Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008
31.1.2008 | 18:21
Bröltið í borginni borgarbúum og íhaldinu dýrt
Ljóst er að pólítísk endurreisn Vihjálms Þ. Vilhjálmssonar hefur verið dýru verði keypt. Ekki er nóg með að borgarbúar hafi þurft að punga út hundruðum milljóna fyrir Laugaveg 4 og 6 þá er ljóst að trúverðugleiki Sjálfstæðisflokksins hefur látið verulega á sjá ef marka má skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag.
Búið er að opna tékkhefti borgarbúa upp á gátt til þess eins að koma Vilhjálmi aftur í borgarstjórastólinn sem hann hrökklaðist svo sneypulega úr fyrir nokkrum mánuðum. Húseigendur við Laugaveginn hljóta að kætast og þeir gætu í ljósi síðustu atburða ákveðið að reyna á vilja nýs meirihluta í friðunarmálum. Borgarstjórnarmeirihlutinn er búinn að gefa tóninn með það hvað slík kaup mega kosta borgarbúa. Allt til þess að gamli góði Villi fái annað tækifæri sem borgarstjóri. Sexmenningarnir virðast tilbúnir að fórna öllum fyrri gildum og sannfæringu til þess eins að taka þátt í pólitískum björgunarleiðangri fyrir gamla góða Villa.
Það er vonandi að skoðanakönnun Fréttablaðsins um fylgi flokkanna landsvísu sé ábending um það að fólki sé misboðið vegna skefjalauss valdabrölts Sjálfstæðismanna í borginni. Mikilvægt er að því sé haldið á lofti, fram að næstu sveitarstjórnarkosningum, hvernig Sjálfstæðisflokkurinn komst aftur til valda í borginni og að sexmenningarnir svokölluðu tóku þátt í því af heilum hug. Þetta segi ég vegna þess að það má vera öllum ljóst að sexmenningarnir munu, minnugir þess hvernig Villi hélt þeim fyrir utan REI - málið, kosta öllu til svo Vilhjálmur komi hvergi nálægt borgarmálunum aftur. Þá má ekki gleyma því að þau lögðu blessun sína yfir þann hildarleik sem fram fór í ráðhúsinu í síðustu viku.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.1.2008 | 22:51
Störf án staðsetningar
Eitt af því sem ég fylgist sérstaklega með í ríkisstjórnarsamstarfi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks eru störf án staðsetningar. Þetta var eitt þeirra byggðamálefna sem Samfylkingin setti á oddinn í síðustu kosningum. Enda segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar undir millifyrirsögninnni, landið verði eitt búsetu - og atvinnusvæði:
"Skilgreind verði þau störf á vegum ríkisins sem hægt er að vinna án tillits til staðsetningar og þannig stuðlað að fjölgun starfa á landsbyggðinni."
Það er sérstaklega markmiðið með stefnunni sem vekur áhuga minn en það er að stuðla að fjölgun starfa á landsbyggðinni. Starf framkvæmdastjóra yfirstjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs er í mínum huga þess eðlis að starfsmaðurinn á að vera staðsettur í nærumhverfi þjóðgarðsins. Í Sveitarfélaginu Hornafirði höfum við lengið bundið vonir við það að starfsstöð yfirstjórnar eða höfuðstöðvar þjóðgarðsins verði staðsettar í sveitarfélaginu. Fyrir því barðist okkar fulltrúi í yfirstjórninni, Hjalti Þór Vignisson bæjarstjóri, með kjafti og klóm. Það urðu okkur því nokkur vonbrigði þegar okkar sjónarmið urðu undir í stjórninni.
Að auglýsa þetta starf án tillits til staðsetningar finnst mér þó að sumu leyti ganga gegn markmiðum ríkisstjórnarinnar um störf án staðsetningar. Það gæti hreinlega þýtt að starfsmaðurinn yrði staðsettur á höfuðborgarsvæðinu og miðað við stefnuyfirlýsinguna þá var það aldrei ætlunin. Við þekkjum það úr þjóðgarðinum í Skaftafelli hvernig það er að láta fjarstýra þjóðgarði úr 400 km. fjarlægð. Það gaf ekki nógu góða raun og þess vegna viljum við fyrir alla muni forðast að það verði raunin á nýjan leik.
Þetta eru að mínu mati málefnaleg rök sem ég trúi og vona að yfirstjórn Vatnajökulsþjóðgarðs taki til athugunar þegar að ráðningu framkvæmdastjóra kemur.
29.1.2008 | 23:05
Sundabraut - Sundagöng
Ég er búinn að fylgjast vel með umræðunni um Sundabraut eða Sundagöng eftir því hvaða leið mönnum finnst að eigi að fara. Það dylst engum sem fylgst hafa með því máli að einhugur er í borgarstjórn um að fara gangnaleiðina. Um eitthvað verður borgarstjórn að vera sammála. Það hefur heldur ekki farið fram hjá nokkrum manni að Vegagerðin leggur til að farin verði svokölluð Eyjaleið. Mismunurinn í verði á milli þessara tveggja kosta eru litlir 9 milljarðar. Þar er um umtalsverða peninga að ræða.
Ég get auðvitað vel skilið afstöðu borgarstjórnar í þessu máli. Borgarfulltrúarnir eru einfaldlega að berjast fyrir þeirri leið sem þeir trúa að muni koma Reykvíkingum best. Aðstæður mínar eru ekki þannig að ég treysti mér til að dæma um það hvor leiðin er betri en ég treysti því og trúi að borgarfulltrúarnir viti hvað þeir eru að tala um. En að sama skapi treysti ég líka Vegagerðinni til þess að vinna sína vinnu af fagmennsku og heilindum.
Mér fannst t.a.m. undarlegt að heyra það hjá einum borgarfulltrúa, Svandísi Svavarsdóttur, að hún teldi pólitískar ástæðurn vera fyrir því að Vegagerðin leggði fram tillögu um Eyjaleið. Fleiri kjörnir fulltrúar í Reykjavík. bæði í borgarstjórn og á Alþingi, hafa talað á svipuðum nótum og ég hef verið töluvert hugsi yfir málflutningnum oft á tíðum.
Nú er þetta örugglega ekki fyrsta sinn sem Vegagerðin leggur fram tillögur sem sveitarstjórnum vítt og breitt um landið hugnast ekki. Er Vegagerðin í þeim tilvikum einnig í pólitískum leik? Ég neita að trúa því. Ég held að Árni Johnsen hafi viðhaft svipaðan málflutning um útreikninga Vegagerðarinnar á jarðgöngum til Vestmannaeyja. Mig minnir að fáir hafi beinlínis tekið mark á honum.
Nú hefur Vegagerðin lagt fram frummatsskýrslu sína um nýjan hringveg um Hornafjörð. Niðurstaða Vegagerðarinnar í þeirri skýrslu gengur þvert gegn viljar bæjarstjórnarinnar. Bæjarstjórnin vill fara leið 3 sem liggur næst þéttbýlinu á Höfn og styttir vegalengdir innan sveitarfélagsins mest. Okkar mat er því að hún muni hafa jákvæðustu áhrifin á búsetuskilyrði í sveitarfélaginu og við teljum einnig að sú leið stuðli að mestu umferðaröryggi. Sú leið sem bæjarstjórninni hugnast best er skv. útreikningum Vegagerðarinnar um 600 milljónum króna dýrari en leið Vegagerðarinnar. Reyndar erum við ekki sammála útreikningum Vegagerðarinnar. Við teljum óskiljanlegt að Vegagerðin skuli í útreikningum sínum á þeirri leið, sem hún leggur til, ekki gera ráð fyrir endurbótum á ákveðnum köflum þjóðvegarins sem hefðu lent fyrir utan nýtt vegstæði ef leið bæjarstjórnar hefði orðið ofan á. Þangað til það verður gert er það skoðun okkar að verið sé að bera saman epli og appelsínur.
Ég lít í raun og veru svo á, að við séum í nákvæmlega sömu stöðu gagnvart Vegagerðinni og samgönguyfirvöldum í landinu og Reykjavík er í Sundabrautarmálinu en upphæðirnar og stærðirnar eru e.t.v. ekki þær sömu. Þannig kýs ég einnig að líta svo á, að ef menn ákveða að ganga gegn faglegu mati Vegagerðinnar í Reykjavík, þá ætti þessum sömu aðilum ekki að verða skotaskuld úr því að láta slíkt verklag dreifast til annarra landshluta.
Annars fannst mér Þorsteinn Pálsson lýsa því vel í þessum leiðara í hvers lags blindgötu skipulagsmál eins og þessi geta ratað.
27.1.2008 | 22:03
Óhróður Morgunblaðsins - hrunadans Styrmis
Síðustu vikur Styrmis í ritstjórastjól Morgunblaðsins ætla að verða einn samfelldur hrunadans. Afrek samflokksmanna Styrmis í borginni í síðastliðinni viku eru með því ógeðfelldara sem maður hefur orðið vitni að. Þetta veit ritstjórinn og er þess vegna tilbúnari en oft áður til þess að ástunda smjörklípuhernaðinn (hans sérgrein) sem aldrei fyrr. Hverjum hafa þeir ákveðið að ráðast að? Jú, auðvitað Degi B. Eggertssyni, fyrrverandi borgarstjóra.
Ritstjóranum hefur auðvitað ekki líkað að Dagur B. Eggertsson er sá einstaklingur sem ber höfuð og herðar yfir aðra sem koma að þessum málum. Honum líkar ekki að Reykvíkingar hafa sagt með mjög skýrum hætti að Dagur B. Eggertsson verði áfram borgarstjóri. Þetta þolir Mogginn ekki. Auðvitað þarf það ekki að koma neinum á óvart. En það sem gerir þessar aðstæður verri en venjulega er sú staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn á sjálfur í mikilli tilvistakreppu í Reykjavík og þeirra forystumaður, gamli góði Villi er algjörlega rúinn trausti sinna eigin flokkamanna. Þegar Sjálfstæðismenn eru í slíkum örvæntingardansi helgar tilgangurinn alltaf meðalið hjá Mogganum og Styrmi og öllum brögðum er beitt. Fréttum, svokölluðum fréttaskýringum og staksteinum er beint að Degi B. Eggertssyni og sögur beinlínis búnar til á ritstjórnarskrifstofunni til þess að gera Dag ótrúverðugan.
Það er vont að ekki er hægt að kjósa í Reykjavík í dag til að veita kjósendum tækifæri til þess að refsa Íhaldinu. Þess vegna er það mjög mikilvægt fyrir kjósendur í Reykjavík að muna það þegar gengið verður til kosninga næst og búið verður fleygja gamla góða Villa á pólitíska ruslahauga Reykjavíkurborgar, að Gísli Marteinn og Hanna Birna tóku fullan þátt í útsölu stefnumálanna og uppboði borgarstjórastjólsins.
Hitt þótti mér verra þegar Vilhjálmur sjálfur hæddist að núverandi borgarstjóra áður en hann tók við embætti og sagði að Ólafur F. væri jafn tilbúinn og hann sjálfur hefði verið fyrir einu og hálfu ári síðan til þess að taka við borgarstjórastólnum. Það fannst mér illa sagt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2008 | 21:52
Fundarsköp borgar - og bæjarstjórnar
Mótmælin á pöllum fundarsals ráðhúss Reykjavíkurborgar hafa orðið ýmsum spekúlöntum tilefni til umræðna um fundarsköp í bland við annað t.d. skrílslæti sem er auðvitað ofmælt. Þó er e.t.v. hægt að segja svona eftir á að mótmælin hafi farið aðeins úr böndunum. Það segi ég ekki vegna þess að ég hafi einhverja samúð með Ólafi F., Villa og co heldur vegna þess að svona uppákomur koma Sjálsfstæðismönnum alltaf í það sæti sem þeim líður best í, þ.e. fórnarlambssætinu. Að vera fórnarlamb er auðvitað eitthvað sem mér finnst Davíð, bankastjóri hafa gert að listgrein á sínum ferli sbr. þessa frétt. En umræðan um fundarsköpin í tengslum við mótmælin á pöllunum hefur haldið hugsun minni um nauðsyn þess að endurskoða samþykkt míns sveitarfélags um fundarsköp þess. En það er ekki vegna þess að ég óttast aðra eins uppákomu hér á Hornafirði og átti sér stað í Reykjavík á fimmtudaginn heldur hef ég talið tímabært að endurskoða þessi mál á almennum grunni.
Á bloggi sínu í gær minnist bæjarstjóri, Hjalti Þór Vignisson (nýskriðinn yfir þrítugt) á þetta mikilvæga mál sem ég hef velt töluvert fyrir mér undanfarna mánuði en það er samþykkt sveitarfélagsins um stjórn og fundarsköp. Ég held að það sé full ástæða fyrir okkur í sveitarstjórninni að taka þessi mál til gagngerrar endurskoðunar. Það er orðið löngu tímabært.
Í þessu sambandi held ég líka, eins og bæjarstjóri tæpir á í sínum pistli, að mikilvægt sé líka að fara vel yfir verksvið nefnda sveitarfélagsins og nefndakerfið allt í heild sinni. Ég held að það verði að vera markmið endurskoðunarinnar að auka vald og vægi nefnda sveitarfélagsins. Með því væri stuðlað að aukinni valddreifingu innan hins pólitíska stjórnkerfis sveitarfélagsins. Í dag er málum þannig háttað að nánast öll mál sveitarfélagsins rata inn á borð bæjarráðs. Það er full ástæða til þess að kanna það hvort hægt er breyta þessu með einhverjum hætti þannig að nefndum sé heimil fullnaðarafgreiðsla mála til bæjarstjórnar.
Ég vonast til þess að geta átt góðar umræður um málið á næsta bæjarstjórnarfundi sem haldinn verður miðvikudaginn 6. febrúar. Ástæðan fyrir þessum afbrigðilega fundartíma bæjarstjórnar er sú að fimmtudaginn 7. febrúar fyrirhugar Vegagerðin að halda opinn borgarafund um frummatsskýrslu sína um nýtt vegstæði yfir Hornafjarðarfljót. Set inn pistil um það fljótlega.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.1.2008 kl. 12:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
Af mbl.is
Erlent
- Segir að verið sé að svindla á Bandaríkjunum
- Fjórir létust er þyrla flaug utan í sjúkrahús
- Bandaríkjamenn skutu niður eigin herþotu
- Skotið á sama skólann þrisvar á árinu
- Undirritar bráðabirgðafjárlög eftir dramatíska viku
- Barnið sem lést var níu ára gamalt
- Tók þrjár mínútur að drepa fimm og særa 200
- Fimm látnir í Magdeburg