Leita í fréttum mbl.is

Fjármálaráðherra í kröppum dansi

Í dag var kjördæmaþátturinn á RÚV tileinkaður Suðurkjördæmi. Þar voru oddvitar listanna mættir til þess að ræða málefni kjördæmisins. Allir oddvitarnir voru mættir að Guðna Ágústssyni undanskildum. Í hans stað var stjórnarandstæðingurinn Bjarni, á þing þó hann skrolli, Harðarson.

Heilt yfir þá stóð Björgvin G. Sigurðsson, oddviti okkar Samfylkingarmanna sig langbest í umræðunum, málefnalegur og kjarnyrtur. Atli Gíslason stóð sig vel að vanda, skeleggur og kemur sínum málum alltaf á framfæri. Bjarni Harðarson frá Framsóknarflokki stóð sig líka vel en vandinn við hann er að maður mætti halda að hann hefði setið í stjórnarandstöðu undanfarin 12 ár en svo er auðvitað ekki. Skemmtilegt var að fylgjast með átökum Bjarna og Árna Mathiesen í þættinum um samgöngumál.  

Áberandi var hversu illa fjármálaráðherranum, Árna M. Mathiesen leið í þættinum. Greinilegt var að þjóðlendumálin, samgöngumálin og atvinnustefna ríkisstjórnarinnar reyndust honum afar erfið og hann átti eftir að svara fyrir þessi mál. Ekki bætti svo úr skák fyrir Árna að Framsóknarflokkurinn var lentur í stjórnarandstöðu í þættinum og kom það mörgum á óvart. Bjarni taldi m.a. að Íhaldið hefði ákveðið að slá hugmyndir um göng til Eyja út af borðinu og helst ekki viljað ræða þessar hugmyndir af þeirii ástæðu að Árni Johnsen annar maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi hefði sett hugmyndina á dagskrá. Mathiesen gerði enga tilraun til þess að reyna að svara þessum málflutningi Bjarna.

Vanrækslusyndir Íhaldsins í samgöngumálum birtast okkur um allt kjördæmið. Nægir þar að nefna Suðurstrandarveg og dæmalausan vandræðagang í kringum tvöföldun Suðurlandsvegar. Ekki þarf heldur að minna neinn á það ófremdarástand sem er í samgöngumálum Eyjamanna. Sjálfstæðismenn hafa haft 16 ár í Samgönguráðuneytinu til þess að leysa úr þessum málum en ekkert hefur gerst.

Í upphafi þáttarins var birt glæný skoðanakönnun Capacent Gallup. Í henni staðfestist að Samfylkingin er á gríðarlegri siglingu um þessari mundir. Við mælumst með tæplega 25 % fylgi líkt og kom fram í gær í kjördæmþættinum sem tileinkaður var Reykjavík Suður. Að fara úr 18 % fylgi í 25 % á stuttum tíma er gríðargóður árangur og gefur góð fyrirheit um framhaldið.

Við höldum okkur fjórum þingmönnum í Suðurkjördæmi og verðum með fyrsta þingmann kjördæmisins. Ég er sannfærður um það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: HP Foss

Amma mín segir, hverjum þykir sinn fugl fagur, þó hann sé bæði fjaðralaus og magur.

Ekki þótti mér Björgvin standa sig vel, nema í að gjamma frammí. Hann er góður í því.

HP Foss, 22.4.2007 kl. 22:01

2 Smámynd: Sveinn Arnarsson

Ég er ekki viss með það að við náum fyrsta þingmanni kjördæmisins. Ég held að við náum hins vegar fjórum mönnum, en til þess verðum við að fá Árna johnsen meira í sviðsljósið, hann er vel falinn.

Sveinn Arnarsson, 22.4.2007 kl. 22:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband