Leita í fréttum mbl.is

Um Vatnajökulsþjóðgarð

Eftirfarandi grein birtist á vefmiðlum Hornafjarðar í dag: 

Vatnajökulsþjóðgarður - höfuðstöðvar

Undanfarna daga og vikur hefur farið fram töluverð umræða í sveitarfélaginu um stofnun Vatnjökulsþjóðgarðs. Ekki síst hefur umræðan verið tengd væntingum okkar Hornfirðinga til stofnunar þjóðgarðsins. Þar höfum við gengið hart fram í því að reyna að sannfæra aðra um að höfuðstöðvar þjóðgarðsins eigi að vera hér í sveitarfélaginu. Því miður virðist það ætla að verða niðurstaða yfirstjórnar þjóðgarðsins að svo verði ekki þrátt fyrir okkar kröfur. Fyrir þessu var barist innan yfirstjórnarinnar en okkar sjónarmið hlutu ekki brautargengi.

Farin var sú leið að auglýsa starf framkvæmdastjóra yfirstjórnarinnar án staðsetningar, sem er reyndar í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar, þ.e. að auglýsa störf án staðsetningar. Yfirlýst markmið með auglýsingu slíkra starfa er að fjölga störfum á landsbyggðinni enda segir í stjórnarsáttmálanum: „Skilgreind verði þau störf á vegum ríkisins sem hægt er að vinna án tillits til staðsetningar og þannig stuðlað að fjölgun starfa á landsbyggðinni."

Verður að samræmast markmiðunum með störfum án staðsetningar

 

Hægt er að færa rök fyrir því að ef starfið, sem hér um ræðir, endar á höfuðborgarsvæðinu sé beinlínis verið að vinna gegn markmiðum ríkisstjórnarinnar. Við hljótum því að treysta því að starfið endi ekki á höfuðborgarsvæðinu. Gera verður þær kröfur til yfirstjórnarinnar að hún hagi vinnu sinni í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar.

Ekki má þó gleyma því að fleiri sveitarfélög eiga aðkomu að Vatnajökulsþjóðgarði en Sveitarfélagið Hornafjörður og eflaust hafa þau öll sínar væntingar til stofnunar þjóðgarðsins. Á hinn bóginn má öllum vera ljóst að ekkert sveitarfélag, í nálægð við væntanlegan þjóðgarð, hefur lagt jafn mikið af mörkum til þjóðgarðsins og Hornafjörður. Nægir í því tilliti að nefna Jöklasýninguna okkar og áherslu á atvinnuuppbyggingu í tengslum við þjóðgarðinn. Í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar kemur glöggt fram hversu mikla áherslu sveitarfélagið leggur á Vatnajökulsþjóðgarð en í aðgerðum ríkisstjórnarinnar er gert ráð ráðningu tveggja nýrra starfsmanna í frumkvöðla - og háskólasetrinu í Nýheimum með áherslu á styrkingu starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs.

Ekki þarf annað en að líta í kringum sig innan marka sveitarfélagsins til þess að átta sig á því að starfsstöð yfirstjórnarinnar á heima hér í sveitarfélaginu. Vatnajökull er alltumlykjandi og hefur mótað líf og lífsskilyrði íbúa Austur - Skaftafellssýslu frá upphafi vega. Af þeim sökum yrði að mínu viti um alvarlegt stílbrot að ræða ef framkvæmdastjóri þjóðgarðsins yrði staðsettur einhvers staðar annars staðar en á Hornafirði. Tengsl framkvæmdastjórans við þjóðgarðinn verða hvergi betri en hér.

Ráðherra og formaður í heimsókn

Umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Anna Kristín Ólafsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, sem jafnfram er formaður yfirstjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs, eru væntanlegar í heimsókn til Hornafjarðar næsta miðvikudag. Í heimsókn þeirra munu þær funda með bæjarstjórn og kynna sér starfsemi helstu stofnana svæðisins. Þær munu t.d. kynna sér metnaðarfull verkefni Háskólasetursins í tengslum við Vatnajökulsþjóðgarð. Um kvöldið verður síðan haldin opinn fundur á Kaffi Horninu á vegum Samfylkingarinnar á Hornafirði kl. 20:00. Vill Samfylkingin á Hornafirði hvetja allt áhugafólk um umhverfismál, Vatnajökulsþjóðgarð og stjórnmálin almennt til þess að mæta á fundinn.

Árni Rúnar Þorvaldsson

Forseti bæjarstjórnar Hornafjarðar og oddviti Samfylkingarinnar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband