir alla.

Skemmst er frá því að segja að fundurinn var í alla staði mjög vel heppnaður og skilaboð fundarins voru skýr. Engin einkavæðing á heilbrigðiskerfinu stendur fyrir dyrum eins og stjórnarandstaðan hefur verið að gefa í skyn. Slíkt mun aldrei eiga sér stað á meðan Samfylkingin stendur vaktina í ríkisstjórn. Skýrt var kveðið á um það að við erum ekki að fara út í neinar grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu. Ekki verður hægt að kaupa sig fram aðra í röð fyrir þjónustu innan heilbrigðisgeirans. Á meðan Samfylkingin situr í ríkissjtórn ætla menn að verja þá grunnhugsun jafnaðarstefnunnar, þ.e. sama þjónusta fyrir alla óháð efnahag.

Hins vegar voru allir sammála um það að ef þessar forsendur sem nefndar eru hér að ofan eru tryggðar þá séu menn tilbúnir að skoða þau rekstrarform sem eiga að veita heilbrigðisþjónustuna. Ef einkarekstur á við á sumum sviðum þá eru menn tilbúnir að skoða það ef þjónustan verður fyrir alla óháð efnahag.

Þetta snýst einfaldlega um að veita sem besta þjónustu fyrir alla landsmenn á sem hagkvæmastan hátt.


Farsinn í Reykjavík

Farsinn í Reykjavík hefur leitt til þess að ég er farinn að hugleiða hvort ekki sé nauðsynlegt að löggjafinn fari að kanna kosti þess að breyta lögum um kosningar til sveitarstjórna þannig að hægt sé að láta fara fram aukakosningar. Frammistaða Ólafs F. Magnússonar, borgarstjóra síðastliðna daga hefur orðið þess valdandi að ég hef verið mjög hugsi yfir stöðunni. Borgin er í raun stjórnlaus. Það þyrfti kannski bráðabirgðalög til þess að heimila kosningar borginni nú þegar.

Það versta í þessu öllu er það að eftir tæpt ár hættir Ólafur og við vitum ekki enn hver tekur við af honum þá. Kannsi verður það gamli góði Villi sem endurheimtir hásæti sitt. En það er átakanlegt til þess að vita að Sjálfstæðismenn, sem eiga að heita kjölfestan í þessu meirihlutasamstarfi, eru svo plagaðir af innanflokksátökum að þeir geta ekki komið sér saman um hver eigi að taka við þegar Ólafur hættir.

Þessum borgarsirkus verður að linna. Það er ömurlegt að horfa upp á borgina í þessari sjálfheldu og niðurlæging hennar er algjör. Sirkus er finn í hófi og það má skemmta sér yfir honum stöku sinnum en ef menn gera sirkusinn að venju eða reglu í sínum störfum þá endar það með því að almenningur fær nóg af slíkri skemmtan, eins og annarri að lokum. Þetta er hætt að vera fyndið.


Samráðsfundur með 60+

Rétt í þessu var ég að koma af samráðsfundi Heilbrigðis - og öldrunarráðs með Hornfirðingum 60+ í Ekrunni. Skemmst er frá því að segja að fundurinn var einkar ánægjulegur og gagnlegur. Fram kom á fundinum að fólk er í öllum meginatriðum mjög ánægt með þá þjónustu sem veitt er af okkar góða starfsfólki á Heilbrigðisstofnun Suðausturlands. Fólk var mjög ánægt með heimilishjálpina og heimhjúkrunina sem veitt er af starfsmönnum stofnunarinnar.

Þær ábendingar, sem fram komu um það sem betur mætti fara, lutu fyrst og fremst að því að nauðsynlegt væri að auka og efla upplýsingaflæði frá Heilbrigðis - og öldrunarráði og bæjarfélaginu um þá þjónustu sem er í boði fyrir eldri borgara. Einnig kom fram að mikilvægt væri að bæta samráð og samstarf á milli eldri borgara og Heilbrigðis - og öldrunarráðs. Mikilvægt er að koma þeim málum í fastari og betri farveg. Þetta er eitthvað sem Heilbrigðis - og öldrunarráð mun skoða á næstu dögum og vikum í samráði við Félag eldri Hornfirðinga.

En fundurinn var sérstaklega ánægjulegur og það var sérstkaklega gaman að sjá hversu vel var mætt. Fundurinn færði mér sönnur á hversu mikilvægt er að fara reglulega út fyrir innsta hring stjórnmálanna til þess að fá beint í æð flottar hugmyndir sem geta orðið til þess að bæta sveitarfélagið og þjónustu þess.


Gott innlegg í umræðuna um ESB

Ég held að flestir geti tekið undir það að leiðari Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu í dag sé gagnlegt innlegg í umræðuna um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Þar segir m.a.

Tímabundinn vandi efnahagslífsins snýst um alþjóðlega lánakreppu. Langtíma vandinn í þjóðarbúskapunum felst hins vegar í því að íslenska krónan er ekki samkeppnishæf. Þetta eru aðskilin viðfangsefni.

En tímabundni vandinn má ekki verða til þess að slegið verði á frest að leggja línur um það hvernig langtíma úrlausnarefninu verður mætt.

Ég held að þarna hafi ritstjóranum tekist að ná utan um ákveðinn kjarna í málinu. Vandi efnahagslífsins í dag er tímabundinn og hann er m.a. tilkominn vegna alþjóðlegrar lánakreppu. En það sem er séríslenskt í þessu aðstæðum og greinir okkar vanda frá þeim þjóðum, sem við viljum bera okkur saman við, er sú staðreynd að við búum við gjaldmiðil sem ekki er samkeppnishæfur.

Það þýðir ekki að fresta þeirri umræðu. Áður en efnahagslægðin skall yfir okkur þá töldum menn litla ástæðu til þess að ræða þessi mál vegna þess að staðan var svo góð og góðærið svo mikið. Nú þegar tímabundnir efnahagserfiðleikar ganga yfir segja sömu úrtöluraddirnar að ekki megi tala um Evruna í ljósi þessara efnahagserfiðleika, ekki gangi að ræða málin á þeim forsendum.

En hvenær ætla menn þá að taka þessa umræðu fyrir alvöru? Hvenær er rétti tíminn?


Lýst er eftir frjálshyggjunni

Ég held að það sé orðið tímabært að lýsa eftir þeim frjálshyggju - og einkavæðingarpostulum sem hæst hafa látið á undanförnum árum. Mér finnst full ástæða til þess að kalla þessa aðila fram á sjónarsviðið vegna þess að ef frjálshyggjuna hefur einhvern tímann vantað öfluga talsmenn þá er það núna. En þegar það gerist, er eins talsmennirnir hafi horfið.

Ekki bólar mikið á umræðum um hina dauðu hönd ríksvaldsins og hina ósýnilegu hönd markaðarins sem öllu átti að bjarga. Það er kannski, eins og einhver sagði, ástæða fyrir því að höndin er ósýnileg og hún er sú að hún er ekki til.

Það er fyrir löngu ljóst að markaðurinn ræður ekki við sig sjálfur. Það verður að setja honum skýrar leikreglur og e.t.v. má segja að það sé nauðsynlegt að búa til regluverk í kringum hann til þess að vernda almenning fyrir hinni ósýnilegu hönd.

Þetta er grundvallarsjónarmið í málflutningi jafnaðarmanna um allan heim. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, bendir réttilega á þessa staðreynd í grein sinni í Fréttablaðinu 1. maí síðastliðinn. Við eigum nefnilega ekki að búa til þjóðfélag sem þjónar markaðnum og markaðsöflunum heldur að búa til markað sem þjónar þjóðfélaginu. Markaðurinn og peningahyggjan eru þarfur þjónn en vondur herra.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband