Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012
12.4.2012 | 11:39
Verður púltið stækkað fyrir bæjarráð?
Eftir orðaskak mitt við bæjarráð Hornafjarðar síðustu daga, sjá hér, hér, hér og hér, hlakka ég mest til að sjá hvernig bæjarráð mun koma fram á bæjarstjórnarfundi síðar í dag.
Mun það kyrja söng sinn saman í einum hljómfögrum kór eða mun það senda einhvern fulltrúa á vettvang til þess að tala máli sínu.
Ljóst er, ef bæjarráð vill halda áfram að koma fram í sameinuðum kór á bæjarstjórnarfundi, að gera verður ráðstafanir til þess að því verði við komið. Þau komast ekki öll fyrir við ræðupúltið á sama tíma.
Því kemur tvennt til greina:
a) að fjölga púltunum
eða
b) að stækka það sem fyrir er.
Að örðu leyti hefur manni beinlínis hlýnað um hjartarætur að sjá hversu samstíga og sameinað bæjarráð er í því að fara ekki eftir þeim leikreglum sem það sjálft ákvað að skyldu gilda í útboðinu.
12.4.2012 | 10:59
Skilmálar óvirkir meðan bæjarráð reiknar sig í plús
Athyglisvert er að lesa pistil hins nafnlausa og andlitslausa bæjarráðs Hornafjarðar, sem birtist á veraldarvefnum á annan í páskum, um tilboð í endurbætur á Heppuskóla. Það kemur mér ekki á óvart að fulltrúar Framsóknaríhaldsins skuli hvorki vilja leggja nafn sitt né andlit við pistilinn enda ómerkilegt yfirklór sem dugar ekki til þess að bæta stöðu sveitarfélagsins vegna þessa óheppilega máls. Best að fela sig á bakvið fallega mynd af Heppuskóla.
Bæjarráð staðfestir í raun þær athugasemdir sem ég hef haft um málið. Bæjarsjóður Hornfirðinga er 5 milljónum króna fátækari vegna óvandaðra vinnubragða fulltrúa Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í bæjarráði. Fram hjá þeirri staðreynd verður ekki litið.
Engin afsökunarbeiðni
Ekki verður annað lesið úr pistli bæjarráðs en að vitlausir útboðsskilmálar hafi verið samþykktir í bæjarráði. Ætlunin var aldrei sú að skilmálar útboðsins yrðu túlkaðir með þeim hætti sem fyrirtækið þetta sem sveitarfélagið þurfti að borga bætur - og lögfræðingur sveitarfélagsins gerðu. Allt saman einn stór misskilningur voða íslenskt eitthvað.
Þessi handarbaksvinnubrögð eru bæjarbúum dýr. Þrátt fyrir það þá dettur aðalfulltrúum í bæjarráði ekki í hug að biðja bæjarbúa afsökunar á klúðri sínu. Það hefð verið allt í lagi þar sem það eru bæjarbúar sem borga brúsann. Varla er valdhrokinn orðinn slíkur að mönnum hugkvæmist ekki einu sinni að biðjast afsökunar á mistökum sínum?
Hvað ef mismunur tilboðanna hefði þurrkast út?
Hið andlits og nafnlausa bæjarráð virðist telja að það sleppi með skrekkinn á meðan það getur reiknað sig í plús. Það stærir sig af því að þrátt fyrir sitt eigið klúður þá muni ennþá 13 milljónum á tilboðunum. Það er kjarninn í málsvörn bæjarráðs. En hvernig hefði þetta sama bæjarráð tekið á málinu ef mismunur tilboðanna hefði þurrkast út vegna sáttar við fyrirtækið sem taldi á sér brotið? Hefði bæjarráð þá farið eftir skilmálum útboðsins? Getur verið að það sé nauðsynlegt fyrir aðila, sem hyggjast bjóða í verk hjá sveitarfélaginu, að spyrja bæjaryfirvöld hvort til standi að fara eftir samþykktum útboðsskilmálum? hvort bæjarráð meini það sem það segi?
Eftir það sem á undan er gengið þá getur bæjarráð Hornafjarðar ekki kvartað undan því að fólk og fyrirtæki beri ekki lengur óskorað traust til bæjarráðs þegar kemur að útboðsmálum.
Árni Rúnar Þorvaldsson
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
10.4.2012 | 15:16
Af hverju hætti bæjarstjórinn að blogga?
Sú var tíðin á Hornafirði að bæjarstjórinn bloggaði af miklum móð. Í færslum bæjarstjórans fékk almenningur innsýn í störf bæjarstjórans. Auk þess var bloggið hans hafsjór af upplýsingum og fróðleik um málefni sveitarfélagsins - fyrir svo utan skemmtilegar og áhugarverður vangaveltur bæjarstjórans um málefni samtímans þar sem hagsmunir sveitarfélagsins voru rauði þráðurinn.
Mig rak því í rogastans, á venjubundnu vafri mínu um net - og bloggheima, þegar ég uppgötvaði mér til hryllings að einn af mínum uppáhaldsviðkomustöðum í netheimum - bloggsíða bæjarstjóra - lá niðri. Þegar ég hafði jafnað mig á upphaflega áfallinu þá komst ég að þeirri niðurstöðu að um tæknileg vandamál hlyti að vera að ræða. Ég ákvað því að bíða í nokkra daga og kanna málið betur. Fór ég því vongóður aðra ferð um lendur netsins í von um að finna einhver merki um bæjarstjórann þar á nýjan leik. Vonbrigði mín urðu ekki minni í þetta skipti þegar aðkoman að bloggsíðu bæjarstjórans var hin sama og síðast. Síðunni hafði verið slátrað -öll verksumerki frá veru bæjarstjórans í bloggheimum höfðu verið afmáð.
Einn dáðadrengja bloggheima er því horfinn á braut - og er hans sárt saknað. Í bloggheimum spurðist síðast til bæjarstjórans í Lapplandi. Þar var hann staddur í boði ESB að kynna sér hvernig byggðastefna og byggðastyrkir ESB hefðu nýst hinum dreifbýlu svæðum í Lapplandi. Fregnir af ferðum bæjarstjórans bárust vel og örugglega í gegnum upplýsingaveitur veraldarvefsins og bæjarbúar gátu lesið ýmislegt sér til fróðleiks, bæði um Lappland og byggðastefnu ESB hjá bæjarstjóranum.
Ég var einn þeirra sem las þessa pistla bæjarstjóra með mikilli ánægju enda taldi ég þá mikilvægt innlegg í umræðuna um stöðu byggðanna varðandi aðildarumsókn Íslands að ESB. Og ég beið næstu pistla bæjarstjóra um sama efni með nokkurri eftirvæntingu. Þeir virðast hins vegar ekki fá tækifæri til þess að líta dagsins ljós, a.m.k. ekki á þessum vettvangi - skrúfað hefur verið fyrir þá upplýsingaveitu.
Ekki ætla ég að þykjast vita hverjar eru ástæður hins óútskýrða - og skyndilega - brotthvarfs bæjarstjórans úr bloggheimum. Það vekur óneitanlega upp spurningar af hverju bæjarbúar, sem fylgst hafa með bæjarstjóra á þessum vettvangi, hafa ekki fengið neinar útskýringar á brotthvarfinu. Einnig gæti það vakið spuningar - kannski grunsemdir hjá einhverjum - af hverju bæjarstjóri hætti svona verklega, þ.e. að láta síðuna sína hverfa með öllu þannig að ekki er hægt að skoða fyrri skrif bæjarstjóra.
Meginritið í höfundarverki Stefan Zweig bar heitið Veröld sem var en bloggsíða bæjarstjóra er Veröld sem ekki var.
Einhverjir kaldhæðnari en sá sem þetta skrifar gætu jafnvel ályktað sem svo að ástæðan fyrir brotthvarfinu væru skrif bæjarstjórans um ferðir sínar til Lapplands og um byggðastefnu ESB. Þessir sömu aðilar gætu jafnvel freistast til að líta svo á að þeim, sem völdin hafa í hornfirsku samfélagi, hafi ekki fundist tilhlýðilegt að bæjarstjóri væri að velta fyrri sér ESB málum með málefnalegum hætti.
En ég hef enga trú á því að bæjarstjóri láti ritstýra sér með slíkum hætti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.4.2012 kl. 17:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.4.2012 | 12:01
Óvönduð vinnubrögð bæjarráðs kosta bæjarbúa 5 milljónir króna
Mikilvægt er að þeir sem leita til sveitarfélagsins, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða einstaklinga, geti treyst því að sveitarfélagið fari að lögum og reglum, sem opinberum aðilum eru sett og ekki síður þeim leikreglum sem það setur sjálft, t.d. í tengslum við útboð á vegum sveitarfélagsins.
Endurbætur á Grunnskóla Hornafjarðar
Í upphafi árs samþykkti bæjarráð að auglýsa útboð vegna endurbóta á Grunnskóla Hornafjarðar (Heppuskóla). Þá samþykkti bæjarráð þá skilmála sem áttu að gilda í útboðinu. Tvö fyrirtæki buðu í verkið á þeim forsendum. Bæði tilboðin voru undir kostnaðaráætlun.
Bæjarráð ákvað á fundi sínum þann 5. mars sl. að ganga til samninga við lægstbjóðanda þótt vísbendingar væru um að sá aðili stæðist ekki útboðsskilmálana. Undirritaður gerði strax athugasemdir við vinnubrögð bæjarráðs og taldi að þau stæðust ekki skoðun. Nauðsynlegt væri að fara betur yfir tilboðin út frá útboðsskilmálunum.
Farið á svig við útboðsskilmála
Á næsta fundi bæjarráðs virtust einhverjar efasemdir um ákvörðunina hafa náð að skjóta rótum í hugum fulltrúa Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Við nánari skoðun hafði nefnilega komið í ljós að ákvörðun bæjarráðs frá 5. mars hvíldi ekki á nægjanlega styrkum stoðum. Álit lögfræðings sveitarfélagsins undirstrikaði það svo ekki varð um villst. Bæjarráð hafði haft sína eigin útboðsskilmála að engu. Nú voru góð ráð dýr í orðsins fyllstu merkingu.
Fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í bæjarráði voru s.s. búnir að koma málinu í þá stöðu að allar líkur voru á því að fyrirtækið, sem var með hærra tilboð en stóðst skilmálana, hefði getað fengið lögbann á framkvæmdina. Til þess að koma í veg fyrir þessa atburðarás var ákveðið að leita sátta við fyrirtækið sem ekki var samið við. Sættir náðust og munu þær kosta sveitarfélagið útsvarsgreiðendur 4,6 milljónir króna auk þess sem lögfræðikostnaður sveitarfélagsins vegna málsins er um 400.000 kr. Þetta þýðir að skattgreiðendur á Hornafirði verða að punga út 5 milljónum króna vegna óvandaðra vinnubragða bæjarráðs. Svo ekki sé minnst á þann kostnað sem fólginn er í þeim álitshnekki sem sveitarfélagið verður fyrir þegar það fylgir ekki þeim leikreglum sem það sjálft setur.
Nauðsynlegar upplýsingar
Ástæðan fyrir þessu greinarkorni mínu er ekki síst sú að þegar tilboðin voru opnuð þá sýndu hornfirskir fréttamiðlar því ánægjulegan en óvæntan áhuga og fram kom að heimamenn ættu lægra tilboðið. Ég hef hins vegar saknað þess að þeir hafi sýnt eftirköstum ákvörðunar bæjarráðs jafn mikinn áhuga. Af þeim sökum sá ég mér ekki annað fært en að taka verkefnið að mér að upplýsa bæjarbúa um handvömm bæjarráðs og kostnaðinn sem mun falla á bæjarbúa vegna hennar.
Árni Rúnar Þorvaldsson
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
Af mbl.is
Erlent
- ESB bannar notkun á BPA í umbúðum um matvæli
- Níu handteknir vegna brunans á skíðahótelinu
- Trump myndi hugnast kaup Musks á TikTok
- Hafa til klukkan 17 til að senda starfsmenn í leyfi
- Heita því að tryggja þjóðaröryggi sitt
- Sakar biskupinn um viðurstyggilegan tón
- Fjórir særðir eftir stunguárás í Tel Aviv