Leita í fréttum mbl.is

Bæjarstjórn í dag

Hann var góður bæjarstjórnarfundurinn í dag. Gagnlegar umræður sköpuðust um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Mikill samhljómur var í málflutningi bæjarfulltrúa. Lögð var áhersla á það að Hornfirðingar hafa sýnt mikið frumkvæði í allri umræðu um væntanlegan þjóðgarð. Enginn vafi er á því í mínum huga að höfuðstöðvar þjóðgarðsins eiga heima hér í ríki Vatnajökuls. Um þetta mál er full eining í bæjarstjórninni og höfum við í raun talað fyrir þessu frá því að hugmyndir um stofnun þjóðgarðsins komust fyrst á kreik.

Einnig sköpuðust ágætar umræður um staðsetningu knattspyrnuhússins sem við hyggjumst byggja á næstunni. Ljóst er að skiptar skoðanir eru um staðsetninguna á meðal fólks. Það virðist líka vera á reiki um hvers konar hús er að ræða. Alveg frá því að ég veitti höfðinglegri gjöf Skinneyjar - Þinganess viðtöku fyrir tæpu ári hef ég staðið í þeirri trú að við værum að ráðast í byggingu knattspyrnuhúss og nýting hússins ætti að miðast við það. Enda stendur í bréfinu frá fyrirtækinu, að peningagjöf þeira sé ætlað að styðja við byggingu knattspyrnuhúss í líkingu við það hús sem Fimleikafélag Hafnarfjarðar reisti í Kaplakrika. Ekkert hefur komið fram í umræðunni sem ætti að breyta þessum forsendum að mínu mati.

Að sjálfsögðu er það skiljanlegt að fólk velti fyrir möguleikum til þess að nýta húsið. En það er ennþá mín skoðun að við séum að ráðast í byggingu knattspyrnuhúss. Ef fólk getur nýtt sér knattspyrnuhúsið í eitthvað annað þegar það er risið þá er það að mínu mati bara góður bónus fyrir húsið. Ég held að það verði að koma skýrt fram að við erum ekki að tala um fjölnota íþróttahús heldur er hér fyrst og fremst um að ræða það sem margir hafa kallað knattskjól. Þessu talaði ég fyrir á fundinum í dag. Einnig tók ég fram að afstaða mín hefði ekkert breyst frá því bæjarráð tók undir bókun nefndar um íþróttamannvirki um staðsetningu hússins.

Hins vegar er eðlilegt þegar fram kemur gagnrýni, eins og foreldraráð grunnskólans hefur komið á framfæri, að betri umræða fari fram um málið. Þess vegna hefur verið óskað eftir því við verkfræðistofuna ASK að útbúa fullkomnar myndir af húsinu með hinar ýmsu staðsetningar í huga þannig að bæjarbúar geti séð hvers konar hús er um að ræða.

Að lokum fór síðan fram ágæt umræða um heilbrigðis - og öldrunarmál í sveitarfélaginu. Minnihlutinn í bæjarstjórn er þeirrar skoðunar að það þurfi að setja á fót sérstakan starfshóp, skipaðan oddvitum þeirra framboða sem sæti eiga í bæjarstjórn, til þess að fjalla um þjónustusamninginn við heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytið um rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands. Á þetta hefur meirihlutinn ekki fallist enn sem komið er enda væri stofnun slíks starfshóps ótímabær á þessu stigi. Ráðuneytið á einfaldlega eftir að vinna það mikið i sínum málum áður hægt verður að segja fyrir víst um hvers konar samning er að ræða.

Þangað til hef ég haldið því fram að bæjarráð haldi utan um samningsgerðina með bæjarstjóra. Ég ber fullt traust til þeirra einstaklinga sem sitja í bæjarráði til þess að fjalla um þessi mál hvort sem þeir eru oddvitar sinna framboða eða ekki.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Árni fínn pistill hjá þér. Þó væri nú skemmtilegra að geta lesið fundargerðir Bæjarstjórnar og þær umræður sem þar fóru fram á öðrum stöðum s.s. á heimasíðu Hornafjarðar en á blogg síðunni hjá þér og bæjarstjóranum. Þegar þetta er skrifað þá bólar en ekkert á fundargerðinni og mér finnst það miður í því upplýsingasamfélagi sem við búum í dag, að fundargerðin skuli ekki en vera komin á vefinn sjö dögum eftir að fundruinn var haldinn.

Sigfús Már (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband