Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009
29.7.2009 | 21:28
Lykilorrusta sem skipti engu máli
Í öllum styrjöldum eru háðar nokkrar orrustur sem geyma lykilinn að sigrinum í stríðinu. Í seinni heimsstyrjöldinni var t.d. orrustan um Stalíngrad slík lykilorrusta enda voru úrslit hennar fyrirboði um örlög Nasisma Hitlers í Evrópu.
Andstæðingum Evrópusambandsins á Íslandi er tamt að líta á átökin um Evrópusambandsaðildina sem stríð. Fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins - sá sem kynnti okkur hugtakið "innvígður og innmúraður" - taldi t.a.m. að síðasti landsfundur Sjálfstæðisflokksins yrði lykilorrusta í ESB - málinu. Þeir sem hefðu sigur á þeim fundi yrðu líklegri til þess að standa uppi sem sigurvegarar í ESB - stríðinu. Mér finnst líka eins og fyrrverandi dómsmálaráðherra - sá sem kynnti okkur hugtakið "Baugsmiðlar" - hafi orðað það svo, að engin markverð spor yrðu stigin í Evrópumálum án aðkomu Sjálfstæðisflokksins.
Eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins í mars síðastliðnum - þar sem ræða átrúnaðargoðs þessara tveggja manna vakti reyndar meiri athygli en umræðan um ESB - mátti glöggt greina að andstæðingar ESB töldu sig hafa unnið afgerandi sigur í þessari lykilorrustu. Miðað við spádóma og útreikninga þessara áhrifamanna hefði maður ætlað að örlög ESB umsóknar hefðu verið ráðin þessa dramatísku helgi í Laugardalshöllinni.
Þess vegna hefur það auðvitað komið mörgum á óvart, sem mark tóku á þessum áhrifamiklu mönnum, að ekkert af þessu hefur gengið eftir. Alþingi samþykkti að sækja um aðild að Evrópusambandinu og utanríkisráðherrar ESB samþykktu - samhljóða - á fundi sínum fyrir skemmstu að vísa umsókn Íslands til framkvæmdastjórnar ESB. Allt þetta hefur gerst án aðkomu Sjálfstæðisflokksins - fyrir utan tvær þingkonur flokksins, sem ákváðu að láta hagsmuni flokksins víkja fyrir hagsmunum þjóðarinnar í þessu máli.
Mesta höggið fyrir marga Sjálfstæðismenn er auðvitað sú staðreynd að þetta stóra og mikilvæga skref í mótun utanríkisstefnu Íslendinga hafi verið tekið án þess að þeir hafi nokkuð komið nálægt því. Sérstaklega á þetta við um þann arm flokksins sem er hallur undir frekari alþjóðlega samvinnu og telur að efnahagstilraun okkar með örmynt í ólgusjó alþjóðlegra fjármála hafi brugðist. Hinn hópurinn, sem einfaldlega er á móti öllu er varðar ESB, telur þessa staðreynd auðvitað litlu skipta.
Yfirherráð ESB - andstæðinga Sjálfstæðisflokksins virðist því hafa misreiknað sig verulega þegar það lá yfir stríðskortunum í aðdraganda landsfundar - lykilorrustunni - örlagaveturinn mikla 2008 - 2009. Baráttan var til lítils og margir lágu í valnum að óþörfu.
26.7.2009 | 18:08
Vilja Alþingis frestað?
Stjórnskipun Íslands byggir á því að ríkisstjórn sækir umboð sitt til Alþingis. Alþingismenn sækja hins vegar umboð sitt beint til kjósenda. Það er því ríkisstjórnarinnar að framfylgja vilja Alþingis.
Nú hefur verið samþykkt á Alþingi að fela ríkisstjórninni að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Sú ákvörðun er algerlega óháð öðrum málum sem verið er að ræða nú um stundir á þinginu - m.a. annars lausn Icesave deilunnar.
Nú bregður svo við að einn ráðherra ríkisstjórnarinnar vill hunsa vilja Alþingis. Hann vill fresta aðildarviðræðum vegna þess að hann tengir umsóknina við lausn Icesave deilunnar. Í ályktun Alþingis kemur hvergi fram að bíða skuli með umsóknina þar til önnur snúin mál hafi verið leyst.
Þess vegna kemur afstaða ráherrans á óvart og hlýtur að gera setu hans við ríkisstjórnarborðið snúna. Hann hlaut að átta sig á því þegar hann tók sæti í þessari ríkisstjórn að þessi staða gæti komið upp - að sótt yrði um aðild - vegna þess að ríksstjórnarsáttmálinn er mjög skýr í þess efni.
Hafi ráðherrann haft uppi efasemdir um vilja sinn til þess að framfylgja ákvörðunum þjóðþingsins í þessu mál þá hefði hann aldrei átt að taka sæti við ríkisstjórnarborðið.
En kannski ætti þetta ekkert að koma á óvart frá manni sem samþykkir að taka sæti í ríkisstjórn, sem byggir sitt samstarf m.a. á því - skv. stjórnarsáttmálanum - að leggja fram þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að ESB, en kýs svo gegn tillögu sinnar eigin ríkisstjórnar þegar á hólminn er komið. Ummæli hans í dag eru því kannski bara rökrétt framhald af vitleysunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.7.2009 | 23:18
Svipurnar dregnar fram
Í ESB umræðunni er vandfundin sú skoðun sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur ekki haft á þeim málum frá því í nóvember og þar til nú.
Því er varaformanni flokksins nokkur vorkunn og töluverður vandi á höndum eigi hún að geta gengið í takt við formanninn. Hún - eins og aðrir landsmenn - var orðin ringluð á því að vakta skoðanir formannsins frá degi til dags.
Á miðstjórnarfundi flokksins í dag tóku menn því fram svipurnar og handjárnin og létu varaformanninn finna fyrir því.
Sá sem hafði mesta ánægju af því að handleika svipuna var fyrrverandi framkvæmdastjóri flokksins og fyrrverandi varaformaður bankastjórnar Landsbankans.
Sjálfstæðisflokkurinn hættir ekki að koma á óvart.
17.7.2009 | 00:24
Margbreytileg sannfæring
Fjórum nýjum þingmönnum undir merkjum Borgarahreyfingarinnar skolaði á þing í vor á öldu lýðræðsvakningar í kjölfar hinnar svokölluðu búsáhaldabyltingar. Ekki skal lítið úr því gert að því fylgir vafalaust mikið álag að standa undir þeim fjölbreyttu væntingum sem eru gerðar til þingmanna sem kosnir eru á þing í kjölfar slíkrar byltingar.
Það er ekki lítið verk að vera boðberar nýrra tíma, siðbótar, lýðræðisumbóta og heiðarlegra stjórnmála - ekki heiglum hent gæti maður freistast til að segja. Að mati margra þeirra, sem mjög svo töluðu fyrir siðbót í íslenskri pólitík í aðdraganda kosninga, var forsenda þess að nýir tímar gætu haldið innreið sína í íslenska póltík sú að fram kæmi fram ný hreyfing, sem ætti ekkert skylt við hinn alræmda fjórflokk.
Þrælslund og ótti þingmanna fjórflokksins alræmda við að ganga gegn flokksviljanum í gegnum árin hefði verið svo takmarkalaus að nánast enginn þingmaður fjórflokksins alræmda hefur nokkurn tímann greitt atkvæði samkvæmt títtnefndri sannfæringu - eingöngu eftir flokkslínum. Sennilega er þetta eilítil oftúlkun hjá mér en engu að síður var það svo að fólk taldi að siðbót og lýðræðisumbótum yrði ekki hægt að berjast fyrir innan gamla flokkakerfisins.
Margt af þessu má eflaust til sanns vegar færa. Flokkarnir hafa t.d. alltaf átt erfitt með að koma á stjórnarskrárbreytingum - þar hafa þröngir hagsmunir þingmannanna sjálfra oft ráðið för. Síðustu ár hafa Evrópumálin líka þvælst fyrir flokkunum. Þeir hafa ekki getað klárað þau mál sjálfir og hafa líka reynst óviljugir til þess að eftirláta kjósendum að leiða þau til lykta. Í þeim málum hafa sumir flokkar viljað láta flokkshagsmuni ganga framar þjóðarhag. En með samþykkt Alþingis í dag er sem betur fer búið að brjóta það ægivald á bak aftur.
En framganga þingmanna Borgarahreyfingarinnar - sem voru um margt efnilegir og mörgum þóttu þeir vera sem ferskur andvari um sali hins staðnaða Alþingis - í umræðunum um ESB tillögu ríkisstjórnarinnar hefur verið með þeim hætti að vafalaust velta margir því núna fyrir sér hvort ekki hafi verið betur heima setið en af stað farið. Það er a.m.k. erfitt að færa gild rök fyrir því að frammistaðan hafi verið í samræmi við hugmyndir fólks um siðbót og lýðræðisumbætur í íslenskum stjórnmálum.
Það þarf því ekki að undra að mikil ólga sé innan Borgarahreyfingarinnar vegna málsins. En til þess að allrar sanngirni sé gætt er rétt að halda því til haga að ekki tók allur þingflokkur hreyfingarinnar þátt í þessari undarlegu hrossakaupa - og kúgunarpólitík. Þráinn Bertelsson ákvað að standa með sannfæringu sinni og þjóðinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.7.2009 | 19:06
Skemmtilegur leikur
Þrautakóngur er skemmtilegur leikur. Börn og ungmenni hafa skemmt sér í þessum leik kynslóð fram af kynslóð. Leikurinn felst í því að stjórnandinn (þrautakóngurinn) í leiknum hleypur með hóp fólks á eftir sér og hópurinn á fylgja þrautakóngnum eftir og líkja eftir öllum hreyfingum hans. Þetta er ekki alltaf auðvelt fyrir hópinn og villast sumir af leið. Eftir því sem þrautakónginum tekst að rugla fleiri úr hópnum í ríminu þeim mun betri er hann talinn vera.
Besti þrautakóngurinn í íslenskum stjórnmálum í dag er Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Honum hefur tekist að hafa svo margar skoðanir í Evrópumálum að fylgismenn eiga erfitt með að átta sig á þeim öllum - og hafa sumir fylgismenn hans villst af leið. Hann hefur sveigt frá hægri til vinstri með fimlegum hreyfingum, hlaupið af krafti beint af augum og svo - án nokkurrar viðvörunar - hefur hann komið öllum að óvörum með því að hlaupa aftur á bak. Þetta gera aðeins bestu þrautakóngar enda hafa margir fylgismenn hans staðið einir eftir á pólitískum berangri eftir árangurslausar tilraunir til þess að fylgja þrautakónginum eftir.
Einn úr hópnum (þingmaður úr Eyjum), sem reynt hefur að elta kónginn, telur t.d. að innganga í ESB jafngildi því að ganga í hið nýja Sovét á meðan annar fylgismaður (stærðfræðingur og frændi kóngsins) telur að hafni þingið aðildarviðræðum sé það uppskrift að áframhaldandi stöðnun og þrengingum þjóðarinnar um langa framtíð" - og spyr í kjölfarið hver vilji bera ábyrgð á því.
Eins og áður segir þá er takmark þrautakóngsins að rugla eins marga úr hópnum í ríminu og ljóst að það markmið hefur fullkomlega náðst í þessu tilvikum. Eflaust er erfitt að finna dæmi um aðra eins frammistöðu.
Þrautakóngur er samt sama marki brenndur og aðrir leikir. Maður fær leið á honum ef hann er langdreginn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.7.2009 | 22:00
Hvenær sækir maður um aðild og hvenær sækir maður ekki um aðild?
Það er sennilega erfitt starf að vera þingmaður í dag. Endurreisnin í kjölfar hrunsins á haustdögum er þungt í vöfum og gengur hægt enda gríðarstórt verkefni. Auk þess er ljóst að aðgerðirnar sem grípa þarf til í ríkisfjármálunum í tengslum við endurreisnina verða ekki til vinsælda fallnar.
Þar fyrir utan er líka verið að ræða mjög stór mál á þessu sumarþingi, svo stór að einhverjir þingmenn - þrátt fyrir átta vikna umræður í nefnd - eiga erfitt með að átta sig á grundvallaratriðum þeirra - misskildu bara allt saman.
ICE SAVE málið og þingsályktunartillaga um aðildarumsókn að ESB eru fyrirferðarmikil mál og skiljanlegt að einstaka þingmenn eigi erfitt með að meðtaka allar nauðsynlegar upplýsingar - t.d. hvað felst í orðinu aðildarumsókn. Þýðir það kannski í rauninni könnunarviðræður en ekki að sækja um aðild að einhverju? Þetta er misskilningur sem Georg Bjarnfreðarson ætti jafnvel erfitt með að toppa.
Útlit er fyrir að núna sé þingmeirihluti til staðar fyrir aðildarumsókn að ESB. Því ber að fagna. Þar með er búið að setja þetta flókna og erfiða mál í ákveðinn farveg og það verður síðan verkefni kjósenda að skera endanlega úr um það hvort við göngum í ESB eða ekki. Einfaldara getur það varla verið. Alþingi á vera duglegra að skjóta málum, sem stjórnmálaflokkum er um megn að leysa, til þjóðarinnar með þessum hætti.
Annað atriði í umræðunni um ESB sem gerir starf þingmannsins svolítið flókið um þessar mundir er að þeir fá misvísandi skilaboð úr umhverfinu og sótt er að þeim úr gagnstæðum áttum.
Sumum þingmönnum er sagt að þeir verði að greiða atkvæði í samræmi sannfæringu sína en öðrum er sagt að þeir megi ekki ganga gegn flokkssamþykktum. Sannfæringarrökunum er beint að þeim þingmönnum VG, sem ætla greiða þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar atkvæði sitt, en flokkssamþykktunum er beint að þeim þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem áður hafa lýst yfir stuðningi við aðildarviðræður. Erfitt er því að átta sig á því hvert leiðarljós þingmanna á yfir höfuð að vera.
Hjá eindregnum andstæðingum ESB finnst mér þó meginstefið vera það að þingmenn VG eiga að fylgja sinni eigin sannfæringu en þingmenn Sjálfstæðisflokksins eiga að fylgja flokkssamþykktum. Slík formúla ætti væntanlega - að þeirra mati - að tryggja rétta útkomu, þ.e. að koma í veg fyrir að þjóðin fái að taka upplýsta ákvörðun um þann samning sem kæmi út úr aðildarviðræðum.
8.7.2009 | 17:28
Að ábyrgjast annarra manna skuldir
Öll þekkjum við fólk sem virðist alltaf vera tilbúið að leita allra leiða til þess að komast hjá því að borga. Slíku fólki vilja flestir sneiða hjá ef þess er nokkur kostur - hvað þá að eiga viðskipti við slíkt fólk. Fólk af þessu sauðahúsi beitir gjarnan fyrir sig smásmugulegum lagatæknilegum rökum sem eiga að styrkja málstað þess - skítt með siðferðislegar skyldur eða anda laganna, ef lagabókstafurinn er okkur í hag þá skulum við nota hann. Ef sjónarmið eins og þessi væru ríkjandi í ICE SAVE deilunni þá er hætt við því að eins færi fyrir Íslendingum og því fólki, sem alltaf vill komast hjá því að borga - sneitt yrði hjá okkur í alþjóðaviðskiptum. Hver vill eiga viðskipti við þjóð sem ekki stendur við skuldbindingar sínar og er alltaf tilbúin að hengja sig í lagabókstaf til þess að komast hjá því að borga - jafnvel þótt stjórnvöld hafi margítrekað haldið hinu gagnstæða fram.
Þungur dómur yfir einkavæðingunni
Það er fullkomlega skiljanlegt að íslenskir skattgreiðendur vilji ekki bera ábyrgð á skuldum óreiðumanna í útlöndum eins og bankastjórarnir og eigendur bankanna voru kallaðir í frægu Kastljósviðtali skömmu eftir fall bankanna. Harðari dóm yfir einkavæðingu bankanna í upphafi aldarinnar er varla hægt að hugsa sér. En þessi harði dómur vakti sérstaka athygli vegna þess að hann kom frá manninum, sem öðrum fremur var áhrifavaldur í sölu ríkisbankanna. Ekki seldi hann óreiðumönnum bankana? Ég kýs að líta svo á að þeim, sem stýrðu sölu ríkisbankanna, hafi ekki verið kunnugt að um óreiðumenn væri að ræða þegar bankarnir voru einkavæddir 2002 - þó svo annað hafi komið í ljós sbr. fyrrnefnt Kastljósviðtal. Hafi þeir aðilar, sem stýrðu einkavæðingarferlinu, hins vegar haft minnstu efasemdir um getu kaupendanna til þess að stýra bönkum gætu einhverjir freistast til að yfirfæra þau þungu orð og þá þungu dóma, sem nú heyrast í umæðunni, um fólkið sem er upptekið við að moka annarra manna flór, á lykilmennina sem stóðu í brúnni þegar viðskiptabankarnir voru einkavæddir. Ákvörðunin" um að binda íslensku þjóðina á skuldaklafa og að skuldsetja ófæddar kynslóðir Íslendinga var ekki tekin með því samkomulagi sem núna er rætt á Alþingi heldur með stórgallaðri einkavinavæðingu ríkisbankanna fyrir nokkrum árum. Það hefur reynst okkur dýrkeypt að í einkavæðingu bankanna var lögð alveg sérstök áhersla á að eftir stæði a.m.k. einn banki í eigu manna í kallfæri við Flokkinn. Til þess að koma í veg að nokkur misskilningur myndi eiga sér stað í samskiptum bankastjórnarinnar og Flokksins var framkvæmdastjóri Flokksins gerður að varaformanni bankastjórnarinnar. Fjármálaráðherra hefur sterk rök fyrir því að þeir 11 milljarðar sem fengust við sölu Landsbankans séu að reynast þjóðarbúinu dýrustu milljarðarnir í sögu lýðveldisins - og til þess að kóróna vitleysuna fara Björgúlfsfeðgar nú fram á það við Nýja Kaupþing að um helmingur skuldar þeirra vegna kaupanna á Landsbankanum verði afskrifaður.
Ábyrgð íslenskra stjórnvalda
Eins ömurlegt og það er fyrir íslenska skattgreiðendur að greiða skuldir sem þeir stofnuðu ekki til verður ekki framhjá því litið að ábyrgð íslenskra stjórnvalda í þessu máli er mikil. Fyrst ber auðvitað að nefna að einkavæðing íslensku bankanna brást algjörlega. Íslenskir eftirlitsaðilar brugðust líka og leyfðu Landsbankanum m.a. að stofna útibú í Bretlandi og Hollandi, sem ætlað var að safna innlánum, fullir meðvitundar um að þá væri verið að skuldbinda Tryggingasjóð innistæðueigenda á Íslandi. Seðlabankinn afnam líka bindiskyldu bankanna og kynnti þar með enn frekar undir innlánasöfnun þeirra á erlendri grund. Bresk og hollensk stjórnvöld þrýstu á að ICE SAVE reikningarnir yrðu færðir í dótturfélög og yrðu þar með á ábyrgð þarlendra tryggingasjóða en við þeim tilmælum var ekki brugðist. Einnig hafa íslensk stjórnvöld margítrekað að þau myndu styðja við Tryggingasjóðinn til þess að hann gæti staðið við lágmarksskuldbindingar sínar gagnvart innistæðueigendum samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins sem innleidd var í íslensk lög 1999. Þessi upptalning sýnir svo ekki verður um villst að íslensk stjórnvöld bera mikla ábyrgð í þessu máli.
Samkomulag forsenda alþjóðlegrar samvinnu
Veigamestu rökin fyrir því að hafna ekki því samkomulagi, sem nú liggur á borðinu, á milli Íslendinga annars vegar og Breta og Hollendinga hins vegar eru hin pólitísku rök - fyrir utan það að dómstólaleiðin er ekki fær leið. Viðsemjendur okkar, önnur ESB ríki og Noregur hafa ekki fallist á að fara dómstólaleiðina og þá er sú leið ekki fær þar sem báðir aðilar verða vera sammála um þá leið til þess að hún sé fær.
Ákvörðun um að hafna samkomulaginu er ávísun á einangrun Íslands frá alþjóðasamfélaginu. Einangrun landsins mun ekki stuðla að skjótari endurreisn. Fyrirgreiðsla AGS er háð samkomulagi um ICE SAVE skuldbindingarnar og lánafyrirgreiðsla annarra landa er háð samstarfinu við AGS. Þannig að það er margt sem hangir á spýtunni vegna þessarar ákvörðunar og þingmenn geta ekki leyft sér þann munað að horfa á samningana við Breta og Hollendingar sem einangrað fyrirbæri vegna þess að samningarnir eru forsenda áframhaldandi samstarfs við alþjóðasamfélagið.
Þetta vita þingmenn og þess vegna talar núna nánast enginn um að ekki eigi að semja við Hollendinga og Breta heldur er deilt um það hvort samningurinn sé ásættanlegur. Þetta er mikilvægt að hafa í huga - það er nánast algjör pólitísk samstaða á Alþingi um að fara samningaleiðina. Hvort okkur bjóðast betri samningar ef Alþingi fellir samninginn sem núna er verið að ræða á þingi er erfitt að fullyrða um. Allt eins má segja að okkur byðist lakari samningur en þessi. Þess vegna er talsvert hættuspil að fella samninginn og reyna að semja upp á nýtt. Hugsanlegt er að ná mætti betri samningum í annarri lotu en allt eins má færa rök fyrir því að okkur byðist verri samningur. Mikilvægast er að eyða óvissu sem allra fyrst enda er það grundvallarforsenda fyrir áframhaldandi endurreisnarstarfi. Þannig geta stjórnvöld og atvinnulíf líka farið að einbeita sér að öðrum þáttum endurreisnarinnar án þess að eiga það á hættu að litið verði á Íslendinga og íslensk fyrirtæki eins og manninn, sem alltaf er tilbúinn að leita leiða til þess að komast hjá því að borga.
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006