Leita í fréttum mbl.is

Ætlar VG að framlengja líftíma Íhaldsins í ríkisstjórn?

Það er ljóst af umræðum síðustu daga að kosningar eru í nánd. Mikið er rætt um það þessa dagana að kaffilbandalagið svokallaða hafi ekki haldið velli í Kryddsíldinni á gamlársdag.

Gaman var að fylgjast með viðbrögðum Steingríms J. Sigfússonar, formanns vinstri grænna þegar kom að umræðum um forsætisráðherrastólinn að loknum kosningum. Engu var líkara en að hann mætti ekki heyra á það minnst að formaður Samfylkingarinnar gæti e.t.v. sest í þann stól að loknum kosningum. Hann taldi það af og frá að það væri eðlilegt að forsætisráðherrann félli stærsta flokknum í skaut í hugsanlegu samstarfi kaffibandalagsins að loknum kosningum. Síðan fór hann út og suður með það hvernig væri hægt að túlka vilja kjósenda.

Það var líka gaman að fylgjast með formanni "eina alvöru feministaflokksins" afneita möguleikanum á því að tilnefna Inigibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem forsætisráðherraefni stjórnarandstöðuflokkanna. Með þeim hætti hefði Steingrímur J. Sigfússon getað gefið kjósendum skýran valkost í kosningunum í vor eins og hann stærir sig gjarnan af því að gera. En hann kaus að hafna þessu frábæra tækifæri sem feminstum hefur ekki hlotnast oft á undanförnum árum, þ.e. að leiða konu til öndvegis í íslenskum stjórnmálum. Ekki furða þó ekki hafi verið hægt að mynda formlegt kosningabandalag stjórnarandstöðuflokkanna að norskri fyrirmynd ef Vinstri Grænir hafa ekki viljað hafa skýrari línur en þetta.

Það er líka greinilegt á skrifum þeirra Múrverja, þar sem m.a. varaformaður flokksins Katrín Jakobsdóttir skrifar reglulega, að á þeim bænum eru menn svo sannarlega ekki fráhverfir því að VG myndi ríkisstjórn með Íhaldinu. Reyndar virðist Ármann Jakobsson í nýlegum pistli sínum ganga svo langt að aldei verði mögulegt að mynda tveggja flokka stjórn án fulltingis Íhaldsins. Hann gengur jafnvel svo langt að segja að hljóti VG meira en 15% fylgi sé það nánast skylda Íhaldsins að velja VG með sér sem hækju á næsta kjörtímabili í stað Framsóknar. Þetta þykir mér grátleg afstaða.

Það er vonandi að Vinstir Grænir fari að sjá að sér og leggist nú frekar á eitt með Samfylkingunni og stjórnarandstöðunni allri til þess að fella þessa ríkisstjórn og gefa Íhaldinu löngu tímabært frí frá ríkisstjórnarsetu. Þjóðin á betra skilið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband