Leita í fréttum mbl.is

Fjölskyldustefna sveitarfélagsins

  Eftirfarandi grein eftir mig birtist í Eystra Horni fimmtudaginn 13. desember:

 

Á næsta ári fyrirhugar bæjarstjórn Hornafjarðar að hrinda af stað metnaðarfullri vinnu við gerð fjölskyldustefnu fyrir sveitarfélagið. Að mínu mati er það sannarlega orðið tímabært verkefni fyrir okkur sem störfum á vettvangi sveitarstjórnarmála að skoða málefni fjölskyldunnar hér í okkar samfélagi og taka á þeim með heildstæðum hætti. Auðvitað eru málefni tengd fjölskyldunni ávallt inni á borði okkar sveitarstjórnarmanna og flest þau mál sem rata til okkar tengjast með einum eða öðrum hætti fjölskyldunum. Um það eru bæjarfulltrúar meðvitaðir og þess vegna hefur bæjarstjórn lagt á það áherslu að vinnu við gerð fjölskyldustefnu fyrir sveitarfélagið verði hrundið af stað.

            Að mínu mati er hér um að ræða eitt stærsta og mikilvægasta verkefnið sem núverandi bæjarstjórn kemur til með að vinna að á kjörtímabilinu. Verkefnið nær yfir mjög vítt svið og kemur inn á marga þætti sem snerta okkar daglega líf. Eitt stærsta verkefnið í þessari stefnumótunarvinnu verður að greina kostnað fjölskyldna í sveitarfélaginu vegna leikskólagöngu, tónlistarnáms, lengdrar viðveru og iðkendagjalda í æskulýðs - og íþróttastarfi. Sérstök áhersla verður lögð á það að skoða þann systkinaafslátt sem er í boði  hjá sveitarfélaginu og hvort hægt sé að útvíkka hann með einhverjum hætti, t.d. hvort mögulegt er að láta hann gilda á milli skólastiga. Einnig er lögð áhersla á að kanna kosti þess að taka upp svokölluð frístundakort í tengslum við æskulýðs - og íþróttastarf í sveitarfélaginu.

            En fjölskyldustefna getur ekki bara tekið mið af þörfum yngstu kynslóðarinnar. Í fjölskyldustefnunni er mikilvægt að staða aldraðra í sveitarfélaginu verði tekin til sérstakrar skoðunar þannig að hægt verði að greina og meta þörfina á úrbótum í húsnæðismálum, félagslífi og stoðþjónustu fyrir aldraða. Góðar aðstæður fyrir aldraða í sveitarfélaginu skipta ekki síður miklu máli fyrir þær fjölskyldur sem hér búa.

            Öll sveitarfélög landsins velta mjög fyrir sér málefnum fjölskyldunnar um þessar mundir. Forsvarsmenn sveitarfélaganna hafa gert sér grein fyrir því að samkeppnishæfni sveitarfélaganna felst ekki síst í því að geta boðið fjölskyldunum upp á sem best lífsskilyrði. Opinber þjónusta á vegum sveitarfélagsins er stór þáttur í lífi fjölskyldnanna. Þess vegna er það mikilvægt að hún sé skoðuð sérstaklega þannig að íbúarnir fái notið metnaðarfullrar þjónustu á vegum sveitarfélagsins. Markmiðið með mótun fjölskyldustefnunnar verður því alltaf að vera bætt þjónusta og þar með aukin ánægja íbúanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband