5.5.2008 | 12:04
Guðni gægist til Evrópu
Hann var merkilegur miðstjórnafundurinn hjá Framsóknarflokknum um helgina. Þar opnaði formaðurinn, Guðni Ágústsson svo sannarlega Evrópudyrnar hjá flokknum upp á gátt. Hann vill að þjóðin kjósi um það hvort aðildarviðræður eigi að hefjast. Þetta er ekki óskynsamleg nálgun og gæti verið leið til sátta.
En það er greinilegt að Guðni hefur ekki verið búinn að átta sig á kraftinum í Evrópuumræðunni innan sinna eigin raða. Varaformaðurinn, Valgerður Sverrisdóttir, hefur hingað til talað með allt öðrum hætti um Evrópusambandið en Guðni en hún telur að aðildarviðræður eigi að hefjast sem allra fyrst. Þar hefur hún gengið í takt við Jón Sigurðsson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins.
Ég fylgdist líka vel með umræðum Jóns Baldvins og Ragnars Arnalds í Silfrinu í gær. Mér fannst á Ragnari að það borgaði sig ekki að hefja aðildaviðræður vegna þess að við fengjum hvort eð er ekkert út úr viðræðunum. Hann hengdi sig líka á sjávarútvegsmálin. Ég tel að hann geri það til þess skapa óróa og ótta á meðal almennings í garð Evrópusambandsins. Það kæmi mér ekki á óvart að einhverjir hafi einmitt notað þessi rök til þess að berjast gegn EES samningnum á sínum tíma. En úr þessu fáum við aldrei skorið nema að leggja út í viðræðurnar. Þeir sem fylgja Heimssýnarmönnum að málum eins og Ragnar Arnalds virðast ekki hafa kjark eða kraft til þess að leggja út í slíkar viðræður. Þeir gefa sér fyrirfram að ESB sé vont fyrirbæri og vilji ekki semja um nokkurn skapaðan hlut við Íslendinga.
Hvað fullveldisrökin varðar þá fannst mér Jón Baldvin skjóta þau rök Ragnars á kaf með því að vísa til hinna nýfrjálsu Eystrasaltsþjóða. Þær vilja einmitt komast í ESB til þess að tryggja sitt sjálfstæði og fullveldi í bandalagi með öðrum þjóðum. Við göngum til viðræðna og göngum í ESB sem frjáls og fullvalda þjóð. Í Alþingiskosningum getur kjósendur alltaf kosið til valda flokka, sem vilja segja sig úr ESB, ef hann telur hag okkar betur borgið utan sambandsins. Ákvæði um úrsögn úr Evrópusambandinu tryggir að þetta sé mögulegt. Þannig að rökin um afsal fullveldisins halda engu vatni.
Þá eru ónefnd gjaldmiðilsmálin og peningamálastefnan sem komin að fótum fram. Sú staða nú er uppi og hefur verið fyrirsjáanleg um nokkurn tíma kallar einfaldlega á það að við skoðum þessi mál. Ég hef verið sammála því sem margir hafa haldið fram t.a.m. forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar að valið í þessum málum standi á milli þess að halda í krónuna eða taka upp Evru. En flestir hafa líka verið þeirrar skoðunar að upptaka Evrunnar verður ekki framkvæmd nema með inngöngu í ESB. Í mínum huga er ekki nokkur spurning að hagsmunum Íslands til framtíðar sé betur borgið með seinni kostinum.
En mikilvægast á þessum tímapunkti er að pólitísk samstaða myndist um að hefja aðildaviðræður og sjá hvert þær leiða okkur. Nýjasta útspil Guðna á flokksstjórnarfundinum sýnir okkur að slíkt er mögulegt. Þegar niðurstöður þeirra viðræðna liggja fyrir geta menn síðan haft á því allar skoðanir hvort við eigum samleið með ESB eða ekki og auðvitað verður inngangan í Evrópusambandið alltaf lögð fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.