Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010
15.5.2010 | 22:48
Íslensk stjórnsýsla endurskipulögð
Sveitarfélögin ekki undanskilin
Skipan sveitarstjórnarmála er ekki undanskilin í endurskipulagningu stjórnsýslunnar. Samgöngu - og sveitarstjórnarráðuneytið hefur skipað fjögurra manna nefnd til að ræða og meta sameiningarkosti í hverjum landshluta. Þegar nefndin hefur lokið tillögugerð sinni verða tillögurnar lagðar fyrir landsþing eða aukalandsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Mun ráðherra í framhaldi af því leggja fyrir Alþingi áætlun um sameiningar fram til ársins 2014.
Samgöngu - og sveitastjórnarráðherra hefur látið hafa eftir sér að sveitarfélögin gætu orðið sautján talsins. Í dag eru þau tæplega áttatíu. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem jafnframt er bæjarstjóri á Ísafirði, hefur nefnt að þau gætu orðið sjö. Ef af þessu verður, er ljóst að verið er að leggja grunn að gjörbreyttu umhverfi íslenskra sveitarfélaga - þó ekki verði farið eftir ýtrustu tillögum
Staða Hornafjarðar
Kjörnir fulltrúar verða að vera meðvitaðir um að þessi vinna er í fullum gangi. Ný bæjarstjórn verður að móta sér skýra sýn um stöðu Sveitarfélagsins Hornafjarðar áður en fulltrúar hennar mæta til næsta landsþings Sambands sveitarfélaga sem væntanlega verður haldið næsta haust. Þetta eru stóru línurnar í sveitarstjórnarpólitík næstu ára.
Að tryggja og efla þjónustustigið í sveitarfélaginu verður að vera leiðarljós bæjarfulltrúa í þessari umræðu - að sveitarfélagið hafi burði til að sjá íbúunum fyrir þeirri þjónustu sem þeir eiga heimtingu á. Þetta er meginmarkmiðið. Spurningin sem bæjarstjórn verður að svara er því þessi; verður Sveitarfélagið Hornafjörður betur í stakk búið til að sinna sínum íbúum sem hluti af stærri heild eða með óbreyttu fyrirkomulagi, þ.e. án frekari sameininga?
Skýr sýn Samfylkingarinnar
Samfylkingin hefur markað sér skýra sýn í þessum málum fyrir komandi kjörtímabil. Við teljum frekari sameiningu við önnur sveitarfélög ekki tímabæra enda hafi ekki verið bent á neina augljósa kosti í þeim efnum. Við leggjum hins vegar áherslu á áframhaldandi gott samstarf við önnur svæði og sveitarfélög sem grundvallast á sameiginlegum hagsmunum.
Árni Rúnar Þorvaldsson
Bæjarfulltrúi og skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar
5.5.2010 | 19:05
Bera sveitarfélög ábyrgð í atvinnumálum?
Öll byggð ból byggja tilveru sína á því að íbúarnir hafi atvinnu. Atvinnutækifæri eru forsenda byggðar. Fjölbreytni í atvinnulífinu hlýtur því að treysta búsetu á einstökum svæðum betur en einsleitni.
Bera sveitarfélög einhverja ábyrgð í þessum málaflokki eða eiga þau að eftirláta hinum frjálsa markaði þróun og eflingu atvinnulífsins? Þeirri spurningu hefur í raun verið svarað. Eftir að atvinnuleysi jókst í kjölfar hrunsins er hrópað á opinbera aðila - ríki og sveitarfélög - að grípa til aðgerða. Sveitarfélög eru einnig hluti af vinnumarkaðnum bæði í gegnum innkaup á vörum og þjónustu og sem atvinnurekandi. Ótvírætt er því að sveitarfélög bera mikla ábyrgð í atvinnumálum.
Hvert er hlutverk sveitarfélaganna?
Hlutverk og ábyrgð sveitarfélagsins felst fyrst og fremst í því að skapa aðstæður og forsendur fyrir öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi, sem býður fólki uppá spennandi atvinnutækifæri. Liður í að skapa aðstæður fyrir þróun og eflingu atvinnulífs - og þar með fjölbreyttum atvinnutækifærum - er að sveitarfélagið komi að uppbyggingu stuðningsnets fyrir atvinnulífið. Gott dæmi um þetta er uppbygging Nýheima, starfsstöð Nýsköpunarmiðstöðvar , starf Háskólaseturs og aðrar stofnanir sem með beinum eða óbeinum hætti styðja við atvinnulífið. Áframhaldandi velvilji og stuðningur sveitarfélagsins við þetta starf er því mjög mikilvægur.
Aðkoma sveitarfélagsins að einstökum verkefnum er hins vegar ekki einföld. Taka verður tillit til jafnræðis - og samkeppnissjónarmiða og passa verður að með stuðningi við einn sé ekki verið að brjóta á öðrum. Hér er því um jafnvægislist að ræða. Því verður hins vegar ekki á móti mælt að fólk lítur til sveitarfélagsins sem mikilvægs aflvaka í atvinnumálum.
Mörg járn í eldinum
Á yfirstandandi kjörtímabili hefur sveitarfélagið unnið að eflingu atvinnulífsins með ýmsum hætti. Á grundvelli könnunar sem sveitarfélagið lét vinna um fýsileika vatnsútflutnings af svæðinu var undirritað samkomulag við Rolf Johansen og Co. um uppbyggingu átöppunarverksmiðju fyrir vatn. Í samræmi við samkomulagið er nú unnið að rannsóknum og undirbúningi verkefnisins. Fyrstu niðurstöður gefa tilefni til bjartsýni. Verksmiðjan mun, ef af verður, skapa 5 - 10 heilsársstörf þegar afkastagetan hefur náð hámarki.
Átta kaupleiguíbúðir voru seldar til einkaaðila, sem nú nýtast í þágu ferðaþjónustunnar og sömu sögu má segja um eignir sveitarfélagsins í Nesjaskóla. Sveitarfélagið kom að stofnun ferðaþjónustu-, menningar - og matvælaklasa í ríki Vatnajökuls og leggur klasanum til 3 milljónir króna á ári. Atvinnu - og rannsóknarsjóður var settur á laggirnar í byrjun árs 2009 með 20 milljóna króna framlagi, sem varð til við sölu fasteigna sveitarfélagsins í Nesjaskóla. Fjölmörg atvinnuskapandi verkefni hafa hlotið styrki úr sjóðnum. Verkefnin, sem hér hafa verið nefnd, eru bara brot af þeim verkefnum sem sveitarfélagið hefur átt aðkoma að á kjörtímabilinu. Upptalningin sýnir hins vegar að sveitarfélagið er mjög virkt í viðleitni sinni við að hlúa að atvinnulífi svæðisins - í samræmi við hlutverk sitt.
Árni Rúnar Þorvaldsson
Bæjarfulltrúi og skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar
Stephen Róbert Johnson
Varabæjarfulltrúi og skipar 4. sæti á lista Samfylkingarinnar
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006