Leita í fréttum mbl.is

Verðbólga í hæstu hæðum

Það er ljóst að líflegur og um margt erfiður pólitískur vetur er framundan fyrir ríkisstjórnina. Flestir ef ekki allir geta verið sammála um að brýnasta verkefni hennar á komandi vetri verður að koma böndum á verðbólguna og tryggja atvinnustigið í landinu. Þetta hljóta að verða forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar á næstum vikum og mánuðum.

Verðbólgan mælist nú tæp 15% sem er hæsta verðbólga sem mælst hefur í tæpa tvo áratugi. Kaupmáttur launa hefur dregist hratt saman og ASÍ og fleiri aðilar hefur bent á að atvinnuleysi komi til með að aukast með haustinu. Við sjáum vísbendingar um það nú þegar, ef horft er til þeirra gjaldþrota og fjöldauppsagna, sem við höfum orðið vitni að á síðustu vikum, sérstaklega í byggingariðnaðinum.

Það er auðvitað ekki hlaupið að því fyrir stjórnvöld að leysa þessi stóru vandamál sem blasa við okkur í efnahagaslífinu nú um stundir. Að ná niður verðbólgunni á sama tíma og reynt er að bregðast við lækkandi atvinnustigi er ekki einfalt verkefni. Reynslan hefur sýnt að samvinna og samráð allra aðila eru bestu verkfærin sem hægt er að nota þegar kemur að þeirri baráttu að halda aftur af verðbólgunni. Þess vegna er brýnt að allir aðilar vinnumarkaðarins og ríksstjórnin hafi með sér samvinnu um það hvernig unnt sé að vinda ofan af þessari þróun sem allra fyrst. Það er fyrsta skrefið í því að ná tökum á þessum vanda. Vonandi munu þessir aðilar setjast sem fyrst niður og koma sér saman um leiðir og aðferðir til þess að ná tökum efnahagsmálunum. Almenningur getur ekki búið við að það að horfa upp á enn frekari kaupmáttarrýrnun.

Í þessu árferði ættu allir að geta sameinast um það markmið að Ísland uppfylli skilyrðin fyrir inngöngu í myntbandalag Evrópusambandsins hvað svo sem þeim kann að finnast um ESB og Evruna. Hér er einfaldlega um skynsamleg markmið að ræða, t.a.m. lágt vaxtastig, lág verðbólga og stöðugleiki, sem allir ættu að geta fallist á að séu skynsamleg í öllu tilliti. Ég held að það sé rétt, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra segir í Viðskiptablaðinu í dag, um að Evrópusambandsaðild verður stóra kosningamálið í næstu kosningum. Ástæðan er sú að kjósendur munu ætlast til þess að þá hafi flokkarnir skýra stefnu í Evrópumálunum minnugir umræðunnar á yfirstandandi kjörtímabili. Það gæti reynst einhverjum flokkum erfitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband