Leita í fréttum mbl.is

Fundaherferð bæjarráðs

Í næstu viku hefur bæjarráð Hornafjarðar, ásamt bæjarstjóra, ákveðið að ráðast í útrás. Ferðinni er heitið til höfuðborgarinnar. Meiningin er vera þar í þrjá daga og funda með ráðherrum, þingmönnum og stofnunum sem við eigum erindi við.

Ýmislegt verður eflaust rætt í ferðinni en vafalaust verður þungamiðjan í fundaherferðinni alvarlegt ástand í atvinnumálum í kjölfar niðurskurða aflaheimilda í þorski og nú síðast eftir að sjávarútvegsráðherra ákvað að stöðva loðnuveiðar. Það var gríðarlegt áfall fyrir samfélagið þó maður voni að sjálfsögðu að loðnan komi til með að finnast.

Auðvitað kallar ákvörðun sjávarútvegsráðherra á endurskoðun mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar sem ákveðnar voru í sumar. Þar er ástæða til spýta frekar í lófana en hitt.

Einnig munum við leggja mikla áherslu á það við ráðherra og þingmenn Suðurkjördæmis að slást í lið með okkur í því að hnekkja tillögum Vegagerðarinnar að fara svokallaða leið 1 um Hornafjörð. Við munum greina þeim frá mikilvægi þess að stytta vegalengdir innan sveitarfélagsins sem mest og þess vegna m.a. sé bæjarstjórn ósammála Vegagerðinni og leggur mikla áherslu á að leið 3 verði farin. Í samgöngumálum verður líka minnst á mikilvægi þess að hraða rannsóknum og undirbúningsvinnu á göngum undir Lónsheiði. Hvalnes - og Þvottárskriður eru án efa einn versti og hættulegasti hluti þjóðvegar 1.

Beðið eftir fjármálaráðherra

Eitt er það mál sem hefur verið mikið til umræðu á yfirstandandi kjörtímabili, sem við munum ræða sérstaklega við fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesen, en það eru heilbrigðis - og öldrunarmál. Í sumar ákvað Tryggingastofnun Ríkisins að skerða greiðslur til Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands sem byggðar voru á munnlegu samkomulagi Geirs H. Haarde, núverandi forsætisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra og bæjarstjórnar á síðasta kjörtímabili. Ástæða munnlega samkomulagsins var sú að þjónustusamningur sá er heilbrigðis -og tryggingamálaráðuneytið og Sveitarfélagið Hornafjörður skrifuðu undir á sínum tíma reyndist ekki nógu traustur.

Ákvörðun Tryggingastofnunar veldur því að heilbrigðisstofnunin var rekin með rúmlega 30 milljón króna halla á síðasta ári. Meirihlutinn í bæjarstjórn hefur sagt að ekki komi til greina að semja um nýjan þjónustusamning fyrr en síðasta ár hefur verið gert upp við okkur á grunni hins munnlega samkomulags. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og 1. þingmaður Suðurkjördæmis hefur verið að vinna í þessu máli síðan á haustmánuðum. Það er mín einlæga von að hann verði með skýr svör fyrir okkur fundi okkar með honum á miðvikudaginn. Ég tel það orðið tímabært.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband