Leita í fréttum mbl.is

Klassísk jafnaðarstefna - grundvöllur endurreisnar

Endanleg sönnun á skipbroti frjálshyggjunnar birtist mér þegar ég las brot úr drögum skýrslu endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins, þar sem því er haldið fram að fólkið - einstaklingarnir - hafi brugðist en ekki stefnan. Ástæðan fyrir því að það sannar fyrir mér að stefnan hafi beðið skipbrot er sú að þetta er sama vörn og margir, sem trúðu á gerska ævintýrið, héldu á lofti á sínum tíma - og sumir gera kannski enn.

Frjálshyggjan - óheftur kapítalismi - sem á rætur sínar að rekja til Bandaríkjanna og margir frjálshyggjupostular á Íslandi hafa litið mjög til - t.a.m. Hannes Hólmsteinn einn hugmyndafræðinga Sjálfstæðisflokksins o.fl. - hefur hlotið sömu örlög og kommúnisminn í austurvegi. Örlögin eru þau að það var mannskapurinn - liðið sem starfaði á forsendum hins óhefta markaðsbúskapar - sem klikkaði en ekki kerfið sjálft.

Það voru s.s. kapitalistarnir sjálfir sem komu óorði á kapitalismann. Líkindi með falli kommúnismans eru ótrúleg vegna þess að þar fólst vörnin oft á tíðum í því að það voru foringjarnir - leiðtogarnir í ráðstjórnarríkjunum - sem misstu sjónar á markmiðunum og komu óorði á góða og fallega stefnu.

Þetta þykir mér vera heldur ódýr lausn, að nokkrir einstaklingar beri ábyrgð á öllum þeim efnahagslegu áföllum sem við höfum orðið fyrir á síðustu mánuðum. Að mínu mati er það augljóst að sá flokkur sem hér hefur stýrt málum samfleytt í rúm 18 ár hefur brugðist  - og sú stefna sem flokkurinn hefur fylgt á þessu valdatímabili sínu. Ekki gengur að skella skuldinni eingöngu á einstaklinga þó þeir beri auðvitað einhverja ábyrgð líka.  

Ein stjórnmálastefna hefur lifað af öfgar 20. aldarinnar og staðið af sér það efnahagslega fárviðri, sem nú gengur yfir heimsbyggðina, en það er jafnaðarstefnan. Jafnaðarstefnan hefur sömu stöðu í stjórnmálunum og Rolling Stones hafa í tónlistarheiminum - hún er klassísk. Hugmyndir og lausnir jafnaðarstefnunnar eiga jafn mikið erindi við okkur nú og kreppunni miklu 1930. Þær standast algjörlega tímans tönn og þær eru okkur nauðsynlegt vegarnesti í þeim gríðarstóru og flóknu verkefnum, sem við stöndum frammi fyrir í kjölfarið á hruni frjálshyggjunnar.

Endurreisn fjármálakerfis, atvinnulífs og mótun nýrrar peningamálastefnu - og í reynd mótun nýs samfélags - bíður okkar en mikilvægast er að sú endurreisn eigi sér stað á forsendum jafnaðarstefnunnar. Það er búið að prófa frjálshyggjuleiðina - leið Íhaldsins - og árangurinn liggur fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Mér finnst samlíkingin jafnaðarstefnunar við klassikina og Rolling Stones vera alveg frábær. Það er jöfnuður sem við þurfum núna og uppbygging í þeim anda. Svo er náttúrlega algjör nauðsyn að efna til Stjórnlagaþings og endurskoða stjórnarskrána. Til að bygging samfélagsins eigi að vera farsæl, verður grunnurinn að vera traustur.

Ég hef góða tilfinningu fyrir að okkur takist að gera hér mjög gott og réttlátt samfélag.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 23.3.2009 kl. 23:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband