Leita í fréttum mbl.is

Verkefnin framundan

Nú þegar Verslunarmannahelginni er lokið fer lífið hægt og sígandi að komast í fastar skorður á nýjan leik. Við blasir annasamur en spennandi vetur. Verkefnin verða ærin á vettvangi bæjarstjórnar í vetur líkt og undanfarin ár.

Framkvæmdir

Bæjarfélagið stendur í miklum framkvæmdum um þessar mundir. Unnið er af fullum krafti að byggingu glæsilegrar sundlaugar og hefur verkið gengið vel undanfarna mánuði. Við stefnum að því að bjóða út byggingu knattspyrnuhússins í haust en að mörgu er að hyggja í þeim málum og mikilvægt að vanda vel allra verka. Þegar litið er til þeirra framkvæmda á íþróttasvæðinu sem nú þegar hafa átt sér stað, þ.e. tilkoma frábærrar frjálsíþróttaaðstöðu og nýs knattspyrnuvallar, er ekki  hægt að tala um annað en byltingu í aðstöðu íþróttafólks í sveitarfélaginu þegar sundlaugin og knattspyrnuhúsið hafa litið dagsins ljós. Ekki er ég heldur í vafa um að sundlaugin mun verða mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem eiga leið um svæðið enda verður öll aðstaða eins og best verður á kosið. Leiktæki fyrir yngsta sundfólkið og rennibrautir munu síðan auka gleði þessa hóps við opnun laugarinnar.

Endurskoðun aðalskipulags og Hafnarvík Heppa

Bæjarstjórn vinnur nú að endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Það er viðamikið verkefni sem er þannig vaxið að eftir því sem fleiri koma að því þeim mun betri verður afraksturinn. Stefnt er að því að stofna stýrihóp með fulltrúum allra framboða sem fær það verkefni að halda utan þessa viðamiklu og mikilvægu vinnu í samstarfi við ráðgjafana hjá Glámu Kím.

Annað verkefni sem ég vonast til að komist á einhvern rekspöl næsta vetur er verkefni sem nefnist Hafnarvík Heppa. Það miðar að því að byggja upp gömlu bæjarmyndina við höfnina. Hér er um að ræða stórt og kostnaðarsamt verkefni sem m.a. felur í sér að gera upp Pakkhússið og færslu Gömlubúðar á sinn upphaflega stað við höfnina. Þetta er gríðarlega spennandi verkefni sem kemur til með að hafa mjög jákvæð áhrif á bæjarmyndina. Ekki má heldur gleyma því að Hafnarvík Heppa er í raun einnig  byggða - og atvinnuverkefni vegna þess að menn sjá fyrir sér töluverða starfsemi í þeim húsum verða gerð upp. Mikilvægt er að huga vel að fjármögnun þessa verkefnis enda mjög kostnaðarsamt eins og áður hefur verið nefnt. Hugsanlegt er að ríkisvaldið og einkaaðilar, sem sjá hag sinn í þessari uppbyggingu, komi að fjármögnun verkefnisins að einhverju leyti. 

Húsnæðisnefnd og Grunnskóli Hornafjarðar

Nú er einnig að störfum nefnd hjá Sveitarfélaginu sem hefur það verk með höndum að kanna húsnæðisþörf sveitarfélagins til framtíðar. Nefndinni er ætlað að móta framtíðarstefnu sveitarfélagsins í húsnæðismálum. Hluti af verkefni nefndarinnar er að meta húsnæðisþörf grunnskólans. Rétt er að benda á að búið er að selja heimavistarhluta Nesjaskóla sem og sjálft skólahúsnæðið í Nesjum. Þegar það lá fyrir að skólahúsnæðið færi með í kaupunum kom ég þeirri skoðun minni á framfæri að þar með væri verið að stíga ákveðið skref í þá átt að allt skólahald Grunnskóla Hornafjarðar færðist út á Höfn.

Í þessu ljósi tel ég það mikilvægt að við skoðum það í alvöru hvernig hægt er að flýta þessu ferli eins og kostur er ef samstaða er um þessi sjónarmið. Það er ekki gott að reka skóla lengi í húsnæði sem liggur fyrir að eigi að loka innan tíðar.  Það er að mínu mati ekki grundvöllur fyrir metnaðarfullt starf. Ég legg hins vegar ríka áherslu á gott samstarf við starfsfólk, foreldra og nemendur til þess að truflunin, sem óneitanlega mun verða á starfi grunnskólans við þessar breytingar, verði sem minnst.  

Fjölskyldustefnan

Eitt stærsta verkefni bæjarstjórnar á næsta vetri verður þó án efa að fullmóta fjölskyldustefnu sveitarfélagisins. Um nokkurt skeið hefur verið starfandi nefnd á vegum sveitarfélagsins sem hefur unnið að mótun fjölskyldustefnunnar. Nefndin á að skila af sér tillögum til bæjarstjórnar í desmember. Þetta er málaflokkur sem Samfylkingin lagði mikla áherslu á í sinni kosningabaráttu og það er mikilvægt að þessum málaflokki sé gert hátt undir höfði og sé ávallt til skoðunar. Þess vegna verður spennandi að sjá endanlegar tillögur sem koma frá nefndinni og ég er viss um að þær verða til þess fallnar að bæta hag fjölskyldna í sveitarfélaginu.

Þessi upptalning er að sjálfsögðu hvergi nærri tæmandi fyrir þau verkefni sem framundan eru á vettvangi sveitarstjórnarmálanna en þau ættu að gefa nokkuð gott yfirlit yfir þau fjölbreyttu verkefni sem framundan eru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband