Leita í fréttum mbl.is

Stoltenberg - stærsti óvinur Íslands?

Ef núverandi ríkisstjórn skortir þrek og kraft til þess að ljúka IceSave-málinu, sem er skilgetið afkvæmi Sjálfstæðis - og Framsóknarflokks vegna einkavinavæðingarstefnunnar sem byggði á helmingaskiptareglu hrunflokkanna, þá á hún ekkert erindi lengur í stjórnarráðið. Ástæðan fyrir því er sú að ef menn halda áfram að heykjast á því að ljúka þessu ömurlega máli þá er öll sú efnahagsáætlun sem stjórnvöld hafa lagt upp með í samvinnu við AGS í fulkominni upplausn.

Atvinnulífið verður áfram í frosti, fyrirtækin eiga erfitt með að fjármagna sig, áfram verður erfitt að fá erlent fjármagn inn í landið, forsendur fyrir vaxtalækkunum skapast ekki, endurskiplagning bankakerfisins verður áfram í óvissu og allri endurreisninni er teflt í tvísýnu. Þetta er því miður sú mynd sem blasir við okkur í dag en getum ekki tekið á vegna ótta nokkurra þingmanna við það sem kann að gerast eftir sjö ár. Og óábyrgir stjórnarandstöðuþingmenn nýta sér svo þennan ótta og hræra eins og þeir geta í ákvörðunarfælnum þingmönnum VG, sem sprikla eins og strengjabrúður í höndum þeirra.  Mogginn bætir síðan um betur og leggur til að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur verji minnihlutastjórn Vinstri Grænna falli. Ef Ísland væri málverk þá væri það eftir Dali og ef það væri skáldsaga þá væri höfundurinn Kafka.  

Kannski er ekkert skrýtið að margir sjái engan tilgang í því að klára ICE SAVE málið, sem er nú bara 15% af þeim skuldavanda sem við búum við í dag. Þeir hinir sömu hafa nefnilega komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé nein þörf fyrir samstarfinu við AGS. Meirihluti virðist vera á Alþingi um að hafna beri aðkomu AGS að efnahagsáætlun okkar. Menn virðast hafa fundið betri leið til þess að koma hjólunum aftur undir íslenskt efnahagslíf og eru komnir með alveg nýja áætlun - hefði maður haldið.

Sú áætlun á þó alveg eftir að líta dagsins ljós. Formaður Framsóknarflokksins telur sig þó vera kominn með vilyrði fyrir láni upp á tvö þúsund milljarða frá þingmanni Miðflokksins í Noregi, sem hlaut 6% atkvæða í síðustu kosningum þar í landi, en það á þó eftir að hljóta samþykki annarra flokka í ríkisstjórninni. Við vonum bara það besta.

Reyndar er ég farinn að hallast að því að eini tilgangurinn með ferð framsóknarkappanna til Noregs hafi verið að sýna fram á að norskir kratar beri fyrst og fremst ábyrgð á stöðu Íslands í dag. Ef ekki væri fyrir fjandans hrokann og belginginn í stærsta óvini óvini Íslands, honum Stoltenberg, þá væri Ísland fyrir löngu búið að fá bunch of money frá Norðmönnum án nokkurra skilyrða - þetta segir sig sjálft.

Afstaða Sjálfstæðismanna til AGS er athyglisverð í því ljósi að það voru þeir - í ríkisstjórn með Samfylkingunni - sem töldu aðkomu AGS nauðsynlega til að bjarga því litla sem eftir lifði af trúverðugleika og trausti á íslenskt efnahagslíf. Spurningin sem vaknar við þessa afstöðubreytingu Sjálfstæðismanna hlýtur því að vera sú, hvort íslenskt fjármála - og efnahagslíf hafi eflst svo á þessum tíma að aðkomu AGS sé ekki lengur þörf - að trúverðugleikinn hafi verið endurreistur og að íslenkst fjármálalíf njóti óskoraðs alþjóðlegs trausts á ný. Skýtur það nokkuð skökku við miðað við málflutning þeirra í garð ríkisstjórnarinnar og verka hennar til þess að koma atvinnulífinu í gang á nýjan leik.

Það er orðið mjög mikilvægt að ríkisstjórnin svari kallinu um það hvort hún eigi yfir höfuð erindi í stjórnarráðið. Enn er beðið niðurstöðu með það hvort VG sé í rauninni stjórntækur flokkur. Til þess að svo megi verða verður flokkurinn að leysa úr sínum innanbúðarátökum þannig að hægt sé að einhenda sér í verkin, sem liggja fyrir okkur í dag - t.d. að koma í veg fyrir frekara atvinnuleysi og koma skuldugum heimilum til hjálpar - í stað þess að vera á endalausum veruleikaflótta.

Vandræðagangurinn með ICE SAVE er ekkert nema flótti frá vandamálunum sem blasa við okkur í dag, sem frjálshyggjutilraunir Sjálfstæðisflokksins hafa skilið eftir í fanginu á okkur -vinstri flokkunum - og við verðum einfaldlega að axla þessa ábyrgð - og ljúka málinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Nei, það er Jóhanna Sigurðardóttir.

Sigurgeir Jónsson, 10.10.2009 kl. 22:56

2 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Kemur ekki á óvart að þú skulir gleyma að Samfylkingin var í ríkisstjórn þegar bankahrunið varð, hafði verið í henni í tæplega eitt og hálft ár og á þeim tíma m.a. haft með höndum bankamálaráðuneytið og þ.m.t. fjármálaeftirlitið. Á þessum tíma varð Icesave að því rugli sem nú er alþekkt. Hvar var Samfylkingin? Hvar var bankamálaráðherrann? Jú, að mæra útrásarmennina alveg fram á síðustu stundu.

Hjörtur J. Guðmundsson, 11.10.2009 kl. 11:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband