Leita í fréttum mbl.is

Sjávarútvegur, atvinnumál og ESB

Ég flutti hátíðarræðu á 17. júni. Í henni fjallaði ég sérstkalega um stöðu sjávarútvegsmála, breytingar á atvinnuháttum landsmanna og um hugsanlega inngöngu okkar í Evrópusambandið og upptöku Evru í kjölfarið. Læt ræðuna fylgja hér með:

Góðir gestir - gleðilegan þjóðhátíðardag!

Á þessum degi tíðkast það gjarnan að líta um öxl. Líta yfir farinn veg og vega og meta það sem á daga okkar hefur drifið frá því að lýðveldið var stofnað á Þingvöllum 17. júní 1944 þegar Sveinn Björnsson var kjörinn fyrsti forseti Íslands. Íslenska lýðveldið er ungt að árum og hefur varla slitið barnsskónum ennþá. Samt sem áður hafa Íslendingar upplifað meiri þjóðfélagsbreytingar á þessum rúmu 60 árum en sögur fara af. Ef við skoðum svo líka tímann frá því Íslendingar fengu fullveldið viðurkennt árið 1918 þá eru breytingarnar slíkar að byltingu mætti kalla. Á þeim tíma hefur Ísland breyst úr því að vera eitt fátækasta ríki veraldar í eitt þeirra ríkustu.

Í gegnum þrotlausa vinnu eldri kynslóða hefur okkur tekist að að skapa það velsældarsamfélag sem við búum við í dag og fyrir vikið tekist að ávinna okkur virðingu annarra þjóða. 

Algjörar grundvallarbreytingar á atvinnuháttum þjóðarinnar hafa orðið á þessu tímabili. Þegar fullveldið náðist 1918 var landbúnaður stærsti atvinnuvegurinn en það breyttist með ógnarhraða. Undirstöðuatvinnuvegirnir færðust að sjávarsíðunni og þá auðlegð og velsæld sem við lifum við í dag má að mestu rekja til sjávarútvegs og fiskvinnslu sem hafa fram til þessa verið undirstöðuatvinnugrein þéttbýliskjarnanna á landsbyggðinni. Sjávarútvegurinn og fiskvinnslan og þær gjalderistekjur sem þar hafa skapast hafa verið undirstaðan fyrir það velferðarsamfélag sem við búum við í dag.

En í dag eru enn á ný eru að verða breytingar í atvinnuháttum landans.

Við getum tekið sem dæmi að árið 1989 lagði Hafrannsóknarstofnun til að þorskvótinn yrði 300.000 tonn. Fyrir næsta fiskveiðiár leggur Hafrannsóknarstofnun til að þorskvótinn verði minnkaður um 6.000 tonn og verði 124.000 tonn. Sjávarútvegsráðherra hefur áður sagt að þorkskvóti næsta fiskveiðiárs fari ekki niður fyrir 130.000 tonn - en það er sá kvóti sem ákveðinn var fyrir yfirstandandi fiskveiðiár - og þá var farið eftir tillögum Hafrannsóknarstofnunar. Sú niðurstaða varð mörgum gríðalegt áfall enda um gríðarlegan aflaniðurskurð að ræða með tilheyrandi tekjumissi útgerða, sjómanna, fiskvinnslufólks og samfélaganna vítt og breitt um landið sem byggja afkomu sína á stórum hluta á sjávarútvegi.

Til þess að setja þessa hluti í samhengi er rétt að geta þess að ef farið yrði að tillögum Hafrannsóknarstofnunar fyrir næsta fiskveiðiðár myndi það þýða 15 milljarða króna lækkun í útflutningsverðmætum. Við núverandi efnahagsástand yrði slík ákvörðun enn til að auka á þann vanda sem við stöndum frammi fyrir í dag.

Í ljósi þeirrar stöðu sem íslenskur sjávarútvegur stendur frammi fyrir og þeirra markmiða sem lagt var upp með í aflamarkskerfinu, sem sett var á laggirnar á 9. áratug síðustu aldar, er mikilvægt að við spyrjum spurninga sem lúta að því hvort þessi markmið um verndun og vöxt nytjastofnanna hafi náðst. Þess vegna get ég tekið heils hugar undir með sjávarútvegsráðherra þegar hann - í svari sínu til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna - boðar heildarendurskoðun á fiskveðistjórnunarkerfinu.

Samfara slíkri endurskoðun er einnig mikilvægt að endurskoðun á aðferðafræði Hafrannsóknarstofnunarinnar fari fram. Tillögur stofnunarinnar eru nefnilega því marki brenndar að þær rannsóknaraðferðir sem þær byggja á eru mjög umdeildar. Margir skipstjórnarmenn og aðrir sjómenn eru í grundvallaratriðum ósammála aðferðafræði Hafró og það er auðvitað alvarlegt mál sem nauðsynlegt er að bregaðst við.

En eins og ég gat um áðan þá eru í dag að aftur að verða grundvallarbreytingar á atvinnuháttum landsins. Fram kemur í spá fjármálaráðuneytisins að fyrir árið 2008 er í fyrsta sinn gert ráð fyrir því að fiskur verði ekki í fyrsta sæti sem hlutfall af vöruútflutningi landsmanna. Skv. spá fjármálaráðuneytisins mun útflutningur áls taka fyrsta sætið af fiskinum á þessu ári. Áætlað er að tekjurnar af útflutningi áls verði 165 milljarðar en tekjur vegna sjávarútvegsins verði 130 milljarðar. Hér er því um grundvallarbreytingu að ræða og ljóst er að útflutningur áls og tekjur sem af honum skapast vega upp á móti þeirri rýrnun útflutningsverðmæta sem kvótaskerðing undanfarinna ára hefur haft í för með sér.

Ekki er heldur hægt að líta fram hjá því að eftir því sem hagræðing innan sjávarútvegsins og fiskvinnslunnar eykst og kvótinn flyst á sífellt færri hendur þeim mun erfiðara er að sjá fyrir sér - til framtíðar litið - mikla fjölgun starfa innan greinarinnar. Af þessum sökum hefur sennilega sjaldan verið mikilvægara en akkúrat núna að huga að áframhaldandi atvinnuuppbyggingu í landinu.

Viljum við halda áfram að auka hlutdeild álframleiðslunnnar eða viljum fara aðrar leiðir? Er skynsamlegt að halda áfram uppbyggingu álverksmiðja vítt og breitt um landið? Eru það störf sem börnin okkar koma til með að sækja í eða koma þau til með að leita í eitthvað annað? Eða er kannski ekki skynsamlegt að nálgast málið með þeim hætti að uppbygging einnar atvinnugreinar þurfi alltaf að vera á kostnað annarra.

Það er líka ljóst að þegar við upplifum efnahagserfiðleika eins og þá sem farið hafa um heimsbyggðina undanfarna mánuði þá breytist verðmætamat fólks hratt og það sem einu sinni leit út fyrir að vera mjög slæm hugmynd er ekki svo slæm í dag.

En efnahagserfiðleikarnir hafa líka leitt hugann að öðru og það er staða Íslands í samfélagi þjóðanna og ekki síst að stöðu íslensku krónunnar í ólgusjó alþjóðlegs fjármálaumhverfis. Hér er auðvitað fyrst og fremst verið að vísa í umræðuna um samninginn um evrópska efnahagssvæðið og hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Margir halda því fram að ekki eigi að ræða hugsanlega aðild út frá tímabundnum erfiðleikum í efnahagsmálunum á meðan aðrir segja það nauðsynlegt vegna þess að þeir erfiðleikar - sem nú ganga yfir - koma sérstaklega illa við okkur vegna stöðu okkar sem flestir rekja til smæðar gjaldmiðilsins. Af þeim sökum sé óhjákvæmilegt að ræða inngöngu í Evrópusambandið og upptöku Evru í tengslum við þessa tímabundnu erfiðleika.

Um þessi mál eru eins og gefur að skilja mjög skiptar skoðanir. Einhverjir eru alfarið á móti því að rætt sé við Evrópusambandið um aðild Íslands á meðan aðrir eru harðir talsmenn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið hvað sem það kostar. Flestir hygg ég þó að séu þar einhvers staðar mitt á milli - efasemdarfólk - þá meina bæði fólk sem hefur efasemdir um að núverandi ástand geti gengið til lengdar og líka fólk sem hefur efasemdir um að innganga í Evrópusambandið og upptaka Evru leysi öll okkar mál. Þetta sama fólk er þó tilbúið að skoða allar leiðir til þess að bæta ástandið.

Margir hörðustu andstæðingar aðildar að Evrópusambandinu halda því gjarnan á lofti að um fullveldisafsal væri að ræða ef Ísland gengi inn í Evrópusambandið. Það ber auðvitað að skoða en í slíkum vangaveltum er grundvallatriðið alltaf það hvort fullveldi okkar sé betur borgið utan Evrópusambandsins og þá með íslensku krónuna sem okkar gjaldmiðil eða sem frjáls þjóð í samstarfi þjóða sem við eigum margt sameiginlegt með. Í umræðunni um fullveldisafsal er þetta grundvallaratriðið sem þarfnast frekari umræðu og skoðunar.

Þó held ég að ljóst sé að þessi ákvörðun muni á endanum snúast blákalt hagsmunamat - krónur og aura. Matið mun á endanum snúast um það hvort efnahagslegur ávinningur verður af því fyrir Ísland að ganga inn í Evrópusambandið - á þeim grunni verður þessi ákvörðun tekin eins og svo margar aðrar.

En í allri þeirri orrahríð sem framundan er um þessi mál er vert að minnast þess að við erum frjáls og fullvalda þjóð sem hefur leyfi til þess að takast á um grundvallarsjónarmið og að á endanum er það okkar að taka ákvarðanir um hluti sem varða framtíð okkar. Það getum við gert vegna þeirra baráttu sem háð var fyrir sjálfstæði landsins og þeirri staðreynd fögnum við á 17. júní ár hvert.

Góðir þjóðhátíðagestir!

Ég óska öllum Hornfirðingum gleðilegs þjóðhátíðardags.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband