Leita í fréttum mbl.is

Öldurótið og sveitarfélögin

Staðan á fjármálamörkuðum og íslensku bankanna hefur auðvitað víðtæk áhrif á stöðu sveitarfélaganna. Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, hefur bent á sveitarfélögin séu misvel í stakk búin til þess að mæta vandanum, sem að okkur öllum steðjar um þessar mundir.

Öll sveitarfélög í landinu eiga eftir að finna fyrir þeirri niðursveiflu í efnahagslífinu sem nú ríður yfir. Flest ef ekki öll sveitarfélög þurfa að fara vel yfir sínar fjárhagsáætlanir vegna þess að forsendur allra áætlana eru í raun brostnar eins og staðan er í dag. Sveitarfélagið Hornafjörður er þar engin undantekning. Við þurfum að fara yfir okkar áætlanir og endurmeta þær.

Í þessu ljósi er þó vert að minnast þess að staða bæjarsjóðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar er sterk um þessar mundir og sveitarfélagið hefur siglt nokkuð lygnan sjó í gegnum það þennslutímabil sem nú er að líða undir lok. Sveitarfélagið hefur ekki verið skuldsett að neinu marki og fjárhagsleg staða þess er sterk. Það er því mín trú að við munum sigla lygnari sjó en margir aðrir á þessum erfiðu tímum en við munum finna fyrir þessu ástandi eins og aðrir.

Á stundum sem þessum er mikilvægt að fara vel yfir stöðuna og meta hana af yfirvegun. Við verðum að fara varlega í alla áætlnagerð og gæta þess að aðgerðir og áherslur okkar lúti að því að styðja við bakið á heimilinum og atvinnulífinu á svæðinu að því marki sem okkur er mögulegt.

En í öllu þessu ölduróti er mikilvægt að fólk reyni eftir megni að halda ró sinni. Einnig þurfa menn að muna það að þetta ástand sem nú blasir við okkur í efnahagsmálunum verður ekki leyst í einu vetfangi. Það tekur tíma og það sem sveitarfélögin þurfa að gera er að taka mið af ástandinu, fara yfir sínar áætlanir og endurmeta þær. Það munum við gera og ef við komumst að þeirri niðurstöðu að breytingar séu nauðsynlegar þá munum við reyna að haga þeim þannig að almenningur finni sem minnst fyrir þeim í þjónustu sveitarfélagsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband