Leita í fréttum mbl.is

Netprófkjör og jafnræði kynjanna

Á aukakjördæmisþingi Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, sem haldið var á Hótel Örk á sunnudaginn, var samþykkt að viðhafa netprófkjör um fyrstu fimm sætin á framboðslista Samfylkingarinnar í komandi alþingiskosningum. Einnig var samþykkt að jöfn kynjahlutföll verði á fyrstu tveimur sætum listans og að jafnréttisregla Samfylkingarinnar um 40%/60% skiptingu verði viðhöfð um 3. - 5. sæti.

Þetta er auðvitað mjög stór ákvörðun þar sem kjördæmisráðið var með þessu að ákveða fléttulista á fyrstu tvö sætin í kjördæminu. Ákvörðunin hefur það líka í för með sér að fyrirfram er ljóst að annar þingmanna Samfylkingarinnar í Suðurkjördæminu fellur úr sínu sæti.

Ein af ástæðunum fyrir því að kjördæmisráðið kaus að fara þessa leið, að mínu mati, var sú að í síðustu kosningum skipuðu karlar þrjú efstu sætin á framboðslistanum. Fólk vildi núna leita allra leiða til þess að leiðrétta þá slagsíðu. Nú hefur það verið gert með afgerandi hætti.

Einnig held ég að það hafi verið ofarlega í hugum margra fulltrúa á kjördæmisþinginu að enginn þingmanna Samfylkingarinnar úr landsbyggðarkjördæmunum þremur er kona. Það er líka slagsíða sem ber að leiðrétta.

Umræðurnar á þinginu voru mjög góðar og niðurstaðan var að mínu mati í samræmi við þær - góð. Með þessari leið erum við að leggja grunninn að því að endurheimta a.m.k. annan af þeim þingmönnum sem við töpuðum í síðustu kosningum.

Prófkjörið verður haldið 7. mars og rétt til þátttöku hafa allir félagar í Samfylkingunni í Suðurkjördæmi en þeim verður sendur aðgangslykill þannig að þeir geti tekið þátt. Einnig geta þeir kjósendur, sem sækja um aðgangslykil að prófkjörinu, tekið þátt. Á kjördæmisþinginu var líka ákveðið að frambjóðendum væri óheimilt að auglýsa í ljósvaka -, prent - og netmiðlum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband