23.11.2006 | 23:17
Prófkjör - vörn sitjandi þingmanna?
Að undanförnu hefur mikil umræða farið fram um gildi prófkjara og hvort þau þjóni tilgangi sínum. Margir telja þau í dag vera vörn sitjandi þingmanna. Ég held að það sé alveg sama hvaða kerfi notuð verða til þess að raða á framboðslista þá komi sitjandi þingmenn alltaf til með að verja sín sæti með öllum tiltækum ráðum. Annað væri óeðlilegt. Ef einhver reynir að taka eitthvað af þér þá reynirðu að passa það. Þetta lærðum við í sandkassanum á leikskólanum og það þurfti enginn að kenna okkur þessi viðbrögð, þau eru meðfædd.
Það er rétt að það er erfitt að etja kappi við sitjandi þingmenn og nýliðar sitja að sjálfsögðu ekki við sama borð og þingmenn. Þingmennirnir njóta þess að vera þekkt andlit og eiga auðveldara með það að stunda og stjórna kosningabaráttu heldur en nýliðarnir. Við þessu er lítið að gera og sama hvaða kerfi menn notast við. Þessi skekkja verður alltaf til staðar. En gleymum því ekki að þeir sem við köllum sitjandi þingmenn voru einu sinni nýliðar í þessum bransa. Rétt eins og nýliðarnir í nýafstöðnum prófkjörum.
Prófkjör Samfylkingarinnar vítt og breitt um landið sýna okkur líka svo ekki verður um villst að nýliðarnir geta vel komist upp fyrir þingmennina. Lítum á prófkjörin í Norðvestri þar sem Guðbjartur Hannesson vinnur sigur og í Suðvestri þar sem Gunnar Svavarsson, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar vinnur glæsilegan sigur. Þessir tveir eru að vísu þekktir einstaklingar en engu að síður lenda þeir fyrir ofan sitjandi þingmenn í prófkjörum þannig að prófkjörin eru ekki alltaf sú vörn fyrir sitjandi þingmenn sem margir telja að þau séu.
En það er líka sorglegt að fylgjast með sitjandi þingmönnum sem tapa í prófkjörum fara í fýlu líkt Valdimar Leó Friðriksson gerði að loknu prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Mér finnst að hann eigi sjá sóma sinn í því að hætta á þingi og eftirláta næsta manni á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi þingsætið fyrst hann sér sig knúinn til þess að segja sig úr Samfylkingunni af þeirri einu ástæðu að vera í fýlu eftir prófkjör. Ekki er um málefnaágreining að ræða. Það má heldur ekki gleyma því að Valdimar kom inn á þing eftir að Guðmundur Árni Stefánsson hætti á þingi og Ásgeir Friðgeirsson, fyrsti varamaður hafnaði þingsætinu og þá fyrst var röðin komin að Valdimar Leó.
Ég sá í Kastljós þætti um daginn að Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ taldi að endurskoða þyrfti prófkjörin í ljósi þess að það væru mikil særindi eftir þau. Hún sjálf virtist aðallega vera sár yfir því að kjósendur í prófkjöri Íhaldsins í Kraganum hefðu kosið eftir póstnúmerum. Í raun er ekkert undarlegt við það þar sem fólk kýs frekar þá einstaklinga sem það treystir og þekkir. Fólk er líklegra til þess að treysta og þekkja þá sem standa því næst. Þar fyrir utan þekki ég enga leið til þess að koma í veg fyrir að fólk kjósi eftir póstnúmerum. Lýðræðið virkar nefnilega bara þannig að kjósendur hafa fullkominn rétt til þess að ráðstafa sínum atkvæðum eins og þeim sýnist. Kjósendur kjósa eftir póstnúmerum ef þeir vilja það en þeir hafa líka rétt á því að gera það ekki. Það er okkar að sannfæra þá um að gera það ekki ef við teljum hag okkar betur borgið með því.
Sjallarnir virðast heldur ekkert vera neitt sérstaklega ánægðir með það hvernig prófkjörið fór hjá þeim í Suðurkjördæmi. Þar var eini sigurvegarinn Árni Johnsen. Nafni hans, Mathiesen úr Hafnarfirði fékk háðulega útreið og hafði ekki helming atkvæða í fyrsta sætið. Fjármálaráðherrann var sendur sérstaklega úr Firðinum til þess að bjarga Íhaldinu í Suðurkjördæmi á grundvelli þess að hann hafi í rauninni alltaf verið þingmaður Reyknesinga og vegna þess að hann starfaði sem dýralæknir í uppsveitum Árnessýslu á árum áður. Byrjun hans í kjördæminu er ekki sterk. Drífa Hjartardóttir, sem menn kappkosta að mæra núna eftir að hún féll í prófkjörinu, hafði ekki kjark til þess að sækast eftir efsta sætinu sem hefði verið eðlilegt í ljósi reynslu hennar og dugnaðar. Mér þykir einsýnt að Sjálfstæðismönnum hafi ekki líkað þetta kjarkleysi Drífu sem þekkir málefni kjördæmisins betur en flestir og því hafi þeir hafnað henni. Það eftirsjá í Drífu fyrir kjördæmið og Hornfirðingar eiga eftir að sakna hennar.
Annars held ég að það sé ekki útséð með framboðsmál Íhaldsins í Suðurkjördæmi í ljósi tæknilegra mistaka Árna Johnsens þegar hann talaði um brot sín í opinberu starfi sem tæknileg mistök. Mér sýnist að samblástur gegn honum innan raða Sjálfstæðisflokksins sé að magnast heldur betur. Í kvöld heyrði ég formann flokksins segja, í viðtali við Þóru Arnórsdóttur á Stöð 2, að mjög hefði borið á úrsögnum úr flokknum. Hver var ástæðan sem formaðurinn tilgreindi fyrir úrsögnunum? Hún var kjör Árna Johnsens í 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Ég held að formaðurinn hafi ekki verið að tala um þetta vegna þess að hann hafi verið svona ánægður með úrsagnirnar. En kjör Árna í 2. sætið var sterkt og Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi hafa greinilega mikla trú á honum. Þar dansa þeir greinilega ekki takt við forystu flokksins.
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.