Leita í fréttum mbl.is

Evrópumálin komin á flug

Það hlaut að koma að því í þessari kosningabaráttu að stóru málin fengju eitthvað vægi. Við höfum eytt alltof miklum tíma í hræðsluáróður Sjálfstæðisflokksins um skattahækkanir, fyrningarleið og ESB. Þannig málflutningur hefur dregið athyglina frá stóru málunum - enda vilja Sjálfstæðismenn ekki ræða Evrópumálin þar sem þeir eru klofnir í herðar niður í þeim. En það á ekki að stjórna umræðunni en hefur því miður gert það.

En grein Benedikts Jóhannessonar í Morgunblaðinu fyrir helgi hleypti heldur betur tímabæru lífi í umræðunar og fólk virtist loksins átta sig á mikilvægi málsins. Okkur vantar nothæfan gjaldmiðil og eðlilegasta og raunhæfasta leiðin til þess að bregaðst við því er sú að hefja aðildarviðræður við ESB og stefna að upptöku Evru. Aðrar leiðir eru einfaldlega villuljós sett fram til þess að tefja og rugla umræðuna.

Staðan er einfaldlega þannig að ef okkur auðnast ekki á næstu vikum og mánuðum að sækja um aðild að ESB og setja með því stefnuna á upptöku Evru þá stefnum við hraðbyri í annað efnahagshrun. Það er sorglegt ef það gerist vegna þess að við vitum núna hver leiðin til þess að koma í veg fyrir það er, þ.e. að sækja um aðild að ESB, tengja krónuna við Evru og stefna að upptöku Evru með því að gerast fullgildir meðlimir í myntbandalagi ESB.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er furðulegt að ætlast til þess af þjóðinni, að hún afsali sér ríkisvaldi í veigamestu málum og taki stórfellda áhættu með sjálfan höfuðatvinnuveg sinn ... og það fyrir einhverja mynt, sem fengist jafnvel ekki fyrr en eftir kannski 10 ár.

Hverju ætlarðu að bjarga? Viðskiptatækifærum stórfyrirtækjanna á alþjóðavettvangi? Hafa þau ekki nú þegar fengið að valsa hér um með nægum skaða?

Jón Valur Jensson, 20.4.2009 kl. 03:00

2 identicon

Alveg furðulegt að einangrunarsinnar vilja ekki alvörulýðræði á Íslandi. Þjóðin má ekki vita hvað er í boði hjá ESB. Allt reynt til að hræða fólk. Jafnvel gengið svo langt að snúa út úr sannleikanum.

Aðildarviðræður sem fyrst TAKK!

Ína (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 03:19

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ína, þú meinar: alvörulýðræði til að afnema lýðræði?

Áttarðu þig ekki á því, að mjög mörg svið þjóðmála færast frá löggjafarþinginu til Evrópubandalagsþingsins, þegar þjóð lætur innlimast í Evrópubandalagið?

Um það geturðu m.a. lesið í þessari fjögurra daga frétt: Evrópusambandsþingið hefur mun meiri völd en það sænska, og því reyna sumir fjölmiðlar að hvetja Svía til að taka þátt í kosningum til Evrópubandalagsþingsins m.a. á þeim forsendum að það þing hafi "miklu meira um fjölmörg mál að segja en sænska þingið," – en þessar hvatningar bera takmarkaðan árangur, enda er almenningur í EBé-löndunum ekki áhugasamari en svo um þetta fjarlæga þing, "að þátttaka í þeim hefur stöðugt dregist meira saman og sáu aðeins 45,5% kjósenda í ríkjum Evrópusambandsins ástæðu til að taka þátt þegar kosningarnar fóru síðast fram árið 2004."

Þetta áhugaleysi tengist því ennfremur, að réttur jafnvel Svíþjóðar (hvað þá Íslands, ef það gengi í bandalagið) til fulltrúa á hinu gríðarstóra EBé-þingi er svo agnarsmár, að það liggur við að hann skipti engu máli.

Á EBé-þinginu gætum við ekki endurheimt æðstu og úrslita-fullveldisréttindi okkar, heldur ekki æðstu yfirstjórn sjávarútvegsmála innan 200 mílnanna og heldur ekki beinan samningsrétt okkar við önnur lönd í tolla- og fiskveiðimálum.

Og ætlið þið jafnaðarmenn að fagna því keikir fyrir framan kjósendur ykkar í sjávarbyggðunum?

Hver eru annars samningsmarkmið og -skilyrði Samfylkingar. Engin?!

Jón Valur Jensson, 20.4.2009 kl. 08:53

4 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Sæll Árni Rúnar

Vitanlega er það dagljóst að sækja verður um inngöngu í ESB. Menn geta svo sem haldið áfram að berja höfðinu í steininn hvað það varðar, en annar leikur er ekki í stöðunni. Hugmyndir VG, um að hengja þjóðina á hálsinn á norðmönnum eru í besta falli barnalegar og í versta falli skuggalegt afturhvarf til fortíðar.

Ingimundur Bergmann, 20.4.2009 kl. 14:41

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Lítillátur ertu, Ingimundur, við val röksemda þinna.

Jón Valur Jensson, 20.4.2009 kl. 15:29

6 identicon

Sæll Árni,

hvað ef samningur við ESB er okkur óhagstæður? Eða er Samfylkingin tilbúin að samþykkja allt sem ESB segir - Ísland skal inn í ESB hvað sem það kostar? Hverjar verða áherslur Samfylkingarinnar í aðildarviðræðum við ESB? Hvað ætlar Samfylkingin að gera ef þjóðin hafnar ESB aðild?

Til þess að vera sanngjarn þá verð ég að spyrja andstæðinga ESB aðildar hvað þeir vilja gera. Halda krónunni?

Samfylkingin má eiga það að aðild að ESB er plan A en þarf ekki líka plan B?

Hans (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 16:09

7 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Hver hefur talað um að ganga inn í ESB hvað sem það kostar, hverslags bull er þetta?

Fyrst sækjum við um og ef samningar nást, þá verður sá samningur borinn undir þjóðina. Reynið að sjá skóginn þótt í honum séu tré!

Ingimundur Bergmann, 20.4.2009 kl. 17:29

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú ert alla vega ekki að svara mér hér, Ingimundur.

En þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta – og það að óþörfu – felur í sér ýmsar hættur, sem þú virðist þér ómeðvitaður um.

Jón Valur Jensson, 20.4.2009 kl. 23:40

9 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Er ekki best að höggva á hnútinn og fara í þessar viðræður og sjá hvað kemur út? Niðurstaðan verður hvort sem er lögð fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar.

Eða telur þú Jón Valur það þess virði að landsmenn eyði frekari orku og tíma í að rífast um hugsanlegu/mögulegu niðurstöðu um ókomin ár?

Sigurður Haukur Gíslason, 21.4.2009 kl. 00:41

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, orkan og tíminn eru þess virði að stöðva þetta óþjóðholla áráttumál evrókratanna, Sigurður Haukur.

En eins og í tilfelli Ingimundar felur skjót (og auðvitað allsendis illa til fundin) þjóðaratkvæðagreiðsla og viðræður um þetta mál í sér ýmsar hættur, sem þú virðist þér ómeðvitaður um.

Ein hættan kom einmitt í ljós í máli Björgvins G. Sigurðssonar á borgarafundinum á Selfossi á nýliðnu kvöldi. Ég mun blogga um það.

Jón Valur Jensson, 21.4.2009 kl. 02:54

11 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Ekki ætla ég að deila við þig Jón Valur um þjóðhollustuna, en vegna orða þinna hér að ofan þá minni ég á að það kemur ekki sérlega mikið út úr því að vera svo hræddur við lífið, að gera helst aldrei neitt og hræðast allt og ekkert. 

Ingimundur Bergmann, 21.4.2009 kl. 17:22

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Við Íslendingar erum flestir hvergi hræddir og viljum takast á við verkefnin og erfiðleikana, en Benedikt Jóhannesson & Co. reyna að skrekkja okkur með hræðsluáróðri.

Það var skelfd kona, sem ég hlustaði á upp úr kl. 4 á Bylgjunni í dag, sem taldi elztu kynslóðina myndu fremja sjálfsvíg vegna þess, sem við tæki, auk annarra hremminga sem hún spáði þjóðinni og tengdi þetta allt fölskum áróðri Benedikts.

Sá fekk nú á baukinn í kvöld hjá sér eldri manni og reyndari, Ragnari Arnalds, í Kastljósi kvöldsins!

En það stækkar sig reyndar enginn á því að segjast óhræddur við ofurvald yfirríkjabandalags, sem er um 1670 sinnum mannfleira en okkar litla þjóð. Norðmenn voru í mesta lagi fjórum sinnum fólksfleiri en við á 13. öld, þegar Hákon konungur var að leitast við að ná okkur undir ríki sitt, en það tók hann áratugi að ná því marki. Evrópubandalagið (EBé) er meira en fjögurhundruð sinnum öflugra hlutfallslega gagnvart okkur heldur en Noregur var þá.

Ég hef líka fulla ástæðu til að vera HRÆDDUR, já, við afsal fullveldisréttinda okkar til þessa erlenda valds. Í Gamla sáttmála var það áskilið af okkar hálfu, að við fengjum að hafa íslenzka valdsmenn (sýslumenn) og íslenzk lög. Innlimun okkar í EBé fæli í sér, að æðsta löggjafarvaldið mundi færast til Brussel, þar sem við hefðum örfáa fulltrúa af um 700. Innlimun í EBé fæli þannig í sér missi æðsta löggjafarvalds og langtum alvarlegri réttindamissi heldur en Gamli sáttmáli gerði.

Þar að auk óttast ég fullveldið sem EBé áskilur sér til að endurskoða landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu sína á 10 ára fresti og ekki sízt með hliðsjón af því, að neitunarvald einstakra ríkja er á útleið þar – það stendur til að afnema það. Og jafnvel þótt engin grundvallarbreyting yrði, óttast ég samt leiðirnar (þrjár a.m.k.) sem útgerðir í EBé-ríkjum hefðu (ef við létum narrast inn í bandalagið) til að sölsa undir sig fiskveiðiréttindi í okkar auðlindalögsögu.

Ennfremur bera menn réttilega kvíðboga fyrir því, að auðlindastefna EBé er greinilega að stefna í endurskoðun, enda er Parkinsonslögmálið að verki í bandalaginu eins og víðar og samþjöppun valds og yfirríkisþróun verið þar í gangi, og þá gætum við Íslendingar nú beðið fyrir okkur.

Já, allt þetta óttast ég, Ingimundur. Ég óttast sjálft óttaleysi margra, sem hafa ekki kynnt sér þessa hluti, jafnvel leiðandi mana, rétt eins og fjallgönguhópur óttast fífldirfsku síns "óttalausa" leiðsögumanns.

Krefjumst aukins meirihluta fyrir öllu því, sem varðar það að ganga af grunni stjórnskipunar okkar og dýrmætra fullveldisréttinda sem Jón Sigurðsson og hans eftirmenn áunnu þessari litlu þjóð sinni.

Jón Valur Jensson, 21.4.2009 kl. 23:20

13 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Það er kominn tími til að talað sé á mannamáli um Evrópumálin.

Sú umræða um ESB og sjávarútveginn sem verið hefur hér á landi undanfarið er ótrúleg. Einnig umrðan um landbúnað og ESB og ekki síst ESB og byggðastefnu.

Jón Halldór Guðmundsson, 21.4.2009 kl. 23:34

14 Smámynd: Árni Rúnar Þorvaldsson

Sælt veri fólkið - þakka góðar umræður um þetta stóra mál og það sýnir að þetta er orðið að raunverulegu kosningamáli. Á laugardaginn verður kosið um krónu eða Evru.

Árni Rúnar Þorvaldsson , 21.4.2009 kl. 23:41

15 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er mun auðveldara að kjósa um $ en €, hefurðu ekki áttað þig á því?

Jón Valur Jensson, 21.4.2009 kl. 23:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband