Leita í fréttum mbl.is

Frummatsskýrsla Vegagerðarinnar

Síðustu dagar og vikur hafa að miklu leyti farið í það að kynna sér niðurstöður Vegagerðarinnar í frummatsskýrslu hennar í tengslum við nýjan veg yfir Hornafjarðarfljót. Þar kemur margt forvitnilegt í ljós og ýmsa spurningar vakna við lestur skýrslunnar. Vegagerðin ætlaði að halda opinn kynningarfun um málið í gær í Nýheimum en því miður þurfti að fresta honum þar sem ekki var hægt að fljúga vegna veðurs. Ákveðið hefur verið að halda fundinn að viku liðinni, fimmtudaginn 14. febrúar kl. 20:00.  

Á bæjarstjórnarfundi á miðvikudaginn var samþykkt efitrfarandi bókun um málið sem bæjarstjórn Hornafjarðar mun senda inn til Skipulagsstofnunar sem athugasemd við frummatsskýrslu Vegagerðarinnar:

Niðurstaða matsvinnu Vegagerðarinnar vegna nýs hringvegar um Hornafjörð er að mæla með svokallaðri leið 1.  Um þrjár meginleiðir er að ræða skv. tillögu Vegagerðarinnar en auk þeirra leggur Vegagerðin fram mismunandi útfærslu á þessum þremur leiðum, sbr. bls. 13 í frummatsskýrslu. Umhverfisáhrif, umferðaröryggi og greiðfærni ráða mestu um afstöðu Vegagerðarinnar. Bæjarstjórn Hornafjarðar er ósammála niðurstöðu Vegagerðarinnar í veigamiklum atriðum og leggur þar til grundvallar auknar vegstyttingar, umferðaröryggi og að draga sem mest úr áhrifum á hefðbundin landbúnaðarafnot. 

Skipta má fyrirhugaðri framkvæmd í þrennt. Í fyrsta lagi liggur fyrirhugð leið um sveitina Mýrar sem er vestan Hornafjarðarfljóta. Í öðru lagi um Skógey sem er á milli Hornafjarðarfljóta og Hoffellssár. Í þriðja lagi liggur leiðin um Nesjasveit sem er austan Hornafjarðarfljóta. 

Á Mýrum tekur Vegagerðin leið 1 umfram aðrar leiðir sem er með öllu óskiljanlegt vegna umferðaröryggis þar sem leið 1 liggur á sama stað og núverandi vegur við Holtabæi í gegnum þétta byggð og atvinnustarfsemi og sveigir þá til suðurs á milli Holts og Tjarnar.  Bæjarstjórn Hornafjarðar telur mikilvægt að nýtt vegstæði liggi eins og leið 3 gerir ráð fyrir, þ.e. að sveigja frá núverandi hringvegi um 2,5 km fyrir austan Hólm og þaðan liggur hún sunnan við Stóraból og þverar Hornafjarðarfljót við móts við Skógey.  Með þessu fækkar vegtengingum stórlega og eykur öryggi íbúa og vegfarenda.

Í matsvinnu Vegagerðarinnar segir á bls. 14 að hvaða leið sem sé valin um Skógey séu áhrifin sambærileg.  Undir þetta mat getur Bæjarstjórn Hornafjarðar tekið.

Í Nesjum liggur leið 1 rétt norðan við ósa Laxá og þverar hana rétt neðan við  Borgir og sveigir inn á núverandi hringveg við Árnanes.  Bæjarstjórn Hornafjarðar vill benda á að á þessum slóðum er afar þétt byggð og mikil landbúnaðarstarfsemi.  Á þessari leið liggur leiðin, skv. tillögu Vegagerðarinnar, yfir skeiðbraut hestamanna, yfir gróin tún í Borgum og yfir ræktunarlönd Akurness og Seljavalla.  Ennfremur mun þessi leið ekki auka umferðaröryggi fram yfir núverandi ástand því vegtengingar verða jafnmargar og áður.  Bæjarstjórn Hornafjarðar leggur áherslu á að vegurinn um Nesjasveit liggi sunnan við Árnanes eins og leið 3 gerir ráð fyrir.  Sú veglagning styttir vegalengdir mest innan héraðsins og eykur umferðaröryggi stórlega umfram tillögu Vegagerðarinnar. 

Stytting vegalengda innan Sveitafélagsins Hornafjarðar er grundvallaratriði að mati Bæjarstjórnar Hornafjarðar. Sú umtalsverða stytting sem verður samfara því að fara leið 3 samanborið við að fara leið 1 er það mikil að Bæjarstjórn Hornafjarðar telur að almannahagsmunir liggi við. 

Bæjarstjórn Hornafjarðar er sammála um að leið 2 hafi umtalsverða ókosti í för með sér. Í fyrsta lagi hefur leiðin umtalsverð áhrif á landslag á austasta hluta leiðarinnar, þ.e. eftir að hún tekur land við Dilksnes. Þar er gert ráð fyrir að hún liggi í gegnum stór klapparholt sem geta talist einkennandi fyrir landslag á þessum slóðum. Ennfremur liggur hún yfir nær samfelldar sjávarfitjar á milli Árnaness og Dilksness. Þá liggur hún mun nær Árnanesbæjunum en leið 3. Bæjarstjórn Hornafjarðar hafnar því að leið 2 verði farin.

Bæjarstjórn Hornafjarðar telur einnig einsýnt að leið 3 hafi minni áhrif á landslag en leið 2 auk þess að leið 3 sker jarðir landeigenda í sveitafélaginu minnst þeirra þriggja leiða sem í mati eru. Helsti munur á milli leiðanna felst í því að leið 3 liggur yfir Flóa í Skarðsfirði sem er á náttúruminjaskrá. Á hinn bóginn liggur leið 3 ekki í sama mæli yfir sjávarfitjar og leið 2. Einnig bendir flest til þess að leið 3 hafi ekki jafn mikil áhrif á landslag og leið 2.  

Til að milda umhverfisáhrif leiðar 3 leggur sveitarfélagið til að leiðin liggi ekki yfir Skarðsfjörð eins og núverandi tillaga gerir ráð fyrir heldur liggja austan Hafnarvegar í samræmi við gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins. Þessi leið mun ekki hafa umhverfisáhrif á Skarðsfjörð. 

Leiðir 2 og 3 hafa það báðar sammerkt að stór hluti Nesjasveitar liggur ekki lengur í alfaraleið. Bæjarstjórn Hornafjarðar telur það mikilvægt að merkingar og auglýsingar verði settar upp við gatnamót þjóðvegar og Hafnarvegar þar sem þjónusta í sveitafélaginu verði auglýst. 

Í frummatsskýrslu kemur fram á bls. 22 að kostnaður leiðar 1 sé samtals 2,324 milljarða kr. en leiðar 3 samtals 2,977 milljarða kr.  Sveitarfélagið hefur áður gert athugasemdir við fjárhagslegt mat þessara kosta og telur útreikninga Vegagerðarinnar ótrúverðuga.  Í útreikningum á kostnaði á leið 1 er ekki teknar inn í endurbætur á vegarkaflanum frá Hólmi að Holtum og einnig frá Árnanesi að Haga. Til að samanburður á milli valkosta Vegagerðarinnar sé sanngjarn þarf að taka endurbætur á þessum köflum með í dæmið.   Fjárhagslegur munur á milli þessara kosta er því hverfandi að mati bæjarstjórnar og getur því ekki legið til grundvallar þegar endanlegt vegstæði verði valið.

Það er því niðurstaða Bæjarstjórnar Hornafjarðar að leið 3 í tillögum Vegagerðarinnar sé besti kosturinn af þeim leiðum sem hún leggur til að verði metnar í framkvæmdamati. Ekki síst vegna bætts umferðaröryggis sem og verulegra styttingu á vegalengdum innan sveitafélagsins sem leið 3 hefur í för með sér. Niðurstaða Bæjarstjórnar Hornafjarðar er því að leið 3 verði fyrir valinu með þeirri breytingu að ekki verði farið út í Skarðsfjörð með veginn.

Rétt er að hvetja alla sem áhuga hafa á málinu að kynna sér niðurstöðu í Frummatsskýrslunni sem og forsendur niðurstöðunnar.Hægt er að gera það hér, hér og hér.  Eins og sjá má á bókuninni hér að ofan þá er bæjarstjórn algjörlega mótfallin niðurstöðu Vegagerðarinnar og ætti það ekki að koma nokkrum manni á óvart miðað við umræðuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband