Leita í fréttum mbl.is

Til hamingju með daginn

Í dag er baráttudagur verkalýðsins. Ég óska verkafólki og launþegum til hamingju með daginn. Yfirskrift dagsins hjá ASÍ Verjum kjörin á vel við. Nýgerðir kjarasamningar ASÍ og Samtaka atvinnulífsins eru í uppnámi og næsta víst að forsendur þeirra eru brostnar miðað við nýjustu verðbólgumælingar. Samningunum var ætlað að bæta kjör þeirra verst settu. Að öðru leyti miðuðust samningarnar við að verja kaupmáttinn og þá skiptir stöðugt efnahagsástand öllu máli. Í leiðara Fréttablaðsins í dag eru samningarnir kallaðir verðbólguvarnarsamningar.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kallar eftir samstöðu til sigurs á verðbólgu í Fréttablaðinu í dag. Í greininni áréttar hún það grundvallarsjónarmið jafnaðarmanna að markaðurinn og markaðsöflin séu þarfur þjónn fyrir samfélagið en vondur herra. Hinn frjálsi markaður er hluti samfélagsins en ekki fyrir utan það og yfir það hafinn. Eins og jafnaðarmenn hafa alltaf sagt þá er það vont að gefa markaðsöflunum lausan tauminn og markaðurinn verður að lúta reglum. Ástæðan er ekki síst sú að ef menn gerast kærulausir og markaðurinn verður of áhættusækinn þá er það á endanum alltaf sauðsvartur almúginn sem borgar brúsann. Þess vegna er mikilvægt að koma böndum á markaðinn og markaðsöflin.

Nú er sú staða uppi að almenningur á Íslandi býr við alltof mikla verðbólgu, alltof háa stýrivexti og flöktandi örmynt sem erfitt á uppdráttar í ólgusjóð alþjóðlegra viðskipta. Verðlag nauðsynjavöru hækkar og afborganir lánanna á meðan eignir almennings lækka í verði og hefur Seðlabankinn gengið svo langt að spá því að fasteignaverð eigi eftir að lækka um 30%.

Ingibjörg áréttar einnig þá afstöðu Samfylkingarinnar að Íslandi eigi að stefna að aðild að ESB og upptöku Evru í framtíðinni. Ekki er pólitískur vilji á Alþingi til þess að fara þessa leið Samfylkingarinnar á þessari stundu en allur almenningur og atvinnulífið á Íslandi stefnir hraðbyri þessa leið skv. þeim skoðanakönnunum sem fram hafa farið um málið.

Hvað sem líður þessum framtíðaráformum þá er ljóst að krónan verður gjaldmiðillinn okkar til næstu ára og hvað sem aðild að EBB líður þá er ljóst að við verðum að ná tökum á efnahagsástandinu. Það getur ekki skipt neinu máli hvað mönnum finnst um ESB og Evruna þegar kemur að því að uppfylla þau skilyrði sem verður að uppfylla til þess að geta gengið í myntbandalagið. Þau skilyrði er gott og skynsamlegt að uppfylla hvort sem menn ætla sér inngöngu eða ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband