Leita í fréttum mbl.is

Samstarf sveitarfélaga

Á morgun hefst aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi á Hótel Framtíð á Djúpavogi. Það verður síðasti aðalfundur sambandsins sem sveitarfélagið Hornafjörður mun taka þátt. Eins og kunnugt er tók bæjarstjórn Hornafjarðar þá ákvörðun á fundi sínum í júní að segja sig úr sambandinu og óska eftir inngöngu í Samtök sunnlenskra sveitarfélaga.

Sveitarfélagið hefur átt gott samstarf við sveitarfélög á Austurlandi í rúm 40 ár og afrakstur þessa góða samstarfs er að finna í mörgum verkefnum sem unnin eru þvert á landshlutann. Nægir þar að nefna samning um menningarmál sem Menningarráð Austurlands heldur utan um. Einnig hefur góð samstaða einkennt samstarfið um flest mál frá að ég kom að því fyrst fyrir tveimur árum.

Ekki verður hins vegar horft framhjá því að ákveðin vatnaskil urðu á samstarfinu þegar ákvörðun um að Sveitarfélagið Hornafjörður skyldi tilheyra Suðurkjördæmi en ekki Norðausturkjördæmi þegar síðasta kjördæmabreyting átti sér stað fyrir kosningar 2003. Með þeirri ákvörðun var klippt á tengslin við gamla Austurlandskjördæmið sem Hornafjörður hafði tilheyrt fram að kosningum 2003. Þannig að ákvörðun um að skipta um samstarfsvettvang á sveitarstjórnarstiginu er eðlilegt framhald af kjördæmabreytingunni.

Þessi ákvörðun bæjarstjórnar var því ekki tekin vegna þess að samstarfið við Austfirðinga hafi verið svo slæmt heldur vegna þess að það var okkar mat að hagsmunum sveitarfélagsins yrði best borgið í samtökum sem starfa innan okkar kjördæmis. Það mat byggjum við á því að á vettvangi samtaka sveitarfélaga er farið yfir helstu hagsmunamál sveitarfélaga, s.s. í samgöngu-, atvinnu-, menningar- og menntamálum.  Með aðild að samtökum sem starfa innan kjördæmis og eru í góðum tengslum við þingmenn er enn betur tryggt að rödd samfélagsins heyrist. 

Við kveðjum því samstarf sveitarfélaga á Austurlandi með ákveðnum söknuði en horfum þó bjartsýn fram á veginn í nýju samstarfi með sveitarfélögum á Suðurlandi.

Þess má geta að þrátt fyrir úrsögn okkar úr SSA hefur sveitarfélagið tryggt áframhaldandi aðkomu sína að Þekkingarneti Austurlands og við erum aðilar að samningi um menningarmál á Austurlandi til ársins 2010.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband