Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008
5.5.2008 | 23:35
Samstarf á kjördæmisvísu
Á bæjarstjórnarfundi í dag flutti ég eftirfarandi langhund um samstarf sveitarfélaga:
Um nokkurt skeið verið umræða um það innan bæjarstjórnar hvort hagsmunum sveitarfélagsins sé betur borgið innan sambands sveitarfélaga á Suðurlandi en í Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi. Ég hef lýst minni skoðun á því héðan úr þessum ræðustóli. Þá sagði ég að það væri enginn vafi á því í mínum huga að til framtíðar litið þá væri pólitískum hagsmunum sveitarfélagsins betur borgið í landshlutasamtökum sveitarfélaga sem starfa á vettvangi þess kjördæmis sem við erum hluti af.
Eins og staðan er í dag þá erum við hluti af Suðurkjördæmi, sem var ákveðið með hliðsjón af því, að afgerandi meirihluti íbúa sveitarfélagsins taldi hag þess betur borgið í Suðurkjördæmi en í Norðausturkjördæmi. Ég tel einfaldlega að nú sé komið að þeim tímapunkti að sveitarstjórn fylgi íbúunum og stígi skrefið yfir í Suðurkjördæmi.
Til lengri tíma litið held ég að það gangi ekki upp fyrir okkur að vera tvískipt eins og við erum í dag. Þ.e. að vinna á kjördæmavísu innan suðurkjördæmis en á vettvangi sveitarstjórnarmálanna þá vinnum við með Austurlandi sem er að öllu leyti hluti af Norðausturkjördæmi. Nú vil ég ekki fyrir nokkurn mun gera lítið úr Sambandi Sveitarfélaga á Austurlandi sem við höfum átt mjög gott samstarf við undanfarin ár og áratugi. Samstarfið hefur verið gott og Hornfirðingar hafa verið frumkvöðlar innan SSA og nægir þar að nefna menningarmálin.
Og ég vil heldur ekki gera lítið úr áhyggjum manna sem hafa átt gott samstarf austur í hinum ýmsu verkefnum á öðrum sviðum. Við eigum þó alltaf eftir að tilheyra Austurlandi að hluta. En við eigum líka alltaf eftir að tilheyra Suðurlandi að hluta. Enda tölum við gjarnan um Suðausturland. Nægir þar að nefna Heilbrigðisstofnun Suðausturlands.
Að við tilheyrum áfram Austurlandi kemur ekki til með að breytast. Fyrir því eru landfræðilegar ástæður. Og þó sveitarfélagið telji það þjóna hagsmunum þess betur að starfa innan kjördæmisins, þá á það að mínu mati ekki að hafa áhrif á annað starf sem Hornfirðingar eru hluti af á jafningjagrunni á Austurlandi. Það eru þá verkefni sem sveitarfélagið sem slíkt á enga sérstaka aðkomu að. Ég sé ekki að þessi ákvörðun eigi að hafa áhrif á slík verkefni. T.d. held ég að Starfsgreinafélagið Afl, það öfluga verkalýðsfélag, sem starfar á Austurlandi komi til með að leggja upp laupana eða að Hornfirðingar hætti afskiptum af því. Ég sé það ekki fyrir mér.
Hér er fyrst og fremst verið að ræða um hinn pólitíska veruleika eins og hann blasir við okkur í dag. Og hann er sá að Sveitarfélagið Hornafjörður tilheyrir ekki lengur Austurlandskjördæmi í pólitísku tilliti heldur Suðurkjördæmi og það er okkar verkefni að leysa úr því.
Þegar ég leit yfir skipulag þessara mála á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga þá fæ ég ekki betur séð en að Sveitarfélagið Hornafjörður sé eina sveitarfélagið á landinu sem ekki starfar í landshlutasamtökum sveitarfélaga innan síns kjördæmis. Þetta getur að mínu mati ekki gengið til lengdar. Kjördæmaskipanin er komin til að vera og ég hef ekki heyrt neinn tala fyrir því að við ættum að skilja við Suðurkjördæmi og ganga inn í Norðausturkjördæmi. Þess vegna er þetta raunveruleiki sem við eigum að horfast í augu við og stíga skrefið til fulls og gera okkur meira gildandi innan okkar kjördæmis. Ef við höldum áfram á þessari braut þá hræðist ég að við verðum á endanum hornreka á báðum stöðum, þ.e. á Austurlandi þar sem við störfum ekki með þeim innan kjördæmisins og á Suðurlandi þar sem við störfum ekki með þeim á vettvangi sveitarstjórnarmálanna.
Það er okkur nauðsynlegt að tengjast sveitarstjórnum í kjördæminu og það er okkur ekki síður mikilvægt að tengjast okkar ágætu þingmönnum í Suðurkjördæmi sterkari böndum. Kjördæmin stækkuðu mjög mikið með síðustu kjördæmabreytingu og menn hafa því alls ekki jafn góð tækifæri til þess að koma sínum málum á framfæri eins og var fyrir kjördæmabreytinguna. Af þeim sökum þurfum við að nýta hvert tækifæri til þess að gera rödd okkar gildandi innan kjördæmisins og í mínum huga liggur það beint við að það getum við gert með því að hefja samstarf við sveitarfélög á Suðurlandi sem deila nú með okkur kjördæmi.
Það má heldur ekki gleyma því að landshlutasamtök sveitarfélaga eins og þau eru í dag voru í öllum meginatriðum miðuð við gömlu kjördæmaskipanina. Af einhverjum ástæðum ákváðu sveitarstjórnarmenn þess tíma að skipa málum með þeim hætti. Austurland var eitt kjördæmi og sveitarfélögin þar höfðu með sér samstarf. E.t.v. má hugsa sér að í framtíðinni komum við til með að feta okkur inn á þessar brautir aftur, þ.e. að landshlutasamtökin nái yfir hvert kjördæmi. Þá yrði til samband sveitarfélaga í Suðurkjördæmi. Nú má vel vera að þetta sé ekki gerlegt eða fýsilegt en ég held að eftir því sem sveitarfélögunum fækkar og þau styrkjast þá sé þetta eitthvað sem ætti að a.m.k. að taka til alvarlegrar skoðunar.
En mín sýn í þessum málum er skýr. Ég tel að pólitískum hagsmunum okkar til lengri tíma litið í samstarfi sveitarfélaga sé best borgið innan þess kjördæmis sem við erum hluti af í dag. Ég held að það geti ekki verið okkur til framdráttar að vera eina sveitarfélagið í Íslandi sem skipar málum með þeim hætti sem við gerum í dag. Það er komið að þeim tímapunkti að við stígum það skref sem íbúarnir tóku fyrir átta árum þegar þeir kváðu upp úr með það að hag okkar væri betur borgið innan Suðurkjördæmis en Norðausturkjördæmis með afgerandi hætti.
5.5.2008 | 12:04
Guðni gægist til Evrópu
Hann var merkilegur miðstjórnafundurinn hjá Framsóknarflokknum um helgina. Þar opnaði formaðurinn, Guðni Ágústsson svo sannarlega Evrópudyrnar hjá flokknum upp á gátt. Hann vill að þjóðin kjósi um það hvort aðildarviðræður eigi að hefjast. Þetta er ekki óskynsamleg nálgun og gæti verið leið til sátta.
En það er greinilegt að Guðni hefur ekki verið búinn að átta sig á kraftinum í Evrópuumræðunni innan sinna eigin raða. Varaformaðurinn, Valgerður Sverrisdóttir, hefur hingað til talað með allt öðrum hætti um Evrópusambandið en Guðni en hún telur að aðildarviðræður eigi að hefjast sem allra fyrst. Þar hefur hún gengið í takt við Jón Sigurðsson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins.
Ég fylgdist líka vel með umræðum Jóns Baldvins og Ragnars Arnalds í Silfrinu í gær. Mér fannst á Ragnari að það borgaði sig ekki að hefja aðildaviðræður vegna þess að við fengjum hvort eð er ekkert út úr viðræðunum. Hann hengdi sig líka á sjávarútvegsmálin. Ég tel að hann geri það til þess skapa óróa og ótta á meðal almennings í garð Evrópusambandsins. Það kæmi mér ekki á óvart að einhverjir hafi einmitt notað þessi rök til þess að berjast gegn EES samningnum á sínum tíma. En úr þessu fáum við aldrei skorið nema að leggja út í viðræðurnar. Þeir sem fylgja Heimssýnarmönnum að málum eins og Ragnar Arnalds virðast ekki hafa kjark eða kraft til þess að leggja út í slíkar viðræður. Þeir gefa sér fyrirfram að ESB sé vont fyrirbæri og vilji ekki semja um nokkurn skapaðan hlut við Íslendinga.
Hvað fullveldisrökin varðar þá fannst mér Jón Baldvin skjóta þau rök Ragnars á kaf með því að vísa til hinna nýfrjálsu Eystrasaltsþjóða. Þær vilja einmitt komast í ESB til þess að tryggja sitt sjálfstæði og fullveldi í bandalagi með öðrum þjóðum. Við göngum til viðræðna og göngum í ESB sem frjáls og fullvalda þjóð. Í Alþingiskosningum getur kjósendur alltaf kosið til valda flokka, sem vilja segja sig úr ESB, ef hann telur hag okkar betur borgið utan sambandsins. Ákvæði um úrsögn úr Evrópusambandinu tryggir að þetta sé mögulegt. Þannig að rökin um afsal fullveldisins halda engu vatni.
Þá eru ónefnd gjaldmiðilsmálin og peningamálastefnan sem komin að fótum fram. Sú staða nú er uppi og hefur verið fyrirsjáanleg um nokkurn tíma kallar einfaldlega á það að við skoðum þessi mál. Ég hef verið sammála því sem margir hafa haldið fram t.a.m. forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar að valið í þessum málum standi á milli þess að halda í krónuna eða taka upp Evru. En flestir hafa líka verið þeirrar skoðunar að upptaka Evrunnar verður ekki framkvæmd nema með inngöngu í ESB. Í mínum huga er ekki nokkur spurning að hagsmunum Íslands til framtíðar sé betur borgið með seinni kostinum.
En mikilvægast á þessum tímapunkti er að pólitísk samstaða myndist um að hefja aðildaviðræður og sjá hvert þær leiða okkur. Nýjasta útspil Guðna á flokksstjórnarfundinum sýnir okkur að slíkt er mögulegt. Þegar niðurstöður þeirra viðræðna liggja fyrir geta menn síðan haft á því allar skoðanir hvort við eigum samleið með ESB eða ekki og auðvitað verður inngangan í Evrópusambandið alltaf lögð fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.
4.5.2008 | 22:07
Að hanga í kjörfylgi
Það er merkilegt að hlusta á menn tala um erfiða stöðu Samfylkingarinnar um þessar mundir. Samvkæmt könnunum, á mjög erfiðum pólitískum tímum, mælist Samfylkingin rétt undir kjörfylgi. Ég held að flestir myndu sælir una við það, sitjandi í ríkisstjórn sem á í vök að verjast vegna erfiðleika í efnahagsmálum. En auðvitað er það eðlilegt að menn berji svolítið á ríkisstjórninni þegar illa árar og eðlilegt að aðstæðurnar bitni frekar á okkur vegna þess að fólk hefur miklar væntingar til Samfylkingarinnar.
Hins vegar verður að taka fram að erifiðleikana í dag má fyrst og fremst rekja til erfiðra ytri aðstæðna á fjármálamarkaði á heimsvísu. En það má líka að einhverju leyti rekja þær sérstöku íslensku aðstæður sem við búum við, þ.e. verðbólgu í tveggja stafa tölu, hæstu stýrivexti sem um getur í löndum sem við viljum bera okkur saman við og óstöðugt gengi, til hagstjórnamistaka síðustu ríkisstjórna eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir benti réttilega á í Fréttablaðinu 1. maí síðastliðinn.
Það er þó alveg skiljanlegt að órói sé í þjóðfélaginu. Fólk hefur áhyggjur af afkomu sinni og skuldastaða margra fyrirtækja, einstaklinga og fjölskyldna er mjög erfið. Ríkisstjórninni ber auðvitað að bregðast við þegar slíkar aðstæður eru uppi. Nú hef ég fulla trú á því að ríkisstjórnin vinni að því baki brotnu að leysa úr þessum málum eins og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra benti á í Silfrinu í dag.
En fólk er orðið mjög óþreyjufullt eftr aðgerðum og þegar þessi staða er uppi, virka tíðar utanlandsferðir ráðherranna hjákátlegar þó það sé nú kannski ekki sanngjarnt eða eðlilegt að gera þær að einhverju aðalatriði í þessari umræðu.
1.5.2008 | 11:42
Til hamingju með daginn
Í dag er baráttudagur verkalýðsins. Ég óska verkafólki og launþegum til hamingju með daginn. Yfirskrift dagsins hjá ASÍ Verjum kjörin á vel við. Nýgerðir kjarasamningar ASÍ og Samtaka atvinnulífsins eru í uppnámi og næsta víst að forsendur þeirra eru brostnar miðað við nýjustu verðbólgumælingar. Samningunum var ætlað að bæta kjör þeirra verst settu. Að öðru leyti miðuðust samningarnar við að verja kaupmáttinn og þá skiptir stöðugt efnahagsástand öllu máli. Í leiðara Fréttablaðsins í dag eru samningarnir kallaðir verðbólguvarnarsamningar.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kallar eftir samstöðu til sigurs á verðbólgu í Fréttablaðinu í dag. Í greininni áréttar hún það grundvallarsjónarmið jafnaðarmanna að markaðurinn og markaðsöflin séu þarfur þjónn fyrir samfélagið en vondur herra. Hinn frjálsi markaður er hluti samfélagsins en ekki fyrir utan það og yfir það hafinn. Eins og jafnaðarmenn hafa alltaf sagt þá er það vont að gefa markaðsöflunum lausan tauminn og markaðurinn verður að lúta reglum. Ástæðan er ekki síst sú að ef menn gerast kærulausir og markaðurinn verður of áhættusækinn þá er það á endanum alltaf sauðsvartur almúginn sem borgar brúsann. Þess vegna er mikilvægt að koma böndum á markaðinn og markaðsöflin.
Nú er sú staða uppi að almenningur á Íslandi býr við alltof mikla verðbólgu, alltof háa stýrivexti og flöktandi örmynt sem erfitt á uppdráttar í ólgusjóð alþjóðlegra viðskipta. Verðlag nauðsynjavöru hækkar og afborganir lánanna á meðan eignir almennings lækka í verði og hefur Seðlabankinn gengið svo langt að spá því að fasteignaverð eigi eftir að lækka um 30%.
Ingibjörg áréttar einnig þá afstöðu Samfylkingarinnar að Íslandi eigi að stefna að aðild að ESB og upptöku Evru í framtíðinni. Ekki er pólitískur vilji á Alþingi til þess að fara þessa leið Samfylkingarinnar á þessari stundu en allur almenningur og atvinnulífið á Íslandi stefnir hraðbyri þessa leið skv. þeim skoðanakönnunum sem fram hafa farið um málið.
Hvað sem líður þessum framtíðaráformum þá er ljóst að krónan verður gjaldmiðillinn okkar til næstu ára og hvað sem aðild að EBB líður þá er ljóst að við verðum að ná tökum á efnahagsástandinu. Það getur ekki skipt neinu máli hvað mönnum finnst um ESB og Evruna þegar kemur að því að uppfylla þau skilyrði sem verður að uppfylla til þess að geta gengið í myntbandalagið. Þau skilyrði er gott og skynsamlegt að uppfylla hvort sem menn ætla sér inngöngu eða ekki.
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006