Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009
21.1.2009 | 13:40
Réttmæt krafa um kosningar
Krafa mótmælenda við Alþingishúsið í gær um kosningar er hvorki ósanngjörn né óréttmæt. Krafan er studd sterkum rökum. Kollsteypa hefur orðið í efnahagsmálum þjóðarinnar og landið er sérstakt rannsóknarefni fyrir félagsvísindamenn þar sem Ísland er fyrsta nútímavædda hagkerfi heimsins, sem allt í einu er án virks bankakerfis.
Þetta gerðist á vakt núverandi stjórnvalda og stofnana þeirra. Enn sem komið er hefur ríkisstjórnin ekki svarað kalli fólks um breytingar á lykilstofnunum - Seðlabanka og Fjármálaeftirliti. Auk þess situr ríkisstjórnin óbreytt en sterkar raddir hafa verið uppi um að þar hafi þurft að gera breytingar í kjölfar bankahrunsins. Ekkert af þessu hefur hins vegar gerst og þess vegna magnast reiðin meðal landsmanna og vantraustið í þeirra garð er orðið algjört.
Tilveruréttur ríkisstjórnarinnar er nú mjög dreginn í efa. Enda tók hún til valda árið 2007 við allt aðrar aðstæður en nú eru uppi. Efnahagshrun var ekki hluti af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Það er í raun ofureðlilegt að almenningur skuli ekki treysta þeim, sem sátu við stjórnvölinn þegar hrunið átti sér stað, til áframahaldandi verka.
Alþingi sækir umboð sitt beint til fólksins og ríkisstjórnin sækir umboð sitt til Alþingis. Það er því hlutverk Alþingis að veita kjósendum tækifæri til lýðræðislegrar þátttöku. Þannig yrði líka komið til móts við þá miklu ólgu sem er í samfélaginu.
Það er verkefni stjórnvalda - ríkisstjórnar og Alþingis - endurreisa traust og trúverðugleika stjórnvalda. Á þessari stundu er erfitt að sjá aðra leið til þess en að boða til kosninga.
16.1.2009 | 15:33
Sókn í atvinnumálum
Líflegar umræður sköpuðust á borgarafundi, sem haldinn var í gærkvöldi í fyrirlestrarsal Nýheima. Þar var farið yfir fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2009. Allar lykiltölur í áætluninni bera það með sér að reksturinn og staða sveitarfélagsins er sterk. Helsta markmið okkar á þessu ári - í ljósi mikillar óvissu í efnarhagsmálum þjóðarinnar - verður að verja stöðu heimila og fyrirtækja eftir mætti. Töluverðar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í tengslum við flutning alls skólahalds Grunnskóla Hornafjarðar til Hafnar næsta haust.
Rætt var um viðhald á fasteignum sveitarfélagsins í dreifbýli. Í tengslum við sölu sveitarfélagsins á Nesjaskóla var ákveðið að hluti af söluandvirðinu yrði nýtt til viðhalds á fasteignum sveitarfélagsins í dreifbýlinu. Var þá helst litið til félagsheimilanna en viðhaldi þeirra hefur verið ábótavant undanfarin ár. í kjölfarið á því er mikilvægt að fram fari umræða um framtíðarnýtingu þessari fasteigna þannig að þær nýtist sem mest sínu nærsamfélagi.
Atvinnumál voru líka til umræðu á fundinum. Fram kom ánægja með þær aðgerðir sem gripið hefur verið til á þeim vettvangi. Var þá helst litið nýundirritaðs samnings við Rolf Johansen og Co um vatnsátöppunarverksmiðju á Höfn, sem og samkomulags sveitarfélagsins við aðila sem hafa áform um að reisa gagnaver í sveitarfélaginu.
Sveitarstjórn leggur áherslu á aðgerðir til þess að auka fjölbreytnina í atvinnulífinu. Næstu skref í þeim málum verða þau að leggja fjármuni í jarðefna -, líftækni - og orkurannsóknir, sem geta nýst til áframhaldandi atvinnuuppbyggingar í samfélaginu. Mikilvægt er að vera vakandi yfir öllum þeim tækifærum sem skapast.
Umræður um fjarskiptamál í dreifbýli komu líka til umræðu - enda um mjög mikilvægt hagsmunamál að ræða fyrir sveitirnar. Ég kom þeirri skoðun minni á framfæri að það hlyti að verða eitt grundvallarmarkmiða stjórnvalda - hver sem þau kunna að verða í framtíðinna - að allir landsmenn sitji við sama borð á því sviði. Góð nettenging er forsenda þess að hægt að sé að byggja upp framsækna atvinnstarfsemi til sveita - hún er ekki fyrir hendi í dag.
Það var mjög góð tilbreyting frá þjóðmálaumræðunni í dag að mæta á fund þar sem almenn bjartsýni sveif yfir vötnum. Mér fannst fólk vera bjartsýnt fyrir hönd byggðalagsins þrátt fyrir aðsteðjandi vandamál í fjármála - og efnahagskerfi þjóðarinnar. Það var ánægjulegt.
4.1.2009 | 13:01
Erfitt en viðburðaríkt ár
Viðburðaríku ári er lokið - sem betur fer segja margir. Íslenska banka - og fjármálakerfið hrundi eins og spilaborg á haustmánuðum vegna hinnar alþjóðlegu fjármálakrísu. Bakland þeirra í stjórnvöldum og seðlabanka reyndist haldlítið þegar á hólminn var komið. Þó var ljóst og löngu vitað að vöxtur viðskiptabankanna var svo mikill að það var sérstaklega nauðsynlegt að þeir ættu öflugan bakhjarl. Svo reyndist ekki vera og m.a. þess vegna fór sem fór. Trúverðuleiki þeirra var enginn þegar í ljós kom að stærð þeirra var a.m.k. tíföld landsframleiðsla og bakland þeirra engan veginn í stakk búið til þess að koma þeim til hjálpar á erfiðum tímum.
Íslenska krónan söng sitt síðasta á árinu - útförin er reyndar orðin frekar langdregin - með tilheyrandi búsifjum fyrir fyrirtæki og almenning. Raddir um upptöku Evru gerðust háværari og þar með komst umræðan um aðild landsins að Evrópusambandinu loksins almennilega á dagskrá. Nú er svo komið að allir stjórnmálaflokkar - nema Frjálslyndir - eru að reyna að finna leiðir til þessu að koma þessu mikilvægasta máli dagsins í dag í farveg. Allir eru sammála um það að þjóðin á að hafa síðasta orðið, þ.e. að samningur verði borinn undir þjóðaratkvæði.
Enginn þarf heldur að velkjast í vafa um það að okkar bíður erfitt en viðburðaríkt ár. Við horfum upp á hærri atvinnuleysistölur en við höfum áður þekkt, meiri samdrátt og niðurskurð en við höfum lengi tekist á við.
Á stjórnmálasviðinu er viðbúið að mikil átök verði. Þau munu hverfast um Evrópusambandsaðild að mestu leyti. Fljótlega mun koma í ljós hvort átök um ESB verða til þess að stjórnmálamenn sæki endurnýjað umboð til þjóðarinnar. En mér segist svo hugur um að við munum kjósa um eitthvað á þessu ári, annað hvort um aðildarsamning eða til Alþingis, nema um hvoru tveggja verði að ræða.
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
Af mbl.is
Íþróttir
- Frá út tímabilið en framlengdi
- Veit ekki einu sinni hvað gerðist
- Magnað afrek Ítalíu á HM
- Towns atkvæðamestur í borgarslagnum
- Eitt besta lið mótsins
- Hélt að ég myndi aldrei gefa þessa einkunn
- Landsliðstreyjurnar til sölu í Zagreb
- Nenntu ekki að spila á móti okkur
- Verður dýrasta knattspyrnukona heims
- Amorim braut sjónvarpsskjá