Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Í erfiðleikum með Evru

Magnað var að fylgjast með Geir H. Haarde, forsætisráðherra fjalla um hugsanlega upptöku Evrunnar í sjónvarpinu fyrir skemmstu. Hann taldi það óráðlegt að taka upp Evruna en færði í raun engin rök fyrir þeirri afstöðu sinni.

Einnig blés hann á það að ósætti væri innan ríkisstjórnarinnar í Evrumálum. Þó liggur það ljóst fyrir að Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra hefur talað mjög á þeim nótum að skynsamlegt væri að taka upp Evruna. Fleiri framsóknarmenn hafa talað á þessum nótum á undanförnum árum. Íhaldið heldur hins vegar fast í þá afstöðu sína sem þeir hafa gert að listgrein á undanförnum árum, þ.e. að stinga höfðinu í sandinn og svara út í hött.

Forsætisráðherrann kórónaði síðan allt saman þegar lýsti þeirri skoðun sinni að það væri í raun bara Samfylkingarfólk sem gæti talað krónuna niður en ekki Framsóknarfólk. Ekki var hægt að skilja orð hans öðruvísi þegar fréttamaður spurði hann hvort hann væri að beina orðum sínum til Framsókarmanna sem töluðu um upptöku Evrunnar. Hann var nú aldeilis ekki að því heldur var hann að tala um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar. Hún ein hefði talað krónuna niður og var því sek um óábyrgt hjal. Það var einmitt það!!!

Er hægt að bjóða fóki upp á svona umræðu?


Heilbrigðisráðherra í heimsókn

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, heimsótti Heilbrigðisstofnun Suðausturlands í dag. Hún heilsaði upp á starfsmenn og kynnti sér starfsemina. Einnig notaði hún tækifærið til þess að undirrita samning við Heilbrigðisstofnunina um aukna geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga í Austur - Skaftafellssýslu. Samningurinn færir stofnuninni tvær milljónir á næstu tveimur árum til þess að standa straum af verkefninu. Sannarlega þarft verkefni þar á ferðinni.

Ráðherra notaði heimsóknina líka til þess að skoða og vígja formlega ný röntgentæki sem búið er að taka í notkun á heilsugæslunni. Tækin eru að langmestu leyti kostuð af einstkalingum og fyrirtækjum hér í samfélaginu. Óhætt er að segja að einstaklingar og fyrirtæki hafi brugðist vel við því þegar kallið kom um að endurnýja tækin því um verðmæt tæki er að ræða. Í máli starfsmanna kom fram að um algjöra byltingu væri að ræða fyrir starfsemina á heilsugæslunni.

Ýtt á eftir þjónustusamningi

Heilbrigðis - og öldrunarráð Hornafjarðar notaði einnig tækifærið til þess að ræða við ráðherra um endurnýjun á þjónustusamningi á milli ráðuneytisins og sveitarfélagsins um fyrirkomulag heilbrigðis - og öldrunarþjónustu í Austur - Skaftafellssýslu. Samningur við ráðuneytið rann út um áramót. Við lögðum á það mikla áherslu að sveitarfélagið vil halda áfram að vinna að verkefninu. Í raun teljum við engin rök fyrir því að ríkið aftur við rekstri heilbrigðis - og öldrunarþjónustunnar í sýslunni. Þvert á móti teljum við að hér hafi verið unnið gott og metnaðarfullt starf á síðustu árum. Á síðustu árum hefur verið unnið markvisst að því að framfylgja þeirri stefnu í öldrunarþjónustu sem Siv Friðleifsdóttir hefur markað sem heilbrigðisráðherra, þ.e. að gera öldruðum kleift að búa sem lengst í eigin húsnæði.

Við höfum lagt á það ríka áherslu að gera öldruðum kleift að búa sem lengst í eigin húsnæði og það höfum við gert með því að efla og styrkja með markvissum hætti heimahjúkrun og hvíldarinnlagnir. Með því móti hefur okkur tekist að fækka umtalsvert í langlegu. Þetta er árangur sem við teljum nær öruggt að hefði ekki náðst nema vegna þess að sveitarfélagið hefur stýrt verkefninu og hefur getað lagað þjónustuna að staðbundnum aðstæðum. Þetta er kjarni málsins og þess vegna á ráðuneytið að endurnýja samninginn við okkur.

Þriggja lækna hérað og heimahjúkrun

Í viðræðum okkar við ráðuneytið leggjum við á það ríka áherslu að áfram verði litið á Austur-Skaftafellssýslu sem þriggja lækna hérað. Svæðið er mjög einangrað landfræðilega og læknisfræðilega. Langt er í næstu heilbrigðisþjónustu og spítala. Sjúkraflug á um mjög langan veg að fara. Einnig er vaktaálag mikið á læknum nú þegar og ef einungis væri um tvær læknastöður að ræða myndi það versna enn frekar. Heilbrigðis - og öldrunarráð telur einfaldlega að þrjár læknastöður séu grundvöllur mannsæmandi heilbrigðisþjónustu í Sveitarfélaginu Hornafirði. E.t.v. er nauðsynlegt að taka það fram fyrir þá sem ekki vita að sveitarfélagið nær yfir alla Austur-Skaftafellssýlu.

Einnig leggjum við mikla áherslu á að tekið verði sérstakt tillit til stóraukinnar heimahjúkrunar á svæðinu. En við erum ekki hætt á þeirri vegferð. Við viljum halda áfram að auka þátt heimahjúkrunar í starfsemi Heilbrigðisstofnunarinnar og til þess þurfum við aukið fjármagn. Þannig getum við haldið áfram á þeirri leið að vinna eftir stefnumörkun núverandi heilbrigðisráðherra í öldrunarþjónustu, þ.e. að gera öldruðum kleift að búa sem lengst í eigin húsnæði.


Sammála eða ósammála

Eru allir í Samfylkingunni í Hafnarfirði sammála um stækkun álversins í Straumsvík?

Þessa spuriningu lagði aðstoðarmaður borgarstjóra fyrir Össur Skarphéðinsson í silfrinu í dag. Þetta sýnir svo ekki verður um villst á hvers lags villigötum íslensk pólitík er. Krafa flokksmanna annarra stjórnmálaflokka um allir í Samfylkingunni séu sammála um ákveðin málefni er alltaf til staðar í öllum málum. Ekki eru sömu kröfur til annarra flokka varðandi samræmingu skoðana. Nema þar sé um að ræða svo einsleitar hjarðir að þar séu allir sammála um alla skapaða hluti.   

Það er beinlínis fjarstæðukennt að ætla nokkrum flokki það að allir séu sammála um jafn stórt mál og stækkun álvers í Straumsvík nema e.t.v. Vinstri Grænum. Þetta er eitthvað sem Samfylkingin í Hafnarfirði hefur áttað sig á og ætlar að eftirláta íbúum Hafnarfjarðar það að ákveða hvort af stækkun álvers verður. Samfylkingin er lýðræðisflokkur og þess vegna ákveður hún að fara þessa leið.

Ég er ekki nokkrum vafa um það að innan Sjálfstæðisflokksins eru skiptar skoðanir um stækkun álversins. Skárra væri það nú í stórum og öflugum stjórnmálaflokki. Ekki ætla ég þeim að vera svo einsleit og skoðanalaus hjörð að þeir skiptist ekki skoðunum um þetta stóra mál.

En eitt geta allif flokkar sameinast um og það er að reyna að gera Samfylkinguna ótrúverðuga. Það er eitthvað sem Vinstri Grænir, Íhaldið og Framsókn geta verið sammála um að gera. Því ekkert hræðast þessi stjórnmálaöfl jafn mikið og stóran og öflugan jafnaðarmannaflokk.  


Ætlar VG að framlengja líftíma Íhaldsins í ríkisstjórn?

Það er ljóst af umræðum síðustu daga að kosningar eru í nánd. Mikið er rætt um það þessa dagana að kaffilbandalagið svokallaða hafi ekki haldið velli í Kryddsíldinni á gamlársdag.

Gaman var að fylgjast með viðbrögðum Steingríms J. Sigfússonar, formanns vinstri grænna þegar kom að umræðum um forsætisráðherrastólinn að loknum kosningum. Engu var líkara en að hann mætti ekki heyra á það minnst að formaður Samfylkingarinnar gæti e.t.v. sest í þann stól að loknum kosningum. Hann taldi það af og frá að það væri eðlilegt að forsætisráðherrann félli stærsta flokknum í skaut í hugsanlegu samstarfi kaffibandalagsins að loknum kosningum. Síðan fór hann út og suður með það hvernig væri hægt að túlka vilja kjósenda.

Það var líka gaman að fylgjast með formanni "eina alvöru feministaflokksins" afneita möguleikanum á því að tilnefna Inigibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem forsætisráðherraefni stjórnarandstöðuflokkanna. Með þeim hætti hefði Steingrímur J. Sigfússon getað gefið kjósendum skýran valkost í kosningunum í vor eins og hann stærir sig gjarnan af því að gera. En hann kaus að hafna þessu frábæra tækifæri sem feminstum hefur ekki hlotnast oft á undanförnum árum, þ.e. að leiða konu til öndvegis í íslenskum stjórnmálum. Ekki furða þó ekki hafi verið hægt að mynda formlegt kosningabandalag stjórnarandstöðuflokkanna að norskri fyrirmynd ef Vinstri Grænir hafa ekki viljað hafa skýrari línur en þetta.

Það er líka greinilegt á skrifum þeirra Múrverja, þar sem m.a. varaformaður flokksins Katrín Jakobsdóttir skrifar reglulega, að á þeim bænum eru menn svo sannarlega ekki fráhverfir því að VG myndi ríkisstjórn með Íhaldinu. Reyndar virðist Ármann Jakobsson í nýlegum pistli sínum ganga svo langt að aldei verði mögulegt að mynda tveggja flokka stjórn án fulltingis Íhaldsins. Hann gengur jafnvel svo langt að segja að hljóti VG meira en 15% fylgi sé það nánast skylda Íhaldsins að velja VG með sér sem hækju á næsta kjörtímabili í stað Framsóknar. Þetta þykir mér grátleg afstaða.

Það er vonandi að Vinstir Grænir fari að sjá að sér og leggist nú frekar á eitt með Samfylkingunni og stjórnarandstöðunni allri til þess að fella þessa ríkisstjórn og gefa Íhaldinu löngu tímabært frí frá ríkisstjórnarsetu. Þjóðin á betra skilið.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband