Leita í fréttum mbl.is

Samstarf á kjördæmisvísu

Á bæjarstjórnarfundi í dag flutti ég eftirfarandi langhund um samstarf sveitarfélaga:

Um nokkurt skeið verið umræða um það innan bæjarstjórnar hvort hagsmunum sveitarfélagsins sé betur borgið innan sambands sveitarfélaga á Suðurlandi en í Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi. Ég hef lýst minni skoðun á því héðan úr þessum ræðustóli. Þá sagði ég að það væri enginn vafi á því í mínum huga að til framtíðar litið þá væri pólitískum hagsmunum sveitarfélagsins betur borgið í landshlutasamtökum sveitarfélaga sem starfa á vettvangi þess kjördæmis sem við erum hluti af.

Eins og staðan er í dag þá erum við hluti af Suðurkjördæmi, sem var ákveðið með hliðsjón af því, að afgerandi meirihluti íbúa sveitarfélagsins taldi hag þess betur borgið í Suðurkjördæmi en í Norðausturkjördæmi. Ég tel einfaldlega að nú sé komið að þeim tímapunkti að sveitarstjórn fylgi íbúunum og stígi skrefið yfir í Suðurkjördæmi.

Til lengri tíma litið held ég að það gangi ekki upp fyrir okkur að vera tvískipt eins og við erum í dag. Þ.e. að vinna á kjördæmavísu innan suðurkjördæmis en á vettvangi sveitarstjórnarmálanna þá vinnum við með Austurlandi sem er að öllu leyti hluti af Norðausturkjördæmi. Nú vil ég ekki fyrir nokkurn mun gera lítið úr Sambandi Sveitarfélaga á Austurlandi sem við höfum átt mjög gott samstarf við undanfarin ár og áratugi. Samstarfið hefur verið gott og Hornfirðingar hafa verið frumkvöðlar innan SSA og nægir þar að nefna menningarmálin.

Og ég vil heldur ekki gera lítið úr áhyggjum manna sem hafa átt gott samstarf austur í hinum ýmsu verkefnum á öðrum sviðum. Við eigum þó alltaf eftir að tilheyra Austurlandi að hluta. En við eigum líka alltaf eftir að tilheyra Suðurlandi að hluta. Enda tölum við gjarnan um Suðausturland. Nægir þar að nefna Heilbrigðisstofnun Suðausturlands.

Að við tilheyrum áfram Austurlandi kemur ekki til með að breytast. Fyrir því eru landfræðilegar ástæður. Og þó sveitarfélagið telji það þjóna hagsmunum þess betur að starfa innan kjördæmisins, þá á það að mínu mati ekki að hafa áhrif á annað starf sem Hornfirðingar eru hluti af á jafningjagrunni á Austurlandi. Það eru þá verkefni sem sveitarfélagið sem slíkt á enga sérstaka aðkomu að. Ég sé ekki að þessi ákvörðun eigi að hafa áhrif á slík verkefni. T.d. held ég að Starfsgreinafélagið Afl, það öfluga verkalýðsfélag, sem starfar á Austurlandi komi til með að leggja upp laupana eða að Hornfirðingar hætti afskiptum af því. Ég sé það ekki fyrir mér.

Hér er fyrst og fremst verið að ræða um hinn pólitíska veruleika eins og hann blasir við okkur í dag. Og hann er sá að Sveitarfélagið Hornafjörður tilheyrir ekki lengur Austurlandskjördæmi í pólitísku tilliti heldur Suðurkjördæmi og það er okkar verkefni að leysa úr því.

Þegar ég leit yfir skipulag þessara mála á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga þá fæ ég ekki betur séð en að Sveitarfélagið Hornafjörður sé eina sveitarfélagið á landinu sem ekki starfar í landshlutasamtökum sveitarfélaga innan síns kjördæmis. Þetta getur að mínu mati ekki gengið til lengdar. Kjördæmaskipanin er komin til að vera og ég hef ekki heyrt neinn tala fyrir því að við ættum að skilja við Suðurkjördæmi og ganga inn í Norðausturkjördæmi. Þess vegna er þetta raunveruleiki sem við eigum að horfast í augu við og stíga skrefið til fulls og gera okkur meira gildandi innan okkar kjördæmis. Ef við höldum áfram á þessari braut þá hræðist ég að við verðum á endanum hornreka á báðum stöðum, þ.e. á Austurlandi þar sem við störfum ekki með þeim innan kjördæmisins og á Suðurlandi þar sem við störfum ekki með þeim á vettvangi sveitarstjórnarmálanna.

Það er okkur nauðsynlegt að tengjast sveitarstjórnum í kjördæminu og það er okkur ekki síður mikilvægt að tengjast okkar ágætu þingmönnum í Suðurkjördæmi sterkari böndum. Kjördæmin stækkuðu mjög mikið með síðustu kjördæmabreytingu og menn hafa því alls ekki jafn góð tækifæri til þess að koma sínum málum á framfæri eins og var fyrir kjördæmabreytinguna. Af þeim sökum þurfum við að nýta hvert tækifæri til þess að gera rödd okkar gildandi innan kjördæmisins og í mínum huga liggur það beint við að það getum við gert með því að hefja samstarf við sveitarfélög á Suðurlandi sem deila nú með okkur kjördæmi.

Það má heldur ekki gleyma því að landshlutasamtök sveitarfélaga eins og þau eru í dag voru í öllum meginatriðum miðuð við gömlu kjördæmaskipanina. Af einhverjum ástæðum ákváðu sveitarstjórnarmenn þess tíma að skipa málum með þeim hætti. Austurland var eitt kjördæmi og sveitarfélögin þar höfðu með sér samstarf. E.t.v. má hugsa sér að í framtíðinni komum við til með að feta okkur inn á þessar brautir aftur, þ.e. að landshlutasamtökin nái yfir hvert kjördæmi. Þá yrði til samband sveitarfélaga í Suðurkjördæmi. Nú má vel vera að þetta sé ekki gerlegt eða fýsilegt en ég held að eftir því sem sveitarfélögunum fækkar og þau styrkjast þá sé þetta eitthvað sem ætti að a.m.k. að taka til alvarlegrar skoðunar.

En mín sýn í þessum málum er skýr. Ég tel að pólitískum hagsmunum okkar til lengri tíma litið í samstarfi sveitarfélaga sé best borgið innan þess kjördæmis sem við erum hluti af í dag. Ég held að það geti ekki verið okkur til framdráttar að vera eina sveitarfélagið í Íslandi sem skipar málum með þeim hætti sem við gerum í dag. Það er komið að þeim tímapunkti að við stígum það skref sem íbúarnir tóku fyrir átta árum þegar þeir kváðu upp úr með það að hag okkar væri betur borgið innan Suðurkjördæmis en Norðausturkjördæmis með afgerandi hætti.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband