Leita í fréttum mbl.is

Skýr peningamálastefna er grundvöllur endurreisnar

Í nóvember á síðasta ári voru samþykkt á Alþingi neyðarlög þar sem stjórnvöldum var heimilað að taka yfir rekstur bankanna og komið var á gjaldeyrishöftum til þess að koma í veg endanlegt hrun gjaldmiðilsins. Til þess að styðja enn frekar við bakið á hinni lemstruðu krónu vegna veikingar hennar síðustu vikur voru viðbætur við gjaldeyrishöftin samþykktar með hraði í þinginu fyrir skemmstu. Hin langdregna útför krónunnar hefur verið öllum til ama og leiðinda.

Niðursveiflan  á Íslandi er tvíþætt, annars vegar bankakreppa - hluti af hinum alþjóðlega vanda - og hins vegar gjaldeyriskreppa og hún gerir aðstæður okkar frábrugðnar þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þó má ekki gleyma því að banka - og fjármálakreppan sem skekur heiminn hefur komið sérstaklega illa við Íslendinga, þar sem hér hrundi eitt stykki bankakerfi, sem hafði vaxið svo fiskur um hrygg að íslenska ríkið gat aldrei staðið undir erlendum skuldbindingum bankanna. Bankarnir áttu ekki trúverðugan bakhjarl vegna þess að þeir höfðu vaxið svo hratt og mikið án þess að Seðlabankinn hefði byggt upp nægjanlegar varnir ef illa áraði á mörkuðum. Hvort sem um var að kenna glannaskap bankamanna og svokallaðra útrásarvíkinga eða andvaraleysi eftirlitsstofnana stjórnvalda, þá er ljóst að menn stefndu lengi sofandi að feigðarósi.

Það er t.d. mjög athyglisvert að árið 2005 var íslenska bankakerfið orðið það stærsta í heimi ef miðað er við hlutfall af landsframleiðslu og bakhjarlinn var örmynt og alltof lítill gjaldeyrisvarsjóður Seðlabankans. Þegar hér var komið sögu hefði maður haldið að einhverjar viðvörunarbjöllur hefðu átt að klingja þannig að hvert mannsbarn myndi heyra til þeirra en það gerðist ekki - því miður. Þvert á móti hélt kerfið áfram að blása og tútna út án þess að eftirlitsstofnanir reyndu að hægja á vextinum eða efla varnirnar og sú blanda af mistökum og glannaskakp gat bara farið á einn veg - þann sem við horfum nú upp á og erum að berjast við í dag.

Að vara við eða bregðast við

Því var alla tíð haldið að fólki að einkavæðing bankanna 2003 hefði leyst úr læðingi ótrúlegan kraft, sem væri öllu samfélaginu til heilla - og allir myndu njóta góðs af. Bankarnir og fyrirtæki þeim tengd lögðust í útrás - EES samningurinn gerði þeim það kleift - og margir Íslendingar fylgdust stoltir með strandhöggi hinna nýju íslensku víkinga. Margir fylltust stolti þegar þeir horfðu á þessu athafnaglöðu og framtakssömu menn sem nýttu sér þau tækifæri sem heimurinn hafði upp á að bjóða og skutu öðrum - að því er virtist - ref fyrir rass.

En niðurstaðan - hin harða lending - hefur reynst mörgum þung í skauti og ljóst er að aðgerðir og athafnir þessara sömu manna, sem áður voru dáðir og hvattir áfram, hafa haft skelfilegar afleiðingar á lífsafkomu margra heimila og fyrirtækja í landinu. Kannski voru eftirlitsstofnanirnar sem áttu að gæta almannahagsmuna of litaðar af andrúmslofti aðdáunar og skorti því nauðsynlegt sjálfstraust og bjargráð til þess að taka á þessum öra vexti bankanna. En það var sannarlega hlutverk þeirra.

Það að fyrrverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans skuli koma fram með þá söguskýringu að hann einn hafi varað við því sem gerðist í haust en að allir aðrir hafi skellt við skollaeyrum er hrein móðgun við almenning vegna þess að hans hlutverk var að bregðast við en ekki bara að vara við.

Skýr framtíðarsýn

Hin kreppan, sem gerir stöðu Íslands enn verri en annarra þjóða, er sú djúpa og erfiða gjaldeyriskreppa sem þjóðin stendur frammi fyrir. Enginn þeirra þjóða, sem við berum okkur saman við, hefur þurft að takast á við aðra eins gjaldeyriskreppu og við horfum nú upp á. Gjaldeyriskreppan hefur leitt flestum það fyrir sjónir - og þeir taka nú undir sjónarmið Samfylkingarinnar - að íslenska krónan getur ekki verið framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar. Til þess séu sveiflur á gengi hennar of miklar með tilheyrandi búsifjum fyrir allan almenning og fyrirtæki. Til þess að skjóta styrkum stoðum undir íslenskt efnahagslíf verðum við að fá öflugan gjaldmiðil sem hægt er að treysta á. En ekki  eru allir sammála um leiðirnar að því að fá nothæfan gjaldmiðil fyrir þjóðina.

Samfylkingin er í raun eini flokkurinn með skýra áætlun í þessum efnum. Aðrar flokkar skila auðu þar sem þeir viðurkenna flestir að ekki sé að hægt að stóla á krónuna til framtíðar án þess að bjóða upp á raunhæfar lausnir til framtíðar. Stefna Samfylkingarinnar er hins vegar mjög skýr, hefja aðildarviðræður við ESB strax með það að markmið að verða fullgildir meðlimir í myntbandalagi Evrópusambandsins. Aðildarsamningur verður lagður fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu - um það eru reyndar allir sammála.

Hvernig menn ætla að haga peningamálum þjóðarinnar til framtíðar er stærsta spurningin sem stjórnmálaflokkarnir verða að svara í yfirstandandi kosningabaráttu. Vegna þess að án skýrrar og trúverðugrar peningamálastefnu er hætt við að sú endurreisn, sem allir stefna að, verði endasleppt.

Þeir flokkar sem skorast undan því að svara þessari mikilvægustu spurningu kosingabaráttunnar eru að bregðast kjósendum.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Sæll Árni.Það er að mínu viti rétt og sanngjarnt að þeir flokkar sem eru í framboði, svari kjósendum hvernig þeir ætli að haga stjórn landsins eftir kosningar.Nú hefur Samfylkingin svarað því hvernig hún ætli að haga stjórn sjávarútvegs eftir kosningar.Hún ætlar að færa allar aflaheimildir til ríkisins það er R.Víkur, og síðan verða þær að fara á uppoð, því samkvæmt því stjórnarskrárákvæði um náttúruauðlindir í ríkiseigu, sem nú er verið að lögfesta samkvæmt tillögu stjórnarflokkanna, má ekki láta þær af hendi nema gjald komi fyrir.Nú spyr ég þig vegna þess að þú ert sveitarstjórnarmaður í sjávarplássi og líka í framboði fyrir Samfylkinguna í Suðurkjördæmi þar sem eru stór sjávarútvegspláss, Hornafjörður,Vestmannaeyjar,Þorlákshöfn, Grindavík Sandgerði og Garður, getur þú fært rök fyrir því að það sé betra að færa aflaheimildirnar til ríkisins, telur þú að kaup sjómanna og fólks í fiskvinnslu hækki við þá tilfærslu og skatttekjur sveitarfélaganna aukist.Fólk í 101 R.Vík. hefur klifað á því að það þurfi að nást sátt um sjávarútveginn og sú sátt eigi að felast í því að færa hann til ríkisins, það er R.Víkur.ég vona að svar þitt verði ekki í þá veru.Með fyrirfram þakklæti fyrir svarið.Kv.

Sigurgeir Jónsson, 12.4.2009 kl. 11:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband