Leita í fréttum mbl.is

Þjóðgarðs - og heilbrigðisblús

Ýmislegt bar á góma á fundi bæjarráðs í dag. Hæst báru þó umræður um Vatnajökulsþjóðgarð og heilbrigðis - og öldrunarmál. Mikil samstaða var í umfjöllun bæjarráðs í umræðum um Vatnajökulsþjóðgarð. Samþykkt var bókun þar sem mótmælt er harðlega þeirri ákvörðun yfirstjórnar þjóðgarðsins að skrifstofustarf, sem auglýst var laust hjá þjóðgarðinum fyrir skemmstu, skyldi vera staðsett í miðborg Reykjvavíkur. Sú ákvörðun og auglýsingin koma auðvitað í kjölfarið á því að ákveðið var að framkvæmdastjóri þjóðgarðsins yrði staðsettur í Reykjavík. Auglýsing skrifstofustarfsins sýnir í hnotskurn hversu slæmt það var að ákveða ekki að framkvæmdastjórinn og þar með höfuðstöðvar þjóðgarðsins yrðu á áhrifasvæði þjóðgarðsins. Bæjarstjórn Hornafjarðar hefur lengi talað fyrir því að höfuðstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs ættu heima í sveitarfélaginu. Þær myndu falla vel að starfsemi í sveitarfélaginu og auka fjölbreytnina í atvinnulífinu. Mikilvægt er að nú einhendi yfirstjórn þjóðgarðsins sér í það verkefni að endurskoða fyrri ákvörðun sína um staðsetningu framkvæmdastjóra. Hægt er að lesa bókun bæjarráðs í heild sinni hér.  

Erfitt er að henda reiður á gagnrýni minnihlutans þegar kemur að heilbrigðis - og öldrunarmálum. Lítið er um efnislegar athugasemdir og menn í grunninn sammála um það að halda áfram með þjónustusamninginn. Einu athugasemdirnar, sem fram koma, eru byggðar á huglægu mati um að ekkert hafi verið gert af hálfu sveitarfélagsins til þess að tryggja nýjan samning. Það er beinlínis skondið í ljósi þess að fá mál hafa fengið ítarlegri og betri umfjöllun í bæjarstjórn. Einnig er mér til efs að fleiri fundir, fleiri skeyti, fleiri tölvupóstar eða fleiri símtöl hafi átt sér stað út af nokkru öðru máli á borði bæjarstjórnar. Flöskuhálsinn í þessu máli er ekki hjá bæjarstjórn Hornafjarðar. Hann hefur orðið til annars staðar, nánar tiltekið í stjórnarráðinu. Við höfum, allt frá því að samningaviðræður hófust, aðallega átt í viðræðum við heilbrigðisráðuneytið og fjármálaráðuneytið. Á síðustu vikum hefur síðan félagsmálaráðuneytið bæst við listann í kjölfar breytinga á verkaskiptingu innan stjórnarráðsins.

Ég hef sagt, bæði í gamni og alvöru, að áður en samningar náist verðum við búin að ræða við stjórnarráðið eins og það leggur sig. En þetta er ekkert gamanmál og úr þessum hnút í stjórnarráðinu verður að leysa sem allra fyrst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband