Leita í fréttum mbl.is

Stýrihópur um skólastefnu

Á bæjarráðsfundi 14. nóvember síðastliðinn lagði ég fram bókun þar sem ég segi mig úr stýrihópi um skólastefnu. Ástæðan fyrir því að ég geri það er sú að stýrihópurinn á að fjalla um stjórnunarþátt grunnskólanna á Hornafirði. Í þeirri vinnu er leikur vafi á um hæfi mitt vegna tengsla við einn af skólastjórnendum sem ekki verða umflúin með nokkrum hætti. En það er alveg ljóst að ég er ekki vanhæfur til þess að fjalla skólastefnuna sem slíka.

Mitt sæti í stýrihópnum tekur Anna María Ríkharðsdóttir sem situr í skólanefnd. Hún var minn varamaður áður en ég sagði mig úr stýrihópnum og hennar varamaður verður Torfi Friðfinnsson sem einnig situr í skólanefnd sveitarfélagsins. Þessu fólki treysti ég fullkomlega til að ljúka þessari vinnu.

Annars hljóðar bókunin svona en hún birtist líka í Eystrahorni 16. nóvember, á Degi íslenskrar tungu:

 Í ljósi umræðu um hugsanlegt vanhæfi undirritaðs til þess að fjalla um stjórnunarþátt grunnskólanna á Hornafirði hefur undirritaður ákveðið að draga sig út úr starfi stýrihópsins.Þegar fjallað er um stjórnunarþátt grunnskólanna er ljóst að vanda þarf til verka þar sem rekstur grunnskóla er stærsta einstaka verkefnið á hendi sveitarfélagsins. Því er mikilvægt að vel takist til með vinnu stýrihópsins. Ef þátttaka undirritaðs torveldar vinnu stýrihópsins er rétt að hann víki sæti svo það góða starf sem stýrihópurinn hefur unnið og það mikilvæga starf sem hann á eftir að vinna skaðist ekki.  Um leið og undirritaður harmar að ekki hafi tekist að ljúka vinnu við nýja skólastefnu á síðasta kjörtímabili vegna ósamstöðu vill undirritaður ítreka þá ósk sína að vinnu við nýja skólastefnu og stjórnunarþátt grunnskólans ljúki sem fyrst, skólastarfi í sveitarfélaginu til heilla. Í febrúar árið 2005 var haldið skólamálaþing þar sem umræða hófst með formlegum hætti um nýja skólastefnu og stjórnunarþátt grunn – og leikskóla. Niðurstaða er fengin í stjórnunarþátt leikskólanna en eftir er að klára skólastefnuna sjálfa og stjórnunarþátt grunnskólanna. Það er ljóst að bið í óvissu um framtíðarskipulag í skólamálum er skólasamfélaginu á Hornafirði ekki til framdráttar og því leggur undirritaður nú sem endranær höfuðáherslu á að stýrihópurinn einhendi sér í að ljúka þessum málum sem allra fyrst vegna þess að þau hafa nú þegar tekið alltof langan tíma. Við enga er að sakast í þeim efnum nema kjörna fulltrúa.    

Árni Rúnar Þorvaldsson

Samfylkingunni


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband