Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009
22.4.2009 | 12:35
Sjálfstæðisflokkurinn lofar öðru efnahagshruni
Hef birt efitirfarandi pistil á á nokkrum veflmiðlum í ljósi hræðuáróðurs bæjarstjóra á vegum Íhaldsins undanfarna daga:
Ef Elliði Vignisson, Halldór Halldórsson og Kristinn Jónasson, sem hingað til hafa verið taldir málsmetandi bæjarstjórar, væru vinstri menn myndu fyrirsagnirnar á greinum þeirra vera í líkingu við þá yfirskrift sem er á þessu litla greinarkorni. Málefnafátækt og hræðlsuáróður Sjálfstæðismanna náði áður óþekktum hæðum með grein þeirra félaga á eyjar.net, rikivatnajökuls.is og í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag - hefur þó ýmislegt litið dagsins ljós úr þeim herbúðum í kosningabaráttunni. Ekki kom greinin algjörlega á óvart þar sem hún kemur í beinu framhaldi af hinni grímulausu varðstöðu Sjálfstæðisflokksins á Alþingi um sérhagsmuni og völd þar sem Sjálfstæðisflokkurinn lagðist flatur gegn ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir í þjóðareign og lýsti einnig yfir fullnaðarsigri á lýðræðisumbótum í stjórnarskrármálinu á Alþingi.
Feigðarflan bæjarstjóranna
Bæjarstjórarnir þrír, sem vilja vafalaust áfram teljast til málsmetandi bæjarstjóra, beita gamalkunnu bragði, sem Davíð Oddsson - átrúnaðargoð þeirra - beitti gjarnan; að uppnefna andstæðinga sína eða það sem andstæðingarnir boðuðu. Það gera þeir til þess að renna stoðum undir þá kenningu sína að vinstri flokkarnir - og þá alveg sérstaklega Samfylkingin - ætli sér að leggja sjávarútveg á Íslandi í rúst - hvorki meira né minna.
Heimska Samfylkingarfólks er auðvitað mjög skiljanleg vegna þess að í henni er ekkert nema eitthvað mennta - og menningarelítufólk úr 101 Reykjavík sem ekkert veit í sinn haus - fólk sem heldur að mjólkin komi úr fernunni og að peningarnir verði til í bönkunum. Í Samfylkingunni er auðvitað ekkert fólk af landsbyggðinni sem sviðið hefur það mikla óréttlæti sem kvótakerfið hefur stuðlað að, ekkert venjulegt launafólk sem hefur blöskrað að nokkrir einstaklingar hafi getað auðgast óheyrilega og lagt heilu byggðalögin í rúst með því að selja afaheimildirnar og auðvitað ekkert fólk af landsbyggðinni sem ber velferð sinnar heimabyggðar fyrir brjósti. Því þá væri það að styðja við hina svokölluðu feigðarleið - eins og bæjarstjórarnir uppnefna sjávarútvegsstefnu Samfylkingarinnar svo smekklega.
Röksemdafærsla bæjarstjóranna stenst enga skoðun vegna þess að þeir byggja afstöðu sína á því að kvótastaðan í þeirra heimabyggð er sterk. Ef breyting yrði á því - og það getur alltaf gerst í núverandi kerfi - yrðu þeir fyrstu mennirinir til þess að heimsækja Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra í 101 Reykjavík og krefjast aðgerða. Þá myndu þessir ágætu bæjarstjórar vakna upp við vondan draum og átta sig á því, að sá leiðangur sem þeir lögðu upp í fyrir kosningarnar 2009, þar sem hræðsluáróður og varðstaðan um völd og sérhagsmuni voru leiðarljósin, reyndist mikið feigðarflan.
Það er einmitt vegna þessarar stöðugu óvissu sem byggðirnar búa við að Samfylkingin leggur til sáttargjörð í sjávarútvegi. Sáttargjörð í sjávarútvegi er einnig mikilvæg til þess að koma í veg fyrir að hægt sé að veðsetja óveiddan fiskinn í sjónum - sameign þjóðarinnar - en brask með aflaheimildirnar var einn þeirra þátta sem stuðluðu að eigna - og fjármálabólunni, sem endaði með efnahagshruni á haustdögum 2008. Allar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu verða að miða að því að koma í veg fyrir að slíkt geti gerst aftur og tryggja stöðu og afkomu byggðanna um allt land.
Stefnuleysi Sjálfstæðisflokksins
Eina sem hægt er að taka undir með bæjarstjórunum er að kosningabaráttan hefur ekki snúist nógu mikið um málefnin. En þar er fyrst og síðast um að kenna getu - og stefnuleysi Sjálfstæðisflokksins sem leitar þá í smiðju skrímsladeildarinnar sinnar sem hefur í nógu að snúast við útbúa hræðsluáróðurinn til þess að breiða yfir málefnafátæktina í Valhöll. Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn í herðar niður í stærsta pólítíska máli samtímans, sem er spurningin um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna - ESB - og í gjaldmiðilsmálum. Og á meðan Íhaldið skilar auðu í þessum málum má færa rök fyrir því að flokkurinn stefni í áttina að nýju efnahagshruni - eins og Benedikt Jóhannesson hefur bent á.
Niðurstaðan er því sú að bæjarstjórarnir þrír hafa tekið sér stöðu með sérhagsmunum gegn almannahagsmunum. Með slíka málefnastöðu þarf ekki að undra að Sjálfstæðismenn - eins og bæjarstjórarnir þrír - veigri sér við því að ræða málefnin enda hafa þeir ekki upp á neinar lausnir að bjóða og þegar staðan er þannig er þægilegra að halda uppi hræðsluáróðri. Það er erindi Sjálfstæðisflokksins í stjórnmálum í dag.
Árni Rúnar Þorvaldsson
Höf. er formaður bæjarráðs Hornafjarðar
Skipar 7. sæti á lista Samfylkingarinnnar í Suðurkjördæmi
21.4.2009 | 23:38
Aðeins einn valkostur fyrir stuðningsmenn aðildarviðræðna
Það er deginum ljósara að ef stuðningsmönnum umsóknar að ESB á verða nokkuð ágengt þá verður staða Samfylkingarinnar að vera mjög sterk eftir kosningar. Samfylkingin er eini flokkurinn sem hefur sagt með skýrum og afdráttarlausum hætti að sækja eigi um aðild að ESB, stefna að upptöku Evru með inngöngu í myntbandalag ESB ríkjanna og leggja aðildarsamning undir dóm kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það er ekki lengur hægt að skjóta framtíðinni á frest. Við verðum að takast á við þetta brýnasta og stærsta mál dagsins í dag. ESB aðildarviðræður eru ekki allsherjarlausn en segja má að það verði engin trúverðug lausn á vanda dagsins í dag án aðildarviðræðna.
Andstæðingar og stuðningsmenn aðildar geta rifist í þúsund ár í viðbót. En íslenskur almenningur og atvinnulífið á rétt á því að sjá hvað kemur út úr aðildarviðræðum og segja sitt álit á því. Nú er komið að þvi - ekki er hægt að bíða lengur. Stjórnmálaflokkar geta ekki lengur staðið í vegi fyrir þessu réttlætismáli - þjóðin á rétt á því að segja sína skoðun á málinu.
Krónan er á líknardeild, stærstur hluti atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin kalla á aðildarviðræður og þeir stjórnamálaflokkar sem ekki vilja fara í aðildarviðræður skila auðu í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar - þeir eru án peningamálastefnu sem er stærsta spurniningin sem framboðin verða að svara í þessari kosningabaráttu.
Eina leiðin fyrir þá sem vilja koma Evrópumálunum áleiðis í þessum kosningum er því að kjósa Samfylkinguna.
20.4.2009 | 01:26
Evrópumálin komin á flug
Það hlaut að koma að því í þessari kosningabaráttu að stóru málin fengju eitthvað vægi. Við höfum eytt alltof miklum tíma í hræðsluáróður Sjálfstæðisflokksins um skattahækkanir, fyrningarleið og ESB. Þannig málflutningur hefur dregið athyglina frá stóru málunum - enda vilja Sjálfstæðismenn ekki ræða Evrópumálin þar sem þeir eru klofnir í herðar niður í þeim. En það á ekki að stjórna umræðunni en hefur því miður gert það.
En grein Benedikts Jóhannessonar í Morgunblaðinu fyrir helgi hleypti heldur betur tímabæru lífi í umræðunar og fólk virtist loksins átta sig á mikilvægi málsins. Okkur vantar nothæfan gjaldmiðil og eðlilegasta og raunhæfasta leiðin til þess að bregaðst við því er sú að hefja aðildarviðræður við ESB og stefna að upptöku Evru. Aðrar leiðir eru einfaldlega villuljós sett fram til þess að tefja og rugla umræðuna.
Staðan er einfaldlega þannig að ef okkur auðnast ekki á næstu vikum og mánuðum að sækja um aðild að ESB og setja með því stefnuna á upptöku Evru þá stefnum við hraðbyri í annað efnahagshrun. Það er sorglegt ef það gerist vegna þess að við vitum núna hver leiðin til þess að koma í veg fyrir það er, þ.e. að sækja um aðild að ESB, tengja krónuna við Evru og stefna að upptöku Evru með því að gerast fullgildir meðlimir í myntbandalagi ESB.
17.4.2009 | 09:17
Fullnaðarsigur sérhagsmunanna
Hótanir Sjálfstæðismanna um málþóf hafa borið árangur og það telja þeir vera fullnaðarsigur. Þeirra sigur er sigur sérhagsmunanna yfir almannahagsmunum og það er auðvitað gott fyrir kjósendurr að sjá núna fyrir kosingar hversu mikla hamingju þessi sigur sérhagsmunanna veitir þeim - og hvar tryggð þeirra liggur.
Fullnaðarsigur Íhaldsins fólst í því að koma í veg fyrir lýðræðislega afgreiðslu þingsins á eðlilegum og sanngjörnum breytingum á stjórnarskránni, sem allir flokkar á Alþingi nema Sjálfstæðisflokkurinn, eru sammála um. Þetta tókst þeim með því að hóta málþófi.
Það sem þeim tókst m.a. að koma í veg var:
1. Að afnema varanlega vald til að gefa eða selja einkaaðilum
sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar.
2. Færa almenningi vald til að geta haft bein áhrif á mál milli
kosninga með ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur.
3. Færa almenningi beinna vald til breytinga á stjórnarskrá með ákvæði
um hvernig stjórnarskrá er breytt milli kosninga.
Hér sjáum við auðvitað þann áherslumun sem er á jafnaðarstefnunni annars vegar og varðstöðu Íhaldsins um völd og sérshagsmuni hins vegar. Það er mikilvægt að þessu sé til haga haldið.
Yfir þessum fullnaðarsigri gleðjast þér ósegjanlega núna og ganga stoltir til þeirrar kosningabaráttu sem nú stendur yfir. Verði þeim að góðu.
14.4.2009 | 16:26
Hugmyndafræðileg endurnýjun nauðsynleg
Eftirfarandi pistill eftir mig birtist á vefmiðlum í dag:
Árið 1978 var merkilegt ár fyrir margra hluta sakir í sögu landsins eins og fram kom í greinarkorni Helga Ólafssonar, formanns kjördæmissamtaka ungra Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, sem birtist á vef Eyjafrétta og á eyjar.net 9. apríl sl. Margt er líkt með því herrans ári og yfirstandandi ári. Þetta eru bæði ár mikilla breytinga. Þess vegna saknaði ég þess í upptalningu Helga á markverðum atburðum frá 1978 að hann skyldi ekki geta þess að það ár unnu vinstri flokkarnir mikinn kosningasigur. Eftir þann mikla kosningasigur vinstri flokkanna settist Jóhanna Sigurðardóttir á þing í fyrsta sinn og þar situr hún enn eins og Helgi bendir réttilega á. Árið 1978 naut Jóhanna Sigurðardóttir trausts fólksins í landinu og það gerir hún enn - og það hefur aukist frekar en hitt á þessum rúmu þrjátíu árum.
Fólkið brást en ekki stefnan - hálmstrá Íhaldsins
Það er misskilningur Sjálfstæðismanna, að búsáhaldabyltingin svokallaða hafi eingöngu snúist um að kalla nýtt fólk til starfa. Sú bylting snerist ekki síður um kröfuna um ný og breytt vinnubrögð, nýja hugmyndafræði, opið og skilvirkt stjórnkerfi og uppgjör við frjálshyggju og græðgisvæðingu síðustu ára undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Jóhanna Sigurðardóttir hefur ekki brugðist trausti eða trúnaði fólksins í landinu og því treystir það henni til að leiða endurreisnina - hvað sem langri setu á Alþingi líður. Það mætti jafnvel ganga svo langt að segja að það sé beinlínis vegna verka hennar og framgöngu á Alþingi á þessum rúmu þrjátíu árum að fólk treystir henni til áframhaldandi góðra verka.
Ástæðan fyrir því að Sjálfstæðismenn, eins og Helgi, skilja þetta ekki er m.a. sú að Sjálfstæðisflokkurinn komst að þeirri gagnmerku niðurstöðu á landsfundi sínum að fólkið hafi brugðist en ekki flokkurinn eða stefnan. Þeirra niðurstaða var s.s. sú að Geir Hilmar Haarde, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Davíð Oddsson, Björn Bjarnason, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Árni Johnsen og fleira gott Sjálfstæðisfólk auk samstarfsmanna úr öðrum flokkum beri persónulega ábyrgð á hruninu. Almenningur virðist hins vegar ekki alveg ætla að fallast á þessa söguskýringu Íhaldsins enda sér hvert mannsbarn að sú efnahagslega kollsteypa, sem skekið hefur landið, verður ekki skrifuð á nokkra einstaklinga - heldur er hér um að ræða hugmyndafræðilegt gjaldþrot frjálshyggjunnar - hins hugmyndafræðilega grunns Sjálfstæðisflokksins.
Afsögn upphaf endurskipulagningar
Persónulegar ábyrgðir virðast reyndar vera leiðarstefið í hrunadansi Íhaldsins þessa dagana enda tók fyrrverandi formaður flokksins, Geir H. Haarde, einn á sig alla ábyrgð vegna tugmilljóna styrkveitinga frá FL Group og Landsbankanum korteri fyrir gildistöku laga sem bönnuðu slíka styrki til stjórnmálaflokka. Aðstoðarmaður Geirs á þeim tíma - og náinn samstarfsmaður hans í pólitík um árabil - var Ragnheiður Elín Árnadóttir, núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Kraganum en hún hefur tekið við sæti þeirra Kragamanna af Árna M. Mathiesen á lista Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. Að fá nýjan fallhlífarframbjóðanda úr Kraganum er kannski annað dæmi um endurnýjun" á lista Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi - hver veit?
Hinn mikli áhugi Helga á oddvita Samylkingarinnar í Suðurkjördæmi, Björgvini G. Sigurðssyni er athyglisverður. Það er ágætt og eðlilegt að Helgi skuli hafa áhuga á honum vegna þess að með afsögn sinni og brottvikningu stjórnar Fjármálaeftirlitsins hóf Björgvin G. Sigurðsson nauðsynlega endurskipulagningu á íslensku fjármálaumhverfi. Þannig skapaðist grundvöllur fyrir endurreisn trúverðugleika íslensks fjármálakerfis. Það er í raun þakkarvert að því sé til haga haldið af mönnum eins og Helga Ólafssyni.
Nýir leikmenn - sama leikkerfið
Af því að Helga er umhugað um endurnýjun er vert að velta því fyrir sér að hann þarf að leita niður í 4. sætið á lista þeirra Sjálfstæðismanna til þess að finna dæmi um verðuga endurnýjun á framboðslistanum - og til þess að finna glæsilegan fulltrúa Eyjamanna. Augljóst er af hverju Helgi hoppar yfir fyrstu tvö sætin á listanum - a.m.k. hvað varðar viðmiðin um nauðsyn endurnýjunar í íslenskri pólítík. En meginþunginn í málflutningi Sjálfstæðismanna virðist vera sá að nóg sé að benda á ný andlit, nýtt fólk - bara eitthvað nýtt.
Hvað sem allri endurnýjun líður hjá Sjálfstæðisflokknum þá hefur engin hugmyndafræðileg endurnýjun átt sér stað hjá flokknum. Flokkurinn telur að nóg sé að skipta nokkrum gömlum leikmönnum út af sem ekki hafa staðið sig - að þeirra eigin mati - og setja nýja og ferska" leikmenn á völlinn í þeirra stað. Þeir hyggjast þó áfram byggja á sama leikkerfinu - og reyndar að stórum hluta á sömu leikmönnunum sbr. fyrstu tvö sætin í Suðurkjördæmi. Leikkerfið byggir á sömu hugmyndafræði og Sjálfstæðisflokkurinn hefur fylgt á valdastóli sínum síðastliðin átján ár - hugmyndafræði frjálshyggjunnar, sem beðið hefur algjört skipbrot - ekki bara á Íslandi heldur á heimsvísu. Hugmyndir Sjálfstæðismanna um uppgjör og endurnýjun vegna efnahagshruns af völdum stefnu flokksins til átján ára birtast því með nýju andliti í 4. sæti á lista þeirra í Suðurkjördæmi. Þrátt fyrir þessa miklu endurnýjun" Íhaldsins er margt sem bendir til að vinstra vorið frá 1978 muni endurtaka sig 25. apríl nk.
Árni Rúnar Þorvaldsson
Skipar 7. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi
10.4.2009 | 21:04
Skýr peningamálastefna er grundvöllur endurreisnar
Niðursveiflan á Íslandi er tvíþætt, annars vegar bankakreppa - hluti af hinum alþjóðlega vanda - og hins vegar gjaldeyriskreppa og hún gerir aðstæður okkar frábrugðnar þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þó má ekki gleyma því að banka - og fjármálakreppan sem skekur heiminn hefur komið sérstaklega illa við Íslendinga, þar sem hér hrundi eitt stykki bankakerfi, sem hafði vaxið svo fiskur um hrygg að íslenska ríkið gat aldrei staðið undir erlendum skuldbindingum bankanna. Bankarnir áttu ekki trúverðugan bakhjarl vegna þess að þeir höfðu vaxið svo hratt og mikið án þess að Seðlabankinn hefði byggt upp nægjanlegar varnir ef illa áraði á mörkuðum. Hvort sem um var að kenna glannaskap bankamanna og svokallaðra útrásarvíkinga eða andvaraleysi eftirlitsstofnana stjórnvalda, þá er ljóst að menn stefndu lengi sofandi að feigðarósi.
Það er t.d. mjög athyglisvert að árið 2005 var íslenska bankakerfið orðið það stærsta í heimi ef miðað er við hlutfall af landsframleiðslu og bakhjarlinn var örmynt og alltof lítill gjaldeyrisvarsjóður Seðlabankans. Þegar hér var komið sögu hefði maður haldið að einhverjar viðvörunarbjöllur hefðu átt að klingja þannig að hvert mannsbarn myndi heyra til þeirra en það gerðist ekki - því miður. Þvert á móti hélt kerfið áfram að blása og tútna út án þess að eftirlitsstofnanir reyndu að hægja á vextinum eða efla varnirnar og sú blanda af mistökum og glannaskakp gat bara farið á einn veg - þann sem við horfum nú upp á og erum að berjast við í dag.
Að vara við eða bregðast við
Því var alla tíð haldið að fólki að einkavæðing bankanna 2003 hefði leyst úr læðingi ótrúlegan kraft, sem væri öllu samfélaginu til heilla - og allir myndu njóta góðs af. Bankarnir og fyrirtæki þeim tengd lögðust í útrás - EES samningurinn gerði þeim það kleift - og margir Íslendingar fylgdust stoltir með strandhöggi hinna nýju íslensku víkinga. Margir fylltust stolti þegar þeir horfðu á þessu athafnaglöðu og framtakssömu menn sem nýttu sér þau tækifæri sem heimurinn hafði upp á að bjóða og skutu öðrum - að því er virtist - ref fyrir rass.
En niðurstaðan - hin harða lending - hefur reynst mörgum þung í skauti og ljóst er að aðgerðir og athafnir þessara sömu manna, sem áður voru dáðir og hvattir áfram, hafa haft skelfilegar afleiðingar á lífsafkomu margra heimila og fyrirtækja í landinu. Kannski voru eftirlitsstofnanirnar sem áttu að gæta almannahagsmuna of litaðar af andrúmslofti aðdáunar og skorti því nauðsynlegt sjálfstraust og bjargráð til þess að taka á þessum öra vexti bankanna. En það var sannarlega hlutverk þeirra.
Það að fyrrverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans skuli koma fram með þá söguskýringu að hann einn hafi varað við því sem gerðist í haust en að allir aðrir hafi skellt við skollaeyrum er hrein móðgun við almenning vegna þess að hans hlutverk var að bregðast við en ekki bara að vara við.
Skýr framtíðarsýn
Hin kreppan, sem gerir stöðu Íslands enn verri en annarra þjóða, er sú djúpa og erfiða gjaldeyriskreppa sem þjóðin stendur frammi fyrir. Enginn þeirra þjóða, sem við berum okkur saman við, hefur þurft að takast á við aðra eins gjaldeyriskreppu og við horfum nú upp á. Gjaldeyriskreppan hefur leitt flestum það fyrir sjónir - og þeir taka nú undir sjónarmið Samfylkingarinnar - að íslenska krónan getur ekki verið framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar. Til þess séu sveiflur á gengi hennar of miklar með tilheyrandi búsifjum fyrir allan almenning og fyrirtæki. Til þess að skjóta styrkum stoðum undir íslenskt efnahagslíf verðum við að fá öflugan gjaldmiðil sem hægt er að treysta á. En ekki eru allir sammála um leiðirnar að því að fá nothæfan gjaldmiðil fyrir þjóðina.
Samfylkingin er í raun eini flokkurinn með skýra áætlun í þessum efnum. Aðrar flokkar skila auðu þar sem þeir viðurkenna flestir að ekki sé að hægt að stóla á krónuna til framtíðar án þess að bjóða upp á raunhæfar lausnir til framtíðar. Stefna Samfylkingarinnar er hins vegar mjög skýr, hefja aðildarviðræður við ESB strax með það að markmið að verða fullgildir meðlimir í myntbandalagi Evrópusambandsins. Aðildarsamningur verður lagður fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu - um það eru reyndar allir sammála.
Hvernig menn ætla að haga peningamálum þjóðarinnar til framtíðar er stærsta spurningin sem stjórnmálaflokkarnir verða að svara í yfirstandandi kosningabaráttu. Vegna þess að án skýrrar og trúverðugrar peningamálastefnu er hætt við að sú endurreisn, sem allir stefna að, verði endasleppt.
Þeir flokkar sem skorast undan því að svara þessari mikilvægustu spurningu kosingabaráttunnar eru að bregðast kjósendum.
9.4.2009 | 00:46
Fjölmenni við opnun kosningaskrifstofu
Margt var um manninn við opnun kosningaskrifstofu Samfylkingarinnar í Miðbæ á Höfn í dag. Björgvin G. Sigurðsson, Oddný G. Harðardóttir og Róbert Marshall mættu á opnunina en þau skipa fyrstu þrjú sætin á lista flokksins í Suðurkjördæmi.
Þau fluttu stuttar ræður þar sem þau fóru yfir verkefni jafnaðarmanna í þeirri endurreisn sem nú er unnið að og þau ræddu einnig þá kosningabaráttu sem nú stendur yfir. Greinilegt er að það er mikill baráttuhugur í fólki og það skynjar hversu mikilvægt það er að jafnaðarstefnan verði leiðarljós okkar við endurreisn íslensks fjármála - og efnahagskerfis.
Að loknum ræðum frambjóðenda gafst gestum og gangandi tækifæri til þess að spjalla við frambjóðendur um stefnumálin og baráttumálin í þessari kosningabaráttu. Fólk nýtti þetta tækifæri svo sannarlega vel. Það var mjög ánægjulegt.
Kosningaskrifstofan verður opin fram yfir kosningar og verður opnunartími nánar auglýstur síðar.
Myndir frá opnuninni er hægt að nálgast hér.
8.4.2009 | 01:07
Kosningaskrifstofa opnuð
Kosningaskrifstofa Samfylkingarinnar á Hornafirði verður opnuð á morgun, miðvikudag 8. apríl kl. 17:30 í Miðbæ á Höfn.
Gestir opnunarinnar verða þrír efstu menn á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi; Björgvin G. Sigurðsson, Oddný G. Harðardóttir og Róbert Marshall. Húsið verður opnað kl. 17:30 eins og áður segir og verður opið til kl. 19:00.
Heitt verður á könnunni og allir eru velkomnir til þess að ræða við frambjóðendur og kynna sér stefnumálin.
Skrifstofan verður svo opin fram að kosningum og verða opnunartímar skrifstofunnar nánar auglýstir síðar. Ef ykkur vantar einhverjar upplýsingar þá er símanúmerið á skrifstofunni 618-8396.
8.4.2009 | 00:58
Verkið hafið undir forystu Jóhönnu
Það er sannarlega verk að vinna fyrir ríkisstjórn Samfylkingar og VG, þ.e. að taka til eftir átján ára valdasetu Íhaldsins. Það er ekki létt verk fyrir ríkisstjórnina að endurreisa velferðarkerfið að norrænni fyrirmynd eftir stanslausan átroðning Sjálfstæðismanna gegn því á valdatíma sínum. Velferðarbrúin verður ekki byggð á einni nótt enda horfir þjóðin fram á einhverjar mestu efnahagsþrengingar sem hún hefur gengið í gegnum - sem er önnur afleiðing af átján ára valdasetu Íhaldsins.
Þegar litið verður til baka og verk þessarar ríkisstjórnar dæmd, með hliðsjón af þeim ótrúlegu þrengingum sem þjóðin er núna að ganga í gegnum í boði Sjálfstæðisflokksins, þá mun koma í ljós að um mjög starfsama stjórn er að ræða. Það mun koma í ljós að þetta er ríksstjórn, sem setur hag heimila og atvinnulífs í fyrsta sæti. En fólk verður hins vegar að gera sér grein fyrir því að erfiðleikarnir sem að okkur steðja eru miklir og ekki einfalt að mál að sigla þessu laskaða fleyi heilu og höldnu til hafnar.
Það er því hjákátlegt - ef ekki sorglegt - að fylgjast með aumkunarverðu málþófi Íhaldsins á Alþingi þessa dagana. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins finna sér ekkert betra að gera að en að koma í veg fyrir að vilji meirihluta Alþingis nái fram að ganga og trufla ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem er í óða önn að þrífa upp skítinn eftir þá.
Byggja þarf velferðarbrú | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.4.2009 | 20:59
Anna Margrét Guðjónsdóttir í heimsókn
Anna Margrét Guðjónsdóttir, sem skipar 4. sætið á lista Samfylkingairnnar - baráttusætið - í Suðurkjördæmi var í heimsókn á Hornafirði í síðustu viku. Hún mætti m.a. annars á mjög góðan og fjölmennan bæjarmálafund hjá Samfylkingunni á Hornafirði. Miklar umræður sköpuðust á þeim fundi um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Greina mátti á fólki að það vildi fá tækifæri til þess að kveða upp sinn dóm í þessu máli í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu án grundvelli góðra og hlutlægra upplýsinga. Allir voru sammála um að það myndi aldrei gerast nema sótt yrði um aðild að ESB og samningur borinn undir þjóðina í kjölfarið.
Einnig fórum við í fjölmargar vinnustaðaheimsóknir á ferð hennar um svæðið. Við heimsóttum m.a. Nýheima, Heilbrigðisstofnun Suðausturlands, Ísnet og marga fleiri staði. Að sjálfsögðu hefðum við getað skoðað og heimsótt marga aðra vinnustaði en því miður vannst ekki tími til þess. Á hverjum stað sem við heimsóttum fundum við að það er mikill hugur í fólki og það ætlar ekki að láta tímabundna erfiðleika í þjóðfélaginu trufla sig of mikið. Bjartsýni fólks á framtíð staðarins er greinilega mikil og fólk sér ýmis sóknarfæri allt í kringum sig. Það var ánægjulegt að finna fyrir þessum straumum.
Á leið okkar suður á opnun kosningamiðstöðvar í Reykjanesbæ, stoppuðum við m.a. í gestastofunni í Skaftafelli og spjölluðum við Regínu Hreinsdóttur, þjóðgarðsvörð og ræddum við hana um uppbygginguna í Skaftafelli og framtíð þjóðgarðsins - þess stærsta í Evrópu. Við stoppuðum líka hjá Bjarna Daníelssyni, sveitarstjóra í Skaftárhreppi og fengum að kynnast því hvaða mál brenna helst á fólki í Skaftárhreppi. Að lokum kíktum við í heimsókn til Þóris í Víkurprjóni. Hann kynnti m.a. fyrir okkur hugmyndir manna um vegagerð í Vík, þ.e. breytingar á vegstæði þjóðarvegar 1 - sem nú liggur í gegnum þorpið og upp Víkurskarð. Það var mjög athyglisvert að fræðast um þær hugmyndir hjá honum. Fleiri myndir úr heimsókninni er hægt að skoða hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006