Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Þrettán öflugir frambjóðendur

Það er öflugur hópur frambjóðenda sem gefur kost á sér í opnu netprófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Hópurinn býr fjölbreyttri reynslu og endurspeglar kjördæmið nokkuð vel. Þrettán einstaklingar gefa kost á sér, fjórar konur og níu karlar. Það er auðvitað umhugsunarefni að ekki skuli fleiri konur sjá sér fært að taka þátt í þessari lýðræðislegu aðferð við niðurröðun á framboðslista og það er eitthvað sem verður að taka á.

Annar sitjandi þingmanna sækist eftir endurkjöri, Björgvin G. Sigurðsson en Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu. En það er auðvitað sérstakt ánægjuefni að svo margir öflugir einstaklingar vilji hafa áhrif á mótun nýs samfélags undir merkjum jafnaðarstefnunnar - ekki síst í því ljósi að krafan um endurnýjun er hávær í dag.

Nú fer baráttan að komast á fullt. Fyrsti framboðsfundurinn verður í Vestmannaeyjum á laugardaginn og svo á Höfn á sunnudaginn.

Eftirtaldir einstaklingar hafa gefið kost á sér:

Björgvin G. Sigurðsson alþingismaður, Selfossi – 1. sæti
Skúli Thoroddsen framkvæmdastjóri, Reykjanesbæ – 1. sæti
Guðrún Erlingsdóttir sérfræðingur í kjaramálum, Vestmannaeyjum – 1.-2. sæti
Anna Margrét Guðjónsdóttir forstöðumaður, Brussel – 1.-3. sæti
Andrés Sigurvinsson verkefnisstjóri, Selfossi – 1.-4. sæti
Oddný Guðbjörg Harðardóttir bæjarstjóri, Garði – 2. sæti
Róbert Marshall aðstoðarmaður samgönguráðherra, Reykjavík – í 2.-3. sæti
Þóra Þórarinsdóttir fyrrum ritstjóri, Selfossi – 2.-3. sæti
Árni Rúnar Þorvaldsson formaður bæjarráðs, Hornafirði – 2.-4. sæti
Páll Valur Björnsson nemi, Grindavík – 3.-4. sæti
Hilmar Kristinsson formaður Uglu - UJ á Suðurnesjum, Reykjanesbæ – 4. sæti
Lúðvík Júlíusson sjómaður, Sandgerði – 4. sæti
Hjörtur Magnús Guðbjartsson framkvæmdastjóri og nemi, Reykjanesbæ – 5. sæti.

Ég er þess fullviss að út úr þessum kraftmikla hópi munu kjósendur búa til öflugan og glæsilegan framboðslista hjá Samfylkingunni í Suðurkjördæmi.


Allir brugðust nema ég ....

sagði Davíð í Kastljósinu í kvöld.

Kastljósviðtalið við Davíð Oddsson, stjórnmálamann og formann bankastjórnar Seðlabankans var enn ein sönnun þess að það verður að ljúka þessu máli með yfirstjórn Seðlabankans eins fljótt og auðið er. Taugaveiklun eins Framsóknarmanns, Höskuldar Þórhallssonar, má ekki verða til þess að tefja þetta framfaramál lengur.

Menn verða að skilja að málefni Seðlabankans - og ekki síst ákvörðunarfælni Íhaldsins varðandi hann - voru ein helsta ástæðan fyrir því að upp úr ríkisstjórnarsamstarfi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks slitnaði. Trúverðugleika Seðlabankans er grundvöllurinn fyrir því að hægt verði að hefja markvissa endurreisn.

Það verður einfaldlega að klára þetta mál eins fljótt og auðið er því það hvílir á þjóðinni, sem vill fyrst og fremst hefja uppbyggingarstarfið en ekki fylgjast með gömlum pólitíkusi ólmast um og reyna að bjarga sínu eigin skinni.


Traustið endurunnið - forsenda endurreisnar

Í kjölfar hruns íslenska fjármálakerfisins er íslenska þjóðarsálin er löskuð. Atvinnuleysi blasir við fjölda manns, fjöldi fyrirtækja er orðinn gjaldþrota - og enn fleiri stefna þá leið - og afkomu heimilanna er stefnt í hættu.

