Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007
30.7.2007 | 17:06
Velkomin á 10. Unglingalandsmót UMFÍ á Hornafirði
Eftirfarandi grein eftir mig birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 29. júli. Hún fjallar um væntanlegt unlingalandsmót UMFÍ sem fram fer um verslunarmannahelgina:
Það dylst engum sem leið á um Sveitarfélagið Hornafjörð að þar stendur mikið til um þessar mundir. Allt er á fullu í undirbúningi fyrir Unglingalandsmót UMFÍ sem fram fer um verslunarmannahelgina. Nú er nýlokið framkvæmdum við Sindravelli þar sem byggð var upp glæsileg aðstaða fyrir frjálsar íþróttir og nýtt gras lagt á knattspyrnuvöllinn. Framkvæmdir sem þessar kosta auðvitað umtalsverða fjármuni en framkvæmdirnar eru samstarfsverkefni sveitarfélagsins, ríkissjóðs, UMFÍ og Ungmennasambandsins Úlfljóts.
Á Unglingalandsmótinu sumarið 2005 sem haldið var í Vík í Mýrdal var það opinberað að stjórn UMFÍ hefði ákveðið að Ungmennasambandið Úlfljótur skyldi halda mótið sumarið 2007 á Hornafirði. Mikil gleði og eftirvænting greip þá þegar um sig í herbúðum Hornfirðinga og fólk fór strax að undirbúa mótið. Frá upphafi var ljóst að mikið verk var fyrir höndum í uppbyggingu íþróttamannvirkja. Sveitarfélagið tók höndum saman við íþróttahreyfinguna á staðnum og fólk var staðráðið í því að byggja hér upp glæsilega aðstöðu. Það hefur nú gengið eftir.
Unglingalandsmót bæta aðstöðu íþróttafólks á landsbyggðinni
Allur undirbúningur Unglingalandsmótsins hefur verið gríðarleg vítamínsprauta fyrir allt íþróttalíf Hornfirðinga. Iðkendur í frjálsum íþróttum sjá nú fram á skemmtilega æfinga - og keppnisdaga við frábærar aðstæður og knattspyrnufólk Sindra hlakkar til að geta spilað á glænýjum grasvellinum næsta sumar. Einnig var ráðist í það verkefni með Akstursíþróttafélag Austur - Skaftafellssýslu að byggja upp motocrossbraut í nálægð við þéttbýlið á Höfn svo hægt yrði að keppa í motocrossi á landsmótinu. Aldrei hefur áður verið keppt í þeirri grein á Unglingalandsmóti. En þetta er ekki það eina sem umstangið í kringum mótið hefur getið af sér.
Þegar forsvarsmenn Ungmennasambandsins Úlfljóts leituðu eftir fjármagni einkaaðila á staðnum í tengslum við uppbyggingu íþróttamannvirkjanna kom í ljós vilji útgerðarfyrirtækisins Skinneyjar - Þinganess hf. til þess að koma myndarlega að uppbyggingunni. Áhugi fyrirtækisins var ekki síst tilkominn vegna þess að fyrirtækið fagnar 60 ára afmæli sínu um þessar mundir. Eftir umhugsun og umræður var það niðurstaða stjórnar Skinneyjar - Þinganess hf. að leggja a.m.k. 60 milljónir kr. í uppbyggingu knattspyrnuhúss í líkingu við Risann sem Fimleikafélag Hafnarfjarðar reisti í Kaplakrika. Þetta verkefni er nú komið á fullt skrið hjá sveitarfélaginu og vonumst við til þess að framkvæmdir við knattspyrnuhúsið hefjist í vetur.
Fljótlega eftir að ljóst varð að Unglingalandsmótið 2007 yrði haldið á Hornafirði komu fram óskir hjá íbúum sveitarfélagsins um nýja sundlaug. Sú gamla er lítil og þjónusturými af skornum skammti en laugin hefur þjónað sínu hlutverki mjög vel engu að síður. Bæjarstjórn Hornafjarðar tók ákvörðun um það fljótlega eftir að óskir um nýja sundlaug komu fram að ráðist skyldi í byggingu nýrrar sundlaugar. Ákveðið var að byggja 25 metra laug með glæsilegri þjónustubyggingu. Hér er um gríðarlega stórt og metnaðarfullt verkefni að ræða fyrir sveitarfélag eins og Hornafjörð. Skemmst er frá því að segja að ekki tókst að ljúka byggingu sundlaugarinnar fyrir Unglingalandsmótið af tæknilegum ástæðum. Bygging sundlaugarinnar er í fullum gangi þessa dagana og vonandi geta gestir og heimamenn tekið sundsprett í nýrri laug áður en langt um líður.
Af þessari upptalningu að dæma er ljóst að sú ákvörðun að halda Unglingalandsmót UMFÍ 2007 á Hornafirði hefur haft mjög jákvæð áhrif á allt íþróttalíf í sveitarfélaginu. Allri uppbyggingu íþróttamannvirkja hefur verið hraðað hjá sveitarfélaginu og einkaaðilar hafa komið að uppbyggingunni með myndarlegum hætti. Þetta hefur allt stuðlað að því að brátt mun hornfirskt íþróttafólk búa við frábærar aðstæður til þess að iðka sína íþrótt. Engum blöðum er um það að fletta að góð aðstaða hvetur fólk til dáða og mun auka iðkun hvers kyns íþrótta í samfélaginu til muna.
Mikið sjálfboðaliðastarf
Eins og gefur að skilja er það langt frá því að vera einfalt mál að taka á móti 10.000 gestum á einni helgi. Það krefst mikils skipulags og mikillar vinnu. Það er greinilegt að Hornfirðingar eru mjög meðvitaðir um það og nú þegar hafa hátt í hundrað manns boðið sig fram til þess að starfa sem sjálfboðaliðar á mótinu. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að heimamenn munu gera sitt ýtrasta til þess að hlutirnir gangi vel fyrir sig um verslunarmannhelgina svo dvöl gesta okkar verði ánægjuleg. Á göngu um bæinn finnur maður vel spennuna fyrir mótinu magnast á meðal bæjarbúa og maður finnur vel að allir eru staðráðnir og samstíga í því að láta helgina verða eftirminnilega. Við slíkar aðstæður er gaman að starfa.
Undirritaður vill því nota þetta tækifæri til þess að bjóða allt það fólk sem hefur áhuga á því að skemmta sér með okkur á þessari áfengis - og vímulausu hátíð velkomið á Unglingalandsmót UMFÍ á Hornafirði um verslunarmannhelgina.
Höfundur er forseti bæjarstjórnar Hornafjarðar
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2007 | 20:17
Styttist í unglingalandsmót
Ég fór og heimsótti stjórnstöð unglingalandsmótsnefndarinnar í Heppuskóla í dag. Þar voru allir á fullu að undirbúa mótið og greinilegt að þar á bæ ætla menn sér stóra hluti um verslunarmannahelgina. Fólk var greinilega staðráðið í því að láta hlutina ganga vel upp á mótinu og lætur ekki erfiðleika í einstaka málum stöðva sig. Gríðarleg vinna liggur að baki móti eins og þessu og væri aldrei mögulegt ef ekki væri fyrir óeigingjarnt og fórnfúst starf sjálfboðaliða.
Gaman er að sjá hvað unglingarnir í bæjarvinnunni hafa tekið vel til hendinni í kringum íþróttasvæðið. Þar er allt að verða snyrtilegt og fallegt eftir framkvæmdir undanfarinna mánuða. Búið er að þökuleggja allt sem þarf að þökuleggja og nú berjast menn bara við að koma vætu í nýlagt grasið.
Nú þegar hafa tæplega hundrað manns boðið sig fram til þess að starfa sem sjálfboðaliðar á mótinu og sýnir það vel að mínu mati metnað Hornfirðinga í verki. Þeir ætla sér greinilega að hjálpa til við að halda stórglæsilegt unglingalandsmót sem allir geta verið stoltir af.
26.7.2007 | 13:38
Samgöngumál
Að undanförnu hafa farið fram heilmiklar umræður um samgöngumál Vestmannaeyinga. Búið er að framkvæma athugun á kostnaði við gerð slíkra gangna. Bæjarstjórinn í Eyjum hefur látið hafa eftir sér að það hefðu verið vonbrigði að gert væri ráð fyrir svo miklum kostnaði sem raun ber vitni. Óhætt er að fullyrða það að þessi mikli kostnaður verður ekki til þess fallinn að auka stuðninginn við hugmyndina um jarðgöng til Eyja.
Við getum þó ekki gleymt því að Vestmannaeyingar hafa búið við slæma þjónustu undanfarin ár hvað samgöngumál varðar. Til þess að samfélag geti þróast og dafnað er fátt mikilvægara en öflugar samgöngur.
Mér sýnist á málflutningi Eyjamanna að bregðast verði við vandanum strax með því að fjölga ferðum Herjólfs og síðan að finna framtíðarlausn á samgöngumálunum. Mikilvægt er að það verði gert sem fyrst þannig að Vestmannaeyingar þurfi ekki að búa við óvissu í þessum málum lengur.
Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum virðist þó alls ekki af baki dottinn þrátt fyrir skýrslu verkfræðistofunnar um kostnaðinn og telur að uppbyggingu Bakkafjöruhafnar kunni einungis að vera biðleikur þangað til jarðgöng verða að veruleika.
Mín skoðun er sú að það væri skynsamlegra fyrir Vestmannaeyinga að einbeita sér núna að því að hraða rannsóknum og uppbyggingu í Bakkafjöru. Það er einfaldlega mitt mat að jarðgangngerð á milli lands og Eyja sé ekki raunhæfur kostur miðað við fyrirliggjandi gögn auk þess sem erfittt verður að skapa sátt um svo dýra framkvæmd.
16.7.2007 | 10:55
Allt að verða klárt fyrir unglingalandsmót
Eins og sjá má af myndinni hér til hliðar ganga framkvæmdir á Sindravöllum vel. Búið er að leggja tartanefnið á hlaupabrautirnar og einungis er lokafrágangur eftir, þ.e. að snyrta og snurfusa í kringum völlinn. Óhætt er að segja að völlurinn líti afar vel út og frjálsíþróttafólk á Hornafirði er eflaust farið að iða í skinninu yfir því að fá loksins tækifæri til þess að æfa og keppa við þessar glæsilegu aðstæður.
Því má heldur ekki gleyma að nýtt gras var lagt á knattspyrnuvöllinn sem knattspyrnufólk er farið að bíða eftir að komast á. Ekki er þó víst að leikmenn Sindra fái tækifæri til þess að spreyta sig á nýja vellinum í sumar. Völlurinn er einungis fjarskafallegur enn sem komið og þarf lengri tíma til þess að verða að fullu tilbúinn til notkunar.
Íþróttafólki á aldrinum 11 - 18 ára ætti því ekki að vera nokkuð að vanbúnaði til þess að skella sér á unglingalandsmót á Hornafirði um verslunarmannahelgina. Engum blöðum er um það að fletta að mótið verður fjölbreytt og glæsilegt. Margar íþróttagreinar verða í boði sem og afþreying fyrir keppendur og gesti mótsins. Unglingalandsmót UMFÍ eru fyrir löngu búin að sanna gildi sitt sem heilbrigt mótvægi við aðrar útihátíðar þessarar helgar. Þau eru kærkomin vettvangur fyrir fjölskyldur til þess að eyða helginni saman á meðan unglingarnir í fjölskyldunni spreyta sig í hinum ýmsu íþróttagreinum. Ég vil því nota tækifærið og hvetja sem flesta til þess að skella sér á unglingalandsmót á Hornafirði um verslunarmannahelgina og skemmta sér þar með heimamönnum á vímuefna.
14.7.2007 | 22:36
Enn af mótvægisaðgerðum
Í framhaldi af umræðum um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna kvótaskerðingar í næsta fiskveiðiári þá birtist þessi grein í Morgunblaðinu laugardaginn 14. júlí 2007.
Ekkert kemur í staðinn fyrir 60 þúsund tonn af þorski
Undanfarin ár hefur ferðaþjónusta verið í örum vexti á suðausturhorni landsins. Vatnajökull er án efa stærsta aðdráttaraflið fyrir ferðamenn á þessum slóðum. Enda er gjarnan talað um það á suðausturhorni landsins sé maður staddur í ríki Vatnajökuls. Langt er síðan Hornfirðingar áttuðu sig á aðdráttarafli jökulsins í augum ferðamanna. Sveitarfélagið og ýmsir aðilar tengdir ferðaþjónustu í sveitarfélaginu hafa kerfisbundið markaðsett Hornafjörð með skírskotun til Vatnajökuls. Allir vita að snjósleðaferð á Skálafellsjökul í góðu veðri er ferð sem enginn gleymir. Annað gott dæmi um markaðssetningu og metnað Hornfirðinga tengdan Vatnajökli er Jöklasýningin sem staðsett er á Höfn. Það er verkefni sem hefur heppnast ákaflega vel og við sjáum stöðuga aukningu á heimsóknum ferðamanna þangað yfir sumartímann. Einnig sjáum við stöðuga aukningu á jaðartímum ferðaþjónustunnar sem beinlínis er tengd jöklinum og aðdráttarafli hans. Af þessum sökum þarf engan að undra þótt Hornfirðingar hafi miklar væntingar til stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs, stærsta þjóðgarðs í Evrópu.
Mikilvægt að hraða uppbyggingu stærsta þjóðgarðs Evrópu
Hinu má þó ekki gleyma að undirstöðuatvinnuvegur Hornfirðinga er sjávarútvegur og þess vegna er ljóst að sá niðurskurður á þorskkvóta sem sjávarútvegsráðherra hefur nú ákveðið mun hafa mjög neikvæð áhrif á atvinnulíf Hornfirðinga. Þess vegna er mjög brýnt að bregðast hratt og ákveðið við niðurskurðinum með markvissum aðgerðum. Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og það að hraða allri uppbyggingu í tengslum þjóðgarðinn kemur að mati okkar sem sitjum í bæjarstjórn sterklega til greina sem mótvægisaðgerð. Það eitt og sér dugir þó ekki til. Hornfirðingar hafa lengi verið þeirrar skoðunar að öll yfirstjórn þjóðgarðsins eigi að vera staðsett í sveitarfélaginu og þá í Nýheimum, fræðslu - og frumkvöðlasetri Hornfirðinga. Það er einnig mat undirritaðs að starfsemi Umhverfisstofnunar falli vel inn í hugmyndir manna um þjóðgarðinn. Þess vegna tel ég að ríkisvaldið eigi að íhuga það gaumgæfilega staðsetja hluta starfsemi Umhverfisstofnunar á Hornafirði til þess að vega upp á móti þeim neikvæðu samfélagslegu áhrifum sem samdrátturinn í þorskveiðum mun hafa í för með sér. Slík ráðstöfun myndi hafa gríðarlega mikla þýðingu fyrir væntanlegan þjóðgarð og ríkisstjórnin myndi með slíkri ráðstöfun sýna metnað sinn í verki gagnvart Vatnajökulsþjóðgarði.
Aukin verðmætasköpun í sjávarútvegi
Mikið starf hefur verið unnið á undanförnum árum á vegum Matís í Nýheimum þar sem m.a. er stefnt að því að auka verðmætasköpun í sjávarútvegi. Flestir kannast sennilega við humarhótelið þar sem lifandi humar er geymdur í tiltekinn tíma eða þar til aðstæður á markaði eru hagstæðar. Þá er hann seldur ferskur oftast til landa við Miðjarðarhafið sem lúxusvara. Þetta verkefni hefur vakið gríðarlega athygli og er þegar farið að skila árangri. Það er mjög mikilvægt að stjórnvöld átti sig á mikilvægi þess að styðja myndarlega við bakið á þróunar - og nýsköpunarstarfi eins og þessu sem Matís á Hornafirði hefur unnið að. Þetta á ekki hvað síst við um þróunarvinnu þar sem markmiðið er að auka verðmætasköpun í sjávarútvegi. Til þess að það geti gengið eftir er mikilvægt að stjórnvöld fjölgi störfum í þessum geira á landsbyggðinni bæði sem mótvægisaðgerð vegna skerðingar þorskkvótans en ekki síður til þess að efla rannsóknar - og þróunarstarf á landsbyggðinni. Það styrkir stoðir atvinnulífsins á landsbyggðinni og eykur fjölbreytnina í atvinnulífinu. Þótt það sé rétt hjá sjávarútvegsráðherra að ekkert komi í staðinn fyrir 60 þúsund tonn af þorski er ljóst að aðgerðir eins og þær sem hér hafa verið reifaðar geta orðið til þess að styrkja innviði og grunnstoðir samfélags útgerðarbæja eins og Hornafjarðar til framtíðar.
Árni Rúnar Þorvaldsson
Höfundur er forseti bæjarstjórnar Hornafjarðar og oddviti Samfylkingarinnar
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.7.2007 | 22:23
Niðurskurður kvóta og mótvægisaðgerðir
Engan þarf að undra að fyrirhugaður niðurskurður á þorskkvóta fyrir næsta fiskveiðiár leggst afar illa í marga. Að sjálfsögðu mun þessi ráðstöfun hafa gríðarlega slæm áhrif byggðalög sem byggja afkomu sína að verulegu leyti á sjávarútvegi. Sérstaklega kemur þetta illa við staði þar sem fjölbreytnin í atvinnulífinu er ekki mikil og samdráttur í fiskveiðum og fiskvinnslu hefur þegar átt sér stað. Störf munu tapast í greininni bæði á sjó og í landi og auðvitað er það gríðarlegt áfall fyrir þá sem fyrir því verða.
Ég get þó ekki leynt þeirri skoðun minni að þessi ákvörðun hafi verið rétt hjá sjávarútvegsráðherra þó sársaukafull sé. Að sjálfsögðu eru margar aðrar skoðanir uppi um stærð og ástand þorskstofnsins heldur en skoðun Hafró. En eftir hverju á ráðherra að fara þegar hann tekur afstöðu? Það hlýtur að vera eðlilegt að hann fylgi ráðleggingum þeirrar stofnunar sem gagngert hefur verið sett á laggirnar til þess að rannsaka þessi mál og ráðleggja stjórnvöldum. Ef menn ætluðu alltaf að hunsa ráðleggingar Hafró, væri þá ekki bara heiðarlegra að leggja stofnunina niður? Ég held líka að með þessari ákvörðun setji ráðherra töluverðan þrýsting á Hafró. Hann getur sagt sem svo að nú hafi hann farið að þeirra ráðleggingum og ef þær skila ekki árangri þá sé rétt að endurskoða starfsaðferðir stofnunarinnar.
Öllum er þó morgunljóst að kvótaniðurskuðurinn mun hafa mjög neikvæð áhrif í öllum útgerðarbæjum landsins. Tekjur fyrirtækja minnka, störf í fiskveiðum, fiskvinnslu og afleidd störf munu tapast. Þetta þýðir gríðarlegan tekjumissi fyrir sveitarfélögin. Við þessu þarf að bregðast. Ríkisstjórnin hefur boðað mótvægisaðgerðir sem ætlað er að koma byggðunum til hjálpar. Að mínu mati er það allra mikilvægast að mótvægisaðgerðunum fylgi störf inn í sveitarfélögin í stað þeirra sem tapast. Aðstæður eru mjög mismunandi eftir bæjarfélögum og því er mikilvægt að stjórnvöld hafi gott samráð við sveitastjórnir og heimamenn um það hvernig sé best að haga aðgerðunum.
Í Frumkvöðlasetrinu í Nýheimum á Hornafirði hefur á undanförnum árum verið lögð mikil rækt við rannsóknar - og nýsköpunarstarf. Þar er starfrækt Haskólasetur á vegum Háskóla Íslands og Matís er með starfstöð í Frumkvöðlasetrinu auk fjölda annarra stofnana og fyrirtækja. Háskólasetrið hefur m.a. haft það í för með sér að algjör sprenging hefur átt sér stað á meðal Hornfirðinga í fjarnámi á háskólastigi. Hjá Matís hafa verið stundaðar rannsóknir sem miða að því að auka verðmætasköpun í sjávarútvegi. Nægir þar að nefna Humarhótelið svokallaða þar sem humar er geymdur á "hóteli" í tiltekinn tíma svo hægt sé að selja hann ferskan þegar markaðsaðstæður eru hagstæðar. Ég tel það mjög mikilsvert að horft sé sérstaklega til starfsemi eins og þessarar og þá ekki síst vegna þess að hér er um að ræða rannsóknir og þróunarvinnu sem miðar að því að auka verðmætasköpun í sjávarútvegi.
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006