Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Sterk staða Hornafjarðar í efnahagslegum ólgusjó

Segja má að hugmyndir og kenningar þekktra hagfræðinga um hlutverk ríkisvaldsins í efnahagsstjórnun hafi gengið í endurnýjun lífdaga á Íslandi eftir banka - og gjaldeyrishrunið árið 2008. Margir þeirra, sem á uppgangstímum töldu að ríkisvaldið ætti sem minnst að skipta sér af atvinnu - og fjármálalífinu, linna nú ekki látum vegna aðgerðarleysis ríkisvaldsins í atvinnumálum. Margt er eflaust réttmætt í þeirri gagnrýni þótt það komi stundum á óvart hvaðan gagnrýnin kemur. Sveitarfélögin í landinu hafa líka mikilvægu hlutverki að gegna í efnahagsstjórnun þjóðfélagsins enda standa þau undir stórum hluta opinbers rekstrar og framkvæmda.

Olíu hellt á góðærisbálið

Það er rétt sem gagnrýnendur benda á, að hjól atvinnulífsins stöðvuðust við banka - og gjaldeyrishrunið á hausdögum 2008. Því er mjög eftir því kallað að hið opinbera ráðist í stórtækar og mannaflsfrekar framkvæmdir til þess að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Vandinn er bara sá að ríkið er ekki í aðstöðu til þess að rækja hlutverk sitt - sem nú virðist orðið óumdeilt - á krepputímum, þar sem kenningarnar um hlutverk hins opinbera í efnahagsstjórnun voru ekki jafn mikið í umræðunni þegar betur áraði. Hin hliðin á efnahagspeningnum er nefnilega sú að á uppgangstímum er það hlutverk ríkisvaldsins að draga saman seglin. Það var ekki gert. Þvert á mótin helltu stjórnvöld olíu á góðærisbálið með sársaukafullum afleiðingum fyrir þjóðfélagið. Fjölbreytt hagstjórnarmistök fortíðarinnar eru því ástæða þess að vélaraflið - fjárhagsleg geta - er ekki til staðar hjá ríkisvaldinu til þess að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað - ríkiskassinn er tómur.  

Sveitarfélög kyntu undir - en ekki öll

Mörg sveitarfélög í landinu eru í sömu sporum og ríkisvaldið. Þau fóru út af sporinu í góðærinu, stóðu í samkeppni um lóðaframboð, offjárfestu og hugðu ekki nógu vel að rekstrinum. Bjargráð þessara sveitarfélaga í atvinnumálum eru því sama marki brenndar og bjargráð ríkisstjórnarinnar - fátækleg.  

            Sveitarfélagið Hornafjörður var eitt þeirra svæða sem ekki naut uppgangsins á góðæristímabilinu nema að takmörkuðu leyti. Af þeim sökum m.a. finnum við ekki með jafn áþreifanlegum hætti fyrir hinni kröppu niðursveiflu í atvinnulífinu sem þjóðfélagið gengur nú í gegnum. Fallið er ekki jafn hátt og hjá þeim sem fóru með himinskautum í góðærinu.

Hátt framkvæmdastig - traust fjármálastjórn

Góðærisins gætti vissulega á Hornafiðri í einhverjum mæli, t.d. í verulega auknum tekjum sveitarfélagsins í gegnum jöfnunarsjóð enda eru þær beintengdar við veltu ríkissjóðs. Þær tekjur hafa svo snarlækkað aftur í kjölfar hrunsins. Bæjarfulltrúum hefði verið í lófa lagið að eyða þeirri tekjuaukningu með stæl á skömmum tíma. En það var ekki gert. Tímabundinn aukning tekna úr jöfnunarsjóði er ekki nægjanlega sterkur grunnur til að byggja á - ekki síst þegar hún er tilkomin vegna lánadrifinnar þenslu. Við fórum frekar þá leið að halda að okkur höndum, koma í veg fyrir að rekstur blési út og leggja til hliðar fyrir mögru árin.

Framkvæmdir á undanförnum árum hafa verið miklar en samt er staða sveitarsjóðs mjög traust ólíkt mörgum. Þess vegna sjáum við okkur fært að framkvæma fyrir 200 milljónir á ári í þriggja ára fjárhagsáætlun sveitarfélagsins, sem samþykkt var í bæjarstjórn fyrir skemmstu. Okkar mat er að sú upphæð geti stuðlað að því að halda uppi atvinnustigi í sveitarfélaginu á næstu árum. En það skiptir gríðarlegu máli hvernig farið er með þessa fjármuni og leita verður allra leiða til þess að tryggja að þeir skapi eins mörg störf og mögulegt er.

Á næsta kjörtímabili verður bæjarstjórn Hornafjarðar því í aðstöðu til þess að starfa í samræmi við kenningar hagfræðinga um hlutverk opinberra aðila í atvinnulífinu á krepputímum, ólíkt ríkinu og mörgum öðrum sveitarfélögum. Ástæða þess er fyrst og fremst styrk og skynsöm fjármálastjórn á góðæristímabili.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband