Leita í fréttum mbl.is

Lækkun gjalda

Á síðasta fundi bæjarstjórnar á fimmtudaginn samþykkti bæjarstjórn umfangsmiklar tillögur um lækkun gjalda í sveitarfélaginu sem ætlað er lækka útgjöld fjölskyldna. Tillögurnar gera ráð fyrir að leikskólagjöld og gjöld fyrir lengda viðveru lækki um 10%. Þær felast einnig í því að systkinaafsláttur fyrir annað barn verður 50% og 100% afsláttur fyrir þriðja barn.  Þá verður systkinaafsláttur tengdur á milli skólastiga þannig að foreldrar sem eiga börn í leikskóla fá aukinn afslátt fyrir barn sitt í lengdri viðveru.

Í þessari umræðu er rétt að benda á að leikskólagjöld hafa ekki hækkað að krónutölu síðan 1. janúar 2006. Ef gjöldin hefðu fylgt vísitölu myndi gjald fyrir átta tíma hafa hækkað um 4.310 krónur eða úr 19.329 krónum í 23.639 krónur.  Þegar þessi staðreynd er höfð til hliðsjónar ásamt hinum nýsamþykku tillögum bæjarstjórnar má segja að raunlækkun leikskólagjalda hafi á þessu tímabili verið rúm 20%. Óhætt er að segja að þessar breytingar eigi eftir að koma sér vel fyrir fjölskyldufólk en sem dæmi má nefna að fjölskylda með eitt barn í leikskóla í átta tíma og í lengdri viðveru í 41-50 klst. á mánuði kemur til með að lækka útgjöld um 71.992 krónur á ári.

Tillögurnar gera einnig ráð fyrir sveitarfélagið taki upp svokallað tómstundakort fyrir börn 6 - 18 ára. Með tómstundakortunum er ætlunin sú að styrkja hvert barn á aldrinum 6 - 18 ára í sinni tómstundaiðkun. Rétt er að fram komi að ekki er bara verið að vísa í íþróttastarf í sveitarfélaginu heldur eiga kortin að virka á mjög breiðum grunni. Mín skoðun er sú að fyrst og fremst eigi að líta á kortin sem styrk til þeirra barna og unglinga sem hafa mikinn áhuga á hvers kyns tómstundum og kortin eiga að auðvelda þeim þátttökuna í þeim.

Þessar tillögur eru afrakstur af starfi stýrihóps sem bæjarstjórn skipaði síðasliðinn til vetur til þess að móta fjölskyldustefnu fyrir sveitarfélagið. Endalegum tillögum á hópurinn að skila af sér í desember. Í stýrhópnum sitja; Matthildur Ásmundardóttir, formaður fyrir Samfylkinguna, Elín Magnúsdóttir fyrir Framsókn og Gauti Árnason fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Samstarfið í stýrihópnum hefur verið gott.

Enda voru tillögurnar samþykktar með 6 atkvæðum í bæjarstjórn en Halldóra Bergljót Jónsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins sat hjá við afgreiðsluna af þeim sökum að hún hafði ekki haft tíma til þess að kynna sér tillögurnar. Tilboð kom frá meirihlutanum um að fresta afgreiðslunni fram að næsta fundi bæjarstjórnar og þannig gæti hún kynnt sér tillögurnar efnislega. Um þrjár vikur eru í næsta bæjarstjórnarfund og hefði sá tími átt að duga svo hún gæti myndað sér skoðun á málinu. En hún kaus að hafna því tilboði og það vakti athygli mína.

Fjölskyldumálin eru málefni sem Samfylkingin lagði ríka áherslu á í sinni kosningabaráttu og þess vegna er það okkur mikið ánægjuefni að sjá þessar tillögur verða að veruleika í bæjarstjórn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband