Leita í fréttum mbl.is

Sundabraut - Sundagöng

Ég er búinn að fylgjast vel með umræðunni um Sundabraut eða Sundagöng eftir því hvaða leið mönnum finnst að eigi að fara. Það dylst engum sem fylgst hafa með því máli að einhugur er í borgarstjórn um að fara gangnaleiðina. Um eitthvað verður borgarstjórn að vera sammála. Það hefur heldur ekki farið fram hjá nokkrum manni að Vegagerðin leggur til að farin verði svokölluð Eyjaleið. Mismunurinn í verði á milli þessara tveggja kosta eru litlir 9 milljarðar. Þar er um umtalsverða peninga að ræða.

Ég get auðvitað vel skilið afstöðu borgarstjórnar í þessu máli. Borgarfulltrúarnir eru einfaldlega að berjast fyrir þeirri leið sem þeir trúa að muni koma Reykvíkingum best. Aðstæður mínar eru ekki þannig að ég treysti mér til að dæma um það hvor leiðin er betri en ég treysti því og trúi að borgarfulltrúarnir viti hvað þeir eru að tala um. En að sama skapi treysti ég líka Vegagerðinni til þess að vinna sína vinnu af fagmennsku og heilindum.

Mér fannst t.a.m. undarlegt að heyra það hjá einum borgarfulltrúa, Svandísi Svavarsdóttur, að hún teldi pólitískar ástæðurn vera fyrir því að Vegagerðin leggði fram tillögu um Eyjaleið. Fleiri kjörnir fulltrúar í Reykjavík. bæði í borgarstjórn og á Alþingi, hafa talað á svipuðum nótum og ég hef verið töluvert hugsi yfir málflutningnum oft á tíðum.

Nú er þetta örugglega ekki fyrsta sinn sem Vegagerðin leggur fram tillögur sem sveitarstjórnum vítt og breitt um landið hugnast ekki. Er Vegagerðin í þeim tilvikum einnig í pólitískum leik? Ég neita að trúa því. Ég held að Árni Johnsen hafi viðhaft svipaðan málflutning um útreikninga Vegagerðarinnar á jarðgöngum til Vestmannaeyja. Mig minnir að fáir hafi beinlínis tekið mark á honum.

Nú hefur Vegagerðin lagt fram frummatsskýrslu sína um nýjan hringveg um Hornafjörð. Niðurstaða Vegagerðarinnar í þeirri skýrslu gengur þvert gegn viljar bæjarstjórnarinnar. Bæjarstjórnin vill fara leið 3 sem liggur næst þéttbýlinu á Höfn og styttir vegalengdir innan sveitarfélagsins mest. Okkar mat er því að hún muni hafa jákvæðustu áhrifin á búsetuskilyrði í sveitarfélaginu og við teljum einnig að sú leið stuðli að mestu umferðaröryggi. Sú leið sem bæjarstjórninni hugnast best er skv. útreikningum Vegagerðarinnar um 600 milljónum króna dýrari en leið Vegagerðarinnar. Reyndar erum við ekki sammála útreikningum Vegagerðarinnar. Við teljum óskiljanlegt að Vegagerðin skuli í útreikningum sínum á þeirri leið, sem hún leggur til, ekki gera ráð fyrir endurbótum á ákveðnum köflum þjóðvegarins sem hefðu lent fyrir utan nýtt vegstæði ef leið bæjarstjórnar hefði orðið ofan á. Þangað til það verður gert er það skoðun okkar að verið sé að bera saman epli og appelsínur.

Ég lít í raun og veru svo á, að við séum í nákvæmlega sömu stöðu gagnvart Vegagerðinni og samgönguyfirvöldum í landinu og Reykjavík er í Sundabrautarmálinu en upphæðirnar og stærðirnar eru e.t.v. ekki þær sömu. Þannig kýs ég einnig að líta svo á, að ef menn ákveða að ganga gegn faglegu mati Vegagerðinnar í Reykjavík, þá ætti þessum sömu aðilum ekki að verða skotaskuld úr því að láta slíkt verklag dreifast til annarra landshluta.

Annars fannst mér Þorsteinn Pálsson lýsa því vel í þessum leiðara í hvers lags blindgötu skipulagsmál eins og þessi geta ratað.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórbergur Torfason

Sæll Árni. Þó seint sé ætla ég að svara þér aðeins.

Hvers vegna ertu undrandi á því að Svandís lýsi furðu á niðurstöðu vegagerðarinnar varðandi Sundabraut? Ég kýs að svara mér sjálfur þar sem við blasir að undrun þín er greinilega póliísk. Ástæða vegagerðarinnar blasir við öllum sem hafa eitthvað fylgst með málefnum tengdum vegagerð eftir ríkisstjórnarskiptin. Sama ástæða liggur að baki varðandi Hornafjarðarfljót. Þetta heitir á mannamáli, "keypt álit". Þegar ráðherrarnir Kristján og Björgvin mættu á borgarafundinn í haust, illa undirbúnir og ekki mjög klókir að koma sér hjá að svara spurningum, leyndist það engum sem þarna voru, hvað þeir áttu í miklum vandræðum með að segja ekki meira en þeir máttu. Ég spurðu Kristján hvaða tölur lægju að baki þessum verðmun á leiðum hjá vegagerðinni. Eins og þú væntanlega manst, gat hann eða vildi allavega engu svara, þannig að við hljótum að draga þá ályktun að gera eigi tilraun til að fara svipaða leið með rökstuðninginn fyrir vegstæðinu eins og rökstuðning Árna Mathiesen fyrir dómararáðningunni, þ.e. Ykkur kemur þetta nákvæmlega ekkert við.

Þeir hafa engu gleymt kratarnir þegar þeir komast í kjötkatlana.

Þórbergur Torfason, 30.1.2008 kl. 23:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband