11.10.2008 | 12:29
Erfiðir tímar
Það er ljóst að íslenska þjóðin gengur núna í gegnum erfiðari tíma en hún hefur þekkt í langan tíma. Staðan virðist svo þung að málsmetandi menn eru farnir að tala um eiginlegt þjóðargjaldþrot. Það held ég reyndar að standist enga skoðun vegna þess að ríkissjóður er nánast skuldlaus. Þannig að það er ekki með neinni sanngirni hægt að halda því fram að við blasi þjóðargjaldþrot. Hins vegar er ljóst að bankarnir hafa vaxið of langt fram úr landsframleiðslunni. Það yrði þess vegna erfitt fyrir ríkið að standa við skuldbindingar bankanna í útlöndum.
Fyrir einu ári hefði engan órað fyrir því að íslensku viðskiptabankarnir yrðu komnir hendur ríkisins á nýjan leik. Engan hefði órað fyrir því að einkavæðing bankanna myndi kolfalla á svo skömmum tíma. Það eru gríðarleg vonbrigði. Nú er líka rætt um það fullum fetum að í það styttist að Íslendingar leiti ásjár Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.
Atburðir síðustu daga hafa síðan valdið því að Ísland er - að því er virðist - komið í milliríkjadeilu við okkar ágætu vini í Bretlandi. Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, vandar Íslendingum ekki kveðjurnar í sínum blaða - og sjónvarpsviðtölum. Hins vegar má ætla eftir síðasta blaðamannafund forsætis - og viðskiptaráðherra, að búið sé að koma þessum málum á milli þjóðanna í betri farveg. Vonandi veit það á gott. Það gengur auðvitað ekki að vera í deilum við gamlar vinaþjóðir á erfiðum tímum. Reyndar er það svo að Bretar hafa gengið alltof langt í þessum málum og Brown virðist vera að nota þessa atburðarrás til þess að styrkja pólitíska stöðu sína.
Til þess að bregðast við vandanum og bankakreppunni þurfti ríkisstjórnin að leggja fram frumvarp um neyðarlög á Alþingi. Þegar það gerðist á mánudagskvöldið held ég að íslenska þjóðin hafi fyrst áttað sig á því hversu alvarleg staðan var orðin. Íslendingar hafa orðið fyrir miklu áfalli sem mikilvægt er að vinna úr. Það gerist auðvitað ekki nema með samstilltu átaki þar sem allir leggja lóð sín á vogarskálarnar til þess að vinna úr þeirri stöðu sem upp er komin.
Með þessu er ég ekki að segja að við eigum ekki að fara yfir það hvað hefur farið úrskeiðis og hvað hefur valdið því að við erum í þeirri stöðu sem við erum í. Það er nauðsynlegt eftir svona öldurót og erfiðleika að rannsaka það sem gerst hefur. Ef einhverjir bera ábyrgð á því hvernig er komið fyrir okkur þá þurfa þeir hinir sömu að sæta ábyrgð. En rétti tíminn til þess að fara yfir það er ekki í storminum miðjum. En ef við förum ekki yfir þessa atuburðarrás og ástæður þess að við stöndum í þessum sporum nú, þá er hætt við því að við komum ekki til með að læra af reynslunni.
Staðan er auðvitað grafalvarleg og kemur harðast niður á atvinnulífinu og öllum almenningi. Einnig tapa margir fjárfestar miklum fjármunum á öllu þessu verðhruni hlutbréfa um allan heim. Fjölmargir aðilar hafa tapað sparnaði sínum í sjóðum og á peningamarkaðsbréfum bankanna. Maður finnur til með því fólki og stjórnvöld hafa sagt að þau ætli sér að reyna að tryggja innistæður fólks á þessum reikningum að því marki sem það er hægt. En innistæður fólks á venjulegum bankabókum eru tryggar og það er gríðarlega mikils virði. Einnig finnur maður til með öllu því fólki sem núna er að missa vinnuna sína í þeim erfiðleikum sem yfir okkur ganga.
Mikilvægast núna er að Fjármálaeftirlitinu takist að koma bönkunum í starfhæft ástand þannig að hægt sé að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Það er lykilatriði. Mér sýnist á öllu að verið sé að vinna að því af krafti innan Fjármálaeftirlitsins í samstarfi við starfsfólk bankanna.
Ég er ánægður með það hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málum á undanförnum vikum. Geir H. Haarde hefur staðið vaktina vel og haldið yfirvegun. Það er ómetanlegt á tímum eins og þessum. Á reglulegum blaðamannafundum í Iðnó hafa þeir Geir og Björgvin G. Sigurðsson svarað spurningum blaðamanna af yfirvegun og þekkingu. Í öllum þessum látum er það mikilvægast að ríkisstjórnin standi í lappirnar, láti ekki undan þrýstingi og haldi sínu striki. Mér sýnist á öllu að það gangi eftir.
Ég er þess handviss - þrátt fyrir þessi vandræði - að Íslendingar munu á endanum koma standandi út úr þessa tímabundna ástandi. Við stöndum að mörgu leyti vel. Hér eru undirstöðurnar góðar, miklar auðlindir og duglegt fólk. Þetta er allt saman grundvöllur fyrir því að við getum komist standandi út úr þessu og það er mikilvægt að hafa þetta í huga á meðan það versta gengur yfir. Ég er ekki nokkrum vafa um það að við verðum fljót að aðlaga okkur að breyttum aðstæðum þegar það versta er yfirstaðið. Það er okkar eðli.
Í öllum erfiðleikum felast ný tækifæri. Öllu skiptir hvernig við vinnum úr vandanum þannig að við getum hafið endurreisnina á íslensku þjóðfélagi sem fyrst.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:35 | Facebook
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
Af mbl.is
Erlent
- Hvað er Trump búinn að gera?
- ESB bannar notkun á BPA í umbúðum um matvæli
- Níu handteknir vegna brunans á skíðahótelinu
- Trump myndi hugnast kaup Musks á TikTok
- Hafa til klukkan 17 til að senda starfsmenn í leyfi
- Heita því að tryggja þjóðaröryggi sitt
- Sakar biskupinn um viðurstyggilegan tón
- Fjórir særðir eftir stunguárás í Tel Aviv
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.