Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Sjálfstæðisflokknum refsað fyrir brunaútsöluna á stefnuskránni

Reykvíkingar eru skynsamt fólk sem lætur ekki spila með sig. Það sýnir nýr þjóðarpúls Capacent Gallups á fylgi flokkanna í Reykjavík. Einnig kemur fram að nýr meirihluti og nýr borgarstjóri hafa ekki sterkt bakland á meðal borgarbúa svo ekki sé fastar að orði kveðið. Einungis 27% þáttakenda í könnuninni sögðust ánægð með nýja meirihlutann.

Sjálfstæðisflokkurinn verður að lifa við það að hafa selt öll sín stefnumál á brunaútsölu á altari pólitískrar endurreisnar Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, sem áhöld eru um hvort njóti meira trausts en Ólafur F. Magnússon og er þá mikið sagt. En Ránfuglinn verður líka að lifa við það að hafa leitt til öndvegis í borgarstjórastólinn mann sem einungis 16% borgarbúa eru ánægðir með. Þetta verða Hanna Birna og Gísli Marteinn að lifa við þótt sá síðarnefndi hamist nú við að telja fólki trú um að hans hugsjónir hafi ekki verið hluti af brunaútsölunni.

Engar sögubækur, sem ég hef lesið um íslenska pólitík, segja frá jafn ömurlegri byrjun á nokkru pólitísku samstarfi og við höfum nú orðið vitni að. Ég veit ekki hvort það er hægt, en ég held að gamli góði Villi sé búinn að toppa sjálfan sig frá því í haust.

E.t.v. þagna nú raddirnar um það að þessi gjörningur Sjálfstæðismanna í borginni í síðustu viku hafi ekki ofboðið fólki. Menn ættu kannski að hugsa sig betur um þegar þeir segja að öll mótmælin hafi verið marklaus vegna þess að nýju minnihlutaflokkarnir hafi skipulagt þau. Mogginn gekk reyndar svo langt að segja að Samfylkingin ein og sér hefði staðið að mótmælunum. Gott ef Dagur hafi ekki bara skipulagt þau sjálfur, einn og óstuddur svo vondur og andlýðræðislegur er hann skv. Mogganum.

Hvernig ætli Styrmir bregðist við núna þegar í ljós kemur eftir þessi ósköp öll, að fólkið í borginni ber mest traust til Samfylkingarinnar og þar innan borðs er Dagur B. Eggertssonar? Hvaða ráðabrugg og óhróður koma Staksteinar til með að bjóða upp á þá? Óhróðurinn er alltaf í réttu hlutfalli við örvæntinguna þannig að við megum eiga von á flugeldasýningu núna.

En skynsemin er eina leiðin út úr þessum ógöngum fyrir félagana á ritstjórnarskrifstofunni og skynsemin felst í því að takast á við þá staðreynd að fólkið er einfaldlega hætt að taka mark á óhróðrinum eins og þjóðarpúls Gallups sýnir fram á.


Skortur á heimilislæknum

Í Morgunblaðinu í gær var að finna ágætis frétt um þá stöðu sem upp er komin hjá heimilislæknum í landinu. Fyrirsjáanlegur er skortur á heimilslæknum og er vandamálið farið að koma fram á sumum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Fram kom hjá Elínborgu Bárðardóttur, formanni Félags heimilislækna, að á næstu 10 - 15 árum munu 75 heimilislæknar á landinu öllu hætta þegar þeir komast á eftirlaunaaldur. Einnig kom fram í máli hennar að um 25 læknar eru núna í sérnámi í heimilislækningum þannig að það er ljóst að endurnýjunin er ekki nógu mikil.  Sá fjöldi lækna sem nú stundar nám í heimilislækningum mun hvergi nærri geta mannað allar þær stöður sem losna á næstu árum. Nú þegar er orðið alvarlegt ástand á ýmsum stöðum m.a. á höfuðborgarsvæðinu og í fréttinni kom fram álagið á starfandi heimilislækna er í mörgum tilvikum orðið gríðarlega mikið.

Í raun og veru eru þetta engar fréttir fyrir okkur sem störfum að heilbrigðismálum á Hornafirði og við erum þegar farin að finna fyrir þessu ástandi. Svona ástand kemur fyrst niður á þeim stöðum sem eru hvað mest einangraðir, þ.e. að langt er að sækja í aðra heilbrigðisþjónustu. Álag á lækna undir slíkum kringumstæðum er mjög mikið sem og ábyrgð.

Við höfum talað fyrir því að mikilvægt sé að taka upp umræðu um þessi mál með sérstakri áherslu á heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, sbr. þessa grein sem birtist í Morgunblaðinu 17. desember.

Í dreifbýlinu eru helsugæslan og heimilislæknarnir undirstaða allrar heilbrigðisþjónustu. Notendur eiga ekki um neina aðra kosti að velja þurfi þeir að sækja sér læknisaðstoð. Þess vegna er heilsugæslan ein mikilvægasta grunnstoðin í samfélagi eins og okkar á Hornafirði.

Sveitarfélagið stefnir að því að halda málþing í næsta mánuði um heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Þar munu fulltrúar allra helstu fagstétta innan heilbrigðisgeirans, stjórnendur heilbrigðisstofnana taka þátt sem og kjörnir fulltrúar, bæði frá Alþingi og sveitastjórnum.

Vonir okkar standa til þess að málþingið verði vettvangur frjórra og opinskárra skoðanaskipta um þetta mikilvæga málefni sem geti orðið málefnalegt innlegg inn í hina eilífu umræðu um íslenska heilbrigðiskerfið.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband