Leita í fréttum mbl.is

Hjól atvinnulífsins haldist gangandi

Í dag birtist grein eftirfarandi grein, eftir mig, á vefmiðlinum hornafjordur.is:

Kreppan á fjármálamörkuðum og Hornafjörður

Öll þekkjum við mátt samstöðunnar þegar við verðum fyrir áföllum. Hver gleymir samstöðu Íslendinga þegar Vestfirðingar urðu fyrir barðinu á snjóflóðum á síðasta áratug síðustu aldar? Í dag hefur öll þjóðin orðið fyrir áfalli. Nú er hins vegar um að ræða efnahagslegar hamfarir. Þó þær séu ekki sambærilegar við það að missa ástvini er ljóst að margir einstaklingar eiga um sárt að binda núna og það er mikilvægt að við hlúum að þeim og látum vita að þeir eru ekki einir á báti. Allir hafa tapað á þeim atburðum á fjármálamörkuðum, sem skekið hafa heimsbyggðina alla. Á sama tíma megum við ekki gleyma þeim búsifjum, sem gengishrun gjaldmiðilsins okkar og okkar forni fjandi, verðbólgan, hafa valdið mörgum íslenskum fjölskyldum og heimilum.  

 Hjól atvinnulífsins haldist gangandi

Á síðustu dögum og vikum hafa Íslendingar fengið rækilega áminningu um það hver hin raunverulegu verðmæti eru í lífinu. Við höfum orðið vitni að ótrúlegum hildarleik á erlendum og íslenskum fjármálamörkuðum. Þegar fréttir byrjuðu að leka út, snemma á þessu ári, um alvarlega stöðu ýmissa frægra og rótgróinna bankastofnana þá læddist að manni sá grunur að áföll á fjármálamarkaði á heimsvísu myndu hafa mikil áhrif á Íslandi. Sá grunur reyndist á rökum reistur, því miður.  

Íslensku bönkunum hafði vaxið fiskur um hrygg svo um munaði án þess að Seðlabanki Íslands hefði fylgt þeirri þróun eftir eða reynt að hægja á henni. Þetta tvennt olli því að fjárfestar og lánveitendur víða um heim misstu trúna á íslensku útrásinni og íslensku bönkunum. Þegar það gerðist hrundi spilaborgin með eftirminnilegum afleiðingum. Viðskiptabankarnir þrír, sem einkavæddir voru með miklum lúðraþyti fyrir nokkrum árum, hafa verið þjóðnýttir og íslenskur almenningur þarf að borga brúsann vegna skuldsetningar bankanna erlendis og ónógs aðhalds opinberra aðila.

Nú er staðan sú að íslenska ríkisstjórnin rær lífróður til þess að bjarga íslenska hluta bankakerfisins þannig að hjól atvinnulífsins stöðvist ekki. Margt bendir til þess að henni eigi eftir að takast það ætlunarverk sitt. Til þess að styðja enn frekar við atvinnulífið, þá þarf Seðlabankinn einnig að koma að málum, m.a. með lækkun stýrivaxta.

Það er ljóst að margir koma til með að missa atvinnuna í þessum hremmingum, jafnvel þótt við tökum bara mið af þeim einstaklingum sem tapa sínum störfum innan bankakerfisins. Sá hópur einn og sér - innan bankakerfisins sem missir sína atvinnu - er það stór að það mun grundvallaráhrif á atvinnuumhverfið á Íslandi. Þess vegna er mikilvægasta verkefni stjórnvalda á þessum tímapunkti, að halda hjólum atvinnulífsins gangandi.  

Grunnþjónusta skerðist ekki

Í ástandi eins og nú hefur skapast er það lykilatriði að ríki og sveitarfélög samræmi aðgerðir sínar þannig að almenningur verði fyrir sem minnstum skaða. Nú þegar hefur almenningur þurft gjalda fyrir ástandið nógu dýru verði. Ríki og sveitarfélög verða að leggjast á árarnar til þess að koma í veg fyrir að grunnþjónusta hins opinbera skerðist. Á tímum sem þessum verða stjórnmálamenn að standa vörð um velferðarkerfið. Á undanförnum árum hefur velferðarkerfið íslenska verið þróað í þá átt, að áherslan hefur verið sú að styðja helst við bakið á þeim allra verst settu. Nú er hins vegar ljóst að velferðarkerfið þarf að þróast í þá átt að geta staðið við bakið á fleiri einstaklingum en það hefur gert hingað til. Í þessu ástandi er mikilvægt að benda fólki á að það er engin skömm fólgin í því að leita sér aðstoðar.  Í því felst miklu frekar styrkur.

Sveitarfélagið Hornafjörður fer ekki varhluta af þessum efnahagslegu þrengingum þjóðarinnar. Tekjur þess munu minnka á næsta ári ef ekkert breytist. Ljóst er að þær tekjur sem við fáum frá jöfnunarsjóði sveitarfélaga munu dragast saman þar sem framlög í sjóðinn eru veltutengd. Erfiðara er að meta hvaða áhrif ástand efnahagsmála mun hafa á útsvarstekjur sveitarfélagsins. Atvinnuástand er gott á svæðinu eins og sakir standa og vonandi verður svo áfram. Í þessari umræðu er rétt að benda á að fjárhagsleg staða sveitarfélagsins var mjög sterk áður en þessi áföll dundu yfir okkur. Það kemur til með að hjálpa okkur yfir erfiðasta hjallann.

Hins vegar verður ekki horft fram hjá því að þessi efnahagslegu áföll koma til með að hafa áhrif - og hafa nú þegar haft töluverð áhrif - á íbúa Hornafjarðar eins og aðra landsmenn. Eins og aðrir landsmenn horfum við upp á lánin okkar hækka, höfuðstóll verðtryggðu lánanna hækkar á verðbólgubálinu, vörur hækka í verði og sparifjáreigendur, sem hafa fjárfest hafa í sjóðum bankanna og hlutabréfum, hafa margir tapað umtalsverðum fjármunum. Fjölskyldur á Hornafirði og atvinnulíf svæðisins horfa fram á breytta tíma á sama hátt og aðrir Íslendingar. Við þessu þarf að bregðast.

Samstillt átak

Bæjarráð Hornfjarðar hefur nú þegar ákveðið, í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi í þjóðfélaginu, að fjárhagsáætlun 2009 verði unnin frá grunni.  Í þeirri yfirferð verður farið gaumgæfilega yfir rekstur allra stofnana sveitarfélagsins samhliða fjárhagsáætlunargerð. Í þessari vinnu verður lögð sérstök áhersla á gott samstarf meiri - og minnihluta bæjarstjórnar enda um að ræða verkefni sem allir þurfa að koma að. Við munum leggja sérstaka áherslu á að grunnþjónusta sveitarfélagsins skerðist ekki, þannig að íbúar sveitarfélagsins fái notið sömu þjónustu og áður. Einnig munum við skoða hvaða leiðir eru mögulegar fyrir sveitarfélagið til þess að koma til móts við fjölskyldurnar og heimilin í samfélaginu, sem öll hafa orðið fyrir skakkaföllum á undanförnum mánuðum. Vert er að minnast á að bæjarstjórn Hornafjarðar samþykkti fyrir skömmu umfangsmiklar tillögur um að lækka álögur á fjölskyldur, sem byggðu á vinnu nefndar um mótun fjölskyldustefnu. Þær fólu í sér lækkun leikskólagjalda og gjalda fyrir lengda viðveru og að sysktkinafsláttur gilti á milli skólastiga. Í þessum tillögum var gert einnig ráð fyrir upptöku tómstundakorta fyrir ungmenni á aldrinum 6 - 18 ára frá og með næstu áramótum.

Atvinnulífið stendur traustum fótum á Hornafirði og atvinnustigið er gott eins og áður segir. Þrátt fyrir þessar staðreyndir er hin ábyrga afstaða sú að að gera ráð fyrir því að þessar aðstæður geti breyst. Þá þurfum við að skoða með opnum huga með hvaða hætti við getum sem best komið til móts við atvinnulífið á staðnum til þess að við getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar til þess að halda hjólum þess gangandi ef aðstæður breytast. Það felur í sér að við verðum að endurskoða framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins. Við þessar aðstæður sem nú eru uppi vaknar sú spurning hvort ekki sé heppilegra að leggja áherslu á mannaflsfrekar framkvæmdir í stað framkvæmda sem krefjast mikilla efniskaupa.

Tækifæri til framtíðar

Framundan er mikil vinna á vettvangi sveitarstjórnar. Í þeirri vinnu felst líka mikil áskorun, sem menn geta nýtt sér til að koma auga á þau tækifæri sem kunna að skapast í tímabundinni kreppu. Gleymum því ekki, á þessum umrótatímum, að Sveitarfélagið Hornafjörður hefur alla burði og forsendur til þess að koma sterkt út úr þessari efnahagslegu lægð. Hér eru grunnstoðirnar sterkar; öflugt og kraftmikið atvinnulíf, öflug velferðarþjónusta, vel rekinn sveitarsjóður, mikill mannauður og heilbrigt samfélag. Eitt hafa Ausut - Skaftfellingar fram yfir marga aðra en það er sú samstaða um stóru málin sem einkennir samfélagið. Það er gulls ígildi í dag. Þessar mikilvægu stoðir og fleiri eiga eftir að gera okkur kleift að vinna vel úr þeim aðstæðum sem uppi eru í dag. Í öllum erfiðleikum og áföllum felast ný tækifæri ef rétt er á málum haldið.

 

Árni Rúnar Þorvaldsson

Formaður bæjarráðs


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband