Leita í fréttum mbl.is

Sjálfstæðisflokkurinn lofar öðru efnahagshruni

Hef birt efitirfarandi pistil á á nokkrum veflmiðlum í ljósi hræðuáróðurs bæjarstjóra á vegum Íhaldsins undanfarna daga:

Ef Elliði Vignisson, Halldór Halldórsson og Kristinn Jónasson, sem hingað til hafa verið taldir málsmetandi bæjarstjórar, væru vinstri menn myndu fyrirsagnirnar á greinum þeirra vera í líkingu við þá yfirskrift sem er á þessu litla greinarkorni. Málefnafátækt og hræðlsuáróður Sjálfstæðismanna náði áður óþekktum hæðum með grein þeirra félaga á eyjar.net, rikivatnajökuls.is og í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag - hefur þó ýmislegt litið dagsins ljós úr þeim herbúðum í kosningabaráttunni. Ekki kom greinin algjörlega á óvart þar sem hún kemur í beinu framhaldi af hinni grímulausu varðstöðu Sjálfstæðisflokksins á Alþingi um sérhagsmuni og völd þar sem Sjálfstæðisflokkurinn lagðist flatur gegn ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir í þjóðareign og lýsti einnig yfir fullnaðarsigri á lýðræðisumbótum í stjórnarskrármálinu á Alþingi.

Feigðarflan bæjarstjóranna

Bæjarstjórarnir þrír, sem vilja vafalaust áfram teljast til málsmetandi bæjarstjóra, beita gamalkunnu bragði, sem Davíð Oddsson - átrúnaðargoð þeirra - beitti gjarnan; að uppnefna andstæðinga sína eða það sem andstæðingarnir boðuðu. Það gera þeir til þess að renna stoðum undir þá kenningu sína að vinstri flokkarnir - og þá alveg sérstaklega Samfylkingin - ætli sér að leggja sjávarútveg á Íslandi í rúst - hvorki meira né minna.

Heimska Samfylkingarfólks er auðvitað mjög skiljanleg vegna þess að í henni er ekkert nema eitthvað mennta  - og menningarelítufólk úr 101 Reykjavík sem ekkert veit í sinn haus - fólk sem heldur að mjólkin komi úr fernunni og að peningarnir verði til í bönkunum. Í Samfylkingunni er auðvitað ekkert fólk af landsbyggðinni sem sviðið hefur það mikla óréttlæti sem kvótakerfið hefur stuðlað að, ekkert venjulegt launafólk sem hefur blöskrað að nokkrir einstaklingar hafi getað auðgast óheyrilega og lagt heilu byggðalögin í rúst með því að selja afaheimildirnar og auðvitað ekkert fólk af landsbyggðinni sem ber velferð sinnar heimabyggðar fyrir brjósti. Því þá væri það að styðja við hina svokölluðu feigðarleið - eins og bæjarstjórarnir uppnefna sjávarútvegsstefnu Samfylkingarinnar svo smekklega.

Röksemdafærsla bæjarstjóranna stenst enga skoðun vegna þess að þeir byggja afstöðu sína á því að kvótastaðan í þeirra heimabyggð er sterk. Ef breyting yrði á því - og það getur alltaf gerst í núverandi kerfi - yrðu þeir fyrstu mennirinir til þess að heimsækja Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra í 101 Reykjavík og krefjast aðgerða. Þá myndu þessir ágætu bæjarstjórar vakna upp við vondan draum og átta sig á því, að sá leiðangur sem þeir lögðu upp í fyrir kosningarnar 2009, þar sem hræðsluáróður og varðstaðan um völd og sérhagsmuni voru leiðarljósin, reyndist mikið feigðarflan.

Það er einmitt vegna þessarar stöðugu óvissu sem byggðirnar búa við að Samfylkingin leggur til sáttargjörð í sjávarútvegi. Sáttargjörð í sjávarútvegi er einnig mikilvæg til þess að koma í veg fyrir að hægt sé að veðsetja óveiddan fiskinn í sjónum - sameign þjóðarinnar - en brask með aflaheimildirnar var einn þeirra þátta sem stuðluðu að eigna - og fjármálabólunni, sem endaði með efnahagshruni á haustdögum 2008. Allar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu verða að miða að því að koma í veg fyrir að slíkt geti gerst aftur og tryggja stöðu og afkomu byggðanna um allt land.

Stefnuleysi Sjálfstæðisflokksins

Eina sem hægt er að taka undir með bæjarstjórunum er að kosningabaráttan hefur ekki snúist nógu mikið um málefnin. En þar er fyrst og síðast um að kenna getu - og stefnuleysi Sjálfstæðisflokksins sem leitar þá í smiðju skrímsladeildarinnar sinnar sem hefur í nógu að snúast við útbúa hræðsluáróðurinn til þess að breiða yfir málefnafátæktina í Valhöll. Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn í herðar niður í stærsta pólítíska máli samtímans, sem er spurningin um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna - ESB - og í gjaldmiðilsmálum. Og á meðan Íhaldið skilar auðu í þessum málum má færa rök fyrir því að flokkurinn stefni í áttina að nýju efnahagshruni - eins og Benedikt Jóhannesson hefur bent á.

Niðurstaðan er því sú að bæjarstjórarnir þrír hafa tekið sér stöðu með sérhagsmunum gegn almannahagsmunum. Með slíka málefnastöðu þarf ekki að undra að Sjálfstæðismenn - eins og bæjarstjórarnir þrír - veigri sér við því að ræða málefnin enda hafa þeir ekki upp á neinar lausnir að bjóða og þegar staðan er þannig er þægilegra að halda uppi hræðsluáróðri. Það er erindi Sjálfstæðisflokksins í stjórnmálum í dag.

 

Árni Rúnar Þorvaldsson

Höf. er formaður bæjarráðs Hornafjarðar

Skipar 7. sæti á lista Samfylkingarinnnar í Suðurkjördæmi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtilegt að Árni skuli rakka svona niður bæjarstjórana sem eru að reyna eftir mætti að verja sín byggðalög. Nær væri að hann leggðist á sveif með þeim vegna þess að Hornafjörður liggur ekki síður undir en byggðir bæjarstjóranna skeleggu.
Það er ekki augljóst eftir lestur pistilsins að viðkomandi sé forsvarsmaður sveitafélags á landsbyggðinni heldur lítur út fyrir allt annað

Líka skemmtilegt frá að segja þó að það hafi svo sem legið fyrir í nokkurn tíma að ESB sem Samfylkingin lítur á sem hina stóru lausn íhugar að taka upp kvótakerfi svipað því sem er á Íslandi !
Sjá til dæmis:http://www.visir.is/article/20090422/VIDSKIPTI06/129923081
og ruv.is 

Það skyldi þá ekki vera að Samfylkingin næði á sama tíma að rústa íslenskum sjávarútvegi og koma Íslandi inn í ESB til þess svo að taka aftur upp kvótakerfi sem Samfylkingin vill nú leggja niður.
Ja margt er skrítið í kýrhausnum.

Styður Árni fiskveiðistjórnarstefnu Samfylkingarinnar ?

Gott væri að vita það áður en gengið er í kjörklefan.

Kjósandi (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 13:39

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Sveitarstjórnir landsbyggðarinnar eiga að vera sverð og skjöldur þess fólks sem býr á landsbyggðinni.Sem betur fer eru til sveitarstjórnarmenn sem átta sig á þessu hlutverki.Sá söngur um auðlindir í þjóðareign sem á sér grunnhljóm í fólki sem býr í höfuðstaðnum og þar í kring, hefur þann einn tilgang að færa veiðiréttinn til ríkisins til að setja hann á uppboð.Nú er megnið af starfsliði ríkisins staðsett í höfuðstaðnum svo afstaða þessa fólks er skiljanleg.

Þeim mun óskiljanlegri er afstaða þeirra sveitarsjórnarmanna sem eru úti á landsbyggðinni og styðja þessa stefnu um auðlindir í þjóðareign sem þýðir ekkert annað en skattlagningu landsbyggðarinnar.En að sjálfsögðu er ekki sagt berum orðum að verið sé að færa neitt til ríkisins.Nei, það á að gera þetta að þjóðareign.Tlgangurinn helgar meðalið. 

Sigurgeir Jónsson, 23.4.2009 kl. 17:28

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Samfylkingin hefur ekki svarað því hvað hún ætlar að gera við aflahlutdeildina þagar hún verður öll komin til ríkisins eftir 20 ár, ef Samfylkingin fær stjórn landsins, en samkvæmt núverandi stjórnarskrá má ekki láta eignir ríkisins af hendi nema gjald komi fyrir.Mun sveitarfélagið Hornafjörður þá þurfa að bjóða í veiðirétt á humri.Það getur gerst.

Sigurgeir Jónsson, 23.4.2009 kl. 18:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband