Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
23.5.2007 | 17:50
Af gefnu tilefni
Alveg er makalaust að fylgjast með framgöngu Steingríms J. Sigfússonar formanns Vinstri grænna þessa dagana. Stóryrðaflaumurinn flýtur af vörum hans eins og stórfljót í leysingum og allt finnur hann Samfylkingunni til foráttu en lætur hinn meinta höfuðandstæðing sinn í stjórnmálum, Sjálfstæðisflokkinn í friði.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks stendur:
- Sérstök áhersla verði lögð að meta verndargildi háhitasvæða landsins og flokka þau með tilliti til verndar og orkunýtingar.
- Stefnt verður að því að ljúka vinnu við rammaáætlun fyrir lok árs 2009 og leggja niðurstöðuna fyrir Alþingi til formlegrar afgreiðslu.
- Þar til sú niðurstaða er fengin verði ekki farið inn á óröskuð svæði án samþykkis Alþingis, nema rannsóknar- eða nýtingarleyfi liggi fyrir.
Þetta kallar Steingrímur að Samfylkingin hafi gefist upp í umhverfismálum. Þá er rétt að benda á þetta hádegisviðtal á Stöð 2 þar Steingrímur var aldeilis tilbúinn að setja málefni VG á útsölu til þess að liðka fyrir stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.
21.5.2007 | 13:25
VG slær vinstri stjórn út af borðinu
Nú er það ljóst að ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokks að verða að veruleika. Miðað við þá stöðu sem upp er komin þá er þetta eini raunhæfi kosturinn í stöðunni.
Viðbrögð og háttalag forystumanna VG eftir kosningar vorum með þeim hætti að vinstri stjórn var í raun slegin út af borðinu strax daginn eftir kosningar. Steingrímur notaði m.a. annars skopmyndateikningar á vegum ungliða Framsóknar sem átyllu til þess að móðgast við Framsóknarflokkinn. Afleikur VG eftir kosningar hefur verið með hreinum ólíkindum og magnað sjónarspil að fylgjast með.
Ögmundur gerði framsóknarmönnum tilboð eftir kosningar sem fól í sér að Framsókn verði minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna falli á þinginu. Þetta er stjórnarmynstur sem þekkist varla í íslenskri stjórnmálasögu. Þetta tilboð Ögmundar var einn af nöglunum í líkkistu hugsanlegrar vinstri stjórnar vegna þess að það var ekki nokkur leið fyrir Framsóknarflokkinn að taka tilboðinu.
Öll orðræða Vinstri Grænna eftir kosningar var þannig að það var ljóst að forystumenn þess ágæta flokks vonuðust allan tímann eftir stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Í hádegisviðtali Stöðvar tvö 16. maí síðastliðinn kom berlega í ljós að formaður VG var tilbúinn að slá vel af öllum kröfum flokksins í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn m.a. í umhverfismálum sem hafa nú verið ær og kýr flokksins hingað til.
Þegar kemur í ljós að Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin hafa náð samkomulagi um stjórnarmyndunarviðræður þá koma forsvarsmenn VG fram á sjónarsviðið heilagri en allt sem heilagt er og reyna að telja fólki trú um að þeir hafi í raun alltaf viljað vinstri stjórn. Núna bera þeir á borð þær söguskýringar að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur hafi í raun verið búin að mynda stjórn fyrir kosningar. Þvílík firra.
12.5.2007 | 19:11
Frábær stemmning á kosningaskrifstofunni
Ég er búinn að sitja á kosningaskrifstofunni frá því klukkan 09:00 í morgun. Þar hef ég setið og tekið á móti fjölda fólks og hringt í annað eins af fólki.
Gríðargóð stemmning er búin að vera í allan dag og mikið rennerí á skrifstofuna. Allir tala um það sama: að fella ríkisstjórnina.
Frábært er að sjá hvað fólk yfir höfuð er áhugasamt um lýðræðislega þátttöku. Margir koma og leita upplýsinga um stefnumál flokksins áður en farið er í kjörklefann.
Miðað við stemmninguna í dag á okkar litlu Samfylkingarskrifstofu á Hornafirði þá yrði ég ekki hissa þótt Samfylkingin ynni stórsigur. Enda höfum við verið á blússandi siglingu á síðustu dögum og vikum og straumurinn hefur legið til okkar.
Eitt stendur hins vegar upp úr: það er gaman að taka þátt í kosningum.
12.5.2007 | 12:14
Kjördagur - góðir straumar
Þá er kjördagur runninn upp. Kjósendur ganga að kjörborðinu og fella sinn dóm. Við jafnaðarmenn bíðum úrslitanna með mikilli eftirvæntingu enda höfum við fundið fyrir miklum meðbyr síðustu vikur og daga.
Ég vil bara nota þetta tækifæri til þess að hvetja kjósendur til þess að nýta sinn lýðræðislega rétt, mæta á kjörstað og tjá hug sinn.
Það er ekki nokkur vafi í mínum huga á þessari stundu að að við jafnaðarmenn komum sterk út úr kosningunum. Straumurinn hefur legið til okkar á síðustu vikum. Ég er viss um það að við rjúfum 30% múrinn miðað við stemmninguna siðustu.
Það er greinilegt að áherslur okkar í velferðarmálum eiga mikinn hljómgrunn meðal kjósenda. Kjósendur vita líka að Samfylkingin er eini flokkurinn sem treystandi er til að standa vörð um íslenska velferðarkerfið að norrænni fyrirmynd.
X - S í dag landi og þjóð til heilla.
11.5.2007 | 23:57
Gefum ríkisstjórn biðlista og vondrar hagstjórnar frí – hún á það skilið
Í þessari kosningabaráttu sem senn tekur enda hefur Samfylkingin einkum lagt áherslu á þrennt: málefni eldri borgara, málefni barnafjölskyldna og ábyrga efnahagsstjórn. Í öllum þessum málaflokkum fær ríkisstjórnin einfaldlega falleinkunn.
Langvarandi seta hægri stjórnarinnar hefur haft þau áhrif á velferðarkerfið að það stórsér á því. Íslenska velferðarkerfið fjarlægist hröðum skrefum þau velferðarkerfi sem við þekkjum á hinum norðurlöndunum og ójöfnuður eykst hér hraðar en nokkru sinni fyrr. Eina leiðin til þess að koma í veg fyrir áframhald á þessari þróun er að kjósendur greiði öflugum jafnaðarflokki atkvæði sitt í kosningunum 12. maí.
Á þessu kjörtímabili sem nú er að ljúka hafa þingmenn Samfylkingarinnar flutt 150 þingmál um málefni eldri borgara. Samfylkingin hefur m.a. flutt tillögu um að skattur á lífeyrissjóðstekjur verði 10% og að hjúkrunarsjúklingar haldi fjárhagslegu sjálfstæði með auknum ráðstöfunartekjum. Stærsta vanrækslusynd núverandi stjórnarflokka er að yfir 400 aldraðir einstaklingar eru á biðlista eftir hjúkrunarrými og yfir 900 eldri borgarar eru í þvingaðri samvist með ókunnugum. Þetta er fullkomlega óviðunandi ástand og Samfylkingin ætlar að breyta þessu með hagsmuni eldri borgara að leiðarljósi.
Samfylkingin setur barnafjölskyldur í forgang
Full þörf er á að taka málefni barnafjölskyldna í landinu föstum tökum. Það er dýrt að reka heimili á Íslandi og vond hagstjórn núverandi ríkisstjórnar hefur ekki hjálpað til í þeim efnum. Hér er verðbólga viðvarandi hátt yfir viðmiðunarmörkum Seðlabankans og íslenskar barnafjölskyldur búa við algjöra okurvexti. Einnig þurfa íslenskar fjölskyldur að sætta sig við það búa við eitt hæsta matvælaverð sem þekkist. Allt hefur þetta þau áhrif að foreldrar þurfa að vinna langan vinnudag til þess að láta enda ná saman og það kemur niður á samverustundum fjölskyldunnar. Þegar Samfylkingin hefur tekið við stjórnartaumunum mun hún efna til samstarfs við aðila vinnumarkaðarins til að finna leiðir til að stytta vinnuvikuna í því skyni að auka samvistir foreldra og barna. Ég held að allir geti verið sammála um það að ekkert hefur meira forvarnargildi en samvera foreldra og barna.
Aðbúnað eldri borgara og barnafjölskyldna er hins vegar einungis hægt að bæta með ábyrgri hagstjórn. Hagstjórnin hefur síður en svo verið sterkasta hlið núverandi ríkisstjórnar og kosningavíxlarnir sem ráðherrarnir hlaupa nú með um héruð í aðdraganda kosninga til þess að kaupa sér velvild eru ekki beinlínis til þess fallnir að auka trúverðugleika þeirra í stjórn efnahagsmála. Eina leiðin til þess að snúa af leið óstöðugleikans er veita Samfylkingunni brautargengi í kosningunum 12. maí. Fórnarkostnaður heimilanna í landinu hefur verið of mikill í tíð núverandi ríkisstjórnar, gefum hægri stjórninni sem verið hefur við völd í 12 ár frí á laugardaginn og hefjum jafnaðarstefnuna til öndvegis á nýjan leik í íslensku samfélagi. Það gerum við bara með því að setja X við S á laugardaginn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2007 | 23:54
Nú fellum við ríkisstjórnina
Á morgun 12. maí er komið að því að fella ríkisstjórnina. Ríkisstjórnin sem nú situr hefur með markvissum aðgerðum aukið ójöfnuð hér á landi með slíkum hraða að annað eins þekkist ekki á byggðu bóli. Eina leiðin til þess að snúa af þeirri leið er að leiða Samfylkinguna til valda í íslenskum stjórnmálum.
Ríkisstjórnin ber ábyrgð á biðlistunum sem birtast okkur hvarvetna, t.d. í heilbrigðiskerfinu og í öldrunarmálum. Eina leiðin til þess að kjósa biðlistana í burtu er kjósa Samfylkinguna í kosningunum á morgun.
Ríkisstjórnin ber líka ábyrgð á hagstjórnarmistökunum sem heimilin í landinu blæða fyrir. Verðbólgan er langt yfir viðmðunarmörkum, fólk býr við okurvexti og ekki hefur ríkisstjórnin náð tökum á ríkisútgjöldunum. Þessu ætlar Samfylkingin að breyta.
Til þess að leiða íslenskt samfélag inn á réttar brautir á nýjan og leik og færa það nær norrænu velferðarsamfélögunum sem sósíaldemókratar hafa byggt upp þá verður Samfylkingin að koma sterk út úr þessum kosningum. Samfylkingin verður að vera burðarafl í næstu ríkisstjórn.
Þess vegna skora ég á þig kjósandi góður að setja x við S á morgun.
6.5.2007 | 20:48
Samfylkingin á góðri siglingu
Skoðanakannanir síðustu daga færa okkur sönnur á því að Samfylkingin er í bullandi uppsveiflu um þessar mundir. Það er alveg sama á hvaða könnun er skoðuð, hvort sem um er að ræða í einstökum kjördæmum eða á landsvísu þá er tilhneigingin alltaf sú sama, Samfylkingin er á uppleið.
Baráttan lítur orðið illa út hjá formanni Framsóknarflokksins í Reykjavík norður. Kannanir mæla hann staðfastlega úti. Nú er tæp vika í kosningar og flokkurinn mælist með 7% fylgi í kjördæmi formannsins og það má glöggt greina að örvænting hefur gripið um sig í herbúðum flokksins.
VG má vel við una, bætir við sig í flestum könnunum frá síðustu kosningum. Þó er ljóst að það mikla flug sem verið hefur á þeim síðustu vikurnar er heldur að dala rétt fyrir kosningar.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist hár en við vitum það að hann Íhaldið mælist alltaf með meira fylgi í könnunum heldur en á endanum kemur upp úr kjörkössunum. Annars er kosningabarátta Íhaldsins með hreinum ólíkindum því hún er hvergi sjáanleg.
Íslandshreyfingin nær ekki nokkru flugi og það virðist ætla að verða grafskrift þeirrar hreyfingar að hafa stuðlað að því að stjórnin héldi velli fari svo að ekki takist að fella stjórnina. Þá hefði nú verið betra heima setið en af stað farið.
Hvað Frjálslynda flokkinn varðar þá á ég mjög erfitt með að átta mig á gengi þess flokks. En trúlega fer Guðjón Arnar inn í Norðvesturkjördæmi og tekur með sér uppbótarþingmenn.
Þetta eru svo sannarlega góðar fréttir fyrir okkur í Samfylkingunni og alla landsmenn. Sjálfstæðisflokkurinn þarf öflugt aðhald og það aðhald verður einungis tryggt með öflugum jafnaðarflokki. Til þess að sveigja af leið misskiptingar og ójöfnuðar sem mörkuð hefur verið af ríkisstjórnarflokkunum undir forystu Sjálfstæðisflokksins er nauðsynlegt að Samfylkingin komi sterk út úr kosningunum. Einungis þannig verður hægt að endurreisa velferðarkerfið, sem stjórnarflokkarnir hafa mölvað niður á síðustu 12 árum, að norrænni fyrirmynd.
Eftir því sem liðið hefur á kosningabaráttuna hafa velferðarmálin sífellt orðið fyrirferðarmeiri sem er gott fyrir Samfylkinguna. Ástæðan er sú að engum flokki er betur treystandi fyrir þeim málaflokki. Samfylkingin er eini raunverulegi jafnaðar - og velferðarflokkurinn sem kjósendur geta treyst. Þetta vita hinir flokkarnir og í aðdraganda kosninga reyna þeir allir að skreyta sig með jafnaðarfjöðrum. En að loknum kosningum reita þeir fjaðrirnar og fara í sinn venjulega búning.
Vörumst eftirlíkingar. Það þarf jafnaðarmenn til að reka jafnaðarstefnu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2007 | 21:38
Ríkisstjórn hinna löngu biðlista
Ríkisstjórnarinnar sem nú situr en fellur í kosningum 12. maí nk. verður einna helst minnst fyrir þá löngu biðlista sem hún hefur skapað með aðgerða - og áhugaleysi sínu á sviði velferðarmála síðstliðin 12 ár.
Ríkisstjórnin sem nú situr er hreinræktuð hægri stjórn sem lítinn sem engan áhuga hefur á velferðarmálum. Biðlistarnir tala sínu máli.
Börn og unglingar með geðraskanir verða að búa við það að bíða í allt að eitt og hálft ár eftir þjónustu á barna - og unglingageðdeild. Hér er um fullkomlega óviðunandi ástand að ræða.
Um 900 aldraðir eru þvingaðri sambúð inni á hjúkrunarheimilum og 400 aldraðir bíða í heimahúsum eftir hjúkrunarrými. Hér er líka um fullkomlega um óviðunandi ástand að ræða.
Ríkisstjórnin hefur stuðlað að mörgum öðrum biðlistum eftir almannþjónustu með aðgerðaleysi sínu. Sem dæmi er hægt að nefna biðlista geðfatlaðra eftir búsetuúrræðum og biðlista barna með þroskafrávik eftir greiningu.
Vanræksla ríkisstjórnarinnar bitnar á þeim sem síst skyldi í samfélaginu. Á meðan ríkisstjórnin stærir sig af hagvexti og góðæri er ljóst að hagvöxturinn og góðærið var ekki ætlað þeim mest þurfa á aðstoð að halda.
Í ljósi þessara staðreynda er kosningaslagorðið, Árangur áfram - ekkert stopp, sérstaklega hjákátlegt.
2.5.2007 | 20:38
Íhaldið fer á kostum þessa dagana
Það hefur ekki farið framhjá nokkrum manni að frjambjóðendur Íhaldsins fara gjörsamlega hamförum þessa síðusta daga fyrir kosningar. Alþingiskonan Ásta Möller var svo óheppin að taka undir með málgagninu að forsetinn væri lýðræðinu á Íslandi hættulegur. Í kvöldfréttum Stöðvar tvö þurfti Ásta að mæta tvisvar í viðtal. Fyrst til þess að lýsa yfir stuðningi við skrif sín en svo til þess að andmæla þeim. Þessar rökræður Ástu Möller við Ástu Möller voru hreint út sagt óborganlegar.
Annar góður og gegn liðsmaður Íhaldsins hefur líka farið á kostum á síðustu dögum en það er annar þeirra Árna sem leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Nú er ég auðvitað að tala um Gaflarann og FH-inginn Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra en nafni hans í öðru sæti listans hefur af einhverjum óþekktum ástæðum að mestu haldið sig til hlés í kosningabaráttunni.
Fjármálaráðherra stóð sig hreint frábærlega í kosningasjónvarpi Ríkisúpvarpsins í gær. Hann var óvenju rökfastur, sérlega trúverðugur og greinilegt að hann hafði ekki vondan málstað að verja.
Að öllu gamni slepptu þá var málflutningur Árna (Mathiesen) fyrir neðan allar hellur og hann hafði í raun ekkert fram að færa í umræðunni um skattamál nema orðhengilshátt. Hann var sá eini sem var með réttar tölur og réttar forsendur allra útreikninga. Allir vinstri menn fara með fleipur að mati Árna og einu útreikningarnir sem mark er á takandi eru þeir sem hann hefur undir höndum og hefur látið vinna. Það var hreinlega pínlegt að fylgjast með fjármálaráðherranum í gær. En honum til vorkunnar má segja að maður sem hefur jafn vondan málstað að verja eigi sér ekki viðreisnar von.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2007 | 10:52
Biðlistana burt - ekkert stopp
Ein mesta skömm núverandi ríkisstjórnar eru biðslistarnir eftir almannþjónustu sem birtast okkur hvarvetna. Sárt er að horfa upp á þá löngu biðlista sem myndast hafa á barna - og unglingageðdeild. Þarna er um að ræða börn og ungilinga sem eru í sárri þörf og fjölskyldur þeirra þurfa að sætta sig við það að bíða eftir aðgerðum rikisstjórnarinnar.
170 börn bíða eftir fyrstu komu á BUGL og 20 - 30 mikið veik börn bíða eftir innlögn. Þetta er hátt hlutfall hjá fámennri þjóð. Við höfum ekki efni á því að bregðast ekki við. Með aðgerðaleysi sínu er ríkisstjórnin að leggja grunninn að framtíðarvandamálum sem kannski verður of seint að bregðast við þegar fram líða stundir.
Hér er einfaldlega um að ræða ástand sem ekki er hægt að sætta sig við. Jafnvel hörðustu frjálshyggjumenn hljóta að samþykkja það að samfélagið hefur skyldum að gegna gagnvart börnum og unglingum sem þjást af geðröskunum. Samfylkingin er jafnaðarflokkur og ætlar sér að leysa þetta mál. Jafnaðarmenn þola ekki að horfa upp á það að brotið sé að börnum og unglingum í landinu. Ójafnaðarflokkarnir hafa haft 12 ár til þess að leysa þessi mál en ekkert gengur. Nú er komið að því að gefa þeim frí þannig að hægt sé að leysa þessi mál.
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006