Stjórnvöld og eftirlitsstofnanir, sem áttu að gæta hagsmuna almennings og sjá til þess að svona færi ekki, brugðust á vaktinni. Af því leiðir að traust almennings á stjórnvöldum og lykilstofnunum er í algjöru lágmarki. Endurheimta verður traust almennings á stjórnvöldum og eftirlitsstofnunum samfélagsins svo það endurreisnarstarf, sem stjórnvöld verða að vinna á næstum mánuðum og árum, nái tilætluðum árangri.  

Það ferli er þegar hafið með endurskipulagningu Fjármálaeftirlitsins og frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytingar á stjórnfyrirkomulagi Seðlabankans. Trúverðugleiki þessara stofnana hvarf í einu vetfangi þegar íslenskt fjármálakerfi - á þeirra vakt - hrundi í fangið á stjórnvöldum.

En ábyrgðin stöðvast ekki þar - enda störfuðu þessar stofnanir skv. lögum frá Alþingi og undir verkstjórn ríkisstjórnarinnar. Stór hluti af ferlinu við að endurheimta traust almennings á stjórnvöldum er fólginn í endurskipulagningu þessara stofnana - en það dugir ekki eitt og sér.

Innleiða verður ný vinnbrögð á vettvangi Alþingis og ríkisstjórnar. Þau verða að byggja á gegnsæjum, sanngjörnum og réttlátum leikreglum þar sem allir fá jöfn tækifæri. Með nýjum vinnubrögðum verðum við innleiða þá reglu að við ráðum alltaf hæfasta fólkið til starfa í mikilvæg störf á vegum ríkisins. Við verðum að láta af þeim ósið að eftirláta flokksgæðingum stöður þar sem augljóst er að aðrar forsendur - en pólitískar - verða að vera til staðar til þess að vel takist til. Agljóst dæmi um þetta, sem er mjög í umræðunni nú um stundir, er staða formanns bankastjórnar Seðlabankans. Einnig er að ljóst að ef traust almennings á Alþingi á að vaxa á ný, þá þarf ákveðin endurnýjun að fara fram innan þeirrar stofnunar í næstu kosningum.

Þessu berjast jafnaðarmenn fyrir og ég hef hug á því að vera virkur þátttakandi í því ferli og þess vegna býð ég fram krafta mína í 2. - 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi í komandi alþingiskosningum.


Yfirlýsing um framboð

Ég hef sent frá mér eftirfarandi yfirlýsingu:

Prófkjör Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi

Stefni á 2. - 4. sæti

Íslenskt samfélag stendur á tímamótum í kjölfar þess að fjármálakerfið og gjaldmiðillinn okkar hrundu á síðasta ári. Eftirlitsaðilar, sem áttu að gæta almannahagsmuna, brugðust og íslenska ríkið þurfti að leita skjóls hjá Alþjóðagjaldeyrisstjóðnum, aðrir möguleikar voru einfaldlega ekki fyrir hendi. Okkar bíður endurreisn á íslensku fjármála - og efnahagskerfi.

Tekjusamdráttur og aukin greiðsubyrði lána hafa sett heimilin, grundvöll hverrar fjölskyldu, í hættu. Fyrirtækin í landinu eru að sligast undan hæstu vöxtum, sem þekkjast í hinum vestræna heimi og aðgengi þeirra að lausafé er mjög takmarkað. Atvinnuleysi vex með degi hverjum. Forsenda þess, að endurreisnarstarfið gangi eftir, er að staðinn verði vörður um heimilin og fyrirtækin í landinu eftir mætti.

Hávær krafa er í samfélaginu um endurnýjun á Alþingi og sú skoðun er ríkjandi, að hún sé ein af forsendum endurreisnarinnar. Í því uppbyggingarstarfi, sem framundan er, skiptir mestu að hugmyndir jafnaðarmanna um jöfnuð, réttlæti og jafnrétti verði leiðarljós okkar. Ég hef mikinn hug á því að leggja mitt af mörkum í þessum mikilvægu verkefnum. Af þeim sökum hef ég ákveðið að taka þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, sem fram fer 7. mars nk. og bjóða mig fram í 2. - 4. sætið á framboðslistanum í alþingiskosningum 25. apríl nk.  

Undanfarin ár hef ég starfað sem grunnskólakennari við Grunnskóla Hornafjarðar og síðastliðið ár hef ég starfað sem aðstoðarmaður Lúðvíks Bergvinssonar, formanns þingflokks Samfylkingarinnar. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum skipaði ég fyrsta sæti á lista Samfylkingarinnar á Hornafirði, sem vann góðan sigur í kosningunum og er nú formaður bæjarráðs.

 

Árni Rúnar Þorvaldsson

Formaður bæjarráðs Hornafjarðar


Mikilvægari en trúverðugleiki Seðlabankans?

Það er hreint ömurlegt að þurfa að horfa upp á það, sem bankastjórn Seðlabankans býður þjóðinni upp á þessa dagana. Í umsögn bankastjórnarinnar um frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um Seðlabankann leggja bankastjórarnir lykkju á leið sína til þess að fara í lögfræðilegar leikfimiæfingar um það hvort það sé í rauninni verið að leggja niður núverandi starf Davíðs Oddssonar - eins og það skipti máli.

E.t.v. hefur það farið framhjá bankastjórninni að sá fjármálastöðugleiki, sem bankinn átti að varðveita, er horfinn. Hann fauk út um gluggann á þeirra vakt. Í staðinn fyrir að gera það sem rétt er - að sjá sóma sinn í stíga úr sætum sínum og fara - bjóða þeir okkur upp á orðhengilshátt um hluti sem engu skipta.

Þetta er það valdakerfi sem Sjálfstæðisflokkurinn vill verja með kjafti og klóm enda eru þingmenn þeirra blóðugir upp að öxlum við að berjast gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Leikritið sem þeir hafa sett á svið er sorglegt og náði hámarki þegar Geir H. Haarde vændi Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra um að fara með rangt mál varðandi umsagnir AGS um frumvarpið. Orð og athafnir þingmanna Sjálfstæðisflokksins í þessu máli eru með þeim hætti að maður gæti stundum freistast til þess að halda að þeir teldu fyrrverandi formann sinn mikilvægari en trúverðugleika Seðlabankans.

Málefni Seðlabankans eru brýn og það er algjörlega nauðsynlegt að endurheimta traust og trúverðugleika bankans innanlands og utan. Það verður ekki gert nema með því að tryggja bankanum nýja yfirstjórn. Þetta er eitt þeirra mála sem verður að útkljá sem allra fyrst svo við getum hent því aftur fyrir okkur og farið að huga að framtíðinni.

Davíð Oddsson er ekki mikilvægari en trúverðugleiki Seðlabankans.


Netprófkjör og jafnræði kynjanna

Á aukakjördæmisþingi Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, sem haldið var á Hótel Örk á sunnudaginn, var samþykkt að viðhafa netprófkjör um fyrstu fimm sætin á framboðslista Samfylkingarinnar í komandi alþingiskosningum. Einnig var samþykkt að jöfn kynjahlutföll verði á fyrstu tveimur sætum listans og að jafnréttisregla Samfylkingarinnar um 40%/60% skiptingu verði viðhöfð um 3. - 5. sæti.

Þetta er auðvitað mjög stór ákvörðun þar sem kjördæmisráðið var með þessu að ákveða fléttulista á fyrstu tvö sætin í kjördæminu. Ákvörðunin hefur það líka í för með sér að fyrirfram er ljóst að annar þingmanna Samfylkingarinnar í Suðurkjördæminu fellur úr sínu sæti.

Ein af ástæðunum fyrir því að kjördæmisráðið kaus að fara þessa leið, að mínu mati, var sú að í síðustu kosningum skipuðu karlar þrjú efstu sætin á framboðslistanum. Fólk vildi núna leita allra leiða til þess að leiðrétta þá slagsíðu. Nú hefur það verið gert með afgerandi hætti.

Einnig held ég að það hafi verið ofarlega í hugum margra fulltrúa á kjördæmisþinginu að enginn þingmanna Samfylkingarinnar úr landsbyggðarkjördæmunum þremur er kona. Það er líka slagsíða sem ber að leiðrétta.

Umræðurnar á þinginu voru mjög góðar og niðurstaðan var að mínu mati í samræmi við þær - góð. Með þessari leið erum við að leggja grunninn að því að endurheimta a.m.k. annan af þeim þingmönnum sem við töpuðum í síðustu kosningum.

Prófkjörið verður haldið 7. mars og rétt til þátttöku hafa allir félagar í Samfylkingunni í Suðurkjördæmi en þeim verður sendur aðgangslykill þannig að þeir geti tekið þátt. Einnig geta þeir kjósendur, sem sækja um aðgangslykil að prófkjörinu, tekið þátt. Á kjördæmisþinginu var líka ákveðið að frambjóðendum væri óheimilt að auglýsa í ljósvaka -, prent - og netmiðlum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband