Leita í fréttum mbl.is

Glæsilegt prófkjör Samfylkingarinnar

Sendi eftirfarandi pistil til vefmiðla í kjördæminu í kjölfar prófkjörs:

Nú er prófkjörsslagnum hjá Samfylkingunni í Suðurkjördæmi lokið. Baráttan var einkar skemmtileg og drengileg. Það er líka frábært að fá tækifæri til þess að kynnast svo mörgum stórskemmtilegum einstaklingum, bæði í hópi frambjóðenda og kjósenda. Ferðirnar um kjördæmið, þar sem frambjóðendur hittu og ræddu við kjósendur - bæði á vinnustöðum og á förnum vegi - voru sérstaklega ánægjulegar enda fengu frambjóðendur þá að heyra hvaða mál það eru sem helst brenna á fólki. Framboðsfundirnir í Eyjum, Hornafirði, Árborg og Reykjanesbæ voru líka gagnlegir og málefnalegir.

Niðurstaða prófkjörsins er skýr, þótt þátttakan - rúmlega 2300 manns - hefði mátt vera betri. Kannski er áhuginn á stjórnmálum og stjórnmálamönnum ekki meiri eftir þau efnahagslegu áföll, sem dunið hafa á þjóðinni. Flokksstarf gamla fjórflokksins nýtur ekki mikilla vinsælda í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar. Upplifun mín af stjórnmálaástandinu í landinu - á ferðum mínum um kjördæmið - var sú að trúnaðarbrestur væri á milli almennings og stjórnmálamanna.  Traust almennings í garð stjórnmálamanna er í algjöru lágmarki og krafan um breytingar og breytta stjórnarhætti var mjög skýr og hávær hvert sem farið var. Eitt stærsta verkefni verðandi þingmanna - þessa kjördæmis sem annarra - verður að endurreisa traust og trúverðugleika Alþingis.

Þakkir fyrir stuðninginn

Þrátt fyrir hafa ekki náð þeim árangri, sem að var stefnt í prófkjörinu, er ég ákaflega ánægður og þakklátur fyrir þann breiða stuðning sem ég fékk. Þeim frambjóðendum sem náðu bindandi kosningu óska ég innilega til hamingju með árangurinn - svo og öllum frambjóðendum fyrir skemmtilega og heiðarlega baráttu. Einnig vil ég þakka þeim fjölda einstaklinga, sem störfuðu að framkvæmd prófkjörsins - kjörstjórn og umboðsmönnum út um allt kjördæmið á vegum flokkfélaganna. Án þeirra hefði þetta aldrei gengið svo vel sem raun bar vitni - og afraksturinn af vinnu þeirra og frambjóðenda er öflugur og sigurstranglegur framboðslisti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

En síðast en ekki síst er ég þakklátur þeim einstaklingum, sem lögðu lykkju á leið sína til þess að styðja við bakið á mér í prófkjörinu og treystu mér þannig til góðra verka. Slíkur stuðningur er ómetanlegur. Kærar þakkir!

 

Árni Rúnar Þorvaldsson

Jafnaðarmaður og formaður bæjarráðs Hornafjarðar

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband