Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Fjármál sveitarfélaga

Það olli óneitanlega nokkrum vonbrigðum að fjármálaráðherrra hafði lítið nýtt til málanna að leggja varðandi tekjustofna sveitarfélganna. Hann opnaði hins vegar þá að ríkið tæki þátt í því að greiða niður skuldir sveitarfélaganna að því gefnu að þau settu sér fjármálareglur. Þessar hugmyndir fjármálaráðherra eru að sjálfsögðu allra góðra gjalda verðar en duga frekar skammt að mínu mati.

Það er auðvitað orðið fyrir löngu nauðsynlegt að tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga verði tekin til endurskoðunar frá grunni. Sveitarfélögin verða einfaldlega að vera í stakk búin til þess að mæta þörfum og kröfum síbreytilegs samfélags. Kröfurnar sem lagðar eru á hendur sveitarfélganna eiga ekkert eftir að gera nema að aukast.

Þess vegna skýtur það mjög skökku við að frjálshyggjuliðið hjá íhaldinu skuli koma fram með tillögu á þingi þess að efnis að ekkert lágmark eigi að vera útsvari sveitarfélaganna. Hefur þetta fólk aldrei stigið út fyrir Seltjarnarnesið eða Garðabæinn? Er það þetta sem sveitarfélögin vítt og breitt um landið eru berjast fyrir? Nei.

Ég tek undir það með Svanfríði Jónasdóttur í Silfrinu um helgina að ef það á ekki að vera neitt gólf í útsvarinu þá eigi auðvitað ekki að vera neitt þak heldur. Frelsið getur ekki bara gengið í aðra áttina.

Mér finnst líka forgangsröðunin skrítin, þ.e. að leggja áherslu á þetta mál þegar svo mörg önnur brýnni mál þarfnast úrvinnslu. Eins og t.d. það að bæta og styrkja fjárhag sveitarfélaganna vítt og breitt um landið með það að markmiði að þau geti sinnt skyldum af enn meiri reisn og dug. Í þann farveg að fólkið auðvitað að beina málflutningi sínum.


Seðlabankinn berst við vindmyllur

Eitthvað virðist síðasta stýrivaxtahækkun Seðlabankans hafa komið mönnum úr jafnvægi. A.m.k. virðast þingmenn allra flokka sammála um það að þessi hækkun hafi komið á óvart og telja hana ekki heppilega.

Ég held að það sé óhætt að taka undir þessar áhyggjur þingmanna. Spurningin er líka sú hvort þau verkfæri sem bankinn býr yfir til þess að halda niðri verðbólgu séu nógu öflug og hvort verkefni þeirra sé raunhæft.

Bankinn er að reyna stjórna gjaldmiðli sem er bara nýttur af hluta samfélagsins. Stórfyrirtækin íslensku eru að flýja krónuna í umvörpum.

Ætli það verði ekki á endanum hávaxtastefna Seðlabankans sem mun leiða okkur út í alvöru umræður um heildarendurskoðun á starfi bankans og um gjaldmiðilsmál. Þessi aðgerð bankans gerir auðvitað ekkert annað en valda skuldugum íslenskum almenningi enn meiri vandræðum.

Atvinnulífið og verkalýðshreyfingin hafa tekið frumkvæðið í umræðum um stöðu krónunnar og upptöku Evru. Ekki virðist vera pólitískur vilji til þess á Íslandi til þess að hefja þessa umræðu af einhverju viti. Innan annarra flokka en Samfylkingarinnar virðast menn bara vilja komast hjá því að ræða þessi mál af einhverri alvöru.

Hvað svo sem mönnum kann að finnast um ESB og Evruna þá hljóta almannahagsmunir einfaldlega að kalla á það að forystumenn annarra stjórnmálaflokka en Samfylkingarinnar fari að hugleiða inngöngu í ESB og upptöku Evru.


Mikilvægt að kanna meint verðsamráð

Verðsamráð er ljótur glæpur gagnvart almenningi. Ég tala nú ekki um þegar menn eiga með sér verðsamráð um um nauðsynjavörur eins og matvöru. Það er alvarlegur glæpur gangvart neytendum ef þær ásakanir sem fram hafa komið á undanförnum dögum eiga við rök að styðjast.

En þessar ásakanir eru mjög alvarlegar og þess vegna ber stjórnvöldum sem eiga að gæta almannahagsmuna að kanna þær til hlítar. Það hlýtur að vera skylda samkeppniseftirlitsins að gera það. Auðvitað er það óþolandi, ef þessar ásakanir eru á rökum reistar, að viðskiptablokkirnar séu að spila með almenning í skjóli þess að samkeppniseftirlitið á Íslandi er vanbúið til þess að taka á þessum málum.

Viðskiptaráðherra hefur sagt að nú sé tími til kominn að koma neytendum úr aftursætinu í framsætið á Íslandi. Því er ég hjartanlega sammála og ráðherrann hefur sett fram raunhæfar tillögur sem miða að því að bæta stöðu neytenda.

Meint verðsamráð matvöruverslana er mikilvægt að uppræta ef það á að takast að koma neytendum á Íslandi í framsætið eins og talað hefur verið um. Til þess að það geti gerst þarf samkeppniseftirlitið að virka sem skyldi og þá er nauðsynlegt að það verði stóreflt sem fyrst.


Bæjarstjórn í dag

Hann var góður bæjarstjórnarfundurinn í dag. Gagnlegar umræður sköpuðust um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Mikill samhljómur var í málflutningi bæjarfulltrúa. Lögð var áhersla á það að Hornfirðingar hafa sýnt mikið frumkvæði í allri umræðu um væntanlegan þjóðgarð. Enginn vafi er á því í mínum huga að höfuðstöðvar þjóðgarðsins eiga heima hér í ríki Vatnajökuls. Um þetta mál er full eining í bæjarstjórninni og höfum við í raun talað fyrir þessu frá því að hugmyndir um stofnun þjóðgarðsins komust fyrst á kreik.

Einnig sköpuðust ágætar umræður um staðsetningu knattspyrnuhússins sem við hyggjumst byggja á næstunni. Ljóst er að skiptar skoðanir eru um staðsetninguna á meðal fólks. Það virðist líka vera á reiki um hvers konar hús er að ræða. Alveg frá því að ég veitti höfðinglegri gjöf Skinneyjar - Þinganess viðtöku fyrir tæpu ári hef ég staðið í þeirri trú að við værum að ráðast í byggingu knattspyrnuhúss og nýting hússins ætti að miðast við það. Enda stendur í bréfinu frá fyrirtækinu, að peningagjöf þeira sé ætlað að styðja við byggingu knattspyrnuhúss í líkingu við það hús sem Fimleikafélag Hafnarfjarðar reisti í Kaplakrika. Ekkert hefur komið fram í umræðunni sem ætti að breyta þessum forsendum að mínu mati.

Að sjálfsögðu er það skiljanlegt að fólk velti fyrir möguleikum til þess að nýta húsið. En það er ennþá mín skoðun að við séum að ráðast í byggingu knattspyrnuhúss. Ef fólk getur nýtt sér knattspyrnuhúsið í eitthvað annað þegar það er risið þá er það að mínu mati bara góður bónus fyrir húsið. Ég held að það verði að koma skýrt fram að við erum ekki að tala um fjölnota íþróttahús heldur er hér fyrst og fremst um að ræða það sem margir hafa kallað knattskjól. Þessu talaði ég fyrir á fundinum í dag. Einnig tók ég fram að afstaða mín hefði ekkert breyst frá því bæjarráð tók undir bókun nefndar um íþróttamannvirki um staðsetningu hússins.

Hins vegar er eðlilegt þegar fram kemur gagnrýni, eins og foreldraráð grunnskólans hefur komið á framfæri, að betri umræða fari fram um málið. Þess vegna hefur verið óskað eftir því við verkfræðistofuna ASK að útbúa fullkomnar myndir af húsinu með hinar ýmsu staðsetningar í huga þannig að bæjarbúar geti séð hvers konar hús er um að ræða.

Að lokum fór síðan fram ágæt umræða um heilbrigðis - og öldrunarmál í sveitarfélaginu. Minnihlutinn í bæjarstjórn er þeirrar skoðunar að það þurfi að setja á fót sérstakan starfshóp, skipaðan oddvitum þeirra framboða sem sæti eiga í bæjarstjórn, til þess að fjalla um þjónustusamninginn við heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytið um rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands. Á þetta hefur meirihlutinn ekki fallist enn sem komið er enda væri stofnun slíks starfshóps ótímabær á þessu stigi. Ráðuneytið á einfaldlega eftir að vinna það mikið i sínum málum áður hægt verður að segja fyrir víst um hvers konar samning er að ræða.

Þangað til hef ég haldið því fram að bæjarráð haldi utan um samningsgerðina með bæjarstjóra. Ég ber fullt traust til þeirra einstaklinga sem sitja í bæjarráði til þess að fjalla um þessi mál hvort sem þeir eru oddvitar sinna framboða eða ekki.  


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband