Leita í fréttum mbl.is

Löggæslumál

Í helgarblaði DV er ágæt úttekt á starfsemi lögreglunnar eftir að breytingarnar á lögregluembættunum áttu sér stað um síðust áramót. Það er engum blöðum um það að fletta að Hornfirðingar voru mjög ósáttir við þær breytingar þar sem yfirstjórn lögreglunnar var færð frá sýslumanninum í Austur - Skaftafellssýslu til sýslumanns á Eskifirði. Þetta þýðir að lögreglustjóri er staðsettur á Hvolsvelli en næsti lögreglustjóri kemur ekki leitirnar fyrr en á Eskifirði. Rétt er að taka það fram að Höfn er stærsti þéttbýli milli þessara tveggja staða. Þegar þessar breytingar eru settar í stærra samhengi má sjá að þær eru hluti af ákveðinni þróun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Til þess að efla og styrkja lögregluna og löggæsluna í landinu hafa menn talið sér trú um það að miðstýring sé leiðin til þess. Endalaus vöxtur Ríkislögreglustjóraembættisins er vitnisburðum um það. Einnig held ég að ástæða þess að farið var út í þessar aðgerðir hér á okkar svæði hafi verið sú að Dómsmálaráðuneytið var að yfirfæra hugmyndafræði um sameiningu embætta að Reykjavíkursvæðinu yfir á önnur landsvæði þar sem slík hugmyndafræði gengur að mínu mati ekki jafnvel upp. Fyrir skemmstu samþykkti bæjarstjórn Hornafjarðar eftirfarandi bókun um löggæslumál í sveitarfélaginu:

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar skorar á dóms – og kirkjumálaráðherra að endurskoða þær breytingar á lögregluumdæmum sem komnar eru til framkvæmda. Það er skoðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar að markmið breytinganna um hagræðingu og eflingu starfseminnar hafi ekki náðst á Suðausturlandi. Þvert á móti hafi breytingarnar veikt starfsemi lögreglunnar á Hornafirði og bæjarstjórn minnir á að Höfn er fjölmennasti þéttbýliskjarninn innan lögregluumdæmis sýslumannsins á Eskifirði.

Nú hefur Dómsmálaráðuneytið svarað fyrirspurn Bjarna Harðarsonar, þingmanns Suðurkjördæmis, um sameiningu lögregluembætta á Austurlandi. Fyrirspurn Bjarna lýtur m.a. að sameiningu þvert á kjördæmamörk og líka að því hvort markmiðum um hagnað og sparnað hafi verið náð með sameiningu lögregluembættanna. Ráðuneytið heldur því fram að markmiðin með breytingunum hafi hvorki snúist um hagræðingu eða sparnað. Heldur hafi markmiðið fyrst og fremst verið að efla löggæslu í landinu, auka sýnileika hennar, bæta gæði og hraða rannsóknum mála. Hafi þetta verið markmiðin með sameiningu embættanna er ekki annað hægt en að standa fyllilega við fyrrnefnda bókun bæjarstjórnar. Ekki er hægt að fallast á þessi markmið sem koma fram í svari ráðuneytisins hafi náð fram að ganga. Hvað varðar seinni hluta fyrirspurnar Bjarna þá hefur bæjarstjórn ekki rætt málið á þessum nótum mér vitanlega. Við höfum einfaldlega gagnrýnt þennan verkefnatilflutning ráðuneytisins, þ.e. að yfirstjórn þessarar nærþjónustu hafi verið færð úr sveitarfélaginu og þannig hafi tengs embættsins við samfélagið minnkað. Fróðlegt verður að lesa úttektarskýrslu um reynsluna að nýskipan lögreglumála, sem birt verður á næstunni, skv. svari ráðuneytisisn.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband