Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007
19.6.2007 | 13:55
Heilbrigðis - og öldrunarmál
Þessa dagana er í fullum gangi vinna við þjónustusamning um rekstur heilbrigðis - og öldrunarþjónustu í sveitarfélaginu á milli Heilbrigðisráðuneytisins og sveitarfélagsins. Sá samningur sem verið hefur í gildi frá árinu 2003 rann úr gildi um síðustu áramót. Þetta hefur verið löng og strembin vinna sem embættismenn og kjörnir fulltrúar hafa lagt á sig í tengslum við endurgerð samningsins. Á ýmsu hefur gengið í samningaviðræðunum og m.a. kynnti ráðuneytið mjög fljótlega fyrir okkur nýtt reiknilíkan fyrir heilsugæsluna sem var í smíðum í ráðuneytunum. Frá upphafi var ljóst að okkur leist mjög illa á reiknilíkanið sem gerði ráð fyrir fækkun stöðugilda lækna í sveitarfélaginu. Þetta var eitthvað sem við áttum mjög erfitt með að sætta okkur við. Það er einfaldlega mat bæjarstjórnar að þrjú stöðugildi lækna séu grundvöllur og forsenda mannsæmandi heilbrigðisþjónustu í sveitarfélaginu. Í drögum að nýjum þjónustusamningi sem núna er meðförum fjármálaráðuneytisins er áfram gert ráð fyrir þremur stöðugildum lækna en ekki fækkun eins og ráðuneytið gerði upphaflega ráð fyrir.
Samstaða í bæjarstjórn
Frá upphafi hefur verið mikil samstaða um það í bæjarstjórn að stefnt skuli að því að gera nýjan þjónustusamning við ráðuneytið. Bæjarstjórn hefur verið þess fullviss að sveitarfélagið hafi staðið sig vel við framkvæmd þjónustusamningsins og að fjármunum hins opinbera hafi verið vel varið. Heimahjúkrun hefur verið stóraukin og notendur hafa lýst yfir mikilli ánægju með þá þjónustu eins og fram kemur í nýlegri þjónustukönnun sem Capacent framkvæmdi fyrir sveitarfélagið. Heimahjúkrunin hefur eflst það mikið að stórlega hefur fækkað í langlegu, bæði í dvalar - og hjúkrunarrýmum. Þetta er í góðu samræmi við stefnu heilbrigðisyfirvalda í landinu um að fólk eigi að geta búið sem lengst í heimahúsum.
Í upphafi þessa árs fór bæjarstjóri fram á það við Ríkisendurskoðun að hún gerði stjórnsýsluúttekt á Heilbrigðisstofnun Suðausturlands. Á morgun, miðvikudaginn 20. júní verður fundur í bæjarstjórn Hornafjarðar þar sem skýrsla ríkisendurskoðunar verður tekin til umfjöllunar. Það er vonandi að skýrslan eigi eftir að reynast gagnlegt innlegg í alla þessa umræðu.
Vangaveltur um verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga
Vinna við gerð þjónustusamnings eins og þennan gefur öllum sem að þeirri vinnu koma ótal tilefni til vangaveltna um verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og ekki síður samskipt ríkis og sveitarfélaga. Til lengri tíma litið er það engin framtíðarlausn að fulltrúar ráðuneyta og einstakra sveitarfélaga setjist niður á nokkurra ára fresti og ræði um hugsanlegt framhald samstarfsins. Þjónustusamningar til nokkurra ára í senn eru ekki til þess fallnir að skapa festu og öryggi í því starfi sem um ræðir. Fyrirkomulagið er einnig til þess fallið að skapa tortryggni og tregðu í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Það er einfaldlega ekki boðlegt fyrir starfsmenn og kjörna fulltrúa sveitarfélaga að þurfa að koma á fund ráðuneytismanna eða ráðherra sjálfs eins og kjökrandi sníkjudýr. Samskiptum ríkis og sveitarfélaga þarf að finna betri farveg en þennan.
Hafi menn einhvern raunverulegan áhuga á því að færa málefni aldraðra og heilsugæslunnar yfir til sveitarfélaganna er það mín skoðun að menn verði þá að fara söma leið og farin var þegar grunnskólinn færðist yfir til sveitarfélaganna. Þá var málaflokkurinn tekinn í heild sinni og sveitarfélögunum tryggðir ákveðnir tekjustofnar til þess að standa undir rekstrinum. Lengi hefur verið rætt um það á meðal sveitarstjórnarmanna og alþingismanna hvort rætt væri að gera hið sama við málefni aldraðra og heilsugæsluna en í raun hefur lítið verið gert í þeim málum síðustu ár.
Niðurstöður þjónustukönnunar Capacent gefa líka sterklega til kynna að þjónusta við eldri borgara í sveitarfélaginu sem með mjög góðu móti. Sveitarfélögin víðs vegar um landið hafa lengi talað um það að málefni aldraðra sé dæmi um nærþjónustu sem eigi heima í vörslu sveitarfélaganna. Yngstu skjólstæðingarnir í samfélaginu, leikskóla - og grunnskólabörnin eru á ábyrgð sveitarfélaganna. Því skyldu elstu skjólstæðingarnir ekki vera það líka?
Niðurstöður könnunarinnar hjá Capacent styðja þá skoðun mína að sveitarstjórnarstiginu sé vel treystandi til þess að taka við þeim málaflokki. Þetta er eitthvað sem ég tel vert að hafa í huga þegar farið verður að ræða um tilfærslu á þessum málaflokki af einhverri alvöru.
18.6.2007 | 12:35
Þjónustukönnun Capacent
Það er orðið langt síðan ég bloggaði síðast. Sennilega er maður ennþá að jafna sig eftir atið fyrir og eftir kosningarnar. Ég er mjög ánægður með það hvernig ný ríkisstjórn hefur farið af stað, sérstaklega er ég ánægður með aðgerðaáætlunina í málefnum barna sem var samþykkt á nýafstöðnu sumarþingi.
Af heimavígstöðvunum er það helst að frétta að bæjarstjórnin ákvað mjóg fljótt eftir að hún tók við að framkvæma þjónustukönnun fyrir sveitarfélagið. Capacent Gallup vann könnunina fyrir okkur og var með kynningu á helstu niðurstöðum fyrir síðasta bæjarstjórnarfund sem haldinn var 14. júní síðastliðinn. Í niðurstöðunum kemur margt forvitnilegt í ljós. Almennt má segja að íbúar sveitarfélagsins eru nokkuð ánægðir með þá þjónustu sem boðið er upp á í sveitarfélaginu. Í könnuninni er fólk einnig spurt út í þjónustu sem ekki er veitt af sveitarfélaginu, t.a.m. er spurt út í þjónustu framhaldsskólans.
Niðurstaðan fyrir Framhaldsskólann í Austur Skaftafellssýslu er eitt það allra ánægjulegasta í allri þessari könnun. Skólinn fær nánast fullt hús stiga hjá þeim sem nýta sér þjónustu hans. Þetta eru sannarlega gleðileg tíðindi samfélagið á Hornafirði þar sem góður framhaldsskóli styður við vöxt og viðgang samfélagsins. Stjórnendur og starfsfólk skólans eiga heiður skilinn fyrir það að hafa staðið svona vel að málum.
Ýmislegt annað kemur vel út í könnuninni t.a.m. leikskólarnir og grunnskólarnir sem og tónlistarskólinn. Einnig kemur fram ánægja með starfsemi hjúkrunarheimilisins og heimahjúkrun á stðanum auk fjölda annarra hluta. Niðurstöður svona könnunar vekja oft fleiri spurningar en þær svara en þær gefa okkur mikilsverðar upplýsingar um það hvar við erum að standa okkur og hvar ekki. Niðurstöðurnar eru góður grunnur fyrir okkur sem vinnum að stjórn sveitarfélagsins til þess að vinna eftir.
Könnunin sýnir okkur nefnilega þá þætti í starfinu sem íbúarnir eru ekki nógu ánægðir með. Eitt atriði staðnæmist maður sérstaklega við og það er að fólk er afar óánægt með framboð lóða í sveitarfélaginu. Þar er vissulega verka að vinna. Í ljósi þessa er gaman að geta þess að nú er unnið að nýju skipulagi fyrir Leirusvæðið. Gamla skipulaginu hefur verið breytt þar og lóðum undir parhús og raðhús hefur verið breytt í einbýlishúsalóðir.
Bygginga - og skipulagsnefnd mun taka tillöguna til umfjöllunar á fundi sínum næsta fimmtudag. Það er Ulla Pedersen, landslagsarkitekt sem hefur unnið tillöguna fyrir sveitarfélagið.
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006