Leita í fréttum mbl.is

Umhverfisráðherra í heimsókn

Á morgun, miðvikudaginn 13. febrúar, kemur Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra í heimsókn til Hornafjarðar ásamt aðstoðarkonu sinni, Önnu Kristínu Ólafsdóttur sem jafnframt er formaður yfirstjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs. Hér er sannarlega um þarfa og tímabæra heimsókn að ræða.

Enda hafa málefni Vatnajökulsþjóðgarðs verið töluvert til umræðu undanfarna daga, vikur og mánuði. Bæjarstjórn Hornafjarðar hefur, frá því að hugmyndin um stofnun þessa stóra þjóðgarðs, kom fyrst fram litið á stofnun hans sem einn helsta aflvakann í atvinnu - og byggðaþróun svæðisins. Á undanförnum árum og áratugum hefur ferðaþjónustunni á svæðin vaxið fiskur um hrygg og við sjáum fram á að þjóðgarðurinn kemur til með að hleypa enn styrkari stoðum undir greinina.

Þess vegna urðu það okkur mikil vonbrigði að ekki skyldi hafa náðst sátt um það innan yfirstjórnarinnar að starfsstöð framkvæmdastjóra þjóðgarðsins yrði staðsett í sveitarfélaginu. Allar aðstæður fyrir framkvæmdastjórann eru til staðar á Hornafirði og starfsemi yfirstjórnar þjóðgarðsins yrði gríðarlega öflug viðbót við það frumkvöðla - og nýsköpunarstarf sem unnið er í Nýheimum ekki síst á sviði rannsókna og atvinnuþróunar í tengslum við ferðaþjónustu, útivist og þjóðgarða. Starfsstöð framkvæmdastjóran myndi falla eins og flís við rass að þessari starfssemi og það sem meira er, við jaðar Vatnajökuls sem þjóðgarðurinn dregur nafn sitt af. Tengsl framkvæmdastjórans við Vatnjökul og umhverfi hans verða hvergi betri en á Hornafirði. Það hljóta allir að sjá. 

Sveitarfélagið lætur ekki sitt eftir liggja í uppbyggingu þjóðgarðsins. Við höfum hug á því að láta hina glæsilegu jöklasýningu ganga inn í hinn nýstofnaða þjóðgarð. Þegar ný gestastofa þjóðgarðsins verður byggð upp í Stekkanesi er það okkar vilji að Jöklasýningin verði hluti þeirrar gestastofu. Þar væri sannarlega um að ræða veglegt framlag Austur - Skaftfellinga til þjóðgarðsins.

Opinn fundur með umhverfisráðherra og formanni yfirstjórnarinnar verður haldinn á Kaffi Horninu annað kvöld (mið. 13. feb.) kl. 20:00 á vegum Samfylkingarinnar á Hornafirði. Rétt er að hvetja alla þá sem hafa áhuga á málefnum Vatnajökulsþjóðgarðs, umhverfisins og stjórnmálanna almennt að fjölmenna á fundinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband