Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006

Sprengir Írak ríkisstjórnina?

Sorglegt var að fylgjast með Hjálmari Árnasyni , þingflokksformanni Framsóknarflokksins í Kastljósi um daginn. Þangað var hann mættur til þess að til þess að telja áhorfendum trú um að Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins hefði unnið eitt helsta afrek flokksins á undanförnum árum með því að viðurkenna það að stuðningurinn ríksstjórnarinnar við innrásina í Íraka hafi verið mistök. Eiginlega bara tæknileg mistök vegna þess að stuðningurinn byggðist á fölskum forsendum. Einnig mátti skilja orð Hjálmars þannig að hann hefði bara stutt þetta vegna þess að þáverandi formaður flokksins hafði gert þessi mistök og það er nú einu sinni þannig að Hjálmar ver sína menn. En nú er Halldór horfinn á braut og því engin ástæða til þess að verja hann lengur og þess vegna er Framsóknarflokkurinn kominn í stjórnarandstöðu við sjálfan sig á kosningavetri.

En Íhaldið stingur höfðinu í sandinn og þau fáu skipti sem höfuðið kemur upp úr sandinum berja Sjálfstæðismenn því í steininn og neita því að um mistök hafi verið að ræða. Björn Bjarnason er líkur þingflokksformanni Framsóknarflokksins í málflutningi sínum að því leyti að hann telur það eðlilegt að við fylgjum vinaþjóðum okkar, Bretum og Bandaríkjamönnum að málum hversu vitlaus sem þau mál kunna að vera. Það er nú einu sinni þannig að Björn er tilbúinn að verja sína menn líkt og Hjálmar. Björn virðist einnig styðja innrásina í Írak á þeim forsendum að það hefði hvort eð er engu skipt þótt íslenska ríkisstjórnin hefði verið á móti innrásinni. Þá sé betra að vera samsekur með vinum sínum heldur en að benda þeim á að e.t.v. sé um feigðarflan að ræða. En það hefði verið mun meira vinarþel fólgið í því að benda okkar ágætu vinum í Bretlandi og Bandaríkjunum á þá vitleysu sem hugmyndin um innrás í Írak var og stuðla þannig að því að þessar vinaþjóðir okkar gerðu ekki þessi stórkostlegu mistök. Það hefði verið meiri og betri bragur á þeim vinskap. Það skiptir engu máli í mínum huga hvort slík mótmæli hefðu haft eitthvað að segja eða ekki. Það var okkar skylda að mótmæla styrjaldarbrölti vopnabræðranna, Bush og Blair.

Íraksmálið er hið vandræðalegasta fyrir ríkisstjórnina og greinlegt að málið er fara að valda titringi í samstarfinu. Þess vegna kæmi mér það ekki á óvart þótt íraksdeilan verði til þess að þetta ríkisstjórnarsamstarf springur í loft upp vegna þess trúnaðarbrests sem kominn er upp innan ríkisstjórnarflokkanna vegna málsins.


Uppbygging íþróttamannvirkja á Sindravöllum

Á 106. fundi bæjarstjórnar Hornafjarðar sem haldinn var 7. september síðastliðinn var samþykkt tillaga meirihlutans í bæjarstjórn þess efnis að hefja framkvæmdir á Sindravöllum. Þar verður byggð upp aðstaða fyrir frjálsar íþróttir en eins og menn vita þá hefur aðstöðuleysi lengi háð iðkendum í frjálsum íþróttum. Tillaga meirihlutans felur einnig í sér að byggður verður upp nýr knattspyrnuvöllur. Ekki hefur verið tekin endanlega ákvörðun um það hvort um verður að ræða keppnisvöll með gervigrasi eða náttúrugrasi. Meirihluti Samfylkingar og Framsóknar vill í samstarfi og samráði við íþróttahreyfinguna í sveitarfélaginu gefa henni tíma til þess að fjármagna verkefnið til þess að hægt verði að byggja upp gervigrasvöll fyrir knattspyrnuiðkendur. Um þetta skapaðist nokkuð góð sátt á vinnufundi sem haldinn var í bæjarstjórn með fulltrúum íþróttahreyfingarinnar í sveitarfélaginu þann 29. ágúst síðastliðinn.

Minnihluti íhaldsins ákvað að styðja ekki við bakið á uppbyggingu íþróttamannvirkja 

Afstaða íhaldsins í bæjarstjórn sem kaus að sitja hjá við afgreiðslu málsins til þess að gera það að pólitískum sandkassaleik urðu mér mikil vonbrigði. Hver möguleg ástæða fyrir því kann að vera er erfitt að gera sér í hugarlund nema þeir séu e.t.v. á höttunum eftir tímabundnum vinsældum. Engin tillaga var lögð fram af minnihlutanum sem hægt var að ræða af einhverri alvöru. Eini tilgangurinn virtist vera sá að reyna að slá andstæðingana pólitískum höggum. En eins og gjarnan er með högg íhaldsins þá vara bara um vindhögg að ræða. 

Spennandi tímar framundan             

Ljóst er að spennandi tímar eru framundan hjá íþróttaiðkendum á Hornafirði. Hvort sem á endanum verður gerður gervigrasvöllur eða keppnisvöllur með náttúrugrasi þá er kristaltært að aðstaðan sem byggð verður upp fyrir unglingalandsmótið 2007 verður þannig úr garði gerð að við íbúar þessa sveitarfélags getum verið stoltir af þessu framtaki. Ég ætla því að nota þetta tækifæri til þess að hvetja alla bæjarbúa hvar í flokki sem þeir standa til þess að ganga í lið með íþróttahreyfingunni á staðnum og leggja henni lið í því fjáröflunarverkefni sem nú fer í hönd.


Eflum sveitarstjórnarstigið

Á hátíðarstundum verður mönnum tíðrætt um nauðsyn þess að efla sveitarstjórnarstigið. Á síðustu árum hefur nokkuð þokast í þeim málum. Grunnskólinn er kominn til sveitarfélaganna sem er stærsta einstaka verkefnið sem sveitarfélögin hafa tekist á hendur. Nú er svo komið að sveitarfélögin vildu gjarnan taka við fleiri verkefnum af ríkinu til þess að flytja þjónustuna nær íbúunum. Ríkið hins vegar bíður eftir því að fleiri sameiningar eigi sér stað áður en svo getur orðið og á meðan eru tekjustofnamál sveitarfélaganna í uppnámi.

 Ef  það er raunverulegur vilji til þess hjá yfirvöldum til þess að efla sveitarstjórnarstigið þurfa að koma fjármunir frá ríkinu á móti. Til þess að hraða fyrir sameiningaferlinu þyrfti að liggja fyrir tillögur á lagfæringum á tekjustofnum sveitarfélaganna. Það þarf að styrkja sveitarfélögin svo þau geti tekið við fleiri verkefnum frá ríkinu. Ríkið þarf líka að viðurkenna að grunnskólinn er beinlínis orðinn dýrari í rekstri vegna reglugerða og laga frá Alþingi.  


Framhaldsskóli, öldrunarþjónusta og löggæsla 

Eitt er ljóst að ef efla á sveitarstjórnarstigið á Íslandi enn frekar þarf meira að koma til heldur en að ríkið afhendi sveitarfélögunum verkefni sem menn telja að sé betur borgið heima í héraði. Verkefnunum þarf að fylgja fjármagn og það umtalsvert fjármagn til þess að sveitarfélögin geti rækt skyldur sínar.

Verkefni sem ég vil sjá koma til sveitarfélaga eru rekstur framhaldsskólans, löggæslunnar og öldrunarmála. Vel hefur tekist til með þau í tilraunaverkefninu hér á Hornafirði. Þessu verða að fylgja styrkari tekjustofnar og umfang til að standa undir verkefnunum. Það er hlutdeild í veltusköttum stórt mál að mínu mati.

 

Slíkum verkefnaflutningum fylgir valddreifing. Valddreifing sem er eftirsóknarverð í sjálfu sér enda er það eitt af meginmálum okkar jafnaðarmanna að flytja völd og verkefni til fólksins sjálf. Sveitarfélögin sjá um nærþjónustuna og þar eiga mörg stór verkefni að vera. Þessi legg ég til að flytjist þangað á næstu árum. Fyrst öldrunarmálin, þá framahldsskólinn og síðan skoðum við fyrirkomulag löggæslunnar í framhaldi af því. Þetta eflir sveitarstjórnastigið, stækkar sveitarfélögin og gerir þau að öflugu stjórnsýslustigi til mótvægis við ríkisvaldið.

  

Samgöngur í Suðurkjördæmi

Samgöngumál eru flestum íbúum landsins ofarlega í huga því góðar samgöngur eru forsenda þess að byggðalög fái tækifæri til þess að dafna og þróast. Þar eru íbúar í Suðurkjördæmi engin undantekning. Samgöngumálin eru málaflokkur sem verður að taka föstum tökum því þar eru verkefnin aðkallandi.            

Hægt er að taka sem dæmi samgöngur til Vestmannaeyja. Þau mál eru í ólestri og hafa verið í ólestri í þó nokkurn tíma. Ferðum Herjólfs verður að fjölga og mikilvægt er að sá flugrekstraraðili sem á að sjá um flug á milli lands og eyja sé í stakk búinn til þess að sinna verkefninu. Eyjamenn geta ekki búið við óvissu í sambandi við flug. Ekki er langt síðan fregnir bárust af því að Flugfélag Íslands væri hefja áætlunarflug til Eyja á nýjan leik. Því fögnuðu Eyjamenn og það er vonandi að það komi til með að treysta stoðirnar undir byggðinni í Eyjum. Traustar flugsamgöngur munu líka efla ferðaþjónustu til muna í Eyjum.           

Til lengri tíma litið er gríðarlega mikilvægt að samgöngur til og frá Vestmannaeyjum verði bættar. Til þess að það geti gerst er nauðsynlegt að skoða gaumgæfilega alla þá möguleika sem í boði eru. Kanna þarf hvaða leiðir henta, hagkvæmni þeirra og nýtingarmöguleika.            

Í mínum huga hlýtur tvöföldun Suðurlandsvegar líka að vera eitt af forgangsmálum verðandi þingmanna Suðurkjördæmis. Sá fjöldi bíla sem þar fer um á hverjum degi kallar á að ráðist verði sem allra fyrst í þá framkvæmd. Sá mikli byggðakjarni sem hefur byggst upp á undanförnum árum og áratugum austan við Hellisheiðina treystir á að þessi framkvæmd komist á dagskrá hjá stjórnvöldum.            

Í austasta hluta kjördæmisins er ein samgöngubót orðin mjög aðkalland og það eru göng undir Lónsheiði. Vegurinn um Hvalnes – og Þvottárskriður er orðinn mikil hindrun á þjóðvegi 1. Miklum fjármunum er varið í halda þessum farartálma opnum á ári hverju. Nauðsynlegt er að skoða hvort ekki sé orðið tímabært að skoða kosti þess að setja þjóðveg 1 í göng undir Lónsheiði. Göng á þessum vegarkafla myndu sannarlegar auka öryggi og áreiðanleika á þessum hluta þjóðvegarins og myndi þjóna hagsmunum allra landsmanna.


Styttist í Unglingalandsmót UMFÍ á Hornafirði

Næsta verslunarmannahelgi verður stór helgi í lífi okkar Hornfirðinga. Þá höldum við Unglingalandsmótið sem UMFÍ hefur staðið fyrir undanfarin ár. Við vonumst til þess að um 10.000 manns sæki okkur heim þessa helgi. Ungmennasambandið Úlfljótur hefur yfirumsjón með mótinu en sveitarfélgagið er samstarfsaðili. Það er ætlun okkar að taka vel á móti gestum okkar þessa helgi sem aðrar helgar. En þegar 10.000 manns sækja okkur heim er ljóst að vanda verður til verka og öll skipulagning þarf að vera í lagi. Unglingalandsmótsnefnd hefur þegar tekið til starfa og situr stjórn USÚ í nefndinni auk annarra. Frá sveitarfélaginu kemur Matthildur Ásmundardóttir, formaður Æskulýðs - og tómstundaráðs. Einnig situr Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri í nefndinni. Formaður nefndarinnar er Ragnhildur Einarsdóttir sem einnig er formaður USÚ.

Unglingalandsmótsnefndin er skipuð öflugu fólki sem tilbúið er að leggja sín lóð á vogarskálarrnar til þess að gera mótið sem glæsilegast og þannig að Hornfirðingar getið verið stoltir af framkvæmd þess. En það þarf meira til svo að mótið heppnist vel. Gríðarlega marga sjálfboðaliða þarf til þess að allt gangi upp. Þess vegna skora ég á alla sem vettlingi geta valdið að leggjast á eitt með nefndinni og bjóða sig fram sem sjálfboðaliða á mótinu. Á mótinu verða að vera dómarar úr hinum ýmsu íþróttagreinum, t.d. knattspyrnu, körfubolta og frjálsum íþróttum. Auk dómaranna þarf fjöldann allan af sjálfboðaliðum í hin ýmsu störf á mótinu.

Í tengslum við mótið hyggur sveitarfélagið á stórfellda uppbyggingu íþróttamannvirkja. Á vegum sveitarfélagsind er að störfum sérstök nefnd um íþróttamannvirki. Formaður hennar er Friðrik Ingvaldsson, fyrrverandi formaður Æskulýðs - og tómstundaráðs Hornafjarðar. Nú þegar hefur verið ákveðið að ráðast í byggingu nýrrar sundlaugar en ljóst er að hún verður aldrei fullkláruð fyrir Unglingalandsmót. Vonir standa þó ennþá til að sundlaugarkerið sjálft verði tilbúið til keppni á mótinu. Svæðið sem hefur verið lagt undir sundlaug er þó ekki ennþá tilbúið svo hægt sé að hefja framkvæmdir. Þess vegna er ekki hægt að ganga út frá því sem vísu að sundlaugarkerið verði tilbúið fyrir sundiðkendur um næstu verslunarmannahelgi.

Uppbygging aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir hefur einnig verið ákveðin á Sindravöllum. Um 400 metra hlaupabraut úr tartanefni verður að ræða auk annarrar hefðbundinnar aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir. Auk þess verður knattspyrnuvöllur Sindravalla hækkaður upp og endurgerður. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um það hvort knattspyrnuvöllurinn skuli lagður gervigrasi eða náttúrulegu grasi. Það ræðst af fjármögnun verkefnisins. Bæjarstjórn hefur ákveðið að leggja 30 milljónir í verkefnið en stjórn USÚ mun á næstu dögum fara í frekara fjármögnunarátak.


Samblásturinn gegn Árna Johnsen eykst

Nú hefur Landssamband Sjálfstæðiskvenna bæst í hóp þeirra innan raða Sjálfstæðisflokksins sem draga dómgreind félaga sinna í flokknum í Suðurkjördæmi í efa. Þær telja að framboð Árna Johnsens geti skaðað framavonir kvenna ínnan Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum. Vantraustið sem Árna er sýnt af sínum eigin flokksmönnum hlýtur að valda honum hugarangri og það hlýtur líka að valda þeim Sjálfstæðismönnum í Suðurkjördæmi sem veittu Árna brautargengi í prófkjörinu hugarangri. Það er langt síðan maður hefur séð jafn kerfisbundið unnið að því að grafa undan trúverðugleika eins af forystumönnum Sjálfstæðisflokksins. Ef Árni Johnsen finnur að hann á ekki lengur samleið með Íhaldinu hlýtur hann að íhuga sérframboð miðað við þann stuðning sem hann hlaut í prófkjörinu.

Framsókn virðist ætla að gera úrstlitatilraun á kosningavetri til þess að losna undan ægivaldi Sjálfstæðisflokksins. Björn Ingi Hrafnsson segist finna fyrir mikilli andstöðu í röðum Framsóknarmanna við hlutafélagavæðingu Rúv. Formaðurinn, Jón Sigurðssson hefur líka stigið fram og bent á það að stuðningurinn við innrásina í Írak hafi verið mistök. Það eru engar fréttir fyrir okkur sem vorum alltaf á móti stuðningnum við innrásina í Írak.


Prófkjör - vörn sitjandi þingmanna?

Að undanförnu hefur mikil umræða farið fram um gildi prófkjara og hvort þau þjóni tilgangi sínum. Margir telja þau í dag vera vörn sitjandi þingmanna. Ég held að það sé alveg sama hvaða kerfi notuð verða til þess að raða á framboðslista þá komi sitjandi þingmenn alltaf til með að verja sín sæti með öllum tiltækum ráðum. Annað væri óeðlilegt. Ef einhver reynir að taka eitthvað af þér þá reynirðu að passa það. Þetta lærðum við í sandkassanum á leikskólanum og það þurfti enginn að kenna okkur þessi viðbrögð, þau eru meðfædd.

Það er rétt að það er erfitt að etja kappi við sitjandi þingmenn og nýliðar sitja að sjálfsögðu ekki við sama borð og þingmenn. Þingmennirnir njóta þess að vera þekkt andlit og eiga auðveldara með það að stunda og stjórna kosningabaráttu heldur en nýliðarnir. Við þessu er lítið að gera og sama hvaða kerfi menn notast við. Þessi skekkja verður alltaf til staðar. En gleymum því ekki að þeir sem við köllum sitjandi þingmenn voru einu sinni nýliðar í þessum bransa. Rétt eins og nýliðarnir í nýafstöðnum prófkjörum.

Prófkjör Samfylkingarinnar vítt og breitt um landið sýna okkur líka svo ekki verður um villst að nýliðarnir geta vel komist upp fyrir þingmennina. Lítum á prófkjörin í Norðvestri þar sem Guðbjartur Hannesson vinnur sigur og í Suðvestri þar sem Gunnar Svavarsson, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar vinnur glæsilegan sigur. Þessir tveir eru að vísu þekktir einstaklingar en engu að síður lenda þeir fyrir ofan sitjandi þingmenn í prófkjörum þannig að prófkjörin eru ekki alltaf sú vörn fyrir sitjandi þingmenn sem margir telja að þau séu.

En það er líka sorglegt að fylgjast með sitjandi þingmönnum sem tapa í prófkjörum fara í fýlu líkt Valdimar Leó Friðriksson gerði að loknu prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Mér finnst að hann eigi sjá sóma sinn í því að hætta á þingi og eftirláta næsta manni á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi þingsætið fyrst hann sér sig knúinn til þess að segja sig úr Samfylkingunni af þeirri einu ástæðu að vera í fýlu eftir prófkjör. Ekki er um málefnaágreining að ræða. Það má heldur ekki gleyma því að Valdimar kom inn á þing eftir að Guðmundur Árni Stefánsson hætti á þingi og Ásgeir Friðgeirsson, fyrsti varamaður hafnaði þingsætinu og þá fyrst var röðin komin að Valdimar Leó.

Ég sá í Kastljós þætti um daginn að Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ taldi að endurskoða þyrfti prófkjörin í ljósi þess að það væru mikil særindi eftir þau. Hún sjálf virtist aðallega vera sár yfir því að kjósendur í prófkjöri Íhaldsins í Kraganum hefðu kosið eftir póstnúmerum. Í raun er ekkert undarlegt við það þar sem fólk kýs frekar þá einstaklinga sem það treystir og þekkir. Fólk er líklegra til þess að treysta og þekkja þá sem standa því næst. Þar fyrir utan þekki ég enga leið til þess að koma í veg fyrir að fólk kjósi eftir póstnúmerum. Lýðræðið virkar nefnilega bara þannig að kjósendur hafa fullkominn rétt til þess að ráðstafa sínum atkvæðum eins og þeim sýnist. Kjósendur kjósa eftir póstnúmerum ef þeir vilja það en þeir hafa líka rétt á því að gera það ekki. Það er okkar að sannfæra þá um að gera það ekki ef við teljum hag okkar betur borgið með því.

Sjallarnir virðast heldur ekkert vera neitt sérstaklega ánægðir með það hvernig prófkjörið fór hjá þeim í Suðurkjördæmi. Þar var eini sigurvegarinn Árni Johnsen. Nafni hans, Mathiesen úr Hafnarfirði fékk háðulega útreið og hafði ekki helming atkvæða í fyrsta sætið. Fjármálaráðherrann var sendur sérstaklega úr Firðinum til þess að bjarga Íhaldinu í Suðurkjördæmi á grundvelli þess að hann hafi í rauninni alltaf verið þingmaður Reyknesinga og vegna þess að hann starfaði sem dýralæknir í uppsveitum Árnessýslu á árum áður. Byrjun hans í kjördæminu er ekki sterk. Drífa Hjartardóttir, sem menn kappkosta að mæra núna eftir að hún féll í prófkjörinu, hafði ekki kjark til þess að sækast eftir efsta sætinu sem hefði verið eðlilegt í ljósi reynslu hennar og dugnaðar. Mér þykir einsýnt að Sjálfstæðismönnum hafi ekki líkað þetta kjarkleysi Drífu sem þekkir málefni kjördæmisins betur en flestir og því hafi þeir hafnað henni. Það eftirsjá í Drífu fyrir kjördæmið og Hornfirðingar eiga eftir að sakna hennar.

Annars held ég að það sé ekki útséð með framboðsmál Íhaldsins í Suðurkjördæmi í ljósi tæknilegra mistaka Árna Johnsens þegar hann talaði um brot sín í opinberu starfi sem tæknileg mistök. Mér sýnist að samblástur gegn honum innan raða Sjálfstæðisflokksins sé að magnast heldur betur. Í kvöld heyrði ég formann flokksins segja, í viðtali við Þóru Arnórsdóttur á Stöð 2, að mjög hefði borið á úrsögnum úr flokknum. Hver var ástæðan sem formaðurinn tilgreindi fyrir úrsögnunum? Hún var kjör Árna Johnsens í 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Ég held að formaðurinn hafi ekki verið að tala um þetta vegna þess að hann hafi verið svona ánægður með úrsagnirnar. En kjör Árna í 2. sætið var sterkt og Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi hafa greinilega mikla trú á honum. Þar dansa þeir greinilega ekki takt við forystu flokksins.

 


Stýrihópur um skólastefnu

Á bæjarráðsfundi 14. nóvember síðastliðinn lagði ég fram bókun þar sem ég segi mig úr stýrihópi um skólastefnu. Ástæðan fyrir því að ég geri það er sú að stýrihópurinn á að fjalla um stjórnunarþátt grunnskólanna á Hornafirði. Í þeirri vinnu er leikur vafi á um hæfi mitt vegna tengsla við einn af skólastjórnendum sem ekki verða umflúin með nokkrum hætti. En það er alveg ljóst að ég er ekki vanhæfur til þess að fjalla skólastefnuna sem slíka.

Mitt sæti í stýrihópnum tekur Anna María Ríkharðsdóttir sem situr í skólanefnd. Hún var minn varamaður áður en ég sagði mig úr stýrihópnum og hennar varamaður verður Torfi Friðfinnsson sem einnig situr í skólanefnd sveitarfélagsins. Þessu fólki treysti ég fullkomlega til að ljúka þessari vinnu.

Annars hljóðar bókunin svona en hún birtist líka í Eystrahorni 16. nóvember, á Degi íslenskrar tungu:

 Í ljósi umræðu um hugsanlegt vanhæfi undirritaðs til þess að fjalla um stjórnunarþátt grunnskólanna á Hornafirði hefur undirritaður ákveðið að draga sig út úr starfi stýrihópsins.Þegar fjallað er um stjórnunarþátt grunnskólanna er ljóst að vanda þarf til verka þar sem rekstur grunnskóla er stærsta einstaka verkefnið á hendi sveitarfélagsins. Því er mikilvægt að vel takist til með vinnu stýrihópsins. Ef þátttaka undirritaðs torveldar vinnu stýrihópsins er rétt að hann víki sæti svo það góða starf sem stýrihópurinn hefur unnið og það mikilvæga starf sem hann á eftir að vinna skaðist ekki.  Um leið og undirritaður harmar að ekki hafi tekist að ljúka vinnu við nýja skólastefnu á síðasta kjörtímabili vegna ósamstöðu vill undirritaður ítreka þá ósk sína að vinnu við nýja skólastefnu og stjórnunarþátt grunnskólans ljúki sem fyrst, skólastarfi í sveitarfélaginu til heilla. Í febrúar árið 2005 var haldið skólamálaþing þar sem umræða hófst með formlegum hætti um nýja skólastefnu og stjórnunarþátt grunn – og leikskóla. Niðurstaða er fengin í stjórnunarþátt leikskólanna en eftir er að klára skólastefnuna sjálfa og stjórnunarþátt grunnskólanna. Það er ljóst að bið í óvissu um framtíðarskipulag í skólamálum er skólasamfélaginu á Hornafirði ekki til framdráttar og því leggur undirritaður nú sem endranær höfuðáherslu á að stýrihópurinn einhendi sér í að ljúka þessum málum sem allra fyrst vegna þess að þau hafa nú þegar tekið alltof langan tíma. Við enga er að sakast í þeim efnum nema kjörna fulltrúa.    

Árni Rúnar Þorvaldsson

Samfylkingunni


Vatnajökulsþjóðgarður

Á vefsíðu Björgvins G. Sigurðssonar, alþingismanns og efsta manns á lista Samfylkingarinnar í Suðukjördæmi má lesa um fyrirspurn þingmannsins til umhverfisráðherra um starfsemi Vatnjökulsþjóðgarðar. Þingmaðurinn spyr hvort ekki sé inni í myndinni að rekstur Jöklaseturs á Höfn verði hluti af heildarrekstri Vatnajökulsþjóðgarðs. Það er gott til þess að vita þingmenn Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi eru meðvitaðir um að uppbygging Vatnajökulsþjóðgarðs er samfélaginu á Suðausturlandi mikilvæg.            

Það er rétt sem kemur fram hjá þingmanninum að Vatnajökulsþjóðgarður skiptir alla uppbyggingu á Suðausturlandi gríðarlega miklu máli og þá sérstaklega í atvinnutilliti. Á Suðausturlandi hefur mikil uppbygging á sviði ferðamennsku átt sér stað og öflugur Vatnajökulsþjóðgarður myndi sannarlega styðja við og efla þann rekstur. Þess vegna skiptir það okkur mjög miklu máli að vandað verði til verka við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs svo vel megi til takast og uppbyggingin skili sér inn í samfélagið.            

Mörg ár eru liðin síðan Hornfirðingar áttuðu sig á því hvað jökullinn væri mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og hér hefur verið markviss uppbygging ferðaþjónustu frá þeim tíma sem byggist að miklu leyti á aðdráttarafli jökulsins. Ekkert eitt svæði á landinu býr í jafn mikilli nálægð við það glæsilega ferlíki sem Vatnjökull svo sannarlega er. Við tölum gjarnan um að við búum í Ríki Vatnajökuls. Vatnajökull er fyrir augum okkar alla daga allt árið um kring. Þess vegna er eðlilegt að stór hluti uppbyggingarinnar í kringum Vatnjökulsþjóðgarð fari fram í Sveitarfélaginu Hornafirði.            

Jöklasýningin á Höfn í gamla vöruhúsinu er gott dæmi um þá metnaðarfullu uppbyggingu sem Hornfirðingar hafa staðið fyrir í tengslum við Vatnajökul og við erum hvergi nærri hætt á þeirri vegferð. Það er þá líka von okkar að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðar komi til með að styðja við bakið á okkur í þeirri viðleitni.  


Félagslíf ungmenna á Hornafirði

Í 44. tölublaði Eystrahorns birtist góð grein eftir þrjá drengi frá Hornafirði sem hafa áhyggjur af stöðu félagslífs á svæðinu fyrir ungmenni sem hafa lokið grunnskólagöngu. Á morgun birtist í Eystrahorni svargrein sem ég og Guðrún Ingimundardóttir, félagi minn í bæjarstjórn sömdum í ljósi umræðunnar.

Hún er svona:

Öflugt félagslíf ungmenna – samfélaginu mikilvægt 

 

Í 44. tbl. Eystrahorns frá 2. nóvember er ágæt grein eftir þá Sindra Snæ Þorsteinsson, Hrafn Eiríkssson og Hauk Halldórsson. Þeir stunda nám við Framhaldsskóla Austur - Skaftafellssýslu. Það er alltaf sérstakt ánægjuefni þegar ungt fólk lætur sig málefni sveitarfélagsins okkar varða eins og þeir félagar gera í grein sinni. Þeir eru líka að tala um málefni sem kemur okkur öllum við.

Í greininni er farið yfir ýmislegt í félagslífi unglinga hér í sveitarfélaginu eins og t.d. Lanið sem þeir félagar stunda af miklum vígamóð. Þeir félagar benda á það sem þeim þykir að betur megi fara í málefnum ungmenna á aldrinum 16 – 20 ára. Undir það skal tekið að félgagslif ungmenna á þeim aldri gæti auðvitað verið fjölbreyttara en það er í dag í okkar ágæta sveitarfélagi.

 Unga fólkið hafi áhrif 

Það er sannarlega rétt hjá Sindra, Hauki og Hrafni að stjórnmálamenn tala oft um það að mikilvægt sé fyrir bæjarfélagið að halda krökkunum hér á staðnum eftir að grunnskóla lýkur. Gott og öflugt félagslíf er ein af mikilvægustu forsendum þess að unga fólkið sjái ástæðu til þess að vera hér áfram eftir að grunnskóla lýkur. Til þess að unnt sé að byggja upp öflugra félagslíf í sveitarfélaginu fyrir ungmenni á aldrinum 16 – 20 ára er mikilvægt að allir þeir aðilar sem hafa með félagsmál og félagslíf ungmenna að gera setjist niður og ræði saman. Þá er mikilvægt að unga fólkið taki virkan þátt í þeirri umræðu þannig að þeirra sjónarmið séu höfð til hliðsjónar. Það er lykilatriði svo vel megi til takast að ungmennin sjálf séu gerendur í þessu ferli vegna þess að þau vita hvað þarf helst að bæta og hafa oft á tíðum hugmyndir sem aðrir koma ekki auga á.

Það er ekki rétt að við sem stjórnum í sveitarfélaginu segjum ykkur hvernig félagslífið á Hornafirði eigi að vera. Þið verðið að segja okkur til í þeim efnum og grein ykkar félaganna í Eystrahorni er mjög gott innlegg í þá umræðu. Orð eru til alls fyrst.

 Umræðan komin af stað 

Stjórnmálafólkið í sveitarfélaginu situr þó ekki auðum höndum þessa dagana heldur er verið að ræða þessi mál af mikilli alvöru. Á fundi Félagsmálaráðs 14. nóvember var þessi málaflokkur tekinn til umræðu. Félagsmálaráð bendir á nokkrar leiðir sem það telur að geti verið til bóta fyrir félagslíf ungmenna í sveitarfélaginu. Einnig er vert að benda á að Æskulýðs– og tómstundaráð mun á næsta fundi taka þessi málefni til sérstakrar umfjöllunar. Það er því ljóst að grein ykkar félaga hefur svo sannarlega hreyft við okkur sem stýrum bæjarfélaginu í dag og við lýsum yfir fullum vilja til samstarfs við ykkur um að efla og bæta félagslíf ungmenna í sveitarfélaginu þannig að allir njóti góðs af. 

Árni Rúnar Þorvaldsson

Guðrún Ingimundardóttir

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband