Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Fólksfækkun á landsbyggðinni - skortur á kvenhylli?

Þær eru ískyggilega tölurnar sem nú berast frá Hagstofunni um hvernig Íslendingar hafa safnast saman á einum litli bletti á landinu, þ.e. suðvesturhorninu. Nú er svo komið að tæplega 63% landsmanna búa á höfuðborgarsvæðinu sjálfu og tæplega 75% á suðvesturhorninu sem er svæði sem nær frá Suðurnesjum, í Árborg og norður í Borgarnes. Þetta er óheillaþróun.

Þegar menn taka svo inn í þetta tölur frá Akureyri og vaxtarsvæðinu á Miðausturlandi þá er ekki mikið eftir til skiptanna fyrir önnur landssvæði. Ef litið er á tölur frá Hornafirði fyrir síðustu 10 ár hjá Hagstofunni þá er ljóst að þróunin hjá okkur alls ekki nógu góð. Á síðustu 10 árum hefur hér fækkað um 326 einstaklinga í sveitarfélaginu. Ef marka má fólksfækkunartölurnar á þessu tímabili, þá virðist kenning Dofra Hermannsonar um að skortur á kvennhylli sé rót byggðavandans, ekki vera ástæðan fólksfækkunar á Hornafirði. Á þessu 10 ára tímabili hefur konum fækkað um 165 en körlum um 161 þannig að ekki er mikill munur þar á. Á hinn bóginn er slagsíða körlunum í vil í sveitarfélaginu þar sem karlarnir 108 fleiri en konurnar.

Það ætti því öllum að vera ljóst að við erum að berjast við byggðavanda eins og svo mörg byggðalög vítt og breitt um landið. Hornfirðingar hafa hins vegar verið þeirrar gæfu aðnjótandi að tala með jákvæðum hætti um sitt samfélag þótt gefið hafi á bátinn tímabundið. Ég tel hins vegar að hér sé ekki um tímabundinn vanda að ræða, þessi þróun hefur verið í gangi undanfarin 10 ár og það er ekki hægt að kalla tímabundið ástand. Það er því full ástæða fyrir okkur að setjast niður fara yfir málin, greina stöðuna og reyna að átta okkur á því hvað það er sem veldur þessari þróun.

Við megum þó alls ekki láta hendur fallast og gefast upp þótt á móti blási. Margt jákvætt er í gangi í okkar ágæta sveitarfélagi sem við verðum að hlúa að og treysta í sessi en það er líka alveg morgunljóst að við verðum að leita allra tiltækra leiða til þess að sporna gegn þessari þróun.

Ég held t.d. byggðastefna sem byggir á svokallaðri kjarnahugsun, eins og hún er útfærð í dag, sé algjörlega vonlaus og að það sannist á þeim tölum sem Hagstofan nú birtir. Það er ómögulegt að ímynda sér að jafnaðarmenn í ríkisstjórn geti starfað eftir slíkri ójafnaðarstefnu í byggðamálum. Sú stefna felur einfaldlega í sér að þá er í raun ákveðið með handafli að sumar byggðir lifi en aðrar deyi. Þannig stefna getur aldrei gengið til lengdar að mínu mati.

Það verður fróðlegt að fylgjast með þingi um nýsköpun í atvinnumálum og umhverfisvæna framtíð sem Framtíðarlandið og Nýheimar efna nk. laugardag, þ.e. 8. mars í Nýheimum. Þingið ber heitið Austurþing og þar verður fjallað um atvinnumál, menntun og almenn lífsgæði með sérstakri áherslu á landsbyggðina. Ég hvet alla sem áhuga hafa á eflingu byggðanna til þess að mæta, hlýða á, taka þátt í umæðum og koma sínum skoðunum á framfæri.

 


ESB umræðan

Þunginn í Evrópuumræðunni hefur aukist mjög á undanförnum mánuðum. Mér hefur fundist að eftir því áföllunum í efnahagslífi þjóðarinnar fjölgar þeim mun meira líf færist yfir umræðuna um Evru og ESB. Það er sjálfu sér hlutur sem ég fagna. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við eigum að taka til alvarlegrar skoðunar inngöngu í Evrópusambandið, a.m.k. þannig að við metum kostina og gallana og leggjum ákvörðunina í hendur landans í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það virðist vera að sú að staðreynd að okkar ágæta króna er orðin viðskiptahindrun knýji mest á um að umræðan fari fram. Mér hefur reyndar fundist það síðustu mánuði að málsvörum krónunnar sé alltaf að fækka. Það hlýtur ennþá að auka á þungann í umræðunni. Einnig virðast flestir orðnir sammála um það að einhliða upptaka Evru án inngöngu í ESB sé ekki tæk leið og yrði aldrei trúverðug hjá stöndugri þjóð.

Þess vegna virðast kostirnir vera nokkuð einfaldir. Annað hvort höldum við í krónuna sem flestir telja vera orðna viðskiptahindrun eða við stefnum að inngöngu í Evrópusambandið og að lokum í myntbandalagið. Að vísu gerir ríkisstjórnarsáttmáli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks ráð fyrir því að ekki verði hugað að aðild að Evrópusambandinu á kjörtímabilinu. Ég held að það myndi þó ekki saka að ríkisstjórnin setti sér það markmið að standast kröfur Evrópusambandsins í efnahagslegu tilliti svo að það væri a.m.k. valmöguleiki í stöðunni. Það getur varla skaðað að stefna að stöðugleika í efnahagsmálum.

Varla eru evrópuandstæðingar svo illa haldnir af hatri í garð ESB að ekki megi huga að því að ná þeim stöðugleika sem krafist er svo við uppfyllum skilyrði herranna í Brussel.


Góður málefnasamningur tryggir 9% stuðning

Það er engum blöðum um það að fletta að það er málefnasamningnum góða að þakka að borgarstjórnin nýtur 9% stuðnings.

Síðast meirihluti starfaði án þess að koma sér saman um málefnasamning og núverandi meirihluti heldur því gjarnan á lofti að það hafi verið ástæðan fyrir því að upp úr slitnaði.

Sennilega hefur traustið á borgarstjórn verið enn minna á meðan enginn málefnasamningur var í gildi hjá borgarstjórnarmeirihlutanum en núverandi meirihluti er nú aldeilis búinn að kippa því í liðinn og ætlar sér að láta verkin tala. Það eina sem kemur á óvart er að þessi gríðarlega góði málefnasamningur og viljinn til að láta verkin tala skuli ekki skila sér í meira trausti.

Allar aðstæður eru fyrir hendi til þess að fólk geti öðlast trú á störf þessa meirihluta. Góður málefnasamningur, viljinn til góðra verka, borgarstjóri með sterkt bakland og gríðarlega skemmtilegt kapphlaup í uppsiglingu hjá Íhaldinu í borgarstjórastólinn. Það besta við kapphlaupið er að það gæti tekið upp undir ár.

Þetta eru sannarlega kjöraðstæður til þess að byggja upp traust. Eða þannig.


mbl.is Aðeins 9% treysta borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband